Innilegar hamingjuóskir með fullveldisdaginn, hátíðardag stúdenta! Skrifstofa Stúdentaráðs fór þennan fallega morgun, ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur aðstoðarrektor vísinda, að leiði Jóns Sigurðssonar og lögðu þar blómakrans líkt og hefð er fyrir.
Í tilefni dagsins flutti Sara Þöll Finnbogadóttir varaforseti eftirfarandi hugvekju fyrir hönd Stúdentaráðs.
Þegar Stúdentaráð var stofnað í desember árið 1920, var Háskóli Íslands til húsa í Alþingishúsinu við Austurvöll. Með samþykki forseta Alþingis, gaf háskólaráð leyfi fyrir því að stúdentar háskólans fengju til afnota Kringlu sem lestrarstofu. Er það afbragðs dæmi um sameiginlegan skilning og samstarfsvilja sem stúdentar og Háskólinn hafa átt í tímana rás. Á hundrað og tíundasta afmæli Háskóla Íslands er viðeigandi að vitna í tilkynninguna sem Rektor sendi stúdentum varðandi daginn í dag, sjálfan fullveldisdaginn, sem er einmitt líka hátíðisdagur stúdenta. „Barátta Jóns forseta fyrir sjálfstæði Íslendinga er í raun samofin baráttunni fyrir stofnun Háskóla Íslands. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Við erum iðulega upptekin af andránni – því sem er í deiglunni – enda er það okkur nauðsynlegt til að takast á við þær áskoranir sem fylgja samtímanum og um leið útgangspunktur ferðar okkar inn í framtíðina. En við megum ekki gleyma öllum þeim sem færðu okkur af litlum efnum í fortíðinni lykilinn að því sem við njótum í nútímanum.“
Öflug hagsmunabarátta stúdenta hefur átt sér stað við Háskóla Íslands og á hún sér formlega 101 ára sögu Frá upphafsárum Stúdentaráðs hefur mikið vatn runnið til sjávar og er óhætt að segja að hreyfingin hafi orðið að kröftugu afli sem berst fyrir stúdenta af alúð og eljusemi. Árið 1957 fengu stúdentar einn fulltrúa í háskólaráð, þar sem í dag sitja tveir fulltrúar stúdenta. 1967 voru ný lög um námslán sett, en í gegnum árin hefur námslánakerfið verið eitt helsta baráttubmáli stúdenta. Stúdentar hafa staðið fyrir fjölda mótmæla vegna þeirra bágra kjara sem þeim bjóðast og ávallt mætt undirbúin til leiks. Félagsstofnun stúdenta stofnuð árið 1968, ein grundvallareining háskólasamfélagsins sem hefur í gegnum árin veitt stúdentum húsnæði, leikskóla fyrir börn þeirra fæði og bækur til gagns og gaman. Þá hófst árið 1971 óhefðbundin og pólitísk barátta stúdenta, grundvölluð í grasrótarstarfsemi, nýjar hugmyndir um hlutverk námsmanna spruttu upp, stúdentar komu þá úr flestum stéttum og höfðu fjölbreyttari hugmyndafræðilegan og félagslegan bakgrunn en áður hafði tíðkast.
Þessi tímamót eiga hins vegar ekki einungis heima í sögubókunum. Baráttan og sigrarnir sem hafa áunnist eru ekki sjálfsagðir hlutir. Breytingar verða ekki að raunveruleika á einum degi, stundum taka þær nokkra daga og stundum nokkur ár – en grundvallaratriði er að hafa að leiðarljósi þrautseigju og útsjónarsemi til að tryggja að baráttan fjari ekki út. Líkt og Jón Sigurðsson sem stóð fastur á sínu og krafðist breytinga, munu stúdentar halda áfram að láta til sín taka eftir gildum jafnréttis, heiðarleika og ekki síst róttæknis. Það er þess vegna, á þessari stundu þegar við erum komin með nýja ríkisstjórn, kórónuveirufaraldurinn enn viðvarandi og stúdentahreyfingin er að berjast fyrir réttlátari og varanlegri kjörum stúdenta, sem er mikilvægt fyrir háskólasamfélagið að standa saman.
Á nýju ári bindur stúdentahreyfingin miklar vonir við að raunverulegt og virkt samráð við stúdenta eigi sér stað, því þeir eru stærstu hagsmunaaðilar menntunar, eins og íslenska þjóðin var stærsti hagsmunaaðili sjálfstæðisbaráttunnar, og ber að hlusta á þau.