Auglýst í stöðu framkvæmdastjóra Stúdentaráðs

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir í stöðu framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri tekur þátt í að vinna að skilvirkum og góðum starfsháttum á skrifstofu Stúdentaráðs. Hann gætir fjármuna og eigna Stúdentaráðs, vinnur að hagkvæmni í fjárútlátum og heldur upplýsingaflæði milli skrifstofu og Stúdentaráðs.

Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, umsjón með rekstri skrifstofunnar, þar með talið tímaskráningum starfsfólks hennar og greiðslu launa. Hann sér um samningsgerðir á vegum Stúdentaráðs og eftirfylgni þeirra, sér um auglýsingasöfnun í útgefið efni Stúdentaráðs ásamt því að rita fundargerðir Stúdentaráðs og stjórnar Stúdentaráðs. Auk þess tekur framkvæmdastjóri þátt í daglegum störfum skrifstofunnar í samráði við forseta.

Hæfniskröfur:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu.
  • Þekking og reynsla á fjármálum og bókhaldi.
  • Vilji og geta til þess að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku er skilyrði.
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt.
  • Menntun sem nýtist í starfi er kostur.
  • Þekking á bókhaldshugbúnaði er kostur.
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur.
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur.
  • Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi.

 

Framkvæmdastjóri er ráðinn í 40-50% starf út starfsár Stúdentaráðs, eða til 31. maí 2023, með möguleika á framlengingu. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá Vöku Lind Birkisdóttur, núverandi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs, á netfangið shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og meðmælum skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: forsetishi@hi.is  merkt „Framkvæmdastjóri SHÍ“.

Umsóknarfrestur er til og með 5. júní 2022. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.

 

Viljayfirlýsing Stúdentaráðs, Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta um stúdentagarð í Stapa

Stúdentaráð Háskóla Íslands, Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta undirrituðu í gær, 16. maí, viljayfirlýsingu vegna byggingarinnar Stapa við Hringbraut 31. Viljayfirlýsingin snýr að því að þegar núverandi starfsemi Háskóla Íslands í Stapa flytur í nýtt húsnæði  Heilbrigðisvísindasviðs á Landspítalasvæðinu verði Stapi seldur Félagsstofnun stúdenta og breytt í stúdentagarð og falli þar með að Gamla Garði og nýrri viðbyggingu hans. Stúdentaráð hefur lengi haft þetta á stefnu sinni.

Stapi, sem upphaflega bar nafnið Stúdentaheimilið, var byggður af Félagsstofnun stúdenta árið 1971 og seldur Háskóla Íslands við byggingu Háskólatorgs árið 2007. Stapi hýsti lengi vel Ferðaskrifstofu stúdenta, Bóksölu stúdenta og síðar Stúdentakjallarann á vegum Félagsstofnunar. Undanfarinn rúman áratug hefur námsbraut í sjúkraþjálfun haft aðstöðu í Stapa.

Stúdentaráð telur þetta vera heillaskref fyrir háskólasamfélagið og mikilvægan áfanga í fjölgun stúdentaíbúða nærri og á svæði Háskóla Íslands.

 

Mynd eftir Kristinn Ingvarsson

Skiptafundur Stúdentaráðs 18. maí 2022

Miðvikudaginn 18. maí fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í N-132.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerð Stúdentaráðsfundar 13. apríl borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:20
  4. Ársskýrsla Stúdentaráðs 2021-2022 17:20-17:40
  5. Nýtt Stúdentaráð 2022-2023 tekur við 17:40-17:45
  6. Fundargerð kjörfundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:45-17:50
  7. Praktísk atriði til nýrra Stúdentaráðsliða 17:50-18:10
  8. Fundarhlé 18:10-18:20
  9. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:25
  10. Tímalínur stórra mála 18:25-19:00
  11. Almennar fyrirspurnir nýrra Stúdentaráðsliða 19:00-19:10
  12. Önnur mál 19:10-19:20
  13. Fundi slitið 19:20

Viljayfirlýsing Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta vegna íbúðarhúsnæðis fyrir stúdenta

Í gær skrifuðu Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir stúdenta í Reykjavík á næstu árum.

Viljayfirlýsingin er fyrir allt að 239 íbúðir á fjórum þróunarlóðum sem eru Skerjafjörður II, Vesturbugt, Miklubrautarstokkur og U-reitur (BSÍ), ásamt lóðavilyrði við Vatnsstíg. Reykjavíkurborg hefur þegar veitt vilyrði fyrir allt að 110 íbúðum í Skerjafirði I og því eru alls vilyrði og viljayfirlýsing fyrir allt að 361 íbúð. Stúdentaráð fagnar viljayfirlýsingunni og þakkar fyrir það góða samstarf sem það á við Reykjavíkurborg og Félagsstofnun stúdenta.

Skerjafjörðurinn er mikilvæg staðsetning fyrir stúdenta en þar áætlar Félagsstofnun að byggja húsnæði undir fjölskylduíbúðir. Nú þegar eru slíkar íbúðir á háskólasvæðinu og í Fossvoginum, en fjölgun þeirra mun án efa verða til þess að fleiri foreldrum í námi og börnum þeirra geti búið við húsnæðisöryggi. Ekki eru áætlanir um byggingu nýs húsnæðis inni á sjálfu háskólasvæðinu og því er með þessu móti verið að tryggja íbúðir fyrir stúdenta í grennd við háskólann og á sama tíma verið að stuðla að þéttari, samheldnari og sjálfbærari byggð. Nauðsynlegt er að uppbygging nýs hverfis í Skerjafirði sé áfram á áætlun og tafir séu litlar sem engar.

Það eru grundvallarréttindi fólks að eiga þak yfir höfuðið og er það jafnframt lykilatriði í að tryggja jafnt og hindranalaust aðgengi að menntun. Uppbygging stúdentaíbúða verður að eiga sér stað jafnt og þétt þannig að hægt sé að halda í við eftirspurnina og koma í veg fyrir húsnæðisskort til framtíðar. Á það sérstaklega við núna þegar skipulags- og samgöngumál eru í forgrunni hjá borgaryfirvöldum og háskólayfirvöldum.

Stúdentaráð hefur í þessu samhengi einnig farið fram á viljayfirlýsingu milli Félagsstofnunar stúdenta, Stúdentaráðs og Háskóla Íslands þess efnis að Stapi verði nýttur undir stúdentaíbúðir þegar starfsemin sem þar er flyst í annars vegar Sögu og hins vegar í nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs. Stúdentaráð telur bæði viljayfirlýsinguna og Stapa vera skref í átt að því heildstæðara háskólasamfélagi sem stúdentar leggja áherslu á.

Háskólasamfélagið í Vatnsmýrinni: Málefni stúdenta í borgarstjórnarkosningum

Fyrir komandi kosningar til borgarstjórnar, í ljósi staðstetningu Háskóla Íslands, leggur Stúdentaráð einna helst áherslu á húsnæðismál, samgöngumál og skipulagsmál. Þó mun pallborð Stúdentaráðs þann 4. maí næstkomandi taka mið af fleiri samfélagslegum þáttum og hagsmunamálum sem snúa m.a. að fjölskyldumálum, jafnréttismálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum og atvinnumálum. Það er sameiginlegt hagsmunamál allra hlutaðeigandi að skapa gott og öflugt samfélag á háskólasvæðinu með það að markmiði að auka lífsgæði fólks. Háskólasvæðið á að vera sjálfbært og þannig einkennast af tryggum grunnþjónustukjarna, grænum tengingum, stúdentagörðum og aukinni vellíðan.

Húsnæðismál

Húsnæðismálin eru einn stærsti málaflokkur í hagsmunabaráttu stúdenta enda er húsnæðisöryggi meðan á námi stendur grundvallaratriði. Uppbyggingin háskólasvæðisins er þegar í góðum farveg og miðar að þéttara skipulagi með áherslu á sameiningu háskólastarfseminnar, aukið húsnæði og framboð á þjónustu og grænar samgöngur. Vegna þessa var ákveðið að ráða inn verkefnastjóra til að afla upplýsinga og gagna um réttindi stúdenta á húsnæðismarkaði. 

Því var gert skil í útgefinni skýrslu.

Inntök skýrslunnar eru greining og samanburður á almenna leigumarkaðinum og stúdentagörðum, greining á húsnæðisbyrði stúdenta og rétt þeirra til opinbers húsnæðisstuðnings á vegum bæði ríkisins og sveitarfélaga með hliðsjón af viðbótarláni Menntasjóðs námsmanna vegna húsnæðiskostnaðar. Í skýrslunni fylgja einnig tillögur að úrbótum í málaflokknum sem Stúdentaráð fer fram á að teknar séu til skoðunar, en þær eru eftirfarandi eftir köflum:

  • Stúdentagarðar
    • Fleiri lóðir undir stúdentagarða
    • Stapi við Hringbraut verði gerður að stúdentagörðum
    • Fleiri sveitarfélög komi að uppbyggingu stúdentagarða
  • Húsnæðisbætur
    • Undanþágur fyrir stúdenta á reglum um almennar húsnæðisbætur gildi óháð því hvort leigt sé á stúdentagörðum eða á almennum leigumarkaði.
    • Reglur um sérstakar húsnæðisbætur séu samhæfðar milli sveitarfélaga.
    • Undanþága á sérstökum húsnæðisstuðningi fyrir námsmenn vegna staðsetningu húsnæðis eigi ekki aðeins við um námsmenn undir 18 ára.
  • Menntasjóður námsmanna
    • Viðbótarlán vegna húsnæðis hækki að lágmarki í takt við vísitölu leiguverðs.
    • Viðbótarlán vegna húsnæðis taki mið af leigu á almennum markaði.
    • Hækkun grunnframfærslu til að húsnæðiskostnaður sé ekki íþyngjandi.
    • Fallið verði frá kröfu um þinglýsingu leigusamninga.

Skipulagsmál

Stúdentaráð hefur lagt ríka áherslu á að stefnan skuli vera sett á að byggja upp kjarna með allri grunnþjónustu í Vatnsmýrinni sem skuli þjónusta stúdenta, starfsfólk og nærliggjandi svæði. Með þjónustukjarna er átt við lágvöruverðsverslun, heilsugæslu, apótek og annars konar tilfallandi þjónustu sem stuðlar að sjálfbærra samfélagi. Stúdentar, Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta ásamt samstarfsaðilum utan skólans á borð við Reykjavíkurborg verða að taka höndum saman þannig að þessi framtíðarsýn geti orðið að veruleika. 

Nú þegar eru áform um lágvöruverðsverslun á háskólasvæðið komnar langt á leið. Upphafleg áform voru að fá inn verslun í Grósku sem því  miður gekk ekki eftir og því tóku Stúdentaráð og Félagsstofnun stúdenta höndum saman og könnuðu bæði rými á stúdentagarðasvæðinu og í kring. Vinna fór af stað af krafti sumarið 2021 og var hugmynd um stækkun verslunarrýmis að Eggertsgötu 24 farsælust, en þar er þegar lítil verslun. Áætlað að framkvæmdir geti hafist seinni hluta ársins 2022 og er ánægjulegt að báðir aðilar hafa hlotið stuðning Háskóla Íslands í þessum efnum. Um er að ræða stóran liður í þróun og uppbyggingu svæðisins, sem rímar vel við áherslur stúdentahreyfingarinnar og stefnu Háskólans varðandi heildstæða sýn á skipulag háskólasvæðisins.

Stúdentaráð ályktaði einnig um þörf á sérstakri heilbrigðismóttöku eða heilsugæslu fyrir háskólanemendur árið 2020. Til stuðnings vísaði ráðið í rannsókn frá árinu 2011 unnin innan Heilbrigðisvísindasviðs við Háskóla Íslands, sem gaf til kynna að stúdentar hefðu mikla þörf fyrir þjónustu sem þessari. Meirihluti svarenda sagðist bíða með að leita eftir heilbrigðisþjónustu helst vegna kostnaðar og einnig sögðust þeir viljugri til að leita á móttöku þar sem þjónustan væri veitt af stúdentum undir handleiðslu. Þess má geta að ýmis geðheilbrigðisúrræði í Háskóla Íslands eru einmitt af þeim toga, t.a.m. sálfræðiráðgjöf sálfræðinema og tilvonandi félagsráðgjöf félagsráðgjafarnema.

Stúdentaráð heldur þessum áherslum að sjálfsögðu til streitu og hefur ályktað um málið að nýju, í tilefni sveitarstjórnarkosninga. Óskar ráðið eftir því að fá viðbrögð frambjóðenda við að sérstakri heilbrigðismóttöku fyrir háskólanema sé komið fyrir á háskólasvæðinu sem og hvernig flokkarnir gætu haft aðkomu að þeirra framkvæmd.  Ályktunin sendist einnig á háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, þar sem ríkisstjórnarskipti hafa orðið frá því að ráðið ályktaði um málið fyrst. Þá hefur ályktunin einnig verið send á rektor Háskóla Íslands.

Samgöngumál

Í fyrirhuguðu skipulagi Borgarlínu er gert ráð fyrir að hún nái inn í Vatnsmýrina og að við Háskóla Íslands séu biðstöðvar. Með tilkomu hennar stækkar svæðið sem nýtt getur verið undir starfsemi háskólans, fleiri stúdentaíbúðir og annars konar þjónustu, sem teygist jafnvel út í nágrannasveitafélög Reykjavíkur. Skipulag, þjónusta og samgöngur til og frá Vatnsmýrinni hljóta að spila lykilhlutverk í framtíð höfuðborgarsvæðisins þar sem háskólasvæðið er og verður þungamiðja stofnleiða. Það er mikilvægt að almenningssamgöngur og vistvænir samgöngukostir séu efldir þannig að það sé raunhæft fyrir fólk að ferðast með umhverfisvænum hætti og á skilvirkan máta án óþarfa kostnaðar fyrir umhverfið.

Í þessu samhengi leggur Stúdentaráð áherslu á að stúdentum og starfsfólki Háskóla Íslands sé tryggt samgöngukort á hagstæðu verði, líkt og Stúdentaráð hefur þegar talað um sem U-passa og Háskólinn tekið mið af. Um er að ræða passa að fyrirmynd U-pass sem þekkist erlendis og veitir aðgang að fjölmörgum samgöngukostum. Eins og nafnið gefur til kynna er markmiðið að draga úr  bílaumferð og efla umhverfisvænni ferðamáta, sem er brýn nauðsyn vegna þess að fyrirséð er að mikill vöxtur verði í umferð í Vatnsmýrinni ef ekki er gripið til sameiginlegra aðgerða þeirra hagaðila sem koma að Vatnsmýrinni og samliggjandi svæði. Áform eru um gjaldskyldu á lóðir Háskóla Íslands til að sporna gegn vexti í umferð og stuðla að breyttum ferðavenjum. Það er fagnaðarefni að Háskóli Íslands hætti að borga undir óumhverfisvæna fararmáta og byrji að greiða með umhverfisvænum samgöngum í staðinn. Því hefur Stúdentaráð farið fram á að framtíð samgöngu- og bílastæðamála á Vatnsmýrarsvæðinu að vera til umfjöllunar og greiningar áfram. 

Strætó er hlutaðeigandi að breyttum ferðavenjum og er þjónustufyrirtæki í eigu almennings sem að eigin sögn byggir á áreiðanleika. Þjónustan er sérstaklega mikilvæg fyrir ungt fólk á grundvelli umhverfis-, öryggis-, menningar- og jafnréttissjónarmiða. Með tilliti til ofangreinds er undirstrikuð krafa Stúdentaráðs um að þjónusta næturstrætó sé komið á fót aftur og að sveitarfélög grípi inn í þær aðstæður sem hafa orðið, en það er t.a.m. skýr stefna borgaryfirvalda Reykjavíkur að draga úr bílaumferð vegna yfirvofandi loftslagshamfara. Stúdentaráð gat skilið að rekstrargrundvöllurinn fyrir þjónustunni væri erfiður m.a. vegna áhrifa faraldursins, en þykir virkilega leitt að þjónustan skuli vera skert enn frekar. Þjónustuna þarf aftur á móti að efla þannig að hún nýtist sem best og sem breiðasta hóp íbúa höfuðborgarsvæðisins og þar með sé einnig stuðlað að umhverfisvænni borg.

Fleiri samgöngumátar verða að fylgja breytingum á háskólasvæðinu og ber þar helst að nefna  örfræðilausnir, einna helst í ljósi þess að framþróun á svæðinu kallar á fleiri græn svæði og færri bílastæði auk tilheyrandi bílastæðagjalda. Yfirbyggð hjólaskýli og góð aðstaða fyrir þau sem kjósa að ferðast milli staða hjólandi eða gangandi verður að vera til staðar í húsakynnum skólans, ásamt deilihjóla og rafhlaupahjólalausnum.