Ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda er skipaður til eins árs og mun þurfa sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Sömuleiðis situr ungmennafulltrúinn í sendinefnd LUF hjá SÞ auk þess að eiga sæti í alþjóðaráði LUF.
Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda.
Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Sambandsþing LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna þann 24. febrúar nk.
Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
- Ert á aldrinum 18-25 ára
- Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
- Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
- Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
- Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
- Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
- Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til eins árs með virkri þátttöku í starfi LUF
- Hefur íslenskt ríkisfang auk fastrar búsetu á Íslandi að jafnaði
Þá er búist við að ungmennafulltrúar á vegum LUF sæki Leiðtogaskóla Íslands og taki virkan þátt í starfi LUF auk Félags Sameinuðu þjóðanna.
Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsókn telst ekki uppfylla þau skilyrði verður henni vísað frá. Frestur er til og með 6. febrúar.