Íþróttaskólinn vorið 2025

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur!

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur laugardaginn 8. febrúar 2025. 

Íþróttaskóli Stúdentaráðs Vorönn 2025

Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur íþróttaskóla fyrir börn stúdenta fædd á árunum 2020-2024. Tímarnir fara fram í íþróttahúsi háskólans við Sæmundargötu á laugardagsmorgnum og er hver tími 40 mínútur. Fyrsti tíminn verður þann 8. febrúar og er gert ráð fyrir 8 tímum í heildina. Börnunum er skipt í tvo hópa eftir aldri og eru ekki fleiri en 20 börn í hverjum hópi. Yngri hópurinn (f. 2023, 2024) er kl. 8:45 – 9:25 en eldri hópurinn (f. 2020-2022) er kl. 9:30 – 10:10. Það verður létt hressing í boði eftir hvern tíma. *Ath að aðeins skráð börn mega taka þátt.

Smelltu hér til að skrá barn í Íþróttaskóla SHÍ vorönn 2024

Markmið íþróttaskólans er að gefa börnum kost á hreyfinámi, efla hreyfiþroska og hreyfigetu barnanna. Bæta samhæfingu, sjálfstraust og vellíðan. Þrautabrautir skipa stærstan þátt í náminu og reynt að hafa æfingar sem fjölbreyttastar þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Unnið er bæði með fín- og grófhreyfingar. Félagsþroski, samvinna og það að taka tillit til annarra er mikilvægur þáttur í starfinu.

Verðið er 3.500 kr en veittur er 500 kr systkinaafsláttur. Heildarverð fyrir 2 systkin yrði því 6.500kr. Athugið að ef systkin eru í sitthvorum aldurshópnum er hægt að óska eftir því að fá að taka yngra systkinið með á æfingar eldri hópsins.

Foreldrar taka virkan þátt í tímum með því að aðstoða börnin sín. Þar með gefst þeim mikilvægt tækifæri að kynnast börnum sínum enn betur við aðrar aðstæður en venjulega. Greiðsluupplýsingar verða sendar fljótlega eftir skráningu. Skráningar eru staðfestar með tölvupósti. Skráningar verða afgreiddar í þeirri röð sem þær berast og ef plássin fyllast fara skráningar á biðlista. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við okkur í gegnum netfangið shi@hi.is

Karen Lind ráðin kjara- og réttindafulltrúi SHÍ

Í lok síðasta árs undirrituðu Stúdentaráð Háskóla Íslands  og Viska – stéttarfélag samstarfssamning. Hluti af samningnum fól í sér ráðningu kjara- og réttindafulltrúa við skrifstofu SHÍ. Gengið var frá ráðningu í byrjun janúar og var Karen Lind Skúladóttir ráðin í starfið.

Karen Lind er þriðja árs nemi í sálfræði við Háskóla Íslands ásamt því að vera forseti fjölskyldunefndar SHÍ. Hún mun, ásamt skrifstofu Visku, veita nemum Háskóla Íslands þjónustu og ráðgjöf um málefni tengd kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði. Jafnframt mun hún vinna með fulltrúum Visku að því að efla vitund háskólanema um réttindi þeirra á vinnumarkaði.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir verkefninu fram undan. Það er gífurlega mikilvægt að ungt fólk, sem er að hefja sinn starfsferil, hafi aðgang að þjónustu sem tengist kjörum og réttindum. Samstarf SHÍ og Visku gerir það nú að veruleika. Þó að verkefni af þessu tagi eigi sér fyrirmynd á Norðurlöndum þá er það nýjung hér á landi og ég hlakka til að móta það í samstarfi við Visku. Það er alveg ljóst að þessi þjónusta er komin til að vera fyrir háskólanema og næstu dagar munu fara í að kynna þjónustuna fyrir nemendum HÍ með það að markmiði að sem flestir nýti sér hana,“ segir Karen Lind.

Háskólanemar, sem óska eftir þjónustu vegna kjara- og réttindatengdra mála á vinnumarkaði, geta haft samband við Karen Lind í gegnum netfangið kjarafulltruishi@hi.is. Samhliða kynningu á þjónustunni verður sett á laggirnar vefsíða með efni sem er sérsniðið að þörfum ungs fólks á vinnumarkaði.

„Það er frábært að fá Karen Lind til liðs við okkur í því að fræða háskólanema um kjör og réttindi þeirra á vinnumarkaði. Fyrir okkur hjá Visku er það lykilatriði að fræðslan fari fram á forsendum háskólanema sjálfra og samstarf okkar við SHÍ ásamt ráðningu Karenar, sem er sjálf háskólanemi, tryggir það. Ég hlakka mikið til að fylgjast með þróun verkefnisins og vona að það falli vel í kramið hjá nemendum HÍ. Samstarf okkar við stúdentahreyfinguna á Íslandi heldur áfram með það að markmiði að efla vitund háskólanema um kjör og réttindi á vinnumarkaði,“ segir Gauti Skúlason, verkefnastjóri samskipta- og markaðsmála hjá Visku.

Miðasala á Árshátíð SHÍ

Árshátíð SHÍ verður haldin hátíðleg þann 21. febrúar 2025 að Hlíðarenda og þemað er Frumsýning. Húsið opnar kl. 18:00 og hefst borðhald kl. 18:30. Ballið byrjar svo kl. 21:30 og lýkur kl. 01:00.
Miðasala á ballið fer fram í Aur-appinu og kostar miðinn 6.990 kr. Til þess að miðasalan birtist í Aur-appinu þurfa stúdentar að vera með rafrænt nemendaskírteini. Sótt er um það hér: Rafræn nemendaskírteini | Stúdentaráð Háskóla Íslands
Ath! Mjög takmarkaður miðafjöldi er í borðhald og úthlutun miða í borðhald fer í gegnum nemendafélögin. Þegar skráning í borðhald fer í gegn birtist miðasala í borðhald einnig í Aur-appinu. Verð í borðhald og ball er 9.990 kr.

Algengar spurningar

Af hverju finn ég miðasöluna ekki í Aur-appinu?
Miðasalan birtist í Klinkinu í Aur-appinu. Til þess að miðasalan birtist þarftu að vera með rafrænt nemendaskírteini. Þú getur sótt um það hér: Rafræn nemendaskírteini | Stúdentaráð Háskóla Íslands – Ath. það gæti tekið einhvern tíma fyrir kortið að koma inn í Aur.
Hvað kostar á árshátíðina?
Miðaverð á ballið er 6.990 kr. Miði í borðhald og ball kostar 9.990 kr.
Get ég keypt miða bara í borðhaldið?
Nei, því miður. Við erum að gera okkar besta til að halda miðaverði lágu og það gefur því miður ekki svigrúm til að kaupa bara miða í borðhald.
Ég keypti miða en kemst ekki – get ég fengið endurgreitt?
Það er því miður ekki hægt að fá endurgreitt en þú getur áframsent miðann þinn á hvern sem er í gegnum Aur-appið.
Ég sótti um rafrænt nemendaskírteini en sé það ekki í Aur-appinu – Hvað get ég gert?
Það gæti tekið tvo til þrjá daga fyrir nemendaskírteinið að birtast. Ef lengri tími er liðinn geturðu prófað að sækja aftur um skírteinið. Mikilvægt er að passa að allar upplýsingar séu réttar, t.d. kennitala og HÍ-netfangið.

Fundarboð – 6. fundur Stúdentaráðs

Fundarboð – 6. fundur Stúdentaráðs

Þriðjudaginn 21. janúar 2025 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu N-132, Öskju.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þeir verða auglýstir meðal stúdenta, og öllum áhugasömum er velkomið að mæta.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs í síma 570-0850 eða með tölvupósti á shi@hi.is ef þið hafið spurningar um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá:

  1. Fundur settur
    17:00
  2. Yfirferð á málum sem hafa verið á döfinni
    Heimsókn frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor
    17:00–17:10
  3. Fundargerð fundar þann 12. nóvember 2024 borin upp til samþykktar
    17:10–17:15
  4. Kynning á nýjum kjarafulltrúa SHÍ
    17:15–17:30
  5. Tillaga um aðild Stúdentaráðs að Festu, miðstöð um sjálfbærni
    Flutningsmaður: Arent Orri J. Claessen
    17:30–17:40
  6. Fundarhlé
    17:40–17:50
  7. Tillaga um hreiður á háskólasvæðinu
    Flutningsmaður: Katla Ólafsdóttir, oddviti Röskvu og stúdentaráðsliði
    17:50–18:00
  8. Tillaga að ályktun um kröfu um stórbættra fjarnámskosta
    Flutningsmaður: Gunnar Ásgrímsson, forseti sviðsráðs Menntavísindasviðs
    18:00–18:10
  9. Lagabreytingartillaga lagaráðs
    Flutningsmaður: Arent Orri J. Claessen
    18:10–18:40
  10. Bókfærð mál og tilkynningar
    • Staðfesting á kjöri Diljá Valsdóttur í sviðsráð Hugvísindasviðs
    • Staðfesting á nýjum áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd: Dagmar Ísleifsdóttir
    • Staðfesting á tilnefningum Röskvu og Vöku í kjörstjórn
      18:40–18:50
  11. Önnur mál
    18:50–19:00