Fréttir

Stúdentaráðsfundur 28. september 2023

Fimmtudaginn 28. september 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu TH 103.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

 1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
 2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs þann 22. ágúst borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
 3. Lagabreytingar (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:55
 4. Önnur mál 17:55-18:00
 5. Fundi slitið 18:00

Hagsmunabarátta stúdenta ber árangur: Skrásetningargjöld verða ekki hækkuð!

 

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að opinberir háskólar fái ekki heimild til að hækka skrásetningargjöld líkt og skólarnir óskuðu eftir í desember síðastliðnum. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafði áður tekið þá ákvörðun að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð á síðastliðnu vorþingi. Kom sú tilkynning í kjölfar herferðar Stúdentaráðs í mars síðastliðnum sem gekk undir yfirheitinu ,,Stúdentar splæsa” þar sem Stúdentaráð lagðist alfarið gegn hækkun skrásetningargjaldsins. Því eru miklar gleðifréttir fyrir stúdenta að opinberir háskólar fái ekki heimild til hækkunar skrásetningargjalda. 

Baráttan á sér langan aðdraganda en fyrir um áratug þegar skrásetningargjöld voru árið 2014 hækkuð úr 60 þúsund  í 75 þúsund. Þessari hækkun var mótmælt harðlega af Stúdentaráði og var í kjölfarið send kvörtun til Háskólaráðs og seinna meir til umboðsmanns Alþingis. Síðastliðin þrjú ár hefur baráttan verið hávær og hefur Stúdentaráð staðið að herferðum í tengslum við skrásetningargjöldin. 

Málið var aftur til umræðu skólaárið 2020-2021. Á háskólaráðsfundi 6. febrúar 2020 var rætt um hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands úr 75.000 í 104.000 krónur fyrir árið 2020 og í 107.000 kr. árið 2021. Í kjölfar þessarar umræðu sendi Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu þar sem ráðið lagðist alfarið gegn þessari hækkun. Í mars 2020 sendi Stúdentaráð formlega kvörtun vegna skrásetningargjaldana til Umboðsmanns Alþingis og seinna í sama mánuði fékkst það staðfest frá þáverandi mennta-og menningarmálaráðherra að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð að sinni. 

Í desember síðastliðnum kom fram á fundi Háskólaráðs að rektorar opinberu háskólanna höfðu sent sameiginlegt bréf á Áslaugu Örnu, ráðherra háskólamála. Í bréfinu var óskað eftir heimild til þess að skrásetningargjald yrði hækkað úr 75.000kr í 95.000kr. Þetta var harðlega gagnrýnt af fulltrúum stúdenta í Háskólaráði í bókun þeirra á fundinum. Í kjölfar þessa sendi Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu þar sem ráðið lýsti yfir þungum áhyggjum af fjármögnun Háskóla Íslands en að auki var beiðni rektorana einnig harðlega gagnrýnd. Var þetta upphaf herferðar sem Stúdentaráð hrinti af stað í mars 2023. Herferðin endaði með friðsömum mótmælum stúdenta fyrir utan Ráðherrabústaðinn þann 10.mars þar sem ríkisstjórnarfundur fór fram. Rebekka Karlsdóttir, þáverandi forseti Stúdentaráðs, afhenti forsætisráðherra og fjármálaráðherra bréf sem innihélt samantekt á áherslum Stúdentaráðs sem og spurningar til ráðherra. Sú herferð bar árangur en líkt og kom fram hér áðan tilkynnti ráðherra háskólamála að skrásetningargjöld yrðu ekki hækkuð á vorþingi og fjárframlög til háskólastigsins yrðu aukin.

 

Skrásetningagjöldin þegar of há! 

Árið 2021 hratt Stúdentaráð af stað herferð undir yfirskriftinni ,,Stúdentar eiga betra skilið”. Sú herferð fjallaði um fjárhagslegt öryggi stúdenta. Í þeirri herferð undirstrikaði Stúdentaráð að skrásetningargjöld væru auknar álögur á samfélagshóp sem er nú þegar í viðkvæmri stöðu. Í sömu herferð var einnig undirstrikuð sú staðreynd að í nágrannalöndunum tíðkast ekki að íþyngjandi gjöld fylgi því að stunda háskólanám

Stúdentaráð fagnar þeirri ákvörðun ráðherra að veita ekki heimild til hækkunar en þó er nauðsynlegt að undirstrika að baráttunni er ekki lokið. Skrásetningargjöld og annað sem eykur fjárhagslegt óöryggi stúdenta veldur áfram áhyggjum. Öllum tilraunum til að hækka gjöldin í framtíðinni mun verða mætt af fullum þunga af hálfu stúdenta. Stúdentaráð hefur sýnt þrautseigju  við að gæta hagsmuna stúdenta og leggur áherslu á mikilvægi þess að stúdentar standi saman í þessum málum. 

 

En eru skrásetningagjöldin lögleg? 

Á sama tíma og tilkynning ráðherra er mikil gleðitíðindi er vert að minnast á þá staðreynd að Stúdentaráð hefur lengi sett spurningarmerki við lögmæti innheimtingu skrásetningargjalda yfir höfuð. Stúdentaráð telur að skrásetningargjald sem innheimt er við opinberu háskóla landsins samræmist ekki lögum um þjónustu háskólanna sem opinberra stofnana. Við hvetjum því ráðherra eindregið til að stíga skrefinu lengra og hefja vinnu við endurskoðun skrásetningargjalda með tilliti til lækkunar eða afnáms. 

Stúdentaráðsfundur 20. september 2023

Miðvikudaginn 20. september 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu TH 103.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

 1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
 2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs þann 22. ágúst borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
 3. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:15
 4. Tilkynningar og mál á döfinni 17:15-17:30
 5. Kynning á stöðu mála í lögbundinni endurskoðun laga um Menntasjóðs Námsmanna – Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, Lánasjóðsfulltrúi SHÍ 17:30-17:50
 6. Ársreikningur SHÍ 2022-2023 kynntur – Guðmundur Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóri SHÍ 17:50-18:00
 7. Lagabreytingar (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:00-18:30
  Hlé 18:30-18:40
 8. Kynning á könnun um fjárhagsstöðu stúdenta – Katrín Björk Kristjánsdóttir og María Sól Antonsdóttir 18:40-18:55
 9. Niðurstöður stefnumótunardags – framkvæmdaáætlanir fastanefnda (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:55-19:20 
 10. Önnur mál 19:20-19:30
 11. Bókfærð mál
 12. Fundi slitið 19:30

 

Stúdentaráðsfundur 22. ágúst 2023

Þriðjudaginn 22. ágúst 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00  í stofu TH 104

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs þann 21. júní borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:10-17:30
  4. Minnisblað um Oktoberfest 17:30-17:40
  5. Kynning um notendamiðaða stafræna þjónustu frá Guðnýju Benediktsdóttur 17:40-17:55
  6. Skipun fulltrúa stúdenta í eftirfarandi nefndir háskólaráðs: málnefnd, vísindanefnd auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd (atkvæðagreiðsla) 17:55-18:05
  7. Kjör í stjórn í Stúdentasjóðs (atkvæðagreiðsla) 18:05-18:15 
  8. Hlé 18:15-18:30
  9. Niðurstöður stefnumótunardags – framkvæmdaáætlanir fastanefnda (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:30-19:20 
  10. Önnur mál 19:20-19:25
  11. Fundi slitið 19:25

Auglýst eftir fulltrúum stúdenta í öryggisnefnd og málnefnd

Kæru stúdentar,

Samkvæmt 21. gr. laga Stúdentaráðs skal Stúdentaráð skipa fulltrúa stúdenta í nefndir háskólaráðs. Að þessu sinni er leitað að fulltrúa í málnefnd, auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd. Skipunartími málnefnd er til eins árs en skipunin í öryggisnefnd er til þriggja ára. 

Hæfnikröfur eru eftirfarandi: 

 • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta
 • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
 • Hæfni í mannlegum samskiptum
 • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
 • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur

Stúdentaráð mun kjósa um fulltrúa í nefndirnar á fundi ráðsins 22. ágúst. Frekari upplýsingar um starfsemi nefndanna má finna á heimasíðu Háskóla Íslands

Áhugasöm eru beðin um að senda póst á shi@hi.is fyrir kl. 23:59 þann 20. ágúst næstkomandi. Umsókn skal fylgja ferilskrá og stutt kynning á umsækjanda, lýsing á áhuga hans á tilteknu nefndarstarfi og reynslu sem hann telur að komi að gagni í nefndinni.

Stúdentar ganga með Q-félaginu í Gleðigöngunni 2023

Q – félag hinsegin stúdenta býður öllum stúdentum að ganga með sér í Gleðigöngunni þann 12. ágúst 2023.

Þemað hjá Q-félaginu í göngunni í ár er skjaldborg hinsegin stúdenta, en það táknar stuðning bandamanna við hinsegin fólk. Við hvetjum öll áhugasöm til að skrá sig og ganga með okkur. Öll sem ætla að ganga þurfa að skrá sig í þetta skráningarskjal hér: https://forms.gle/cNQxJa7itMWcabAM8

 

Ráðning samskiptafulltrúa Októberfest

Skarphéðinn Finnbogason hefur verið ráðinn samskiptafulltrúi Októberfest SHÍ 2023.

Skarphéðinn er reynslubolti þegar kemur að skipulagi stórra viðburða en hanne sinnti hlutverkinu í fyrra. Hann hefur brennandi áhuga á bæði markaðsstörfum og viðburðastjórnun og hefur komið að skipulagningu og uppsetningu fjölda stórra viðburða. Þá hefur hann einnig reynslu af hugmyndavinnu og markaðssetningu á samfélagsmiðlum. Við óskum honum til hamingju með starfið og hlökkum til samstarfsins!

Vilt þú vinna við Stúdentablaðið?

Stúdentablaðið leitar að öflugum pennum og öðrum sem vilja taka þátt í að ritstýra, skrifa greinar, þýða, prófarkalesa og taka ljósmyndir fyrir blaðið á komandi skólaári.

Í Stúdentablaðinu er að finna greinar og viðtöl um allt milli himins og jarðar sem varðar málefni stúdenta. Blaðið kemur út fjórum sinnum á árinu, þ.e. tvisvar á önn. Áhersla er lögð á fjölbreytt efnisval, réttindabaráttu stúdenta og aðkomu þeirra að gerð blaðsins og því er mikilvægt að sem breiðastur hópur blaðamanna og ritstjórnarmeðlima komi að blaðinu. Vinna við Stúdentablaðið er dýrmætt tækifæri til að öðlast reynslu af gerð blaða og getur komið sér mjög vel við atvinnuleit í framtíðinni. Athugið að um sjálfboðastarf er að ræða.

 

Stúdentablaðið leitar að fólki í eftirfarandi hlutverk:

 1. Ritstjórn – Meðlimir ritstjórnar Stúdentablaðsins funda vikulega, móta stefnu blaðsins ásamt ritstjóra og skrifa greinar í blaðið.
 2. Blaðamenn – Blaðamenn Stúdentablaðsins funda tvisvar á misseri og skrifa greinar í blaðið, bæði eftir eigin höfði og eftir óskum frá ritstjórn.
 3. Þýðendur – Þýðendur Stúdentablaðsins þurfa að hafa mjög gott vald á bæði íslensku og ensku. Stefna Stúdentablaðsins er að þýða allt efni sem gefið er út á vegum blaðsins og því leitum við að öflugu teymi þýðenda.
 4. Prófarkalesarar – Prófarkalesarar Stúdentablaðsins þurfa að hafa mjög gott vald á íslenskri tungu og geta lesið greinar yfir með tilliti til málfars, uppsetningar og stafsetningar.
 5. Ljósmyndarar – Ljósmyndarar taka myndir sem birtast með greinum í blaðinu og á vefsíðu þess. Viðkomandi þarf að vera sveigjanlegur og þarf að hafa aðgang að góðri myndavél.

 

Stúdentablaðið er málgagn allra stúdenta við HÍ og nemendur úr öllum deildum skólans eru hvattir til að sækja um. Áhugasöm eru hvött til að senda póst fyrir 15. ágúst næstkomandi á netfang Stúdentablaðsins, studentabladid@hi.is.

Vinsamlegast látið kynningarbréf og sýnishorn af fyrri skrifum fylgja með umsókninni ef um starf blaðamanns er að ræða.