Kyrrstaða rofin í geðheilbrigðismálum stúdenta

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar þeirri ákvörðun að fjórði sálfræðingurinn hafi verið ráðinn til starfa við Náms- og starfsráðgjöf HÍ. Um er að ræða 50% stöðu sem Háskóli Íslands mun fjármagna miðlægt næstu þrjú árin.

Ákvörðunin kemur í kjölfar markvissrar hagsmunabaráttu SHÍ síðustu misseri í góðri samvinnu við geðheilbrigðisteymi skólans og Nemendaráðgjöf HÍ. Í mars stóð ráðið fyrir góðgerðaviku til að vekja athygli á stöðu sálfræðiþjónustunnar. Í apríl gaf ráðið út yfirlýsingu þar sem skorað var á háskólann að ráðast tafarlaust í úrbætur.

Þá hafa fylkingarnar tvær, Vaka og Röskva, verið á einu máli um að fjölga sálfræðingum við skólann.

Aðeins fyrsta skrefið

„Við höfum ítrekað bent á að þrír sálfræðingar í einu og hálfu stöðugildi dugi ekki fyrir skóla með nær 14.000 nemendur. Það er ánægjulegt að sjá að baráttan er að skila árangri,“ segir Valgerður Laufey Guðmundsdóttir, hagsmunafulltrúi SHÍ.

Frá Nemendaráðgjöf HÍ kemur að unnið hafi verið að málinu í samráði við SHÍ og að staðan hafi verið samþykkt strax á öðrum degi Silju Báru Ómarsdóttur sem rektors. Nýr sálfræðingur tekur til starfa í ágúst.

Ráðið fagnar þessum áfanga, en minnir jafnframt á að þetta sé aðeins fyrsta skrefið. SHÍ mun áfram beita sér fyrir því að sálfræðingar verði ráðnir í 100% stöður og þjónustan efld til að mæta raunverulegri þörf nemenda.

Stúdentaráðsfundur 6. ágúst 2025

Miðvikudaginn 6. ágúst 2025 fer fram 2. fundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands á starfsárinu 2025–26.
Fundurinn hefst kl. 17:00 og fer fram í stofu N-132 í Öskju, Háskóla Íslands.
Fundarstjóri er Arent Orri Jónsson Claessen, forseti Stúdentaráðs, og fundarritari er Alda María Þórðardóttir, framkvæmdastjóri.

Dagskrá:

I. Fundargerð fyrri fundar borin upp til samþykktar

II. Tillaga að SHÍ biðli til háskólastjórnenda um að halda skrásetningargjaldi óbreyttu
Flutningsmaður: Halldóra Elín Einarsdóttir (Vaka)

III. Tillaga að mótvægisaðgerðum gegn gjaldskyldu bílastæða við HÍ
Flutningsmenn: Guðlaug Eva Albertsdóttir (Röskva), María Björk Stefánsdóttir (Röskva), Auður Halla Rögnvaldsdóttir og Katla Ólafsdóttir

IV. Tillaga um breytingu á lögum Stúdentasjóðs
Flutningsmaður: Kjartan Leifur Sigurðsson (Vaka)

V. Hlé

VI. Tillaga um að reistur verði Bryndísarbekkur á Októberfestreitnum
Flutningsmenn: María Björk Stefánsdóttir (Röskva) og Ármann Leifsson

VII. Tillaga að viljayfirlýsingu SHÍ um bensínstöðvarreitinn að Birkimel
Flutningsmaður: Arent Orri Jónsson Claessen

VIII. Tillaga um hækkun skrásetningargjalda
Flutningsmenn: María Björk Stefánsdóttir (Röskva), Magnús Hallsson (Röskva), Valeria Bulatova (Röskva)

IX. Bókfærð mál og tilkynningar


Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

Hægt er að hafa samband við skrifstofu SHÍ í síma 570-0850 eða á netfangið shi@hi.is.

Keyptu miða á forsöluverði á Októberfest!

🎉Októberfest SHÍ verður haldið hátíðlega 4.-6. september í Vatnsmýrinni🎉
🎟️ Forsala hefst er hafin, mjög takmarkað miðamagn í boði.
Tryggðu þér miða og bjórkort á langbesta dílnum á oktoberfestshi.is‼️
Listamenn verða tilkynntir síðar.
ATH! Allir stúdentar geta keypt stúdentapassa. 20 ára aldurstakmark er á hátíðina en stúdentar í HÍ geta þó keypt miða þó þeir nái ekki aldurstakmarki.

Hafið samband við okkur í síma 570-0850 eða í tölvupósti á shi@hi.is ef það koma upp einhver vandamál eða einhverjar spurningar.

See less