Erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands til nýkjörinna sveitarstjórnarfulltrúa á höfuðborgarsvæðinu

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent öllum nýkjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu erindi þar sem kallað er eftir auknum áherslum í málefnum stúdenta í störfum þeirra á komandi kjörtímabili.

Sveitarstjórnarstigið fer með vald yfir fjölda málaflokka sem snerta stúdenta, svo sem umhverfis-, samgöngu- og húsnæðismál og búa margir stúdentar við Háskóla Íslands í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu eru listaðar upp helstu áherslur Stúdentaráðs í þessum málaflokkum ásamt tillögum að aðgerðum sem sveitarstjórnarstigið getur ráðist í. Flestar þessar tillögur fela í sér einfaldar breytingar sem auðsjáanlega eru til bóta fyrir stúdenta og aðra samfélagshópa, en ekki algjöra umbyltingu þeirra kerfa sem þegar hafa verið byggð upp. Því ætti töluverður hluti tillagnanna að geta orðið að veruleika án gífurlegs kostnaðarauka fyrir hið opinbera.

Það þarf pólitískan vilja til að ráðast í breytingar fyrir samfélagið þannig að það taki mið af öllum þeim hópum sem það mynda. Stúdentaráð vonast til að nýkjörnir sveitarstjórnarfulltrúar láti verkin tala og vinni að bættum hag stúdenta með því að láta ofantaldar tillögur verða að veruleika. 

 

Stúdentaráðsfundur 22. júní 2022

Miðvikudaginn 22. júní fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

 1. Fundur settur 17:00
 2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
 3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:35
 4. Kynning á Aurora samstarfinu 17:35-18:00
 5. Verklagsreglur Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:00-18:25
 6. Hlé 18:25-18:35
 7. Skipun fulltrúa stúdenta í eftirfarandi nefndir háskólaráðs: skipulagsnefnd, ráð um málefni fatlaðs fólks auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd (atkvæðagreiðsla) 18:35-18:45
 8. Önnur mál 18:45-18:55
 9. Bókfærð mál 
 10. Fundi slitið 19:00

Auglýst eftir fulltrúum stúdenta í nefndir háskólaráðs

Kæru stúdentar,

Samkvæmt 21. gr. laga Stúdentaráðs skal Stúdentaráð skipa fulltrúa stúdenta í nefndir háskólaráðs. Að þessu sinni er leitað að fulltrúa í skipulagsnefnd, tveimur fulltrúum í ráð um málefni fatlaðs fólks, auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd. Skipunartími í skipulagsnefnd og öryggisnefnd er til eins árs en í ráð um málefni fatlaðs fólks til þriggja ára. 

Hæfniskröfur eru eftirfarandi: 

 • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta
 • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
 • Hæfni í mannlegum samskiptum
 • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
 • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur

Að auki er miðað við að allavegana annar fulltrúanna í ráði um málefni fatlaðs fólks komi úr hópi þeirra nemenda sem falla undir 1. mgr. 1. gr. reglna um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands nr. 481/2010. 

Stúdentaráð mun kjósa um fulltrúa í nefndirnar. Frekari upplýsingar um starfsemi nefndana má finna á heimasíðu Háskóla Íslands

Áhugaöm eru beðin um að senda póst á shi@hi.is fyrir kl. 23:59 þann 17. júní næstkomandi. Umsókn skal fylgja ferilskrá og stutt kynning á umsækjanda, lýsing á áhuga hans á tilteknu nefndarstarfi og reynslu sem hann telur að komi að gagni í nefndinni. 

Háskólaráð samþykkir tillögu að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði

Á fundi Háskólaráðs 2. júní sl. var tillaga að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði samþykkt! Tillagan byggir á erindi Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í háskólaráði frá fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Hún var unnin og samþykkt af stjórn Félagsvísindasviðs í samráði við kennslusvið, þar sem Rebekka Karlsdóttir, fulltrúi stúdenta í stjórn vann ötullega að málinu. Í tillögunni felst að sjúkra- og endurtökupróf á Félagsvísindasviði vegna haustmisseris fari fram í desember og janúar, en ekki í júní eins og nú.

Miðað er við að breytingarnar taki gildi háskólaárið 2023-2024 og bindur Stúdentaráð miklar vonir við áframhaldandi gott samráð við stjórnsýslu háskólans. Á fundinum 2. júní lögðu fulltrúar stúdenta í háskólaráði, Isabel Alejandra Díaz og Jessý Rún Jónsdóttir fram svohljóðandi bókun:

“Fulltrúar stúdenta í háskólaráði telja endurskoðun á fyrirkomulagi sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði löngu tímabæra og fagna nýrri tillögu að útfærslu sem fram er komin, í kjölfar erindis Stúdentaráðs á fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Á sama tíma og þakkir eru færðar fyrir vinnuna sem ráðist var í vilja fulltrúar stúdenta undirstrika að það verði að tryggja að ný útfærsla nái fram að ganga fyrir háskólaárið 2023-2024, líkt og sammælst hefur verið um.

Ný útfærsla er ásættanleg lausn fyrir hlutaðeigandi og ljóst er að eðlilegt næsta skref sé að huga að heildarsamræmingu á kennslualmanaki þvert á svið. Fulltrúar stúdenta vilja þó taka fram að sú vinna, sem öll eru í grunninn sammála um, megi ekki hægja á eða hindra að nýtt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa sé hrint í framkvæmd á Félagsvísindasviði. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði sem og Stúdentaráð binda miklar vonir við að samráðið í framhaldinu verði lausnamiðað og farsælt í þágu stúdenta, en ljóst er að miklir hagsmunir eru undir fyrir þau. Við fögnum þessum fyrirhuguðu breytingum á sama tíma og við leggjum þunga á að útfærslan raungerist líkt og áform eru á um.”

Fundargerðina í heild sinni má finna hér.

Þetta er mikið fagnaðarefni enda hefur það verið baráttumál stúdenta um árabil að fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði yrði endurskoðað og breytt. Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í háskólaráði hlakka til að fylgja málinu eftir.