Stúdentaráð Háskóla Íslands og Hugrún geðfræðslufélag efna til átaks vikuna 22.-26. febrúar með það að markmiði að miðla fræðsluefni og bjargráðum til stúdenta. Ljóst er að samfélagsástandið hefur verið þeim einstaklega erfitt viðureignar, námserfiðleikar kunna að hafa aukast og geðheilsa stúdenta tekið skell.
Niðurstöður könnunar Stúdentaráðs frá 9. – 16. október voru til marks um að 67% stúdenta líði ekki vel í aðstæðum sökum faraldursins og 72% þeirra voru að upplifa mikið álag sem þau töldu að hefði áhrif á námsframvindu. Þessar niðurstöður komu því miður ekki mikið á óvart þar sem niðurstöður fyrstu könnunar ráðsins frá 22. mars sýndu að 54% íslenskra nema töldu sig upplifa mikla streitu og sömuleiðis 42% alþjóðlegra nema, og sögðu 53.1% að það kæmi til með að hafa áhrif á námsframvindu.
Það er vegna þessa sem Hugrún og Stúdentaráð hafa tekið höndum saman, til að styðja við stúdenta, hlusta og aðstoða. Viljum við að stúdentar séu meðvitaðir um þá fræðslu sem Hugrún stendur fyrir og sömuleiðis að ávallt sé hægt að hafa samband við okkur.