Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur!

Það er loksins komið að því. Eftir langa bið mun Íþróttaskóli SHÍ hefjast aftur um helgina.

Íþróttaskóli Stúdentaráðs Haustönn 2022

Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur íþróttaskóla fyrir börn stúdenta fædd á árunum 2017-2021. Tímarnir fara fram í íþróttahúsi háskólans við Sæmundargötu næstu 5 laugardaga og er hver tími 40 mínútur. Íþróttaskólinn hefst laugardaginn 29. október á fríum prufutíma* og lýkur 26. nóvember. Það verða því 5 tímar í heildina. Börnunum er skipt í þrjá hópa eftir aldri og eru ekki fleiri en 30 börn í hverjum hópi. Fyrsti hópurinn (f. 2020, 2021) er kl. 8:45 – 9:25, annar hópurinn (f. 2018, 2019) er kl. 9:30 – 10:10 og þriðji hópurinn (f. 2017) kl. 10:15 – 10:55. Létt hressing í boði eftir hvern tíma. *Ath að það þarf að skrá börn í prufutímann líka (ef plássin fyllast í fría prufutímann munu þau börn sem skráð eru á alla tímana ganga fyrir).

Smelltu hér til að skrá barn í Íþróttaskóla SHÍ 2022

Markmið íþróttaskólans er að gefa börnum kost á hreyfinámi, efla hreyfiþroska og hreyfigetu barnanna. Bæta samhæfingu, sjálfstraust og vellíðan. Leikir og þrautabrautir skipa stærstan þátt í náminu og reynt að hafa æfingar sem fjölbreyttastar þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Unnið er bæði með fín- og grófhreyfingar. Félagsþroski, samvinna og það að taka tillit til annarra er mikilvægur þáttur í starfinu.

Kennari íþróttaskólans er Alda Ólafsdóttir, mastersnemi í Íþróttafræði.

Verðið er 3.500 krónur og veittur er 500 króna systkinaafsláttur fyrir hvert systkini – verð fyrir 2 yrði því 6.000 kr. Viðskiptavinir Landsbankans fá 1.500kr afslátt í Íþróttaskólann og borga því einungis 2.000 kr fyrir hvert barn, ef þeir millifæra af reikningi sem hýstur er hjá Landsbankanum. Ekki er hægt að fá Landsbanka- og systkinaafslátt saman.

Foreldrar taka virkan þátt í tímum með því að aðstoða börnin sín. Þar með gefst þeim mikilvægt tækifæri að kynnast börnum sínum enn betur við aðrar aðstæður en venjulega. Greiðsluupplýsingar verða sendar fljótlega eftir skráningu. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við okkur í gegnum netfangið shi@hi.is.

Stúdentaráðsfundur 25. október 2022

Þriðjudaginn 25. október fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu O-202.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

  1. Fundur settur 
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:30
  4. Félagsstofnun stúdenta (kynning og umræður) 17:30-18:20
  5. Hlé 18:20-18:30
  6. Áherslur SHÍ í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna 18:30 – 19:10 (atkvæðagreiðsla)
  7. Tillaga um að Háskóli Íslands lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum 19:10-19:20 (Atkvæðagreiðsla)
  8. Tillaga um undirnefnd umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 19:25-19:30
  9. Önnur mál 19:30-19:35
  10. Bókfærð mál 
  11. Fundi slitið 

 

Stúdentaráð Háskóla Íslands semur við Orkusöluna 15. árið í röð

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Orkusalan hafa samið á ný, en þetta er 15. árið í röð sem við erum í samstarfi. Stúdentaráð er þakklátt fyrir þetta langlífa samstarf, en það styður við starfsemi ráðsins ásamt því að stúdentar fá hagstæðasta raforkuverðið hjá Orkusölunni. Orkusalan leggur mikla áherslu á hreina orku og sjálfbærni og er til að mynda eina orkufyrirtækið á markaði sem hefur kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Á myndinni má sjá Guðmund Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóra SHÍ og Sigmundínu Þorgrímsdóttur, sérfræðing Orkusölunnar í markaðsmálum undirrita samninginn.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stúdentaráðs

Á dögunum undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, nýjan samning milli Háskóla Íslands og Stúdentaráðs um þjónustu við nemendur Háskólans.

Stúdentaráð er mjög þakklátt fyrir samstarfið, tekið er vel á ábendingum ráðsins á hinum mörgum starfssviðum skólans og eiga forseti og rektor reglulega fundi til að tryggja gott upplýsingaflæði og koma áherslum stúdenta á framfæri.

Stúdentaráð mun áfram halda Háskóla Íslands á tánum, enda er það meginhlutverk ráðsins að vera þrýstiafl. Hvetjum við starfsfólk og stjórnendur til að rækta samstarfið við stúdenta enn frekar til að við getum í sameiningu gert góðan háskóla enn betri.
©Björn Gíslason
©Björn Gíslason

Opið fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér til kl. 14:00 þann 24. október nk.. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur Stúdentasjóð á heimasíðu Stúdentaráðs og sérstaklega lög og verklagsreglur hans. Athugið að greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða ekki veittir í þessari úthlutun.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Yfirlýsing Stúdentaráðs um fjármögnun almenningssamgangna og innleiðingu U-passa fyrir stúdenta

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu almenningssamgangna á Íslandi og þess krafist að íslenska ríkið tryggi stóraukið fjármagn í málaflokkinn strax, í rekstur almenningssamgangnanna og í innleiðingu U-passa fyrir stúdenta.

Stúdentaráð gagnrýnir að ríkisstjórnin hafi varið níu sinnum meira fé í niðurgreiðslu rafbílakaupa en til reksturs Strætó bs. Þessi dýrasta loftslagsaðgerð stjórnvalda gagnast helst efnameiri hópum samfélagsins. Efling almenningssamgangna er bæði nauðsynleg og réttlát loftslagsaðgerð sem felur í sér bætt kjör og tækifæri fyrir almenning. Einkum og sér í lagi fyrir tekjulægri hópa, svo sem ungt fólk og stúdenta sem nota almenningssamgöngur í meira mæli en tekjuhærri hópar.  

Stúdentaráð kallar eftir aðkomu ríkisins við að verða láta U-passa verða að veruleika, en U-passi er samgöngukort á hagstæðu verði fyrir stúdenta, sem Stúdentaráð hefur lengi talað fyrir og sækir fyrirmynd sína til Evrópu. Slík útfærsla er þegar til skoðunar hjá Háskóla Íslands og hafa viðræður við Strætó átt sér stað. Hins vegar er ljóst er að til þess að U-passinn geti orðið að veruleika þarf pólitískan vilja og fjármagn, bæði frá ríki og sveitarfélögum.

Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta að komast á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi. Ríkisstjórnin þarf að auka fjárframlög til málaflokksins strax, með það að leiðarljósi að bæta þjónustu og gera almenningssamgöngur að hagkvæmari kosti, meðal annars með innleiðingu U-passans. Hér er um að ræða réttláta loftslagsaðgerð sem hefur áhrif í þágu samfélagsins alls.

Yfirlýsingin hefur verið send á fjármálaráðherra og forsætisráðherra og má finna hana í heild sinni á student.is, hér.