Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta

Í dag, þann 10. nóvember 2025, stendur til á Alþingi að kjósa um Húsaleigufrumvarpið. Með frumvarpinu mun leiguverð á stúdentagörðum hækka. Hvers vegna? Jú, af því að í frumvarpinu er gert óheimilt að hækka leiguverð á fyrstu 12 mánuðum leigu. Sú ákvörðun er góð í sjálfu sér, og fyrirsjáanleiki góður fyrir leigutaka á almennum leigumarkaði. En stúdentar eru ekki á almennum leigumarkaði heldur á stúdentagörðum, reknum af sjálfseignarstofnunum eins og Félagsstofnun stúdenta og Byggingafélag námsmanna, sem halda leiguverði í lágmarki. Tilgangur stúdentagarða er m.a. að tryggja námsmönnum heimili meðan þeir stunda nám, tryggja stúdentum af landsbyggðinni aðgengi að háskólanámi eða stúdentar sem eru að stofna fjölskyldu.

Í stað þess að geta tryggt lægsta leiguverð til stúdenta, sem nú er gert með vísitölutengingu, þyrftu FS og BN að reikna verðbólgu næstu 12 mánaða inn í samninginn strax. Leiga mun því hækka um það sem FS og BN þarf að gera ráð fyrir að verðbólga verði eftir 12 mánuði. Með öðrum orðum, stúdentar munu þurfa að borga meira í leigu en núna.

Fyrirsjáanleiki er góður, en á hvers kostnað er fyrirsjáanleikinn?

Stúdentar krefjast þess að þingheimur kjósi gegn þessari kjaraskerðingu stúdenta og námsmanna um allt land.

Arent Orri J. Claessen, forseti stúdentaráðs

Viktor Pétur Finnsson, lánasjóðsfulltrúi stúdentaráðs.

 

Greinin birtist fyrst á Vísi 10. nóvember 2025.

Skorum á HÍ að endurskoða ákvörðun um að taka ekki inn nýnema í starfstengt diplómanám!

Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar ákvörðun Háskóla Íslands um að taka ekki inn nýnema í starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun á næsta skólaári.
Ákvörðunin er að mestu leyti tekin vegna fjárskorts sem rekja má til vanfjármögnunar háskólastigsins af hálfu stjórnvalda. SHÍ harmar að vanfjármögnun þessi bitni hvað harðast á jaðarsettum hópi í samfélaginu með skertu aðgengi að námsleið ætluðum honum.
Námið hefur veitt stórum hópi fólks með þroskahömlun bæði verkfærin og tækifærið til að öðlast frekara sjálfstæði. Jákvæð áhrif námsins endurspeglast í háu hlutfalli brautskráðra sem eru á vinnumarkaði 2 árum eftir útskrift en einnig í auknu sjálfstrausti nemenda. Nemendur námsleiðarinnar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Þau eru virk í störfum nemendafélaga og héldu þau málþing síðastliðna önn í samstarfi við Þroskahjálp, en um 200 manns sóttu viðburðinn.
Námsleiðin er sú eina í boði fyrir þennan hóp á Íslandi og er óásættanlegt að skerða aðgengi að henni enn frekar en nú þegar eru teknir inn á brautina mun færri en útskrifast árlega af starfsbrautum framhaldsskólanna.
Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er fullgildur á Íslandi og stefnt er á að verði lögfestur á næstu misserum er skýrt kveðið á um að allir eigi rétt á menntun án aðgreiningar – á öllum skólastigum. Í 24. grein samningsins segir sérstaklega að fatlað fólk eigi að hafa aðgang að háskólanámi á jafnræðisgrundvelli við aðra, með viðeigandi aðlögun og stuðningi. Háskóla Íslands ber að uppfylla skilyrði samningsins.
Því skorar SHÍ á stjórnvöld og Háskóla Íslands að tryggja fjármögnun og inntöku nýnema á hverju ári án tafar. Slíkt er forsenda fyrir jöfnu aðgengi að menntun og fullgildri þátttöku allra í samfélaginu. Háskólinn á að vera stoltur af því að bjóða upp á fjölbreytt nám fyrir fjölbreyttan nemendahóp og á að halda því góða starfi áfram. Háskóli Íslands á að vera háskóli allra landsmanna og því er mikilvægt að hafa inngildandi stefnu að leiðarljósi. Starfstengda diplómanámið hefur verið skólanum til sóma og krefst Stúdentaráð þess að það haldi áfram að vera það.
Tillaga um ofangreint var einróma samþykkt á fundi stúdentaráðs.

Fundarboð – 4. fundur Stúdentaráðs

Mánudaginn 3. nóvember 2025 fer fram Stúdentaráðsfundur kl. 17:30 í stofu N-132, Öskju.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þeir verða auglýstir meðal stúdenta, og öllum áhugasömum er velkomið að mæta.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs í síma 570 0850 eða með tölvupósti á shi@hi.is ef þið hafið spurningar um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

 


Dagskrá

Fundur settur. 

17:30

Fundargerð fyrri fundar borin upp til samþykktar.

17:30-17:35

Tillaga að um breytingu á skilyrðum fyrir fæðingastyrk námsmanna.

Flutningsmaður: Andrea Edda Guðlaugsdóttir

17:35-17:45

Tillaga að Stúdentaráð árétti fyrri afstöðu sína um betra skipulag og samhæfingu á matsáætlunum innan sviða og deilda.

Flutningsmaður: María Björk Stefánsdóttir

17:45-17:55

Tillaga að Stúdentaráð Háskóla Íslands beiti sér fyrir því hægt verði að selja nikótínpúða á útsölustöðum Hámu.

Flutningsmaður: Eiríkur Kúld Viktorsson

17:55-18:05

Fundarhlé

18:05-18:20

Tillaga um endurskoðun námsefnis í grunnskólakennaranámi.

Flutningsmaður: Halldóra Elín Einarsdóttir

18:20-18:30

Tillaga um að SHÍ lýsi yfir skýrum stuðningi við trans stúdenta og starfsfólk við Háskóla Íslands.

Flutningsmaður: María Björk Stefánsdóttir

18:30-18:40

Tillaga að Stúdentaráð Háskóla Íslands beiti sér fyrir sanngirni í rukkun bílastæðagjalda við Háskóla Íslands.

Flutningsmaður: Eiríkur Kúld Viktorsson

18:40-18:50

Tillaga að breytingu á tíðni inntöku í starfstengt diplómunám fyrir fólk með þroskahömlun.

Flutningsmaður: Halldóra Elín Einarsdóttir

18:50-19:00

Tillaga um bættar öryggisráðstafanir á stúdentagörðum.

Flutningsmaður: Jón Karl Ngosanthiah Karlsson, Sigrún Ósk Hreiðarsdóttir

19:00-19:10

Tillaga um að SHÍ beiti sér fyrir því að sett verði á laggirnar staðlað verklag í tilvikum sjálfsvígs á stúdentagörðum.

Flutningsmaður: Guðlaug Eva Albertsdóttir

19:10-19:20

Tillaga að tryggt verði að stúdentar hafi ætíð aðgang að rafmagnsinnstungum í öllum stofum háskólans.

Flutningsmaður: Kjartan Leifur Sigurðsson

19:20-19:30

Kynning á framkvæmdaáætlunum fastanefnda SHÍ.

19:30-19:55

Bókfærð mál og tilkynningar.

19:55-20:00

 

Atkvæðagreiðsla fer fram um liði II.-IV. og VI.-XIII.