Viðbrögð Stúdentaráðs vegna úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna skólaárið 2021-2022

Úthlutunarreglur hjá Menntasjóði námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022 hafa verið samþykktar af mennta- og menningarmálaráðherra. 

Stúdentaráð furðar sig á að ákvörðun um hækkun grunnframfærslu framfærslulána hafi ekki legið fyrir þegar úthlutunarreglurnar voru samþykktar. Stúdentar hafa lengi krafist þess að grunnframfærslan sé hækkuð og verið í ítrekuðum samskiptum við stjórnvöld um ferli málsins, því telur Stúdentaráð skjóta skökku við að fulltrúar stúdenta hafi ekki verið upplýstir um stöðu mála og að hækkun myndi ekki liggja fyrir þegar úthlutunarreglurnar voru birtar í gær og að nýjum hópi ráðuneytisstjóra yrði falið að vinna tillögur þess efnis fyrir 1. maí nk.. Stúdentaráð hefur haldið því til streitu að grunnframfærslan verði að hækka þannig að hún samsvari að lágmarki dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins. 

Stúdentaráð bindur vonir við að stjórnvöld sýni stuðning í verki og að tillögur hóps ráðuneytisstjóra skili sér í hækkun umfram verðlagsbreytinga. Þá tekur ráðið undir athugasemdir SÍNE vegna kjara námsmanna erlendis og telur það vonbrigði að baráttumál SÍNE sé ekki að finna í úthlutnarreglunum. Um er að ræða varnagla sem snýr að því að stjórn sjóðsins verði að kanna hvort námsmenn erlendis eigi rétt á staðaruppbót ef gengissveiflur eru miklar.

Helstu breytingar á úthlutunarreglum Menntasjóðsins fyrir skólaárið 2021-2022

Hækkun á frítekjumarki
Stúdentaráð fagnar því að frítekjumarkið hækkar úr 1.364.000 kr. í 1.411.000 kr. Heimilt er að fimmfalda frítekjumarkið ef stúdent hefur ekki verið að taka námslán hjá sjóðnum s.l. 6 mánuði. Stúdentaráð telur að heimildin nái ekki til allra stúdenta og ítrekar afstöðu sína að öllum súdentum eigi að gefast kostur á að sækja um fimmföldun á frítekjumarkinu.

Aukið svigrúm hvað varðar lánshæfar einingar og lánsrétt
Stúdentaráð fangar auknum svegjanleika fyrir stúdenta sem varða skiptingu á lánsrétti milli námsstiga. Í fyrri úthlutunarreglum voru 180 ECTS-einingar eyrnarmerktar grunnnámi og 120 ECTS-einingar eyrnamerktar meistaranámi. Nú hafa þessi námsstig verið sameinuð og eiga stúdentar rétt á láni fyrir 300 ECTS-einingum í grunn- eða meistaranám. Þetta þýðir að stúdentar hafa svigrúm til að ráðstafa 300 ECTS-einingum í grunn- eða meistaranám. Sameiginlega svigrúmið upp á 120 ECTS-einingar (til viðbótar að eigin vali á grunn-, meistara- eða doktorsstigi) ásamt 60 ECTS-eininga lánsréttur í doktorsnámi er óbreytt.

Undanþága er varðar örorku
Skilyrði fyrir undanþágu vegna námsframvindu vegna örorku er lækkað úr 75% í 50% hlutfall. SHÍ telur að með þessari breytingu eykst aðgengi að menntun fyrir þá námsmenn sem falla undir undanþáguna.

Umsóknarfrestir
Umsóknarfrestir fyrir námslán hafa verið færðir og verða núna 15. september (fyrir haustmisseri), 15. janúar (fyrir vormisseri) og 15. júní (fyrir sumarmisseri). SHÍ fagnar að umsóknarfrestirnir hafi verið færðir örlítið lengra inn á misserin. Þó verður að hafa í huga að aðstæður stúdenta geta breyst verulega á miðju misseri og því telur ráðið að umsóknarfrestirnir séu enn þá of snemma á misserunum.

Séreignarsparnaður greiddur út 2021
Umsækjendur um námslán sem fá greiddan út séreignarsparnað á árinu 20210 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2021-2022.

Tekjur vegna vinnu í bakvarðarsveit
Námsmenn geta óskað eftir því að tekjur sem aflað er vegna vinnu fyrir bakvarðasveitir heilbrigðis- og velferðarþjónustunnar og bakvarðasveit lögreglunnar komi til frádráttar við útreikning á námsláni.Stúdentaráð vekur athygli á að hægt er að finna nánari upplýsingar um endurgreiðslur H-lána í nýjum úthlutunarreglum.
Stúdentaráð vill upplýsa stúdenta að krafan um þinglýsta leigusamninga er enn að finna í úthlutunarreglum næsta skólaárs.

Niðurstöður kosninga til Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Síðastliðinn miðvikudag og fimmtudag, 24. og 25. mars, fóru fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2021-2022. Stúdentar kusu á milli framboðslista á sínu fræðasviði og fá fulltrúar ráðsins sæti í samræmi við hlutfall kosninga.

Stúdentaráð samanstendur af 17 fulltrúum og eins og kerfið er í dag eru 3 fulltrúar af hverju fræðasviði nema 5 fulltrúar á Félagsvísindasviði. Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk alls 16 fulltrúa kjörna en Vaka, hagsmunafélag stúdenta, fékk 1 fulltrúa.

Kosn­ing­in fór fram á Uglunni og var kjör­sókn 26,46% en nánari tölur má finna hér undir lagaleg skjöl.
Kjörnu fulltrúarnir raðast á eftirfarandi máta:

Fé­lags­vís­inda­svið:
1. Re­bekka Karls­dótt­ir (Röskva)
2. Erna Lea Berg­steins­dótt­ir (Röskva)
3. Stefán Kári Ottós­son (Röskva)
4. Ell­en Geirs­dótt­ir Håk­ans­son (Vaka)
5. Kjart­an Ragn­ars­son (Röskva)

Heil­brigðis­vís­inda­svið:
1. Ing­unn Rós Kristjáns­dótt­ir (Röskva)
2. Mar­grét Jó­hann­es­dótt­ir (Röskva)
3. Kristján Guðmunds­son (Röskva)

Hug­vís­inda­svið:
1. Jóna Gréta Hilm­ars­dótt­ir (Röskva)
2. Anna María Björns­dótt­ir (Röskva)
3. Sig­urður Karl Pét­urs­son (Röskva)

Menntavís­inda­svið:
1. Rósa Hall­dórs­dótt­ir (Röskva)
2. Rann­veig Klara Guðmunds­dótt­ir (Röskva)
3. Erl­ing­ur Sig­valda­son (Röskva)

Verk­fræði- og nátt­úru­vís­inda­svið:
1. Ingvar Þórodds­son (Röskva)
2. Inga Huld Ármann (Röskva)
3. Helena Gylfa­dótt­ir (Röskva)

 

Skrifstofa Stúdentaráðs óskar nýkjörnum Stúdentaráðsliðum innilega til hamingju með kjörið og heilla í starfi. 

Niðurstöður könnunar um háskólanema og sumarstörf frá 29. maí 2020

Könnun þessi var unnin af Stúdentaráði Háskóla Íslands í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta og mennta- og menningarmálaráðuneytinu en framkvæmd af Maskínu. Markmiðið var að kanna líðan og stöðu stúdenta á vinnumarkaði í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Um er að ræða úrtakskönnun sem fór á nemendur við sjö háskóla á landinu þann 29. maí 2020 og lokaði 11. júní 2020. Þátttakendur voru 2640 talsins. Niðurstöður þessarar könnunar hafa ekki verið birtar formlega af mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Stúdentaráðs.

Umrædd könnun, númer fjögur í röðinni, var gerð í kjölfarið annarrar samstarfskönnunar Stúdentaráðs með ráðuneytinu og Landssamtökum íslenskra stúdenta, sem má finna hér. Niðurstöður hennar sýndu 38.9% atvinnuleysi meðal stúdenta þvert á skóla landsins, sem var jafn hátt hlutfall og í annarri könnun Stúdentaráðs frá 6. apríl. Spurningalistinn og aðferðafræðin var yfirfarin af ráðuneytinu áður en hún var send út en niðurstöðurnar ekki litnar alvarlegum augum, og því ákvað mennta- og menningarmálaráðuneytið að fá óháðan aðila til að senda út fjórðu könnunina, til að fá raunverulegar tölur.

Vinnumálastofnun opnaði fyrir umsóknir í sumarstörf þann 26. maí 2020 þannig að það var viðbúið að niðurstöðurnar myndu sýna að staða stúdenta hefði skánað. Tölurnar sýndu minnkað hlutfall atvinnulausra og betri líðan stúdenta, sem var mjög jákvætt. Hins vegar var enn 16,2% atvinnuleysi meðal stúdenta og þótti Stúdentaráði réttast að kanna betur hvers vegna það væri og sömuleiðis hvað væri hægt að gera betur. Ekki var tekið tillit til þessa. 

Í samskiptum Stúdentaráðs við stjórnvöld gagnrýndi ráðið framsetningu á niðurstöðum könnunarinnar þar sem af þessum 16.2% voru dregin af 6,%, sem voru þau sem ætluðu í sumarnám, og svo önnur 0.5% sem höfðu þegar fengið boð um starf. Þannig var meiningin að sýna fram á að aðeins 9.2% stúdenta væru atvinnulausir. Það gat ekki staðist. Að fara í sumarnám er með engu móti það sama og að eiga starf sér til framfærslu. Af þessum sem ætluðu í sumarnám voru líka 10.5% sem sögðust ætla að vera á námslánum samhliða. Það er skuldsetning. Atvinnuleysi mældist enn meðal stúdenta og þörf var á viðbrögðum.

Niðurstöður þessar eru að birtast fyrst hér. Skýrslu með ítarlegri sundurliðun er að finna hér.

Mikilvæg atriði sem draga má af niðurstöðunum:

  • 16,2% stúdentar voru enn atvinnulausir í júní 2020 
  • 43,6% af þeim sem voru atvinnulausir sáu fyrir sér að fara í sumarnám og 17,6% aðeins ef þau yrðu ennþá atvinnulaus
  • 69,4% af þeim sem voru atvinnulausir höfðu ekki fengið boð um sumarstarf í júní, og 25,4% misstu það starf sem þau voru þegar komin með
  • 67,4% þeirra sem ekki voru komin með starf sögðust myndu eiga erfitt með að mæta útgjöldum sínum í sumar og 23,8% sögðu það verða í meðallagi
    • Þá sögðust 64,3% þeirra sem voru komin með starf eiga auðvelt með að mæta útgjöldum sínum
  • Af þeim sem sögðust ætla að skrá sig í sumarnámskeið, sögðust 65,8%, ekki ætla að sækja um námslán jafnvel þó þau yrðu atvinnulaus
  • 45% þótti skrásetningargjöld við opinbera háskóla vera lítið eða ekki íþyngjandi og 30% þótti það fremur eða mjög íþyngjandi.
  • Á skalanum 0-10 (0 verandi mjög óhamingjusamur/söm og 10 verandi mjög hamingjusamur/söm) sögðust flestir svarendur, eða 29,3%, staðsettu sig á 8 á skalanum. Meirihluti svarenda staðsettu sig fyrir ofan 5 á skalanum.

Stúdentaráðsfundur 10. mars

Miðvikudaginn 10. mars fer Stúdentaráðsfundur fram í raunheimum og á Teams kl 17:00. Stúdentaráðsliðum gefst kostur á að sækja fundinn en vegna fjöldatakmarkana er okkur ekki unnt að bjóða gestum. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa þá öllum stúdentum og er þeim því velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Átak Stúdentaráðs og Hugrúnar

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Hugrún geðfræðslufélag efna til átaks vikuna 22.-26. febrúar með það að markmiði að miðla fræðsluefni og bjargráðum til stúdenta. Ljóst er að samfélagsástandið hefur verið þeim einstaklega erfitt viðureignar, námserfiðleikar kunna að hafa aukast og geðheilsa stúdenta tekið skell.


Niðurstöður könnunar Stúdentaráðs frá 9. – 16. október voru til marks um að 67% stúdenta líði ekki vel í aðstæðum sökum faraldursins og 72% þeirra voru að upplifa mikið álag sem þau töldu að hefði áhrif á námsframvindu. Þessar niðurstöður komu því miður ekki mikið á óvart þar sem niðurstöður fyrstu könnunar ráðsins frá 22. mars sýndu að 54% íslenskra nema töldu sig upplifa mikla streitu og sömuleiðis 42% alþjóðlegra nema, og sögðu 53.1% að það kæmi til með að hafa áhrif á námsframvindu.


Það er vegna þessa sem Hugrún og Stúdentaráð hafa tekið höndum saman, til að styðja við stúdenta, hlusta og aðstoða. Viljum við að stúdentar séu meðvitaðir um þá fræðslu sem Hugrún stendur fyrir og sömuleiðis að ávallt sé hægt að hafa samband við okkur.

 

Umsóknir opnar í Stúdentasjóð vegna 3. úthlutunar

Það er nú opið fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur lög og verklagsreglur sjóðsins, en þær má nálgast hér og á heimasíðu Stúdentaráðs.

Spurningum skal vísað til Hauks Friðrikssonar, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Aðgerðir strax!

Herferð Ungra Umhverfissinna um Aðgerðir strax! Fer formlega í loftið í dag.

Tilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á þörfinni á róttækari loftslagsaðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Lesið meira um herferðina og kröfulista hennar hér.

Í dag halda Loftslagsverkföllin áfram og hvetur Stúdentaráð öll þau sem vilja leggja málefninu lið til þess að mæta á Austurvöll núna á föstudaginn klukkan 12:00 og krefjast Aðgerða strax!

#adgerdirstrax

Stúdentaráðsfundur 17. febrúar 2021

Kæru stúdentar

Miðvikudaginn 17. febrúar fer Stúdentaráðsfundur fram í raunheimum og á Teams kl 17:00. Stúdentaráðsliðum gefst kostur á að sækja fundinn en vegna fjöldatakmarkana er okkur ekki unnt að bjóða gestum. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa þá öllum stúdentum og er þeim því velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

 

Heimildaþáttaröð Stúdentaráðs frumsýnd á RÚV

Á morgun, fimmtudaginn 4. febrúar, verður frumsýning á heimildaþáttaröð Stúdentaráðs, Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs. Þættirnir eru gefnir út í tilefni af 100 ára afmæli Stúdentaráðs og rekja þeir sögu ráðsins.

Þættirnir verða sýndir á RÚV alla fimmtudaga í febrúar klukkan 20.45.

Hér má sjá brot af þáttunum:

 

Tilkynning frá Stúdentaráði vegna Stúdentagarða

Stúdentaráð vill upplýsa stúdenta á Stúdentagörðunum að réttindaskrifstofa ráðsins hefur þegar rætt við forsvarsmenn Félagsstofnunar stúdenta, um væntanlegar framkvæmdir á Vetragörðum og áhyggjur íbúa vegna þeirra raskana sem þær kunna að hafa í för með sér. 

Ljóst er að fregnirnar liggi þungt á íbúum og að það þurfi að eiga sér stað viðameiri samtöl vegna þessa. Félagsstofnun stúdenta vinnur nú í að taka saman ábendingar sem hafa borist og verða svör við þeim send öllum íbúum í dag. Einnig hefur verið ákveðið að flýta upplýsingafundi sem halda á með íbúum sem búa í þeim hluta hússins sem fer í upptekt.