Hefð hefur skapast fyrir því að stúdentar haldi upp á 1.desember, fullveldisdaginn. Venju samkvæmt gengu stúdentar að leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði í morgun og lögðu þar blómsveig ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor vísinda. Stúdentaráð Háskóla Íslands bauð svo stúdentum upp á heitt kakó og smákökur á Háskólatorgi. Rakel Anna Boulter, bókmenntafræðinemi og Stúdentaráðsliði flutti hugvekju til stúdenta í tilefni dagsins sem má finna hér að neðan í heild sinni.
Stúdentaráð óskar stúdentum til hamingju með daginn og góðs gengis í verkefnaskilum og prófum!
Hugvekja flutt af Rakel Önnu þann 1. desember 2022:
,,Mig langar að segja ykkur sögu, af góðum vini mínum, sem langaði, eftir menntaskóla að ferðast um heiminn, en vegna ákveðinnar veiru var það ekki hægt. Hann byrjaði því að læra Rússnesku við Háskóla Íslands haustið 2020. Flest furðuðu sig á þessu vali og spurðu hann hvernig í ósköpunum hann ætlaði að nýta þessa menntun. Á einni nóttu breyttist það. Allt í einu varð fólk með hans menntun mikilvægasta fólkið á landinu. Innrás Rússlands í Úkraínu olli því að allir fréttamiðlar vildu ná tali á einhverjum sem þekkti til tungumáls, stjórnmála, sögu og menningarheima þessa heimshluta.
Við erum ekki alltaf að einblína á stóra samhengið. Sem er eðlilegt og gott. Í háskólanámi gefst einmitt tækifæri til að sökkva sér á kaf í fræðin, einblína á einn þátt eða eitt sjónarhorn. Einmitt það gerir Háskóla að svo mögnuðum stað, fyrir þær sakir að þar mætast allir þessi hugarheimar.
Litlu dæmin sýna okkur stóra samhengið. Auðvitað getum við ekki áætlað um hvaða menntun verður veigamest eftur tíu ár, hvað þá eftir fimmtíu ár. Heimurinn breytist svo hratt að háskólasamfélagið má hafa sig allt við að halda í við hann. En eitt getum við vitað fyrir víst sem mun ekki breytast, fjárfesting í menntun skilar alltaf auði. Að gera nám aðgengilegt öllum er þannig skotheld leið að auknum gróða, bæði af fjárhagslegu og auðvitað vitsmunalegu tagi. Eins og aðrar fjárfestingar þar aðeins að leggja út fyrir því fyrst, en það fjármagn skilar sér margfalt.
Stúdentar hafa oftar en ekki verið framarlega í baráttunni fyrir breytingum í samfélaginu öllu, líkt og rifjað er upp 1. desember. Stúdentar láta sig varða allt frá jafnréttismálum yfir í samgöngumál og jafnvel siðferðileg álitamál. Talsverðar umbætur hafa átt sér stað í tímans rás en barátta stúdenta fyrir öflugra háskólasamfélagi og bættum kjörum stúdenta er enn í fullum gangi, enn er mikið rými til umbóta.
Mörg halda að hagsmunabarátta stúdenta varði aðeins þau sem eru í háskólanámi núna. Það er svo sannarlega ekki raunin. Baráttan fyrir fjölbreyttri menntun sem er aðgengileg öllum er barátta fyrir bætta framtíð.
Það er fallegt að líta til þess að þessi dagur, 1.desember, var fyrst haldinn hátíðlegur af stúdentum til heiðurs Eggerts Ólafssonar, náttúrufræðings og skálds. Ólík fög fara gjarnan vel saman. Andstæður hjálpa okkur að sjá nýjar hliðar á heiminum sem spegill hefði ef til vill ekki gert.
Baráttuandi stúdenta lifir enn góðu lífi og stúdentar munu halda áfram að berjast fyrir bættu samfélagi í dag, 1. desember, sem og alla aðra daga ársins. Til hamingju með daginn, kæru stúdentar.”