Ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs

Vaka Lind Birkisdóttir hefur verið ráðin sem ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka Lind er 26 ára meistaranemi í alþjóðlegum stjórnmálum við Trinity College í Dublin á Írlandi, þaðan sem hún útskrifast í haust. Hún hefur áður lokið BA-prófi í félagsfræði með hagfræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Vaka Lind lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Starfsemi Stúdentaráðs er Vöku ekki ókunnug en hún sat í Stúdentaráði starfsárið 2017-2018 sem varafulltrúi á Félagsvísindasviði og því næst sem aðalfulltrúi starfsárið 2018-2019. Til viðbótar beitti hún sér innan stjórnar Félagsvísindasviðs og átti sæti í félagslífs- og menningarnefnd ráðsins. Vaka Lind var einnig virk í félagsstörfum innan sinnar námsleiðar og var gjaldkeri NORM, nemendafélags félagsfræðinnar, ásamt því að sjá um skipulagningu viðburða félagsins. Um þessar mundir er Vaka Lind fulltrúi mastersnema í stjórn MSF (Doctors Without Borders) eða Læknar án landamæra, við Trinity College.

Fyrri starfsreynslu hefur Vaka sem upplýsingafulltrúi og gjaldkeri hjá Skattinum til tveggja ára, en þar áður starfaði hún hjá UN Women. Meðmælendur gáfu Vöku mjög góð meðmæli og nefndu sérstaklega hve lausnamiðuð, áreiðanleg, félagslynd og opin hún væri í samskiptum.

Vaka Lind hefur afburðaþekkingu á hagsmunabaráttu stúdenta, reynslu af fjársýslustörfum, getu til að starfa sjálfsætt, vilja til að vinna með Stúdentaráði í heild sinni og menntun sem nýtist í starfi framkvæmdastýru. Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Vöku Lind Birkisdóttur til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu framkvæmdastýru ráðsins, og hlakkar mikið til að vinna með henni að bættum hag stúdenta.

Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs kjörinn forseti stúdentaráðs Aurora

Alma Ágústsdóttir var nýlega ráðin forseti Stúdentaráðs alþjóðlega háskóla samstarfsnetsins Aurora. Hún tekur við af Callum Perry sem gegndi stöðunni fyrir hönd University of East Anglia og er hún annar fulltrúinn frá Háskóla Íslands sem gegnir embættinu en Elísabet Brynjarsdóttir var forseti ráðsins frá 2018-2020.

Alma er 26 ára meistaranemi í þýðingafræði við Háskóla Íslands og hefur áður lokið BA-prófi í ensku við skólann. Hún brautskráðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2015 en sama ár vann hún The International Public Speaking Competition sem alþjóðlegu góðgerðarsamtökin, The English-Speaking Union (ESU), standa fyrir ár hvert. Í kjölfarið af því starfaði Alma hjá ESU, í London, sumrin 2016 og 2017 sem Educational Network Officer. Hún gegndi hlutverki mentors fyrir þátttakendur í alþjóðlegu ræðukeppninni í tvígang og dæmdi úrslit keppninnar 2021. Auk þess hefur Alma starfað sem stuðningsfulltrúi í frístundaheimilinu Selinu við Melaskóla síðan 2016.

Alma hefur einnig reynslu af Stúdentaráði. 2016 var hún kjörin í Stúdentaráð en það ár var hún einnig forseti Sviðsráðs Hugvísindasviðs, sat í stjórn Stúdentaráðs og var ritari ráðsins. Í dag situr Alma á skrifstofu Stúdentaráðs sem Alþjóðafulltrúi hennar.

Stúdentaráðsfundur 21. júlí 2021

Miðvikudaginn 21. júlí fer Stúdentaráðsfundur fram í Odda-201 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
  4. Kynning á Kennsluakademíu og Spretti 17:20-18:05
  5. Tillaga um viðbrögð Stúdentaráðs vegna þjónustu næturstrætó (atkvæðagreiðsla) 18:05-18:20
  6. Hlé 18:20-18:30
  7. Verklagsreglur Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:30-18:40
  8. Skipan fulltrúa stúdenta í stjórn Félagsstofnunar stúdenta (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:50
  9. Önnur mál 18:50-19:00
  10. Bókfærð mál