Opið fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs skólaárið 2023-2024.                                

Umsóknareyðublað er að finna hér. Við viljum hvetja til þess að umsóknareyðublaðið sé eins vel útfyllt og kostur er en umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði verður vísað frá. Einnig hvetjum við til þess að umsækjendur kynni sér sérstaklega lög og verklagsreglur sjóðsins áður en sótt er um. 

Við vekjum athygli á því að greininingarstyrkir og framfærslustyrkir eru veittir í þessari úthlutun. 

Dæmi um aðra styrki sem veittir eru í þessari úthlutun eru félaga- og höfðatölustyrkir fyrir nemendafélög, ferðastyrkir, ráðstefnustyrkir og viðburðarstyrkir.

Tekið er við umsóknum til kl.16:00 miðvikudaginn 13. desember 2023. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Stúdentar fordæma stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), sem SHÍ er aðili að, gáfu frá sér yfirlýsingu í dag vegna stíðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu.

Í yfirlýsingunni, sem einnig má finna hér, segir:

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) fordæma framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu og lýsa yfir fullum stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir tilverurétti sínum sem frjáls þjóð. Tryggja verður tafarlausa mannúðaraðstoð og virðingu fyrir grundvallarmannréttindum.

Stúdentar eru þátttakendur í íslensku háskólasamfélagi og ber því skylda að bregðast við ákalli Birzeit háskóla: Fræðasamfélaginu ber að uppfylla akademískar skyldur sínar, byggja á staðreyndum, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum.

Háskólamenntun er mikilvægur vegvísir að opnara og réttlátara samfélagi. Stúdentar hvetja því háskólastofnanir landsins sem og fræðasamfélagið í heild sinni til að halda staðreyndum á lofti, viðurkenna sögulegar rætur árásanna og varpa ljósi á valdaójafnvægi þjóðanna. Þekkingu og orðræðu fylgir vald en líkt og kemur fram í yfirlýsingu frá starfsfólki Háskóla Íslands hefur vestrænt alþjóðasamfélag haldið uppi ríkjandi orðræðu sem afmennskuvæðir palestínsku þjóðina og skapar réttlætingu fyrir ítrekuðum fjöldamorðum á saklausum borgurum.

LÍS krefjast þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir ályktun Alþingis um tafarlaust vopnahlé með afdráttarlausum hætti á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir vopnahléi strax. Þjóðarmorð, stríðsglæpir og ólögleg yfirtaka landsvæða hafa átt sér stað í óforskammanlega langan tíma. Tími skýrrar afstöðu og athafna er löngu runninn upp.

LÍS krefjast þess sömuleiðis að Evrópusamtök stúdenta (ESU) fordæmi árásir ísraelskra stjórnvalda sem og Hamas samtakanna og dragi til baka birta yfirlýsingu sem byggir á hlutdrægni orðræðu í þágu Ísrael og víkur sér undan því að gera ísraelsk stjórnvöld ábyrg fyrir gjörðum sínum.

Íslenskir stúdentar standa með Palestínu í baráttunni fyrir friði og réttlæti.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stúdentaráðs

Á dögunum undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, nýjan samning milli Háskóla Íslands og Stúdentaráðs um þjónustu við nemendur Háskólans.

Stúdentaráð er mjög þakklátt fyrir samstarfið, tekið er vel á ábendingum ráðsins á hinum mörgum starfssviðum skólans og eiga forseti og rektor reglulega fundi til að tryggja gott upplýsingaflæði og koma áherslum stúdenta á framfæri.

Stúdentaráð mun áfram halda Háskóla Íslands á tánum, enda er það meginhlutverk ráðsins að vera þrýstiafl. Hvetjum við starfsfólk og stjórnendur til að rækta samstarfið við stúdenta enn frekar til að við getum í sameiningu gert góðan háskóla enn betri.

 

Stúdentaráðsfundur 14. nóvember 2023

Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerðir síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Eftirstandandi tilnefningar í sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:15
  4. Tilkynningar og mál á döfinni 17:15-17:30
  5. Umræður um ólögmæti skrásetningagjaldanna – Rakel Anna Boulter og Gísli Laufeyjarson Höskuldsson 17:30-17:45
  6. Tímalína stórra mála SHÍ – Rakel Anna Boulter 17:45-18:30
    Hlé 18:30-18:40
  7. Tilnefningar í kjörstjórn (atkvæðagreiðsla) 18:30-18:45
  8. Tillaga um úttekt á vinnubrögðum skrifstofu SHÍ (atkvæðagreiðsla) – Júlíus Viggó Ólafsson 18:45-19:00
  9. Tillaga um viðbót við framkvæmdaáætlun Umhverfis- og samgöngunefndar (atkvæðagreiðsla) – Berglind Bjarnadóttir 19:00-19:15
  10. Önnur mál 19:15-19:30
  11. Bókfærð mál
  12. Fundi slitið 19:30

Auglýst eftir ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og á sviði barna og ungmenna

Langar þig að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar eða á sviði barna og ungmenna? Lestu þá lengra!

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, annars vegar á sviði sjálfbærrar þróunar og hins vegar á sviði barna og ungmenna. Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Leiðtogaráð LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna á fundi ráðsins þann 24. nóvember nk.

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  1. Ert á aldrinum 18-25 ára
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
  7. Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til tveggja ára með virkri þátttöku í starfi LUF

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsækjandi verður ekki talinn uppfylla skilyrði umsóknar verður henni vísað frá. Frestur er til og með 12. nóvember. 

Svið sjálfbærrar þróunar
Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Sustainable Development) kemur með til að sækja og taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2024)) sem fer fram dagana 15. – 17. júlí í New York. Kemur fulltrúinn með að tilheyra sendinefnd íslenskra stjórnvalda á viðburðinum, í umboði ungs fólks á Íslandi og tekur þátt í undirbúningsvinnu við viðburðinn auk þess að sitja í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda. Samstarfsráðuneyti sviðsins er forsætisráðuneytið.

Svið barna og ungmenna
Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna (e. United Nations Youth Delegate of Iceland for Children and Youth) kemur með að sækja og taka þátt í störfum og sækja fund ungmennavettvangs efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum)) 16.-18. apríl í New York. Samstarfsráðuneyti sviðsins er mennta- og barnamálaráðuneytið.

Embættin er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.