Opið fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs.

Umsóknareyðublað er að finna hér. Við viljum hvetja til þess að umsóknareyðublaðið sé eins vel útfyllt og kostur er, umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði verður vísað frá. Einnig hvetjum við til þess að umsækjendur kynni sér sérstaklega lög og verklagsreglur sjóðsins áður en sótt er um.

Tekið er við umsóknum til kl.10:00 þann 19. desember 2022. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

1. desember – Dagur Stúdenta

Hefð hefur skapast fyrir því að stúdentar haldi upp á 1.desember, fullveldisdaginn. Venju samkvæmt gengu stúdentar að leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði í morgun og lögðu þar blómsveig ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda. Stúdentaráð Háskóla Íslands bauð svo stúdentum upp á heitt kakó og smákökur á Háskólatorgi. Rakel Anna Boulter, bókmenntafræðinemi og Stúdentaráðsliði flutti hugvekju til stúdenta í tilefni dagsins sem má finna hér að neðan í heild sinni.

Stúdentaráð óskar stúdentum til hamingju með daginn og góðs gengis í verkefnaskilum og prófum!

Hugvekja flutt af Rakel Önnu þann 1. desember 2022:

,,Mig langar að segja ykkur sögu, af góðum vini mínum, sem langaði, eftir menntaskóla að ferðast um heiminn, en vegna ákveðinnar veiru var það ekki hægt. Hann byrjaði því að læra Rússnesku við Háskóla Íslands haustið 2020. Flest furðuðu sig á þessu vali og spurðu hann hvernig í ósköpunum hann ætlaði að nýta þessa menntun. Á einni nóttu breyttist það. Allt í einu varð fólk með hans menntun mikilvægasta fólkið á landinu. Innrás Rússlands í Úkraínu olli því að allir fréttamiðlar vildu ná tali á einhverjum sem þekkti til tungumáls, stjórnmála, sögu og menningarheima þessa heimshluta. 

Við erum ekki alltaf að einblína á stóra samhengið. Sem er eðlilegt og gott. Í háskólanámi gefst einmitt tækifæri til að sökkva sér á kaf í fræðin, einblína á einn þátt eða eitt sjónarhorn. Einmitt það gerir Háskóla að svo mögnuðum stað, fyrir þær sakir að þar mætast allir þessi hugarheimar.

Litlu dæmin sýna okkur stóra samhengið. Auðvitað getum við ekki áætlað um hvaða menntun verður veigamest eftur tíu ár, hvað þá eftir fimmtíu ár. Heimurinn breytist svo hratt að háskólasamfélagið má hafa sig allt við að halda í við hann. En eitt getum við vitað fyrir víst sem mun ekki breytast, fjárfesting í menntun skilar alltaf auði. Að gera nám aðgengilegt öllum er þannig skotheld leið að auknum gróða, bæði af fjárhagslegu og auðvitað vitsmunalegu  tagi. Eins og aðrar fjárfestingar þar aðeins að leggja út fyrir því fyrst, en það fjármagn skilar sér margfalt.

Stúdentar hafa oftar en ekki verið framarlega í baráttunni fyrir breytingum í samfélaginu öllu, líkt og rifjað er upp 1. desember. Stúdentar láta sig varða allt frá jafnréttismálum yfir í samgöngumál og jafnvel siðferðileg álitamál. Talsverðar umbætur hafa átt sér stað í tímans rás en barátta stúdenta fyrir öflugra háskólasamfélagi og bættum kjörum stúdenta er enn í fullum gangi, enn er mikið rými til umbóta. 

Mörg halda að hagsmunabarátta stúdenta varði aðeins þau sem eru í háskólanámi núna. Það er svo sannarlega ekki raunin. Baráttan fyrir fjölbreyttri menntun sem er aðgengileg öllum er barátta fyrir bætta framtíð. 

Það er fallegt að líta til þess að þessi dagur, 1.desember, var fyrst haldinn hátíðlegur af stúdentum til heiðurs Eggerts Ólafssonar, náttúrufræðings og skálds. Ólík fög fara gjarnan vel saman. Andstæður hjálpa okkur að sjá nýjar hliðar á heiminum sem spegill hefði ef til vill ekki gert. 

Baráttuandi stúdenta lifir enn góðu lífi og stúdentar munu halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi í dag, 1. desember, sem og alla aðra daga ársins. Til hamingju með daginn, kæru stúdentar.”

Fulltrúar stúdenta á Háskólaþingi 18. nóvember sl.

Stúdentar áttu 10 fulltrúa, ásamt tveimur fulltrúum úr háskólaráði, á Háskólaþingi sem fram fór föstudaginn 18. nóvember sl.

Á þinginu voru m.a. sjálfbærniáherslur stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26, til umræðu og fyrsta sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands kynnt. Þá var einnig rætt um skipulag, framkvæmdir og samgöngur á háskólasvæðinu og farið yfir þróunaráætlun svæðisins.

Stúdentaráð lýsir yfir ánægju með áherslumál þingsins enda eru þau stúdentum hugleikin og spila veigamikið hlutverk í framtíðarsýn Stúdentaráðs á háskólasvæðið. U-passinn hefur verið baráttumál Stúdentaráðs um árabil og því er áætlun um innleiðingu hans, sem tilkynnt var um á þinginu, mikið fagnaðarefni fyrir stúdenta sem og áætlanir um uppbyggingu hjólaskýla á háskólasvæðinu. 

Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á að sjálfbærni-, samgöngu- og skipulagsmálum verði gert hátt undir höfði með sjálfbærara háskólasamfélagi að markmiði.

Umræðufundur Stúdentaráðs Háskóla Íslands um skrásetningargjaldið

Stúd­entaráð blés til mál­fund­ar um skrá­setn­ing­ar­gjaldið í hádeginu í gær, 23. nóvember 2022.

Forseti Stúdentaráðs, Rebekka Karlsdóttir opnaði fundinn með tölu um hvers vegna Stúdentaráð boðar til fundarins og afstöðu ráðsins gagnvart gjaldinu. Þá var opnað fyrir umræður og sátu þau Jóna Þórey Pét­urs­dótt­ir, lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi for­seti Stúd­entaráðs, Erla Guðrún Ingi­mund­ar­dótt­ir, aðallög­fræðing­ur á rektors­skrif­stofu há­skól­ans og Friðrik Jóns­son, formaður Banda­lags há­skóla­manna fyr­ir svör­um. Mbl.is fjallaði um fundinn, ásamt því að rætt var við forseta Stúdentaráðs í hádegisfréttunum á Bylgjunni í dag (byrjar á 09:42).

Á fundinum sköpuðust góðar umræður en þó er enn mörgu ósvarað, og mun ráðið halda samtalinu um skrásetningargjöldin almennt, lögmæti þeirra og fjármögnun háskólastigsins áfram af fullum krafti.
Ljóst er að nemendur á Íslandi standa undir miklu meira af fjármögnun háskólastigsins heldur en gildir á Norðurlöndunum og þarf að tala um hvernig háskólastigið er fjármagnað með réttum orðum og gegnsæjum hætti. Stúdentaráð telur háskólann vera með gjaldinu að rukka stúdenta meira en lög heimila og gjöldin feli þannig í sér falin skólagjöld.
Næstu skref
Stúdentaráð hefur kallað eftir því að löggjafinn bregðist við, ásamt því að óskað hefur verið  ráðherra  til þess að ræða lögmæti skrásetningargjaldsins og fjármögnun háskólastigsins í heild sinni. Jafnframt mun ráðið fylgjast með máli nemandans, sem komið er aftur til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema og fylgja því eftir innan háskólans.
Skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Stúdentaráð mun halda áfram að þrýsta á að stjórnvöld standi við gefin loforð um stórsókn í menntun og geri nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi fjárveitinga til háskólastigsins, til að tryggja jafnrétti til náms og samkeppnishæfni íslenskrar háskólamenntunar.
Meðfylgjandi eru myndir sem Kristinn Magnússon tók fyrir mbl.is á fundinum:

Stúdentaráðsfundur 16. nóvember 2022

Miðvikudaginn 16. nóvember fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu H-205 í Stakkahlíð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:30
  4. Tilnefningar í kjörstjórn (atkvæðagreiðsla) 17:30-17:45
  5. Stefna Stúdentaráðs í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna 17:45 – 18:05 (atkvæðagreiðsla)
  6. Hlé 18:05-18:15
  7. Tillaga um jafningjastuðning á stúdentagörðunum 18:15-18:25 (atkvæðagreiðsla)
  8. Tillaga um aukna notkun persónufornafna á Canvas 18:25-18:35 (atkvæðagreiðsla)
  9. Tillaga um markvissa vinnu til að auka kosningaþátttöku til Stúdenta- og háskólaráðs 18:35-18:45 (atkvæðagreiðsla)
  10. Fjármál Stúdentaráðs 18:45-18:55
  11. Önnur mál 18:55-19:05
  12. Bókfærð mál
    Fundi slitið

Yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi

Stúdentaráð hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi, en um árabil hefur ráðið efast um að þær forsendur sem liggja að baki skrásetningargjaldinu í dag standist lög um opinbera háskóla.

Í kjölfar meðferðar málsins innan háskólaráðs hefur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema nú komist að þeirri niðurstöðu að HÍ fór ekki rétt að við útreikninga á skrásetningargjaldi. Nefndin telur að háskólaráði hafi borið skylda til að afla nákvæmra upplýsinga og útreikninga sem liggja að baki gjaldinu og staðfestir því úrskurðurinn þann grun Stúdentaráðs um að gjaldið sé ekki eingöngu skrásetningargjald í fyllstu merkingu orðsins heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld.

Skrásetningargjald við HÍ er 75.000 krónur óháð því hvaða þjónustu nemandinn raunverulega nýtir sér af þeim kostnaðarliðum sem að baki gjaldinu búa en þjónustugjöld, líkt og skrásetningargjöld í opinbera háskóla eru, má aðeins innheimta fyrir þá þjónustu sem hið opinbera raunverulega veitir þeim sem greiðir gjaldið og skal það gert á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Samkvæmt niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar lagði háskólaráð ekki réttar forsendur til grundvallar gjaldinu og byggði þannig ekki á þeim kostnaði sem raunverulega hlýst af því að veita þjónustuna sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Með því að gera það ekki hafi ráðið ekki sinnt skyldum sínum skv. skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að mati Stúdentaráðs býður úrskurðurinn upp á stærri umræðu um gjaldið, t.a.m. hvernig það er áætlað, upphæð þess og hvaða þjónusta fellur undir það en skrásetningargjaldið felur í sér álögur á stúdenta og dregur jafnframt úr jöfnu aðgengi fólks að háskólamenntun. Í opinberum háskólum á öðrum Norðurlöndum tíðkast almennt ekki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld og telur Stúdentaráð að Háskóli Íslands eigi ekki að þurfa að teygja sig í vasa stúdenta til viðbótar við fjárframlög ríkisins og að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi.

Stúdentaráð fagnar því að áfrýjunarnefndin haldi háskólaráði við efnið, líkt og Stúdentaráð hefur lagt upp með að gera sl. þrjú ár þegar kemur að skrásetningargjaldinu. Í kjölfar þessa úrskurðar mun málið fara aftur á borð háskólaráðs og mun SHÍ fylgja málinu eftir til þess að tryggja hagsmuni stúdenta og þrýsta á að háskólakerfið hérlendis standist samanburð við norðurlöndin þar sem opinber háskólamenntun er gjaldfrjáls.

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur!

Það er loksins komið að því. Eftir langa bið mun Íþróttaskóli SHÍ hefjast aftur um helgina.

Íþróttaskóli Stúdentaráðs Haustönn 2022

Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur íþróttaskóla fyrir börn stúdenta fædd á árunum 2017-2021. Tímarnir fara fram í íþróttahúsi háskólans við Sæmundargötu næstu 5 laugardaga og er hver tími 40 mínútur. Íþróttaskólinn hefst laugardaginn 29. október á fríum prufutíma* og lýkur 26. nóvember. Það verða því 5 tímar í heildina. Börnunum er skipt í þrjá hópa eftir aldri og eru ekki fleiri en 30 börn í hverjum hópi. Fyrsti hópurinn (f. 2020, 2021) er kl. 8:45 – 9:25, annar hópurinn (f. 2018, 2019) er kl. 9:30 – 10:10 og þriðji hópurinn (f. 2017) kl. 10:15 – 10:55. Létt hressing í boði eftir hvern tíma. *Ath að það þarf að skrá börn í prufutímann líka (ef plássin fyllast í fría prufutímann munu þau börn sem skráð eru á alla tímana ganga fyrir).

Smelltu hér til að skrá barn í Íþróttaskóla SHÍ 2022

Markmið íþróttaskólans er að gefa börnum kost á hreyfinámi, efla hreyfiþroska og hreyfigetu barnanna. Bæta samhæfingu, sjálfstraust og vellíðan. Leikir og þrautabrautir skipa stærstan þátt í náminu og reynt að hafa æfingar sem fjölbreyttastar þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Unnið er bæði með fín- og grófhreyfingar. Félagsþroski, samvinna og það að taka tillit til annarra er mikilvægur þáttur í starfinu.

Kennari íþróttaskólans er Alda Ólafsdóttir, mastersnemi í Íþróttafræði.

Verðið er 3.500 krónur og veittur er 500 króna systkinaafsláttur fyrir hvert systkini – verð fyrir 2 yrði því 6.000 kr. Viðskiptavinir Landsbankans fá 1.500kr afslátt í Íþróttaskólann og borga því einungis 2.000 kr fyrir hvert barn, ef þeir millifæra af reikningi sem hýstur er hjá Landsbankanum. Ekki er hægt að fá Landsbanka- og systkinaafslátt saman.

Foreldrar taka virkan þátt í tímum með því að aðstoða börnin sín. Þar með gefst þeim mikilvægt tækifæri að kynnast börnum sínum enn betur við aðrar aðstæður en venjulega. Greiðsluupplýsingar verða sendar fljótlega eftir skráningu. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við okkur í gegnum netfangið shi@hi.is.

Stúdentaráðsfundur 25. október 2022

Þriðjudaginn 25. október fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu O-202.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

  1. Fundur settur 
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:30
  4. Félagsstofnun stúdenta (kynning og umræður) 17:30-18:20
  5. Hlé 18:20-18:30
  6. Áherslur SHÍ í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna 18:30 – 19:10 (atkvæðagreiðsla)
  7. Tillaga um að Háskóli Íslands lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum 19:10-19:20 (Atkvæðagreiðsla)
  8. Tillaga um undirnefnd umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 19:25-19:30
  9. Önnur mál 19:30-19:35
  10. Bókfærð mál 
  11. Fundi slitið 

 

Stúdentaráð Háskóla Íslands semur við Orkusöluna 15. árið í röð

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Orkusalan hafa samið á ný, en þetta er 15. árið í röð sem við erum í samstarfi. Stúdentaráð er þakklátt fyrir þetta langlífa samstarf, en það styður við starfsemi ráðsins ásamt því að stúdentar fá hagstæðasta raforkuverðið hjá Orkusölunni. Orkusalan leggur mikla áherslu á hreina orku og sjálfbærni og er til að mynda eina orkufyrirtækið á markaði sem hefur kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Á myndinni má sjá Guðmund Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóra SHÍ og Sigmundínu Þorgrímsdóttur, sérfræðing Orkusölunnar í markaðsmálum undirrita samninginn.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stúdentaráðs

Á dögunum undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, nýjan samning milli Háskóla Íslands og Stúdentaráðs um þjónustu við nemendur Háskólans.

Stúdentaráð er mjög þakklátt fyrir samstarfið, tekið er vel á ábendingum ráðsins á hinum mörgum starfssviðum skólans og eiga forseti og rektor reglulega fundi til að tryggja gott upplýsingaflæði og koma áherslum stúdenta á framfæri.

Stúdentaráð mun áfram halda Háskóla Íslands á tánum, enda er það meginhlutverk ráðsins að vera þrýstiafl. Hvetjum við starfsfólk og stjórnendur til að rækta samstarfið við stúdenta enn frekar til að við getum í sameiningu gert góðan háskóla enn betri.
©Björn Gíslason
©Björn Gíslason