Stúdentaráð hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi, en um árabil hefur ráðið efast um að þær forsendur sem liggja að baki skrásetningargjaldinu í dag standist lög um opinbera háskóla.
Í kjölfar meðferðar málsins innan háskólaráðs hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema nú komist að þeirri niðurstöðu að HÍ fór ekki rétt að við útreikninga á skrásetningargjaldi. Nefndin telur að háskólaráði hafi borið skylda til að afla nákvæmra upplýsinga og útreikninga sem liggja að baki gjaldinu og staðfestir því úrskurðurinn þann grun Stúdentaráðs um að gjaldið sé ekki eingöngu skrásetningargjald í fyllstu merkingu orðsins heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld.
Skrásetningargjald við HÍ er 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn raunverulega nýtir sér af þeim kostnaðarliðum sem að baki gjaldinu búa en þjónustugjöld, líkt og skrásetningargjöld í opinbera háskóla eru, má aðeins innheimta fyrir þá þjónustu sem hið opinbera raunverulega veitir þeim sem greiðir gjaldið og skal það gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Samkvæmt niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar lagði háskólaráð ekki réttar forsendur til grundvallar gjaldinu og byggði þannig ekki á þeim kostnaði sem raunverulega hlýst af því að veita þjónustuna sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Með því að gera það ekki hafi ráðið ekki sinnt skyldum sínum skv. skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Að mati Stúdentaráðs býður úrskurðurinn upp á stærri umræðu um gjaldið, t.a.m. hvernig það er áætlað, upphæð þess og hvaða þjónusta fellur undir það en skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur jafnframt úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Í opinberum háskólum á öðrum Norðurlöndum tíðkast almennt ekki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld og telur Stúdentaráð að Háskóli Íslands eigi ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins og að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi.
Stúdentaráð fagnar því að áfrýjunarnefndin haldi háskólaráði við efnið, líkt og Stúdentaráð hefur lagt upp með að gera sl. þrjú ár þegar kemur að skrásetningargjaldinu. Í kjölfar þessa úrskurðar mun málið fara aftur á borð háskólaráðs og mun SHÍ fylgja málinu eftir til þess að tryggja hagsmuni stúdenta og þrýsta á að háskólakerfið hérlendis standist samanburð við norðurlöndin þar sem opinber háskólamenntun er gjaldfrjáls.