Fulltrúar stúdenta á Háskólaþingi 18. nóvember sl.

Stúdentar áttu 10 fulltrúa, ásamt tveimur fulltrúum úr háskólaráði, á Háskólaþingi sem fram fór föstudaginn 18. nóvember sl.

Á þinginu voru m.a. sjálfbærniáherslur stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26, til umræðu og fyrsta sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands kynnt. Þá var einnig rætt um skipulag, framkvæmdir og samgöngur á háskólasvæðinu og farið yfir þróunaráætlun svæðisins.

Stúdentaráð lýsir yfir ánægju með áherslumál þingsins enda eru þau stúdentum hugleikin og spila veigamikið hlutverk í framtíðarsýn Stúdentaráðs á háskólasvæðið. U-passinn hefur verið baráttumál Stúdentaráðs um árabil og því er áætlun um innleiðingu hans, sem tilkynnt var um á þinginu, mikið fagnaðarefni fyrir stúdenta sem og áætlanir um uppbyggingu hjólaskýla á háskólasvæðinu. 

Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á að sjálfbærni-, samgöngu- og skipulagsmálum verði gert hátt undir höfði með sjálfbærara háskólasamfélagi að markmiði.

Umræðufundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands um skrásetningargjaldið

Stúd­entaráð blés til mál­fund­ar um skrá­setn­ing­ar­gjaldið í hádeginu í gær, 23. nóvember 2022.

Forseti Stúdentaráðs, Rebekka Karlsdóttir opnaði fundinn með tölu um hvers vegna Stúdentaráð boðar til fundarins og afstöðu ráðsins gagnvart gjaldinu. Þá var opnað fyrir umræður og sátu þau Jóna Þórey Pét­urs­dótt­ir, lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi for­seti Stúd­entaráðs, Erla Guðrún Ingi­mund­ar­dótt­ir, aðallög­fræðing­ur á rektors­skrif­stofu há­skól­ans og Friðrik Jóns­son, formaður Banda­lags há­skóla­manna fyr­ir svör­um. Mbl.is fjallaði um fundinn, ásamt því að rætt var við forseta Stúdentaráðs í hádegisfréttunum á Bylgjunni í dag (byrjar á 09:42).

Á fundinum sköpuðust góðar umræður en þó er enn mörgu ósvarað, og mun ráðið halda samtalinu um skrásetningargjöldin almennt, lögmæti þeirra og fjármögnun háskólastigsins áfram af fullum krafti.
Ljóst er að nemendur á Íslandi standa undir miklu meira af fjármögnun háskólastigsins heldur en gildir á Norðurlöndunum og þarf að tala um hvernig háskólastigið er fjármagnað með réttum orðum og gegnsæjum hætti. Stúdentaráð telur háskólann vera með gjaldinu að rukka stúdenta meira en lög heimila og gjöldin feli þannig í sér falin skólagjöld.
Næstu skref
Stúdentaráð hefur kallað eftir því að löggjafinn bregðist við, ásamt því að óskað hefur verið  ráðherra  til þess að ræða lögmæti skrásetningargjaldsins og fjármögnun háskólastigsins í heild sinni. Jafnframt mun ráðið fylgjast með máli nemandans, sem komið er aftur til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema og fylgja því eftir innan háskólans.
Skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á að stjórnvöld standi við gefin loforð um stórsókn í menntun og geri nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi fjárveitinga til háskólastigsins, til að tryggja jafnrétti til náms og samkeppnishæfni íslenskrar háskólamenntunar.
Meðfylgjandi eru myndir sem Kristinn Magnússon tók fyrir mbl.is á fundinum:

Stúdentaráðsfundur 16. nóvember 2022

Miðvikudaginn 16. nóvember fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu H-205 í Stakkahlíð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:30
  4. Tilnefningar í kjörstjórn (atkvæðagreiðsla) 17:30-17:45
  5. Stefna Stúdentaráðs í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna 17:45 – 18:05 (atkvæðagreiðsla)
  6. Hlé 18:05-18:15
  7. Tillaga um jafningjastuðning á stúdentagörðunum 18:15-18:25 (atkvæðagreiðsla)
  8. Tillaga um aukna notkun persónufornafna á Canvas 18:25-18:35 (atkvæðagreiðsla)
  9. Tillaga um markvissa vinnu til að auka kosningaþátttöku til Stúdenta- og háskólaráðs 18:35-18:45 (atkvæðagreiðsla)
  10. Fjármál Stúdentaráðs 18:45-18:55
  11. Önnur mál 18:55-19:05
  12. Bókfærð mál
    Fundi slitið

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi

Stúdentaráð hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi, en um árabil hefur ráðið efast um að þær forsendur sem liggja að baki skrásetningargjaldinu í dag standist lög um opinbera háskóla.

Í kjölfar meðferðar málsins innan háskólaráðs hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema nú komist að þeirri niðurstöðu að HÍ fór ekki rétt að við útreikninga á skrásetningargjaldi. Nefndin telur að háskólaráði hafi borið skylda til að afla nákvæmra upplýsinga og útreikninga sem liggja að baki gjaldinu og staðfestir því úrskurðurinn þann grun Stúdentaráðs um að gjaldið sé ekki eingöngu skrásetningargjald í fyllstu merkingu orðsins heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld.

Skrásetningargjald við HÍ er 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn raunverulega nýtir sér af þeim kostnaðarliðum sem að baki gjaldinu búa en þjónustugjöld, líkt og skrásetningargjöld í opinbera háskóla eru, má aðeins innheimta fyrir þá þjónustu sem hið opinbera raunverulega veitir þeim sem greiðir gjaldið og skal það gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Samkvæmt niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar lagði háskólaráð ekki réttar forsendur til grundvallar gjaldinu og byggði þannig ekki á þeim kostnaði sem raunverulega hlýst af því að veita þjónustuna sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Með því að gera það ekki hafi ráðið ekki sinnt skyldum sínum skv. skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati Stúdentaráðs býður úrskurðurinn upp á stærri umræðu um gjaldið, t.a.m. hvernig það er áætlað, upphæð þess og hvaða þjónusta fellur undir það en skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur jafnframt úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Í opinberum háskólum á öðrum Norðurlöndum tíðkast almennt ekki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld og telur Stúdentaráð að Háskóli Íslands eigi ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins og að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi.

Stúdentaráð fagnar því að áfrýjunarnefndin haldi háskólaráði við efnið, líkt og Stúdentaráð hefur lagt upp með að gera sl. þrjú ár þegar kemur að skrásetningargjaldinu. Í kjölfar þessa úrskurðar mun málið fara aftur á borð háskólaráðs og mun SHÍ fylgja málinu eftir til þess að tryggja hagsmuni stúdenta og þrýsta á að háskólakerfið hérlendis standist samanburð við norðurlöndin þar sem opinber háskólamenntun er gjaldfrjáls.