Stúdentaráðsfundur 16. desember 2021

Fimmtudaginn 16. desember fer Stúdentaráðsfundur fram í O-101 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
  4. Kynning á Félagsstofnun stúdenta (Kynning og umræður) 17:20-18:00
  5. Hlé 18:00-18:10
  6. Ársreikningur Stúdentaráðs 2020-2021 (atkvæðagreiðsla) 18:10-18:25
  7. Tillaga um fæðingarstyrk námsmanna (atkvæðgreiðsla) 18:25-18:40
  8. Önnur mál 18:40-18:50
  9. Fundi slitið 18:50

Inga Huld tilnefnd til félaga ársins af Stúdentaráði

Stúdentaráð tilnefndi Ingu Huld Ármann til félaga ársins 2021, á vegum Landssambands ungmennafélaga (LUF). Félagi ársins eru hvatningaverðlaun sem meðlimur innan aðildarfélags LUF hlýtur fyrir vel unnin störf á árinu. Allir sem eru tilnefndir hljóta viðurkenningu og er einn úr hópnum valinn sem Félagi ársins og hlýtur farandbikar LUF.

Inga Huld er stúdentaráðsliði og meðlimur sviðsráðs á Verkfræði- og nátturuvísindasviði ásamt því að vera forseti kennslumálanefndar Stúdentaráðs og sitja þar með í kennslumálanefnd háskólaráðs. Inga beitir sér af mikilli fagmennsku og alúð fyrir málefnum stúdenta hvort sem það er innan fræðasviðsins eða miðlægu stjórnsýslunnar. Kennslumálin eru ein grunnstoð hvers háskóla og það er gríðarlega mikilvægt að hafa þar sterkan einstakling að verja hagsmuni stúdenta.

Hamingjuóskir með viðurkenninguna kæra Inga Huld okkar!

 

Mynd tekin af heimasíðu LUF.

Vertu eldklár á þínu heimili!

Árlegt forvarnarátaki HMS og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fór í gang 1. desember og mun vara út desember.

Unnið hefur verið viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff, háskólanema, sem brenndist alvarlega þegar eldsvoði kom upp í íbúð í Mávahlíð árið 2019 og deilir hún lífsreynslu sinni með okkur til að efla umræðuna á sviði forvarna. Stúdentaráð deilir gjarnan skilaboðunum áfram.

Verum ELDKLÁR saman og uppfyllum atriðin á gátlistanum hér fyrir neðan:

  • Reyksynjara í öll herbergi
  • Heimilisfólk þekki flóttaleiðir út af heimilinu
  • Slökkvitæki eiga að staðsett við útgang og flóttaleiðir
  • Eldvarnateppi aðgengileg og sýnileg í eldhúsi
Myndbandið er hægt að nálgast hér.

Viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff from Húsnæðis- og mannvirkjastofnun on Vimeo.

Opið fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs.

Umsóknareyðublaðið má finna hér og hvetjum við ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega og kostur er eftir leiðbeiningunum. Frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur jafnframt til að kynna ykkur sjóðinn og sérstaklega lög og reglur hans. Greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða veittir í þessari úthlutun.

Tekið er við umsóknum til 12:00 þann 16. desember 2021. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Maríu Sólar Antonsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Fullveldisdeginum fagnað

Innilegar hamingjuóskir með fullveldisdaginn, hátíðardag stúdenta! Skrifstofa Stúdentaráðs fór þennan fallega morgun, ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur aðstoðarrektor vísinda, að leiði Jóns Sigurðssonar og lögðu þar blómakrans líkt og hefð er fyrir.

Í tilefni dagsins flutti Sara Þöll Finnbogadóttir varaforseti eftirfarandi hugvekju fyrir hönd Stúdentaráðs.

Þegar Stúdentaráð var stofnað í desember árið 1920, var Háskóli Íslands til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Með samþykki forseta Alþingis, gaf háskólaráð leyfi fyrir því að stúdentar háskólans fengju til afnota Kringlu sem lestrarstofu. Er það afbragðs dæmi um sameiginlegan skilning og samstarfsvilja sem stúdentar og Háskólinn hafa átt í tímana rás. Á hundrað og tíundasta afmæli Háskóla Íslands er viðeigandi að vitna í  tilkynninguna sem Rektor sendi stúdentum varðandi daginn í dag, sjálfan fullveldisdaginn, sem er einmitt líka hátíðisdagur stúdenta. „Barátta Jóns forseta fyrir sjálfstæði Íslendinga er í raun samofin baráttunni fyrir stofnun Háskóla Íslands. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Við erum iðulega upptekin af andránni – því sem er í deiglunni – enda er það okkur nauðsynlegt til að takast á við þær áskoranir sem fylgja samtímanum og um leið útgangspunktur ferðar okkar inn í framtíðina. En við megum ekki gleyma öllum þeim sem færðu okkur af litlum efnum í fortíðinni lykilinn að því sem við njótum í nútímanum.“

Öflug hagsmunabarátta stúdenta hefur átt sér stað við Háskóla Íslands og á hún sér formlega 101 ára sögu Frá upphafsárum Stúdentaráðs hefur mikið vatn runnið til sjávar og er óhætt að segja að hreyfingin hafi orðið að kröftugu afli sem berst fyrir stúdenta af alúð og eljusemi. Árið 1957 fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráð, þar sem í dag sitja tveir fulltrúar stúdenta. 1967 voru ný lög um námslán sett, en í gegnum árin hefur námslánakerfið verið eitt helsta baráttubmáli stúdenta. Stúdentar hafa staðið fyrir fjölda mótmæla vegna þeirra bágra kjara sem þeim bjóðast og ávallt mætt undirbúin til leiks. Félagsstofnun stúdenta stofnuð árið 1968, ein grundvallareining háskólasamfélagsins sem hefur í gegnum árin veitt stúdentum húsnæði, leikskóla fyrir börn þeirra fæði og bækur til gagns og gaman. Þá hófst árið 1971 óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna spruttu upp, stúdentar komu þá úr flestum stéttum og höfðu fjölbreyttari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en áður hafði tíðkast.

Þessi tímamót eiga hins vegar ekki einungis heima í sögubókunum. Baráttan og sigrarnir sem hafa áunnist eru ekki sjálfsagðir hlutir. Breytingar verða ekki að raunveruleika á einum degi, stundum taka þær nokkra daga og stundum  nokkur ár – en grundvallaratriði er að hafa að leiðarljósi þrautseigju og útsjónarsemi til að tryggja að baráttan fjari ekki út. Líkt og Jón Sigurðsson sem stóð fastur á sínu og krafðist breytinga, munu stúdentar halda áfram að láta til sín taka eftir gildum jafnréttis, heiðarleika og ekki síst róttæknis. Það er þess vegna, á þessari stundu þegar við erum komin með nýja ríkisstjórn, kórónuveirufaraldurinn enn viðvarandi og stúdentahreyfingin er að berjast fyrir réttlátari og varanlegri kjörum stúdenta, sem er mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að standa saman. 

Á nýju ári bindur stúdentahreyfingin miklar vonir við að raunverulegt og virkt samráð við stúdenta eigi sér stað, því þeir eru stærstu hagsmunaaðilar menntunar, eins og íslenska þjóðin var stærsti hagsmunaaðili sjálfstæðisbaráttunnar, og ber að hlusta á þau.

Stúdentaráðsfundur 25. nóvember 2021

Fimmtudaginn 25. nóvember fer Stúdentaráðsfundur fram í L-101 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Viðhorf stúdenta til breytinga á námi og kennslu í HÍ vegna COVID-19 á vormisseri 2021 (Kynning og umræður) 17:20-18:00
  5. Tilnefningar í kjörstjórn (atkvæðagreiðsla) 18:00-18:15
  6. Tillaga vegna starfsleyfis nýútskrifaðra sálfræðinga (atkvæðagreiðsla) 18:15-18:30
  7. Hlé 18:30-18:40
  8. Skýrsla starfshóps Stúdentaráðs vegna alþingiskosninga 2021 (Kynning og umræður) 19:00-19:15
  9. Sjúkra- og endurtökupróf við Háskóla Íslands (Kynning og umræður) 18:30-18:45
  10. Ókyngreind klósett (Kynning og atkvæðagreiðsla) 18:45-19:00
  11. Önnur mál 19:15-19:25
  12. Fundi slitið 19:25
  13. Bókfærð mál 

Tilkynning Stúdentaráðs vegna samfélagsaðstæðna í ljósi fjölgun kórónuveirusmita

Aðstæðurnar sem við stöndum frammi fyrir í samfélaginu vegna fjölda kórónuveirusmita hafa skiljanlega áhrif á umhverfið okkar og þar með andlega líðan, sem getur haft áhrif á nám og framvindu þess.

Aðgerðir stjórnvalda að tillögum sóttvarnaryfirvalda hafa nú verið tilkynntar og verður með nýrri reglugerð hægt að kortleggja betur viðbrögð háskólasamfélagsins. Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs á í samskiptum við yfirstjórn háskólans vegna þessa og leitast eftir því að komið sé til móts við stúdenta í ljósi hraðrar útbreiðslu veirunnar, sér í lagi svo skömmu fyrir lokapróf haustmisseris en ekki síður vegna hátíðanna. 

Mikilvægt er að ráðstafanir séu gerðar með heilsu stúdenta og starfsfólks í forgrunni og að þau fjölmörgu tól sem háskólinn hefur lært af á fyrri misserum verði nýtt þannig að hægt verði að ljúka núverandi misseri á öruggan hátt.

Tilkynning frá Stúdentaráði vegna námsframboðs við Háskóla Íslands

Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs er meðvituð um umræðuna sem hefur átt sér stað undanfarna daga í tengslum við fjarnám við Háskóla Íslands. Stúdentaráð hefur beitt sér fyrir aukinni rafrænni kennslu annars vegar og auknu fjarnámi hins vegar með ýmsum hætti og mun halda því staðfast áfram.

Varðandi rafræna kennslu hefur það verið skýrt ákall ráðsins að kennsluhættir skuli þróast í takt við samtímann, með aukinni tæknivæðingu og fjölbreyttari kennsluaðferðum. Framfarir hafa orðið með tilkomu rafræns prófakerfis sem og nýs námsumsjónarkerfis. Því til viðbótar eru til staðar aðrar rafrænar lausnir sem eiga að stuðla að kennslufræðilegri þróun og er mikilvægt að halda áfram að byggja á. Eftir þær áskoranir sem við höfum gengið í gegnum undanfarið eitt og hálft ár eiga rafrænir kennsluhættir ekki að vera okkur fjarstæðukenndir lengur. Mikilvægt er að háskólinn geti áfram brugðist við ófyrirséðum aðstæðum stúdenta og tileinki sér þar með sveigjanleika í kennsluháttum, t.d. með upptökum og streymi kennslustunda. Ákall stúdenta um tæknivæddari kennsluhætti snýst um að tryggja skuli aðgengi að námi og stuðla að því að jafnræðis sé gætt meðal stúdenta. 

Hvað varðar framboð fjarnáms er það ljóst að Háskóli Íslands verður að gera betur ef duga skal til að koma til móts við breiðari hóp stúdenta. Fjarnámsáætlun Háskóla Íslands fer í innleiðingu á næstunni og fyrir það fær Stúdentaráð áætlunina á sitt borð til yfirferðar, og jafnframt verður hún kynnt fyrir stúdentum og starfsfólki. Í dag eru vissar námsleiðir í boði í fjarnámi og hefur Menntavísindasvið staðið fremst meðal jafningja hvað það varðar. Mikilvægt er að horfa til þeirrar reynslu og starfs sem þegar á sér stað innan háskólans og nýta það á fleiri fræðasviðum þannig að hægt verði að auka framboð á fjarnámi.

Jafnt aðgengi að námi er stúdentum hugleikið og er eitt mikilvægasta hagsmunamál þeirra. Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs mun halda áfram að beita þrýstingi á að það sé haft að leiðarljósi í starfsemi skólans með öllum ráðum tiltækum. Það sem er mikilvægast öllu er að gæði náms og kennslu séu tryggð því Háskóli Íslands á að bjóða upp á gott og samkeppnishæft nám.

Stúdentaráðsfundur 20. október 2021

Miðvikudaginn 20. október fer Stúdentaráðsfundur fram í L-101 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 (Kynning og umræður) 17:25-18:15
  5. Nýtt útlit kynningarefnis Háskóla Íslands (Kynning og umræður) 18:15-18:45
  6. Hlé 18:45-18:55
  7. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (kynning og umræður) 18:55-19:10
  8. Tillaga vegna sjúkra- og endurtökuprófa við Háskóla Íslands (atkvæðagreiðsla) 19:10-19:25
  9. Önnur mál 19:25-19:35
  10. Fundi slitið 19:35
  11. Bókfærð mál

Opið fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóð. Hægt er að sækja um styrki hér til 21. október nk.. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur Stúdentasjóð á heimasíðu Stúdentaráðs og sérstaklega lög og reglur hans. Greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða veittir í næstu úthlutun.

Spurningum skal vísað til Maríu Sólar Antonsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studenasjodur@hi.is.