Sögulegt samstarf SHÍ og Visku

Ný staða kjara- og réttindafulltrúa háskólanema verður sett á laggirnar sem hluti af samstarfssamningi sem Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) og Viska hafa gert með sér. Er þetta í fyrsta sinn sem slík þjónusta verður í boði fyrir háskólanema hér á landi. Þetta eru ekki aðeins tímamót í þjónustu SHÍ við háskólanema heldur einnig ný skref í þjónustuframboði íslensks stéttarfélags.

Arent Orri J. Claessen, forseti SHÍ og Gauti Skúlason, verkefnastjóri samskipta og markaðsmála hjá Visku undirrituðu samninginn á Háskólatorgi á dögunum. Kjara- og réttindafulltrúinn mun veita þjónustu og ráðgjöf auk þess að vinna að því að efla vitund háskólanema um sín réttindi á vinnumarkaði.

„Við hjá SHÍ erum ótrúlega stolt af því að geta nú boðið nemendum í HÍ upp á kjara- og réttindatengda þjónustu og teljum stöðuna löngu tímabæra. Slíkt hefur aldrei verið gert áður hér á landi og því er þetta sögulegur áfangi í þjónustu við nemendur. Næsta skref er að auglýsa stöðu kjara- og réttindafulltrúa háskólanema við skrifstofu SHÍ og í framhaldinu hefst þessi nýja þjónusta fyrir nemendur við HÍ. Við hjá SHÍ erum ánægð með samstarfið við Visku og hlökkum mikið til framhaldsins,“ segir Arent Orri.

Við Visku stofnun Visku var komið á fót sérstakri námsmannaþjónustu fyrir háskólanema. Þjónustan virkar þannig að háskólanemar sem skrá sig í Visku fá aðgengi að allri þjónustu Visku og fría snjalltryggingu fyrir tölvu, síma og hjól.

„Staða kjara- og réttindafulltrúa háskólanema er að norrænni fyrirmynd þar sem hún hefur sannað mikilvægi sitt. Í samtölum okkar við háskólanema höfum við fundið fyrir því að eftirspurn eftir fræðslu um kjara- og réttindamál hjá ungu fólki er mikil og við viljum svara því kalli. Með því að koma stöðunni á laggirnar viljum við leggja ríka áherslu á styðja við ungt fólk sem er að afla sér þekkingar og háskólamenntunar, enda gríðarlega mikilvægur hópur fyrir framtíðina. Þannig sýnum við í verki að háskólanemar skipta máli,” segir Gauti.

5. fundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands heldur fund þriðjudaginn 12. nóvember 2024 kl. 16:30 í stofu HT-102, Háskólatorgi. Fundir Stúdentaráðs eru opnir öllum stúdentum Háskóla Íslands og eru áhugasamir hvattir til að mæta og fylgjast með starfsemi ráðsins.

Dagskrá fundarins inniheldur mikilvægar tillögur og kynningar á framkvæmdaráætlunum, ásamt umræðu um ýmis mál sem snúa að stúdentalífi við skólann. Áhugasamir geta haft samband við skrifstofu Stúdentaráðs ef frekari upplýsingum er óskað.

Dagskrá:

I. Fundur settur 17:00 – 17:05
II. Fundargerð fundar þann 26. september 2024 borin upp til samþykktar 17:05 – 17:10
III. Yfirferð á málum sem hafa verið á döfinni 17:10 – 17:20
IV. Tillaga um að skrifstofa Stúdentaráðs setji sér umhverfisstefnu 17:20 – 17:30
V. Tillaga um skilvirkara bókunarkerfi á stofum Háskóla Íslands 17:30 – 17:40
VI. Tillaga um athugasemd í samráðsgátt varðandi breytingar á lögum um opinbera háskóla 17:40 – 17:50
VII. Framkvæmdaáætlun alþjóðanefndar kynnt 17:50 – 18:00
VIII. Fundarhlé 18:00 – 18:10
IX. Framkvæmdaáætlun umhverfis- og samgöngunefndar kynnt 18:10 – 18:20
X. Framkvæmdaáætlun lagabreytinganefndar kynnt 18:20 – 18:30
XI. Framkvæmdaáætlun nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar kynnt 18:30 – 18:40
XII. Tillaga um aukningu tíðarvara í byggingum VR-II, Tæknigarði og Öskju 18:40 – 18:50
XIII. Tillaga um að inntökupróf í heilbrigðisgreinum verði víðar en í Reykjavík 18:50 – 19:00
XIV. Tillaga um árlegt fjárframlag til SHÍ nefnda til að efla félagslíf 19:00 – 19:10
XV. Bókfærð mál og tilkynningar 19:10 – 19:15
XVI. Önnur mál 19:15 – 19:20