Kosningaáherslur flokka í málefnum stúdenta

Í tilefni alþingiskosninga 25. september nk. hefur Stúdentaráð staðið fyrir herferðinni Stúdentar eiga betra skilið en hún snýst um að það þurfi að ráðast í markvissar aðgerðir til að tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi til frambúðar. Um er að ræða áframhald herferðar Stúdentaráðs frá janúar 2021 „Eiga stúdentar ekki betra skilið?. Stúdentaráð hefur frá byrjun árs 2020 talað fyrir aðgengi stúdenta að atvinnuleysistryggingakerfinu, endurbótum í námslánakerfinu og atvinnu- og tekjuöryggi stúdenta, sem hefur verið byggt á fjölþættum upplýsingum og gögnum sem Stúdentaráð hefur stutt sig við og jafnvel aflað sjálft, þar sem gögn skorti. 

Stúdentaráð hefur staðið fyrir alls sjö könnunum, ýmist eitt síns liðs eða í samstarfi við aðra, um stöðu stúdenta á vinnumarkaði og andlega líðan, skilað inn sjö umsögnum til Alþingis sem varða breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og aðgerðir til að draga úr tjóni kórónuveirufaraldursins, ályktanir og umsagnir vegna Menntasjóðs námsmanna fyrir lögfestingu og fjölda erinda, krafna, áskorana og yfirlýsinga. 

Vegna þessa hefur Stúdentaráð tekið saman yfirlit yfir þau atriði í stefnum stjórnmálaflokkanna sem varða málefni stúdenta. Samantektin tekur mið af kosningaáherslum og/eða kosningastefnum flokkanna fyrir komandi kosningar sem þeir hafa gefið út, en ekki almennum stefnum þeirra. Markmiðið var að kanna hvort flokkarnir hafi tekið tillit til áherslna stúdenta og stúdentahreyfinganna og ætli sér að stíga framfaraskref í þeim tilteknu málaflokkum á næsta kjörtímabili.

Málaflokkarnir sem voru skoðaðir varða einungis námsfólk á háskólastigi með hliðsjón af áherslum stúdentahreyfinganna. Málaflokkarnir eru fjármögnun háskólastigsins, aðgengi að menntun, kennsla, nám og rannsóknir, námslánakerfið, aðgengi námsfólks að atvinnuleysistryggingakerfinu, húsnæðismál, geðheilbrigðismál og foreldrar í námi. 

Samantektina má finna hér.

Það veldur vonbrigðum að málefnum stúdenta sé ekki gefin meiri gaumur en raun ber vitni og að ekki sé brýnt á bættri fjármögnun háskólastigsins, sem er forsenda þess að háskólar geti sinnt grunnstarfsemi sinni og þjónustu. Einnig þykir okkur miður að sjá að ákveðnir flokkar hafa ekki séð sér fært að uppfæra grunnstefnu sína í menntamálum, sem hefur staðið óbreytt árum saman og tekur því ekki mið af stöðunni eins og hún er í dag. Við fögnum því þó að kröfur stúdenta hafi hlotið nokkurn meðbyr og þau málefni sem bar hvað mest á í gegnum faraldurinn hafa jafnvel ratað í kosningastefnur flokka. Það dugir þó ekki til. Málefni stúdenta þurfa að vera hluti af heildarstefnu flokkanna og það þarf að tryggja þeim áframhaldandi athygli og stuðning að kosningum loknum.Að lokum ítrekar Stúdentaráð að samantektin byggir á kosningaáherslum- og/eða kosningastefnum stjórnmálaflokkanna, enda endurspegla þær þau mál sem flokkarnir leggja mestan þungan á fyrir næsta kjörtímabil.

 

Séu athugasemdir vegna samantektarinnar skal hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs (shi@hi.is).

 

Stúdentaráðsfundur 15. september 2021

Miðvikudaginn 15. september fer Stúdentaráðsfundur fram í L-101 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Kynning á Tengslakönnun meðal nemenda við Háskóla Íslands 17:25-17:55
  5. Undirnefnd umhverfis- og samgöngunefndar 17:55-18:10
  6.  Hlé 18:10-18:20
  7. Niðurstöður stefnumótunarferðar – framkvæmdaáætlanir fastanefnda (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:20-19:35
  8. Önnur mál 19:35-19:45
  9. Fundi slitið 19:45

Hjólum í skólann átak við Háskóla Íslands

Stúdentaráð, Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta standa fyrir átakinu Hjólað í skólann í samstarfi við Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). Átakið fer fram dagana 6.-17. september. Markmiðið er að styrkja jákvætt og heilbrigt félagslíf í Háskóla Íslands. Fyrirmyndin er árlegt átak ÍSÍ, Hjólað í vinnuna, þar sem lögð er áhersla á heilsusamlegan, umhverfisvænan og hagkvæman samgöngumáta til og frá vinnu.

Nemendur og starfsfólk eru eindregið hvött til að taka þátt í átakinu og ganga til liðs við sína deild eða sína starfsstöð. Öll geta tekið þátt í Hjólað í skólann svo framarlega sem þau nýta eigin orku, með öðrum orðum að hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskauta o.s.frv. Þau sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.

Frekari upplýsingar eru að finna á heimasíðu Háskóla Íslands.

Stúdentar eiga betra skilið

Kröfur stúdenta um réttindi þeirra til atvinnu- og tekjuöryggis, menntunar og félagslegrar þjónustu eru skýrar og ekki úr lausu lofti gripnar.

Stúdentaráð fer fram á að stúdentum sé tryggður réttur til atvinnuleysisbóta til jafns við aðra vinnandi landsmenn en frá því að réttur þeirra var afnuminn hefur hvorki tekist að brúa bilið milli félagslegra kerfa né stúdentum verið tryggð önnur vernd fjárhagslega. Hækkun á grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna verður að vera með fyrstu skrefum endurbætts námslánakerfis eftir aðra heildarendurskoðun fyrir 2023. Þá er krafist þess að fjárframlög til háskólastigsins séu endurskoðuð af miklum þunga þannig að opinber háskólamenntun hérlendis sé samkeppnishæf opinberri háskólamenntun á Norðurlöndunum, m.a. með því að endurskoða skrásetningargjaldið við opinbera háskóla hérlendis.

Kerfisbreytingar eru ekki ógerlegar en þær krefjast pólítísks vilja sem hingað til hefur verið verulegur skortur á. Málefni stúdenta verða að hljóta raunverulegan hljómgrunn á næsta kjörtímabili. Þeim verður að tryggja fjárhagslegt öryggi til frambúðar.

Fyrrum umsagnir, erindi, yfirlýsingar, kannanir og annað útgefið efni frá Stúdentaráði sl. ár er hér aðgengilegt fyrir áhugasöm. 

Samantekt um kosningaáherslur flokka í málefnum stúdenta er einnig aðgengilegt hér. 

Ekkert má fara úrskeiðis

Sjöunda umferð EUROSTUDENT VII, sem var fyrst birt í október 2020 og síðan í maí 2021, sýnir að 71% íslenskra stúdenta vinna samhliða námi, er það 3% aukning frá sjöttu umferð EUROSTUDENT frá 2016-2018. Af þeim eru 72% íslenskra stúdenta sem vinna því annars hefðu þeir ekki efni á því að stunda nám. Í samanburði við norðurlöndin skora íslenskir stúdentar þar hæst sem ber að varast. Þá segjast 85% íslenskra stúdenta af þessum 71% vinna til þess að eiga fyrir framfærslu sinni. 31% stúdenta eiga í fjárhagslegum erfiðleikum og 25% telja að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Upplýsingar um stöðu stúdenta á vinnumarkaði eru ekki fullnægjandi af hálfu stjórnvalda sem gerir okkur erfitt að meta stöðuna hverju sinni. Stúdentar eru sem dæmi ekki allir meðtaldir í atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunnar vegna þess að þeir eru ekki á atvinnuleysisskrá því þeir eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Veruleiki stúdenta er sá að fátt má fara úrskeiðis á skólagöngunni án þess að það hafi víðtæk áhrif á fjárhagsstöðu þeirra, húsnæði, andlega heilsu og/eða námið – allt þættir sem haldast í hendur. Nám á að vera full vinna en aðstæður gera mjög fáum kleift að einbeita sér að fullu að því. Það að geta ekki staðið við skuldbindingar gagnvart náminu vegna aukinnar vinnu kann að leiða til mikillar streitu og álags. Slíkt hefur áhrif á námsframvindu sem getur bæði haft áhrif á að stúdentar standist ekki t.d. skilyrði leiguhúsnæðis eða til námslána. 

Raunin er sú að fjárhagslegur stuðningur við fólk í námi er af skornum skammti. Markmið námslánakerfisins á að vera að veita stúdentum stuðning en aðgengið að því og kjörin sem standa til boða grípa ekki allan stúdentahópinn. Til viðbótar skarast það á við önnur kerfi sem stúdentar þurfa að sækja í, svo sem atvinnuleysistryggingasjóð og fæðingarorlofssjóð.

Tökum dæmi um einhleypan og barnslausan stúdent við Háskóla Íslands á námslánum, sem býr í herbergi með sameiginlegri aðstöðu á Stúdentagörðunum. Í byrjun skólaárs þarf stúdentinn að greiða 75 þúsund kr. í skrásetningargjöld og kaupa fjórar námsbækur sem eru u.þ.b. átta þúsund kr. hver, sem gera 32 þúsund kr. Stúdentinn á rétt á 116.187 kr. á mánuði í grunnframfærslu frá Menntasjóðnum. Með viðbótarláni með tilliti til húsnæðis, sem er 79.853 kr. á mánuði, getur stúdent fengið framfærslu sem samsvarar 196.040 kr. á mánuði.  Mánaðarleg húsnæðisleigan hans er er 99.999 kr. Þú þarft að kaupa mat, dæmigert neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins fyrir mánaðarlegum matartengdum útgjöldum fyrir einn bíllausan fullorðinn höfuðborgarbúa er 37.493 kr. Við skulum miða við þá upphæð. Án þess að taka saman húsnæðisbætur og útgjöld vegna heilsu, þjónustu, samgangna eða tómstunda þarftu að greiða rúmar 244.492 kr. í byrjun skólaársins sem gera 48.452 kr. umfram námslánið. Stúdent greiðir ekki mánaðarlega skrásetningargjöld og námsbækur svo sá liður er ekki alltaf til staðar. Hins vegar er hægt að bæta við þeim útgjöldum sem við tókum ekki fyrst saman, þ.e.a.s. gjöld vegna heilsu, þjónustu, samgangna eða tómstunda. 

Útgjöldin safnast fljótt saman og án fjárhagslegs baklands eiga stúdentar erfitt með að ná endum saman. Það má ekkert koma fara úrskeiðis án þess að það setji fjárhagslega byrði stúdenta á hliðina. 

4,4 milljarðar í atvinnuleysistryggingasjóð án réttar 

Stúdentaráð stendur við kröfu sína um réttindi stúdenta til atvinnuleysisbóta og telur nauðsynlegt að tryggja þann rétt í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Almenn skilyrði þess að launamaður eigi rétt á atvinnuleysistryggingum skv. 13. gr. laganna er að vera í virkri atvinnuleit, en skv. 14. gr. laganna teljast stúdentar ekki vera það og eiga því almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum. 

Stúdentar áttu rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum fram að 1. janúar 2010. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar ofl., sem lagt var fyrir Alþingi í nóvember 2009, var sú breyting lögð til að námsmenn geta ekki talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Ástæðan var sú að krafa er gerð til þeirra sem missa vinnuna um að vera í virkri atvinnuleit, og að í því felist m.a. að þeir séu reiðubúnir að taka starfi hvar sem er á landinu án sérstaks fyrirvara. Þá átti námslánakerfið að grípa námsfólk. Hér var því gert ráð fyrir því að stúdentar væru ekki vinnandi fólk, en staðreyndin er sú að námslánakerfið þá og nú þrengir verulega að námsfólki sem neyðist til að leita út á vinnumarkaðinn. Það er síðan fólk sem hefur ekkert öryggi að sækja í. Í gegnum kórónuveirufaraldurinn var vinnumarkaðurinn vel að merkja að lokast ungu fólki. Þau störf sem stúdentar leita tíðast í meðfram námi og á sumrin, í t.d. ferðaþjónustunni og veitingageiranum, voru í algjörri biðstöðu. Samt sem áður þótti ekki tilefni til að gera nauðsynlegar breytingar í lagaumhverfinu. 

Samkvæmt ferli frumvarpsins á þingvefnum fór samþykki þess fram þann 18. desember 2009. Stúdentaráð lét sig málið varða á þeim tíma og ásamt öðrum stúdentahreyfingum skilaði ráðið inn umsögn við frumvarpið:

„Ástæða þess að stúdentar gera athugasemdir við 5. gr. er sú að námslán tryggja einungis framfærslu níu mánuði ársins en þá eru eftir þrír mánuðir þar sem þeim er ekki tryggð framfærsla. […] Mikilvægt er að fyrir liggi að námsmenn sem ekki fá vinnu á sumrin eigi rétt á félagslegri aðstoð frá sínu sveitarfélagi eða námslánum allt árið um kring ef afnema á rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. Stenst það ekki 1. mgr. 76. gr. stjómarskrárinnar um lágmarksframfærslu að ákveðinn hópur sé framfærslulaus þrjá mánuði ársins og þarf því að liggja alveg ljóst fyrir að námsmenn eigi kost á öðrum úrræðum í námsleyfum séu þeir atvinnulausir.“

Kjarni málsins er því sá að frá því að réttur stúdenta til atvinnuleysisbóta var afnuminn árið 2009 hefur hvorki tekist að brúa bilið milli þessara kerfa né stúdentum verið tryggð önnur vernd fjárhagslega. 

Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst um að allir stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar, sökum atvinnuleysis, hafi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Samkvæmt 3. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 renna tekjur ríkisins af atvinnutryggingagjaldi, sem greitt er af launum starfsfólks, til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í dag er gjaldið 1,35% af launum alls vinnandi fólks og þar á meðal stúdenta. 

Segjum að 70% stúdenta Háskóla Íslands vinna samhliða námi, í 50% starfshlutfalli að vetri og 100% starfi að sumri á lágmarkslaunum, skv. kjarasamningi SGS og SA frá 2010, nema atvinnutryggingagjöld þess hóps 4,4 milljarða króna frá 2010. Þau nema 4,5 milljarða króna ef við miðum við loks árs 2021. Samkvæmt EUROSTUDENT VI vinna stúdentar þó að meðaltali 26 klst. á viku með námi sem er nær 70% starfshlutfalli og því eru tölurnar í raun töluvert hærri.

Uppfært: Samkvæmt hóflegum útreikningi með hliðsjón af þróun lágmarkslauna samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 2004, nema atvinnutryggingagjöld stúdenta rúmlega 4,5 milljarða króna frá 2010.

Þrátt fyrir þessa staðreynd eru stúdentar undanskildir atvinnuleysistryggingakerfinu. Ef við myndum snúa aftur til kerfisins sem var við lýði fyrir 2010 myndi vinnandi námsfólk einfaldlega geta sótt sér þann rétt sem það hefur áunnið sér með greiðslu atvinnutryggingagjalds af launum sínum. Atvinnuleysisbæturnar sjálfar væru því í samræmi við hve mikið einstaklingur hefur unnið síðastliðna 36 mánuði rétt eins og hjá öðrum sem missa vinnuna. Krafa Stúdentaráðs er réttmæt enda snýst hún um að jafnræðis sé gætt meðal vinnandi landsmanna sem og að stúdentum sé ekki svipt fjárhagslegu öryggi fyrir það eitt að stunda nám. Það er staðreynd að stúdentar leggja atvinnuleysistryggingasjóði lið með þeirra vinnuframlagi og er það eitt og sér næg ástæða til að ráðast í breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu.

Námslánakerfið lélegur plástur á blæðandi sár

Hlutverk lánasjóðsins er að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir námsaðstoð og er stúdentum tækifæri til framvindu og framlags. Heildarendurskoðun á námslánakerfinu gaf stjórnvöldum gullið tækifæri til að byggja upp nýtt kerfi með hag stúdenta að leiðarljósi. Stúdentaráð telur aftur á móti að afgreiðsla frumvarpsins, sérstaklega á lokametrum þess, hafi verið fljótfær og að margt hafi verið ábótavant. Menntasjóður námsmanna, sem kom þá í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna sumarið 2020, hafði í för með sér góðar breytingar en er að stórum grundvallarhluta ófullnægjandi stuðningskerfi.

Fyrsta ár nýs námslánakerfis gekk að mati Stúdentaráðs heldur brösulega. Lág grunnframfærsla og skerðingar á borð við frítekjumarkið eru ástæður þess að stúdentar neyðast til að vinna meðfram námi. 

Grunnframfærsla framfærslulána og frítekjumarkið haldast í hendur:

  • Grunnframfærsla á að gera lántaka kleift að framfleyta sér fjárhagslega á meðan á námi stendur
  • Frítekjumarkið er hámarksupphæð tekna sem lántaki getur haft áður en lánið hans skerðist

Líkt og fyrr segir, getur stúdent fengið framfærslu sem samsvarar 196.040 kr. á mánuði (grunnframfærsla + viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar). Til samanburðar eru lágmarkslaun fyrir fullt starf u.þ.b. 351.000 kr. á mánuði og atvinnuleysisbætur, miðað við 100% bótarétt, eru 307.430 kr. á mánuði. Á sama tíma skerðist námslánið ef tekjur stúdentsins eru umfram 1.410.000 kr. á ári. Það eru þá 45% þeirra árlegu tekna sem eru umfram, sem koma til frádráttar á námsláni.

Þetta þýðir að einhleypi og barnlausi stúdentinn hér að ofan, á framfærslulánum sem duga honum skammt og neyða hann því til að vinna meira, lendir í því að lán hans skerðist í ofanálag. Með námslánakerfinu, eins og það er nú, er því verið að bjóða stúdentum upp á að koma sér í vítahring sem einkennist af því að þurfa að vinna fyrir sér þrátt fyrir að vera á framfærslulánum – og gjalda svo fyrir það. 

Vegna þessa hefur Stúdentaráð lagt þeim mun meiri áherslu á að hækka þurfi grunnframfærsluna þannig að hún samsvari, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Síðastliðið ár buðust stjórnvöldum þrjú tækifæri til þess að leiðrétta grunnframfærsluna: 

  1. Með úthlutunarreglum Menntasjóðsins 2020-2021 sem voru samþykktar af ráðherra í júlí 2020, í kjölfar þess að Menntasjóðurinn tók við af Lánasjóði íslenskra námsmanna.
  2. Með úthlutunarreglunum 2021-2022 sem voru samþykktar af ráðherra í mars 2021. 
  3. Með hópi ráðuneytisstjóra, sem falið var að vinna tillögur að hækkun á grunnframfærslunni,  en skilaði af sér tímabundinni hækkun er náði aðeins til þeirra stúdenta sem þéna minna en frítekjumark = tímabundið „viðbótarlán” sem er engin framtíðar lausn á fjárhagsstöðu stúdenta.

Önnur heildarendurskoðun á námslánakerfinu mun eiga sér stað fyrir haustþing 2023, að öllu óbreyttu. Alþingiskosningarnar á næsta leyti eru því stúdentum einstaklega mikilvægar. Stúdentaráð undirstrikar að endurskoðunin verði að eiga sér stað í samráði við helstu hagsmunaaðila þess, sem er fyrst og fremst námsfólkið sjálft. Í samræmi við umsagnir og ályktanir ráðsins frá sumrinu 2019 og 2020 ítrekar ráðið eftirfarandi þætti sem ber að breyta:

  • Viðhorfsbreyting stjórnenda Menntasjóðsins sem og stjórnvalda verður að eiga sér stað. Það getur ekki talist eðlilegt að samanborið við norðurlöndin skuli íslenskir stúdentar vinna mest með námi og að það skuli vera eðlilegt. Afstaða stjórnvalda endurspeglast í sáralitlum umbótum hvað varðar fjárhagslegt öryggi stúdenta.  
  • Sjálfbærnis hugsjón sjóðsins verður að heyra sögunni til. Gangi hvatakerfið upp, þ.e.a.s. að stúdentar klári námið á tilsettum tíma og fari út á vinnumarkað hraðar, mun það skila skatttekjum og sparnaði í skólakerfinu upp á 1-3 milljarða króna árlega, samkvæmt útreikningum Summu ráðgjafar ehf fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Stúdentaráð er þeirrar skoðunnar að þetta fjármagn eigi að renna aftur til sjóðsins. 
  • Tilhögun grunnframfærslu framfærslulána verður að fylgja skýr fyrirmæli um endurskoðun milli ára. Ellegar, er engin krafa gerð til stjórnar Menntasjóðsins um að grípa til aðgerða sé þess þörf.
  • Grunnframfærslu framfærslulána verður að hækka þannig að hún samsvari, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins.
  • Krafist er lægra vaxtaþaks.  Vextir eru ekki lengur í föstum 1% með reglum Menntasjóðs námsmanna heldur er þeir breytilegir. Vaxtaþak er nú 4% fyrir verðtryggð lán og 9% fyrir óverðtryggð lán. Vænta má þess að vextir á námslánum hækki upp að því hærra vaxtaþaki sem nú er. Stúdentaráð fer fram á að sett verði þak við 1% líkt og áður var hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, þar sem þessi hækkun hefur í för með sér aukna óvissu fyrir lántaka og verri lánakjör. 
  • Barnastyrkur er aðeins aðgengilegur þeim foreldrum sem í námi eru og taka lán hjá sjóðnum. Stúdentaráð undirstrikar að foreldrar í námi verða fyrir auknum útgjöldum og þykir miður að  þeir þurfi að vera lántakar til þess að fá téðan styrk.
  • Þinglýstur leigusamningur tryggir þeim, sem rétt eiga á, húsaleigubætur, og er því kostur fyrir marga. Það er hins vegar enginn almenn skylda til að þinglýsa leigusamningum og því skýtur skökku við ef Menntasjóður námsmanna ætlar að skikka lántakendur til að skila inn slíkum samningi. Það er  ótækt að halda því fram að ástæðan fyrir kröfunni um þinglýsta leigusamninga sé sú að námsfólki eigi að tryggja aukin réttindi, heldur er raunverulega ástæðan að Menntasjóðurinn er að krefjast að stúdentinn sé með þinglýstan leigusamning til að fá greitt út viðbótarlánið. Krafist er þess að krafan um þinglýsta leigusamninga falli niður og sé valkvætt. 
  • Tekjutenging skal afnumin þar sem hún skerðir aðgengi að námi og mismunar þeim sem höfðu ekki tök á að fara í nám fyrr á lífsleiðinni.

Markviss og ásættanlegur stuðningur við námsfólk er fjárfesting þegar til langs tíma er litið og þar með ávinningur fyrir samfélagið því það er það sem nýtur í miklum mæli góðs af. Gylfi Þ. Gíslason fyrrverandi menntamálaráðherra orðaði þetta manna best:

„Það má jafnvel segja, að vafasamt sé, hvort nokkur fjárfesting sé líkleg til þess að skila meiri arði en einmitt sú, sem varið er til þess að auka og bæta þekkingu þjóðarinnar.“

Undirfjármögnun háskólastigsins 

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var boðað til stórsóknar í menntamálum en þar segir skýrt að öflugt menntakerfi sé forsenda framfara og að menntun sé kjarni í nýsköpun til framtíðar. Ríkisstjórnin setti sér tvö markmið hvað varðar fjárframlög til háskólastigsins. Annars vegar að fjármögnun háskólastigsins næði meðaltali OECD ríkjanna fyrir árið 2020 og hins vegar meðaltali Norðurlandanna árið 2025. Hið fyrra náðist og er fjármögnunin sambærileg meðaltali háskóla innan OECD ríkja. 

Háskóli Íslands hefur aftur á móti bent á að fjármögnun háskólans stendur enn langt að baki fjármögnun sambærilegra háskóla á Norðurlöndunum og að brýnt sé að grípa til markvissra aðgerða þannig að hægt sé að ná seinna markmiðinu árið 2025. Samkvæmt árstölum sem fram komu á ársfundi Háskóla Íslands 2021, eru heildartekjur háskóla á ársnema á Norðurlöndunum að meðaltali 4,6 milljónir króna árlega en á Íslandi aðeins 2,9 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,7 milljónum króna minna. Í samanburði við námsmenn á Íslandi fá:

  • Nemendur 90% meira í Danmörku 
  • Nemendur 66% meira í Noregi
  • Nemendur 59% meira í Svíþjóð
  • Nemendur 28% meira í Finnlandi

Í umsögn Stúdentaráðs vegna grænbókar um fjárveitingar til háskóla í febrúar 2020, lagði ráðið áherslu á endurskoðun fjárframlagsins ætti að fela í sér að fjölga þeim matsþáttum sem til skoðunar koma til fjárveitinga. Núverandi kerfi, reiknilíkan háskólanna, lítur aðallega að fjölgun nemenda og er því fremur einsleitt. Hentugra væri að fara sömu leið og samanburðarríkin hafa farið, þ.e.a.s. að auka hlutfall fastrar fjármögnunnar og annarrar fjárveitingar sem ekki er jafn breytileg og þættir reiknilíkansins. Háskóli Íslands kom einnig inn á, í umsögn sinni, að landslag háskólakerfisins hefur tekið mörgum breytingum á þeim tveimur áratugum sem téð fyrirkomulag hefur staðið í stað, þannig taka breytur í reiknilíkaninu, sem ákvarða hvernig fjármagni er úthlutað til mismunandi fræðasviða/deilda háskólanna, ekki mið af raunkostnaði. Fjárþörf háskólanna verður að byggja á fleiri matsþáttum en þannig er hægt að tryggja rekstrargrundvöll skólanna með fyrirsjáanlegri hætti. Það er sérstaklega mikilvægur þáttur fyrir Háskóla Íslands og skiptingu fræðasviða hans, sem síðan skiptast í deildir þar sem allur gangur er á fjölda nemenda. 

Hvað varðar opinbera háskólamenntun sérstaklega, er fyrirkomulag fjárveitinga hérlendis þannig að einkareiknir háskólar fá bæði sama framlag og opinberir háskólar til viðbótar við þau skólagjöld sem þau innheimta. Aftur á móti, virðist fyrirkomulagið í flestum samanburðarríkjum vera þannig að sértekjur vegna skólagjalda einkarekinna háskóla dragist a.m.k. að hluta til frá fjárveitingu hins opinbera. Slík ráðstöfun er að mati Stúdentaráðs bæði hagkvæm, þar sem þá losnar um fjármagn sem nýta má til að vinna að ákveðnum markmiðum, og sanngjörn gagnvart hinum opinberu háskólum sem ekki hafa sértekjumöguleika vegna skólagjaldanna.

Vinnan við grænbók um fjárveitingar til háskóla var meðal aðgerða í stefnu- og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, til að auka gæði og skilvirkni í starfi háskólanna með því að endurskoða og efla fjárveitingar til þeirra. Var hún kynnt til samráðs 13. janúar 2020 og samkvæmt ferli þess í Samráðsgáttinni er enn beðið eftir niðurstöðum samráðsins. Stefnt var að því að ljúka endurskoðun á reiknilíkani háskólastigsins árið 2020 og var það liður í mótun menntastefnunnar til ársins 2030, sem samþykkt var í mars 2021. Enn er beðið eftir fyrstu innleiðingaráætlun stefnunnar sem átti að líta dagsins ljós innan við sex mánaði frá samþykkt hennar.

Stúdentum við Háskóla Íslands hefur fjölgað talsvert á tiltölulega stuttum tíma. Stúdentaráð hefur í þessu samhengi bent á ofuráherslu stjórnvalda um að koma fólki í nám, til að mennta okkur út úr kórónuveirukreppunni, og skort á langtímaráðstöfunum samhliða. Fjárlög fyrir árið 2021 gerðu ráð fyrir auknu fjármagni til háskólastigsins, sem á þessum tímum voru og eru áríðandi til að tryggja gæði náms sem og getu til að sinna fjölgun nemenda með fullnægjandi móti. Það er lykilatriði að auknar fjárveitingar séu ekki einungis vegna tímabundinnar fjölgunar nemenda, heldur líka til þess að styrkja menntakerfið okkar til framtíðar. Það er forsenda þess að háskólinn geti sinnt grunnstarfsemi sinni. 

Það er gerð krafa til menntakerfisins að sérhæfa einstaklinga til að undirbúa þá betur undir áskoranir, öðla færni og þekkingu, og stuðla að sjálfbærri framtíð. Undirfjármögnun háskólastigsins getur leitt til þess að gæði kennslu hrakar og hvatinn til úrbóta takmarkast. Námsaðstoð og sértæk þjónusta verða af skornum skammti sem og námsaðstaða. Námsframboðið kann einnig að versna, líkt og við sáum skólaárið 2017-2018 þegar u.þ.b. fimmtíu námskeið voru felld niður við skólann, vegna aðhaldsstefnu stjórnvalda á þeim tíma. Háskóli Íslands er meðal fremstu háskóla á alþjóðavísu og prófessorar okkar eru einnig í hópi fremstu vísindamanna heims. Til þess að háskólinn geti verið samkeppnishæfur í því umhverfi verður að styrkja innviði hans, skapa honum sérstöðu þannig að hann geti verið leiðandi í kennslu og rannsóknarstarfsemi. Það borgar sig margfalt inn í íslenskt samfélag,  eflir lífskjör og verðmætasköpun. Þó að Háskóli Íslands sé sjálfstæð eining, er hann  ríkisrekin stofnun og er það beinlínis á ábyrgð stjórnvalda að fjárframlögin til Háskólans séu viðunandi. 

Þrefalt hærra skrásetningargjald en á Norðurlöndunum 

Undirfjármögnun háskólans í hvaða mynd sem hún birtist er veruleg hindrun að menntun. Ein birtingarmynd hennar er skrásetningargjald við opinbera háskóla, sem háskólum er heimilt að innheimta til viðbótar við fjárframlög frá ríkinu til að standa undir kostnað við þjónustu sem stúdentum er veitt. Til þess að Háskóli Íslands geti staðið undir þjónustunni með öðrum hætti verður löggjafarvaldið að ákveða að veita honum auknar fjárveitingar.

Það tíðkast almennt hvorki að innheimt skrásetningar- né skólagjöld af stúdentum í opinberum háskólum á Norðurlöndunum. Helsta undantekningin er Noregur þar sem nemendur greiða gjöld á bilinu 4.100 – 22.000 krónur, samkvæmt landssamtökum stúdenta í Noregi. Stúdentar við Háskóla Íslands greiða 75.000 krónur á ári sem er rúmlega þrefalt meira en í sambærilegum opinberum háskólum í Noregi, eða 340% meira. 

Það er 2. mgr., 24. gr. laga um opinbera háskóla sem heimilar innheimtun skrásetningargjaldsins, en þar segir: 

„Háskóla er heimilt að afla sér tekna til viðbótar við framlög skv. 1. mgr. með: a.) skrásetningargjöldum sem nemendur greiða við skráningu í nám, allt að 75.000 kr. fyrir hvern nemanda á ársgrundvelli; álögð gjöld samkvæmt þessum lið skulu eigi skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi.“

Árið 2020 sendi Stúdentaráð erindi til mennta- og menningarmálaráðherra í kjölfar þess að til umræðu var að hækka skrásetningargjaldið úr 75.000 í 104.000 krónur. Mennta- og menningarmálaráðherra tjáði ráðinu að það yrði ekki hækkað og var viljug til að skoða gjaldið nánar í mögulegum starfshópi sem hefur síðan ekki orðið að veruleika, þrátt fyrir að fulltrúar Stúdentaráðs hafi gengið eftir því. Þá fór Stúdentaráð fram á að skrásetningargjaldið yrði afnumið fyrir skólaárið 2020-2021, þar sem fjárhagsstaða stúdenta hafði tekið skell vegna aukins samdráttar á vinnumarkaði sökum faraldursins. Ekki var mætt þeirri beiðni. 

Skrásetningargjaldið er auknar álögur á stúdenta sem nú þegar vinna í miklum mæli meðfram námi. Það takmarkar þannig aðgengi að háskólamenntun og skerðir jafnrétti allra til náms. Það má raunar telja það óeðlilegt að málaflokkur menntamála standi höllum fæti og sé erfiður að fjármagna, þegar hann er uppspretta framfara samfélaginu til hagsbóta. Það er jafnframt ekki óeðlilegt að mennta- og menningarmálaráðherra, sem fer með og ber ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum á sviði mennta- og menningarmála og er þar með æðsti yfirmaður Háskóla Íslands, þurfi að geta svarað fyrir þessari staðreynd.

Það verður að standa við gefin loforð um stórsókn í menntun og að gera opinbera háskólamenntun hérlendis samkeppnishæfa opinberri háskólamenntun á Norðurlöndunum, þar sem skrásetningargjöld eru í miklum mun lægri. Háskóli Íslands er opinber stofnun og sem slík þá er hún fjármögnuð af ríkinu, það á ekki að vera á ábyrgð stúdenta að leggja ríkinu lið.  Stúdentaráð krefst þess að fjárframlög til Háskóla Íslands, sem og háskólastigsins í heild sinni, séu endurskoðuð af miklum þunga enda á núverandi fyrirkomulag ekki að vera forsenda uppbyggingar og styrkingu innviða æðstu menntastofnunar landsins. 

Stúdentar eru fjárfestingarinnar virði

Stúdentaráð bindur vonir við að árangursríkt samráð geti átt sér stað á næsta kjörtímabili og undirstrikar að það sé jafnréttismál að rödd stúdenta fái vægi í allri ákvarðanatöku sem þeim viðkemur. 

Aðeins með vilja stjórnvalda og aðkomu stúdenta er hægt að stuðla að jöfnu og hindrunarlausu aðgengi að menntun. Sé það gert með vönduðum og öruggum hætti eru lífskjör bætt og verðmætasköpun þjóðar aukin. Breyta þarf lagaumhverfinu til þess að stuðla að fjárhaggsöryggi stúdenta. Innan þess liggur krafa Stúdentaráðs að stúdentar verði veittur aðgengi að atvinnuleysistryggingarsjóði á ný. Á meðan sá réttur er ekki til staðar ríkir umhverfi fyrir stúdenta þar sem ekkert má fara úrskeiðis. 

Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur. Í þessu samhengi telur Stúdentaráð námslánakerfið ekki uppfylla hlutverk sitt sem félagslegur jöfnunarsjóður og lítur svo á að Menntasjóður námsmanna sé í núverandi mynd lélegur plástur á blæðandi sár. Til þess að bætt verði úr þeirri stöðu telur Stúdentaráð að fyrsta skrefið sé viðhorfsbreyting stjórnenda sjóðsins og stjórnvalda gagnvart námslánakerfinu. Það getur ekki talist eðlilegt að íslenskir stúdentar þurfi að vinna jafn mikið með námi og raungerist. Stúdentaráð krefst þess að tilhögun grunnframfærslu framfærslulána fylgi skýr fyrirmæli um endurskoðun milli ára. Þegar í stað verður svo grunnframfærslan að hækka þannig að hún samsvari, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. Sé það ekki gert eiga lántakar eftir að festast áfram í vítahring fjárhagslegs óstöðugleika. Með íþyngjandi kostnaði sem því fylgir að vera í námi við Háskóla Íslands verður staðan einnig verri. 

Við Háskóla Íslands eru þrefalt hærri skrásetningargjöld en við nágrana háskóla okkar á Norðurlöndunum. Þennan mun má rekja til undirfjármögnunar háskólans sem verður að leiðrétta með bættri fjárheimild. Til þess að háskólinn geti verið samkeppnishæfur og leiðandi í kennslu og rannsóknarstarfsemi verður að styrkja innviði hans. Þar sem Háskóli Íslands er ríkisrekin stofnun er það á ábyrgð stjórnvalda að fjárframlögin til Háskólans séu viðunandi. 

Kröfur Stúdentaráðs eiga sér ekki tilvist í tómarúmi, þær haldast í hendur og spila þátt í að efla bæði nám, umhverfi og lífskjör stúdenta við Háskóla Íslands. Ef farið er rétt að og sé vilji stjórnvalda til staðar, með aðkomu stúdenta, ályktar Stúdentaráð að vegferð geti hafist að raunverulegri stórsókn til atvinnu- og tekjuöryggis, menntunar og félagslegrar þjónustu og þannig hægt að tryggja fjárhagslegt öryggi stúdenta til frambúðar.

 

 

 

 

 

 

 

BREYTING: Stúdentaráðsfundur 25. ágúst 2021

Miðvikudaginn 25. ágúst fer Stúdentaráðsfundur fram í l-101 kl 17:00.
ATH. Fundinum hefur verið frestað.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Lög Stúdentasjóðs (kynning og atkvæðagreiðsla) 17:25-17:40
  5. Lög Stúdentaráðs (Umræður og atkvæðagreiðsla) 17:40-17:50
  6. Skipan í stjórn Stúdentasjóðs (atkvæðagreiðsla) 17:50-18:00
  7. Vísindaferð í Stúdentaráð (atkvæðagreiðsla) 18:00-18:15
  8. Hlé 18:15-18:25
  9. Niðurstöður stefnumótunarferðar (nefndir) 18:25-19:25
  10. Önnur mál 19:25 – 19:35
  11. Fundi slitið 19:35

Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs kjörinn forseti stúdentaráðs Aurora

Alma Ágústsdóttir var nýlega ráðin forseti Stúdentaráðs alþjóðlega háskóla samstarfsnetsins Aurora. Hún tekur við af Callum Perry sem gegndi stöðunni fyrir hönd University of East Anglia og er hún annar fulltrúinn frá Háskóla Íslands sem gegnir embættinu en Elísabet Brynjarsdóttir var forseti ráðsins frá 2018-2020.

Alma er 26 ára meistaranemi í þýðingafræði við Háskóla Íslands og hefur áður lokið BA-prófi í ensku við skólann. Hún brautskráðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2015 en sama ár vann hún The International Public Speaking Competition sem alþjóðlegu góðgerðarsamtökin, The English-Speaking Union (ESU), standa fyrir ár hvert. Í kjölfarið af því starfaði Alma hjá ESU, í London, sumrin 2016 og 2017 sem Educational Network Officer. Hún gegndi hlutverki mentors fyrir þátttakendur í alþjóðlegu ræðukeppninni í tvígang og dæmdi úrslit keppninnar 2021. Auk þess hefur Alma starfað sem stuðningsfulltrúi í frístundaheimilinu Selinu við Melaskóla síðan 2016.

Alma hefur einnig reynslu af Stúdentaráði. 2016 var hún kjörin í Stúdentaráð en það ár var hún einnig forseti Sviðsráðs Hugvísindasviðs, sat í stjórn Stúdentaráðs og var ritari ráðsins. Í dag situr Alma á skrifstofu Stúdentaráðs sem Alþjóðafulltrúi hennar.

Ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs

Vaka Lind Birkisdóttir hefur verið ráðin sem ný framkvæmdastýra á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Vaka Lind er 26 ára meistaranemi í alþjóðlegum stjórnmálum við Trinity College í Dublin á Írlandi, þaðan sem hún útskrifast í haust. Hún hefur áður lokið BA-prófi í félagsfræði með hagfræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Vaka Lind lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Starfsemi Stúdentaráðs er Vöku ekki ókunnug en hún sat í Stúdentaráði starfsárið 2017-2018 sem varafulltrúi á Félagsvísindasviði og því næst sem aðalfulltrúi starfsárið 2018-2019. Til viðbótar beitti hún sér innan stjórnar Félagsvísindasviðs og átti sæti í félagslífs- og menningarnefnd ráðsins. Vaka Lind var einnig virk í félagsstörfum innan sinnar námsleiðar og var gjaldkeri NORM, nemendafélags félagsfræðinnar, ásamt því að sjá um skipulagningu viðburða félagsins. Um þessar mundir er Vaka Lind fulltrúi mastersnema í stjórn MSF (Doctors Without Borders) eða Læknar án landamæra, við Trinity College.

Fyrri starfsreynslu hefur Vaka sem upplýsingafulltrúi og gjaldkeri hjá Skattinum til tveggja ára, en þar áður starfaði hún hjá UN Women. Meðmælendur gáfu Vöku mjög góð meðmæli og nefndu sérstaklega hve lausnamiðuð, áreiðanleg, félagslynd og opin hún væri í samskiptum.

Vaka Lind hefur afburðaþekkingu á hagsmunabaráttu stúdenta, reynslu af fjársýslustörfum, getu til að starfa sjálfsætt, vilja til að vinna með Stúdentaráði í heild sinni og menntun sem nýtist í starfi framkvæmdastýru. Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Vöku Lind Birkisdóttur til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu framkvæmdastýru ráðsins, og hlakkar mikið til að vinna með henni að bættum hag stúdenta.

Alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs kjörinn forseti stúdentaráðs Aurora

Alma Ágústsdóttir var nýlega ráðin forseti Stúdentaráðs alþjóðlega háskóla samstarfsnetsins Aurora. Hún tekur við af Callum Perry sem gegndi stöðunni fyrir hönd University of East Anglia og er hún annar fulltrúinn frá Háskóla Íslands sem gegnir embættinu en Elísabet Brynjarsdóttir var forseti ráðsins frá 2018-2020.

Alma er 26 ára meistaranemi í þýðingafræði við Háskóla Íslands og hefur áður lokið BA-prófi í ensku við skólann. Hún brautskráðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2015 en sama ár vann hún The International Public Speaking Competition sem alþjóðlegu góðgerðarsamtökin, The English-Speaking Union (ESU), standa fyrir ár hvert. Í kjölfarið af því starfaði Alma hjá ESU, í London, sumrin 2016 og 2017 sem Educational Network Officer. Hún gegndi hlutverki mentors fyrir þátttakendur í alþjóðlegu ræðukeppninni í tvígang og dæmdi úrslit keppninnar 2021. Auk þess hefur Alma starfað sem stuðningsfulltrúi í frístundaheimilinu Selinu við Melaskóla síðan 2016.

Alma hefur einnig reynslu af Stúdentaráði. 2016 var hún kjörin í Stúdentaráð en það ár var hún einnig forseti Sviðsráðs Hugvísindasviðs, sat í stjórn Stúdentaráðs og var ritari ráðsins. Í dag situr Alma á skrifstofu Stúdentaráðs sem Alþjóðafulltrúi hennar.

Stúdentaráðsfundur 21. júlí 2021

Miðvikudaginn 21. júlí fer Stúdentaráðsfundur fram í Odda-201 kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
  4. Kynning á Kennsluakademíu og Spretti 17:20-18:05
  5. Tillaga um viðbrögð Stúdentaráðs vegna þjónustu næturstrætó (atkvæðagreiðsla) 18:05-18:20
  6. Hlé 18:20-18:30
  7. Verklagsreglur Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:30-18:40
  8. Skipan fulltrúa stúdenta í stjórn Félagsstofnunar stúdenta (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:50
  9. Önnur mál 18:50-19:00
  10. Bókfærð mál

Ert þú enn að leita að sumarstarfi? – Könnun á vegum Vinnumálastofnunnar

Kæru stúdentar

Stjórnvöld boðuðu 2500 störf fyrir námsfólk sumarið 2021 hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Nú liggur fyrir að vel hefur gengið að ráða í þau störf og hefur Vinnumálastofnun vegna þessa efnt til könnunar um atvinnuhagi námsmanna svo hægt sé að meta hvort afla þurfi viðbótarheimilda til að bjóða upp á fleiri störf. 

Við viljum hvetja ykkur sem hafið enn ekki fengið starf um að taka þessa afar stuttu könnun. Ábyrgðar- og vinnsluaðili könnunarinnar er Vinnumálastofnun og því skulu athugasemdir eða spurningar beinast að stofnuninni.

Ef spurningar vakna varðandi önnur hagsmunamál er velkomið að hafa samband við Stúdentaráð á shi@hi.is.