Ert þú enn að leita að sumarstarfi? – Könnun á vegum Vinnumálastofnunnar

Kæru stúdentar

Stjórnvöld boðuðu 2500 störf fyrir námsfólk sumarið 2021 hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Nú liggur fyrir að vel hefur gengið að ráða í þau störf og hefur Vinnumálastofnun vegna þessa efnt til könnunar um atvinnuhagi námsmanna svo hægt sé að meta hvort afla þurfi viðbótarheimilda til að bjóða upp á fleiri störf. 

Við viljum hvetja ykkur sem hafið enn ekki fengið starf um að taka þessa afar stuttu könnun. Ábyrgðar- og vinnsluaðili könnunarinnar er Vinnumálastofnun og því skulu athugasemdir eða spurningar beinast að stofnuninni.

Ef spurningar vakna varðandi önnur hagsmunamál er velkomið að hafa samband við Stúdentaráð á shi@hi.is.

Stúdentaráð auglýsir eftir umsóknum í stjórn Félagsstofnunar stúdenta

Stúdentar eiga þrjá fulltrúa í stjórn Félagsstofnunar stúdenta sem sitja til tveggja ára í senn. Skipað var síðast í stjórn árið 2019 og er því kominn tími á að gera það aftur. Samkvæmt reglugerð fyrir Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands er stjórnin skipuð fimm einstaklingum til tveggja ára: mennta- og menningarmálaráðuneytið skipar einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa, háskólaráð skipar einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa og Stúdentaráð skipar þrjá aðalfulltrúa og þrjá varafulltrúa.  

Hæfniskröfur

  • Áhugi á Stúdentaráði og þekking á málefnum stúdenta
  • Reynsla af hagsmunabaráttu stúdenta er kostur 
  • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Geta til að tjáningar í ræðu og riti á íslensku 

Ætlast er til þess að umsækjandi stundi ekki nám við Háskóla Íslands á skipunartímanum og beri hag stúdenta og Félagsstofnunnar stúdenta fyrir brjósti. 

Kynningarbréf ásamt ferilskrá með upplýsingum um meðmælendur skal skila á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is. Samkvæmt 7. gr laga Stúdentaráðs skal hver fulltrúi ásamt varafulltrúa kjörinn sérstaklega og því eru umsækjendur beðnir um að gera grein fyrir varafulltrúa í umsókn sinni. Umsóknarfrestur er til 23:59 þann 23. júní 2021 og eru umsóknir sem berast eftir þann tíma ekki teknar gildar.  

Staða framkvæmdastjóra Stúdentaráðs laus til umsóknar

– FRAMLENGDUR UMSÓKNARFRESTUR –

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir stöðu framkvæmdastjóra lausa til umsóknar. 

Framkvæmdastjóri tekur þátt í að vinna að skilvirkum og góðum starfsháttum á skrifstofu Stúdentaráðs. Framkvæmdastjóri gætir fjármuna og eigna Stúdentaráðs, vinnur að hagkvæmni í fjárútlátum og miðlar upplýsingum til skrifstofu og Stúdentaráðs. 

Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, umsjón með rekstri skrifstofu Stúdentaráðs, þar með talið tímaskráningum starfsfólks Stúdentaráðs og greiðslu launa. Hann sér um samningsgerðir á vegum Stúdentaráðs og eftirfylgni þeirra, sér um auglýsingasöfnun í útgefið efni Stúdentaráðs ásamt því að rita fundargerðir Stúdentaráðs og stjórnar Stúdentaráðs. Auk þess tekur framkvæmdastjóri þátt í daglegum störfum skrifstofunnar í samráði við forseta.

Hæfniskröfur:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu.
  • Þekking og reynsla á fjármálum og bókhaldi.
  • Þekking á bókhaldshugbúnaði er kostur.
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur.
  • Vilji og geta til þess að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur.
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku er skilyrði. 
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt.
  • Menntun sem nýtist í starfi er kostur.
  • Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi.

 

Framkvæmdastjóri er ráðinn í 40-50% starf út starfsár Stúdentaráðs, eða til 31. maí 2022. og fást nánari upplýsingar um starfið hjá núverandi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs í síma 570-0856 eða á netfangið shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og meðmælum skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is merkt „Framkvæmdastjóri SHÍ“. Umsóknarfrestur er til kl. 23:59 þann 27. júní 2021. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina.

Staða verkefnastjóra hjá Stúdentaráði laus til umsóknar

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir stöðu verkefnastjóra lausa til umsóknar. 

Um er að ræða tveggja mánaða starf á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs við að annast kortlagningu á fjárhagsstöðu stúdenta hérlendis. Hlutverkið felur í sér að afla upplýsinga og gagna um réttindi stúdenta innan velferðarkerfisins og er markmiðið að fá betri mynd af stöðu þeirra við mismunandi félagslegar aðstæður. Þá skal sérstaklega skoða réttindi stúdenta til atvinnu- og tekjuöryggis, heilbrigðisþjónustu, menntunar  og félagslegrar þjónustu. Verkefnastjóri hefur umsjón með upplýsinga- og gagnaöfluninni í samráði við skrifstofu og stjórn Stúdentaráðs. 

Hæfniskröfur:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta.
  • Þekking og reynsla á fjármálum, greiningarvinnu og hagrannsóknum
  • Menntun sem nýtist í starfi.
  • Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi.
  • Vilji og geta til þess að vinna með stúdentaráðsliðum, starfsmönnum skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Reynsla af stjórnun og stefnumótun er kostur.
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt.

Verkefnastjóri er ráðinn í 100% starf frá 1. júlí til 31. ágúst eða eftir nánara samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá forseta eða varaforseta Stúdentaráðs í síma 570-0856 eða á netfangið shi@hi.is. Nánar má lesa um áherslur Stúdentaráðs á student.is, undir Útgefnu efni og í tengslum við herferð Stúdentaráðs vegna fjárhagslegs öryggis stúdenta, Eiga stúdentar ekki betra skilið?

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og meðmælum skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is merkt „Verkefnastjóri SHÍ“. Umsóknarfrestur er til kl. 23:59 þann 20. júní 2021. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina.

Stúdentaráðsfundur 9. júní 2021

Miðvikudaginn 9. júní fer Stúdentaráðsfundur fram í Odda-101 og á Teams kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn í gegnum Teams skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Kynning á Aurora samstarfinu 17:25-18:05
  5. Verklagsreglur Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:05-18:25
  6. Hlé 18:25-18:35
  7. Tillaga um skipun starfshóps vegna Alþingiskosninga 2021 (atkvæðagreiðsla) 18:25-18:40
  8. Skipun fulltrúa stúdenta í gæðanefnd háskólaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:50
  9. Önnur mál 18:50-19:00

 

Auglýst eftir fulltrúum í nefndir háskólaráðs

Samkvæmt 21. gr. laga Stúdentaráðs skal Stúdentaráð skipa fulltrúa stúdenta í nefndir háskólaráðs. Að þessu sinni er leitað að fulltrúa í framhaldsnámi í gæðanefnd auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd. Skipunartími beggja nefnda er til júní 2024. 

Hæfniskröfur eru eftirfarandi: 

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur

Stúdentaráð mun kjósa um fulltrúa í nefndirnar. Frekari upplýsingar um starfsemi nefndana má finna á heimasíðu Háskóla Íslands

Áhugasamir eru beðnir um að senda póst á shi@hi.is fyrir kl. 23:59 þann 8. júní næstkomandi. Umsókn skal fylgja ferilskrá og stutt kynning á umsækjanda, lýsing á áhuga hans á tilteknu nefndarstarfi og reynslu sem hann telur að komi að gagni í nefndinni.