Stúdentaráðsfundur 22. ágúst 2022

Mánudaginn 22. ágúst fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:35
  4. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 (kynning og umræður) 17:35-18:15
  5. Kjör í stjórn í Stúdentasjóðs 18:15-18:20 (atkvæðagreiðsla)
  6. Hlé 18:20-18:30
  7. Niðurstöður stefnumótunarferðar – framkvæmdaáætlanir fastanefnda (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:30-19:20
  8. Vísindaferðir í Stúdentaráð (atkvæðagreiðsla) 19:20-19:25
  9. Önnur mál 19:25-19:30
  10. Bókfærð mál 
  11. Fundi slitið 

Októberfest SHÍ 2022

Kæru stúdentar!

Eftir tveggja ára bið er loksins komið að þessu: Októberfest SHÍ fer fram í 18. skipti, þann 1.-3. september á lóðinni fyrir framan Háskóla Íslands.

Forsala hefst þriðjudaginn 9. ágúst kl. 12:00 á tix.is og getið þið nælt ykkur í miða á sérstöku forsöluverði hér:  https://tix.is/is/event/13754/oktoberfest-shi/

Athugið að takmarkaður fjöldi miða er í boði í forsölu en eftir það mun miðinn á hátíðina kosta 9.990 kr fyrir háskólanema en 12.900 kr í almennri sölu. Einnig verður hægt að kaupa bjórkort gegn framvísun skilríkja.

Allir háskólanemar geta keypt sér miða á hátíðina. Aldurstakmark á hátíðina er 20 ár með þeirri undantekningu að þau sem eru ekki orðin tvítug en geta framvísað gildu háskólaskírteini geta keypt sér miða. Stúdentaráð Háskóla Íslands vekur athygli á því að hátíðargestir undir tvítugu geta ekki keypt áfengar veigar á hátíðarsvæðinu samkvæmt lögum.

Við hlökkum til að sjá ykkur á Októberfest! 

Ráðning samskiptafulltrúa Októberfest 2022

Skarphéðinn Finnbogason hefur verið ráðinn samskiptafulltrúi Októberfest SHÍ 2022, en hátíðin fer fram í Vatnsmýrinni dagana 1.-3. september.

Skarphéðinn er 21 árs laganemi við Háskóla Íslands ásamt því að stunda samhliða diplómanám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Hann starfar í dag hjá markaðsdeild Nova ásamt því að vera með umboð fyrir tónlistarmenn.

Hann hefur brennandi áhuga á bæði markaðsstörfum og viðburðastjórnun og hefur komið að skipulagningu og uppsetningu viðburða á borð við árshátíðir, útgáfupartý og tónleika. Þá hefur Skarphéðinn einnig reynslu af hugmyndavinnu og markaðssetningu á samfélagsmiðlum.  

Skarphéðinn hefur skýra sýn á hátíðina og sér ýmis tækifæri við skipulagningu Októberfest 2022. Hann er núverandi meðlimur í félagslífs- og menningarnefnd SHÍ og hefur því þekkingu á starfsemi ráðsins og mikilvægi félagslífsins í Háskólanum. Við óskum Skarphéðni til hamingju með starfið og hlökkum til samstarfsins!