Niðurstöður Stúdentaráðskosninga 2023

Kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands fóru fram dagana 22. og 23. mars. Heildarkjörsókn var 32,54%. Nýtt Stúdentaráð tekur við á skiptafundi ráðsins í lok maí og hlutu eftirfarandi aðilar kjör í Stúdentaráð:

Félagsvísindasvið:

  • Arna Dís Heiðarsdóttir (Röskva)
  • Daníel Hjörvar Guðmundsson (Vaka)
  • Emilía Björt Írisard. Bachmann (Röskva)
  • Júlíus Viggó Ólafsson (Vaka)
  • Kristmundur Pétursson (Röskva)

Heilbrigðisvísindasvið:

  • Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsd. (Röskva)
  • Daníel Thor Myer (Röskva)
  • Elísabet Sara Gísladóttir (Vaka)

Menntavísindasvið:

  • Júlíana Dögg Önnudóttir Chipa (Vaka)
  • Tanja Sigmundsdóttir (Röskva)
  • Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir (Röskva)

Verkfræði- og náttúruvísindasvið:

  • María Rós Kaldalóns (Röskva)
  • Davíð Ásmundsson (Röskva)
  • Eiður Snær Unnarsson (Vaka)

Hugvísindasvið:

  • Guðni Thorlacius (Röskva)
  • Júlía Karín Kjartansdóttir (Röskva)
  • Steinunn Kristín Guðnadóttir (Röskva)

Ítarlegri niðurstöður kosninga er að finna hér.

Háskólann vantar milljarð, núna

Stúdentar gjalda misbresti stjórnvalda

Með ónógri fjárveitingu í mörg ár hafa stjórnvöld brugðist skyldu sinni varðandi grunnstarfsemi háskólanna. Til að brúa bilið sem myndast hefur í rekstri hafa háskólayfirvöld meðal annars brugðið á það ráð að óska eftir því að skrásetningargjöld stúdenta verði hækkuð. Á Íslandi borga stúdentar margfalt hærra skrásetningargjald en þekkist á Norðurlöndunum og er núna til umræðu að hækka gjaldið enn frekar. Stúdentaráð leggst alfarið gegn hækkun skrásetningargjaldsins sem er nú þegar allt of hátt. Það takmarkar aðgengi að háskólamenntun og skerðir jafnrétti til náms.

 

Stúdentar splæsa

Háskólayfirvöld hafa óskað eftir því að skrásetningargjaldið verði hækkað í 95.000 kr. Skrásetningargjald er þjónustugjald, en ekki er að sjá að hækkunin samræmist þjónustunni sem gjaldið á að ná til. Má því draga þá ályktun að óréttmætri byrði á rekstri háskólans sé velt enn frekar yfir á stúdenta. Hækkun gjaldsins jafngildir dropa í hafið fyrir háskólann, en er verulega íþyngjandi fyrir nemendur. HÍ er opinber stofnun og grunnstoð í lýðræðissamfélagi. Sem slík er rekstur hennar í höndum ábyrgra stjórnvalda.

 

Af hverju eru háskólayfirvöld að óska eftir því að gjaldið verði hækkað?

Vegna þess að Háskóla Íslands vantar peninga til að halda uppi grunnstarfsemi sinni. 

Það er ekki tilviljun að ósk rektors um hækkun gjaldsins kemur nú, á sama tíma og stjórnvöld  skáru niður framlög til Háskóla Íslands í fjárlögum sem samþykkt voru fyrir áramót. Þessi beiðni um hækkun gjaldsins nú ekkert annað en örvæntingarfull tilraun háskólayfirvalda til þess að reyna að ná endum saman fyrir komandi ár vegna þess að stjórnvöld sinna ekki lögbundinni skyldu sinni til þess að halda uppi grunnstarfsemi háskólanna með nægilegri fjárveitingu á fjárlögum. 

Finnst þér sanngjarnt að vera látin borga fyrir það sem aðrir eiga að borga?

 

Kostar virkilega hundrað þúsund kall að skrá okkur í skólann?

Stutta svarið er nei. Háskólinn rökstyður gjaldið með kostnaðarliðum að baki gjaldinu, sem Stúdentaráð dregur í efa að standist lög um opinbera háskóla, þ.e. að háskólinn sé að rukka stúdenta meira en lögin heimila. Gjaldið fer nefnilega í mun fleiri hluti en bara skráningu nemenda og það fer í ýmsa þjónustu burtséð frá því hvaða þjónustu stúdent nýtir sér. Kostnaðarliðirnir eru m.a.: 

  • Aðgangur að tölvum, prenturum ofl.
  • Þjónusta alþjóðaskrifstofu
  • Til samtaka og stofnana stúdenta, FS, SHÍ
  • Upplýsingamiðlun og námsráðgjöf
  • Skrásetning stúdenta í námskeið og próf
  • Aðstaða og stjórnun
  • Aðgangur að bókasafni og lesaðstöðu
  • Skrifstofa kennslusviðs
  • Skipulag kennslu og prófa
  • Nemendakerfi

Lögin taka fram að skrásetningargjaldið megi ekki fara í kostnað vegna kennslu- og rannsókna en Stúdentaráð telur það hins vegar vera raunin. Hvað finnst þér? Finnst þér t.d. kostnaður vegna skipulags kennslu ekki falla undir kostnað vegna kennslu?

 

Er ekki eðlilegt að skrásetningargjaldið hækki á milli ára?

Það er eðlilegt að gjöld taki mið af verðlagsbreytingum milli ára, en lykilatriðið er að hluti skrásetningargjaldsins á að dekka kostnað sem  er alls ótengdur eiginlegri skrásetningu stúdenta. Stúdentaráð telur því ekki halda vatni að rökstyðja hækkun gjaldsins nú með vísitöluhækkunum á núverandi kostnaðarliðum (sjá að ofan), þar sem vafi leikur á um hvort þeir standist lög.

 

Hversu hátt er gjaldið á hinum Norðurlöndunum?

Það tíðkast almennt hvorki að innheimta skrásetningar- né skólagjöld af stúdentum í opinberum háskólum á hinum Norðurlöndunum. Helsta undantekningin er Noregur þar sem nemendur greiða gjöld á bilinu 4.100 – 22.000 krónur, samkvæmt landssamtökum stúdenta í Noregi. Stúdentar við Háskóla Íslands greiða núna 75.000 krónur á hverju ári í skrásetningargjöld, sem er rúmlega þrefalt meira en í sambærilegum opinberum háskólum í Noregi, eða 340% meira.

Það að gjaldið sé margfalt hærra hérlendis er ein birtingarmynd fjársveltis háskólastigsins.

 

Hver ræður því hvort að gjaldið verði hækkað og hvað þarf að gerast?

Það þarf breytingu á lögum um opinbera háskóla til að hægt sé að hækka gjaldið. Ráðherra háskólamála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þarf því að leggja fram frumvarp á Alþingi til þess að hækka það hámarkið sem opinberum háskólum er heimilt að innheimta af nemendum skv. þeim lögum. Ef slík lagabreyting yrði samþykkt þá getur háskólaráð ákveðið að hækka skrásetningargjaldið.

Stúdentaráð hvetur Áslaugu Örnu til þess að verða ekki við ósk rektoranna heldur leita frekar annarra leiða til að fjármagna opinbera háskóla og mun afhenda henni ítarlegan rökstuðning þess efnis í lok vikunnar. Það þarf að ráðast tafarlaust á rót vandans, sem er fjármögnun opinberrar háskólamenntunar hér á landi, eða réttara sagt skortur á henni. Vasar stúdenta eru nú þegar tómir.

 

Yrði jafnt aðgengi að námi enn tryggt?

Hækkun skrásetningargjaldsins yrði íþyngjandi fyrir marga stúdenta stúdenta og væri aðeins skammtímalausn sem myndi hafa í för með sér fleiri vandamál en hún myndi leysa. Verði áform um hækkun að veruleika mun aðgengi að opinberri háskólamenntun hérlendis kosta stúdenta 90% af grunnframfærslu eins mánaðar frá Menntasjóði námsmanna, sem lánar nú þegar aðeins fyrir níu af tólf mánuðum ársins. Því er ljóst að eingöngu átta mánaða framfærsla stendur eftir handa stúdentum til að eiga í sig og á.

 

Háskólann vantar milljarð, núna

Háskóli Íslands hefur verið fjársveltur um árabil. Fyrir næsta ár vantar skólann milljarð til þess að ná endum saman, og er þar ekki talið með það fjármagn sem vantar til að bæta upp fjárskortinn seinustu ár. Enn meiri niðurskurður er boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024. Þessi sveltistefna stangast á við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Stúdentaráð krefst þess að stjórnvöld standi við gefin loforð. Sterkir opinberir háskólar skipta sköpum fyrir samfélagið; hátt menntunarstig bætir lífskjör, eflir verðmætasköpun og eykur velsæld.

 

Fjársvelti háskóla er pólitísk ákvörðun

Opinberir háskólar eru háðir fjármögnun ríkisins. Niðurskurður í fjárlögum eða skortur á fjármagni hefur þess vegna veruleg áhrif á getu þeirra til að veita nemendum góða menntun og þjónustu. Það er því í höndum stjórnvalda að tryggja háskólum nægilegt fjármagn, og að afla því á réttmætan máta. Sé það ekki gert er það meðvituð ákvörðun stjórnvalda hverju sinni.
Að fjársvelta háskólann er pólitísk ákvörðun sem mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð háskólastigsins, og þar með samfélagsins alls.

 

Hvaða afleiðingar hefur fjársveltið?

Fjársvelti Háskóla Íslands hefur víðtæk áhrif. Skortur á fjármagni gerir það að verkum að skólinn getur ekki sinnt grundvallarstarfsemi sinni með góðu móti.

Öll svið háskólans munu þurfa að skera niður í kennslu. Það þýðir meðal annars að færri áfangar verða í boði og gæði náms skerðast. Þá hefur skortur á fullnægjandi fjármögnun til að sinna rannsóknum og kennslu haft þau áhrif að skólinn hefur fallið á alþjóðlegum matslistum.

 

Hvaða loforð eru stjórnvöld að brjóta?

Stjórnvöld hafa gefið lof­orð um stór­sókn í menntun og nauð­syn­legar breytingar á fyrir­komu­lagi fjár­veitinga til há­skóla­stigsins til að tryggja sam­keppnis­hæfni ís­lenskrar há­skóla­menntunar.  Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að fjármögnunin skuli vera sambærileg því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þrátt fyrir þessi markmið færist Ísland nú fjær því sem gerist á annars staðar í nágrannalöndunum. Þetta eru skýr og, töluleg markmið sem eru þess eðlis að það er alfarið í höndum stjórnvalda að grípa til aðgerða til að ná þeim. 

Ákvarðanir um niðurskurð á fjárframlögum og umræður um hækkun skrásetningargjalda fara á skjön við þau loforð og markmið sem stjórnvöld hafa sjálf sett sér.

 

Hvað geta stjórnvöld gert til að laga þetta?

Stjórnvöld verða að bregðast tafarlaust við stöðunni sem blasir við hjá Háskóla Íslands núna, með auknum fjárveitingum til skólans núna strax. 

Því næst er brýnt að fallið verði frá þeim niðurskurði sem er boðaður í fjármálaáætlun fyrir árið 2024 með breytingum á fjármálaáætlun.

Þá þarf að hlúa að grunnstoðum menntakerfisins til að styrkja það til framtíðar. Fjárveitingar til háskólanna eru ákveðnar samkvæmt reiknilíkani sem var komið á fót árið 1991. Nauðsynlegt að vinnu við að endurskoða reiknilíkan háskólanna verði lokið sem fyrst og að sú vinna skili sér í því að fjármögnun til opinberrar háskólamenntunar hér á landi samræmist samanburðarlöndunum. 

Tryggja þarf rekstrargrundvöll skólanna og draga úr sveiflum í fjárveitingum með því að auka hlutfall fastrar fjármögnunar og annarrar fjárveitingar sem er ekki jafn breytileg og núverandi þættir reiknilíkansins. Vanda þarf til verka við sköpun hvata fyrir háskólanna þannig að þeir hvatar sem innbyggðir verða í fjárveitingar þjóni samfélaginu í heild sinni og stuðli sannarlega að auknum gæðum náms og rannsókna.

 

Hvað munar miklu á fjármögnun HÍ og á Norðurlöndunum?

Samkvæmt tölum frá 2021 eru heildartekjur háskóla á ársnema á Norðurlöndunum að meðaltali 4,6 milljónir króna árlega en á Íslandi aðeins 2,9 milljónir. Nemendur á Íslandi fá því um 1,7 milljónum króna minna. Í samanburði við námsmenn á Íslandi fá:

 

  • Nemendur 90% meira í Danmörku 
  • Nemendur 66% meira í Noregi
  • Nemendur 59% meira í Svíþjóð
  • Nemendur 28% meira í Finnlandi

 

Ísland hefur alla burði til þess að standa jafnfætis nágrannalöndunum þegar kemur að fjármögnun opinberrar háskólamenntunar. 

 

Af hverju skiptir það máli að fjármagna Háskóla Íslands?

Háskóli Íslands er stærsti háskóli landsins og sinnir þýðingarmiklu hlutverki í íslensku samfélagi. öflugt menntakerfi er forsenda framfara og menntun er kjarni í nýsköpun til framtíðar.  Vel fjármagnaður opinber háskóli skiptir sköpum fyrir íslenskt samfélag, eflir lífskjör, verðmætasköpun og samkeppnishæfni menntakerfisins auk samfélagsins á alþjóðavettvangi.

Fjárfesting í menntun er góð fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka í ávinningi fyrir samfélagið allt.

Framboð til Stúdentaráðs 2023

Kosningar til stúdentaráðs fara fram miðvikudaginn 22. og fimmtudaginn 23. mars næstkomandi. Þar munu nemendur hvers fræðasviðs kjósa sér fulltrúa í Stúdentaráði til eins árs. Kosningarnar eru rafrænar og fara frá á Uglunni. Opnunartími kosningakerfis á Uglu verður frá kl. 09:00 þann 22. mars til kl. 18:00 þann 23. mars.

Framboðsfrestur var til kl. 18:00 þann 12. mars. Tveir framboðslistar bjóða fram á öllum sviðum en að auki býður eitt einstaklingsframboð fram á Hugvísindasviði.

Framboð til Stúdentaráðs 2023 eru eftirfarandi:

Félagsvísindasvið
Röskva
  1. Arna Dís Heiðarsdóttir, stjórnmálafræði
  2. Emilía Björt Írisardóttir Bachmann, lögfræði
  3. Kristmundur Pétursson, félagsráðgjöf
  4. Lars Davíð Gunnarsson, viðskiptafræði
  5. Katha Aþena G. Þorsteinsdóttir, félagsfræði
Vaka
  1. Daníel Hjörvar Guðmundsson, lögfræði
  2. Júlíus Viggó Ólafsson, hagfræði
  3. Signý Pála Pálsdóttir, stjórnmálafræði
  4. Magnús Daði Eyjólfsson, viðskiptafræði
  5. Jóhanna Freyja Ásgeirsdóttir, félagsráðgjöf
Heilbrigðisvísindasvið
Röskva
  1. Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir, sálfræði
  2. Daníel Thor Myer, læknisfræði
  3. Kristrún Vala Ólafsdóttir, hjúkrunarfræði
Vaka
  1. Elísabet Sara Gísladóttir, lífeindafræði
  2. Margrét Hörn Jóhannsdóttir, næringarfræði
  3. Magnús Geir Kjartansson, lífeindafræði
Hugvísindasvið
Einstaklingsframboð

Daníel Daníelsson, ritlist

Röskva
  1. Guðni Thorlacius, heimspeki
  2. Júlía Karín Kjartansdóttir, íslenska
  3. Steinunn Kristín Guðnadóttir, enska
Vaka
  1. Magnús Orri Magnússon, heimspeki
  2. Gunndís Eva Reykdal Baldursdóttir, margmiðlunarfræði
  3. Sólveig Franklínsdóttir, guðfræði
Menntavísindasvið
Röskva
  1. Tanja Sigmundsdóttir, tómstunda- og félagsmálafræði
  2. Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, grunnskólakennsla með áherslu á erlend tungumál
  3. Lena Stefánsdóttir, þroskaþjálfafræði
Vaka
  1. Júlíana Dögg Önnudóttir Chipa, tómstunda- og félagsmálafræði
  2. Sveinn Ægir Birgisson, grunnskólakennsla með áherslu á stærðfræði
  3. Alex Elí Schweitz Jakobsson, tómstunda- og félagsmálafræði
Verkfræði – og náttúruvísindasvið
Röskva
  1. María Rós Kaldalóns, hugbúnaðarverkfræði
  2. Davíð Ásmundsson, verkfræðileg eðlisfræði
  3. Fjóla María Sigurðardóttir, jarðeðlisfræði
Vaka
  1. Eiður Snær Unnarsson, umhverfis- og byggingarverkfræði
  2. Þorri Jökull Þorsteinsson, vélaverkfræði
  3. María Árnadóttir, vélaverkfræði

Reglur um samskipti við kjósendur og önnur framboð

Stúdentaráð hefur samþykkt reglur sem munu gilda um samskipti við kjósendur og önnur framboð í komandi kosningum til Stúdentaráðs.

  1. Virtur verði í einu og öllu réttur kjósanda til leynilegra kosninga. Ekki skal undir neinum kringumstæðum krefja kjósanda um sönnun á kosningu eða að kjörseðill sé sýndur.
  2. Óheimilt er að halda viðburði á meðan kjörfundi stendur ef hætt er á að að réttur kjósenda til leynilegrar kosningar verði ekki virtur.
  3. Framboðum er óheimilt að leiðbeina kjósendum skipulega um að raða atkvæðum sínum til þess að skekkja úrslit kosninga og koma fleiri fulltrúum í Stúdentaráð en eðlilegt væri miðað við fjölda atkvæða til listans, sbr. 33. gr. laga Stúdentaráðs um framkvæmd kosninga.
  4. Heimilt er að dreifa kosningaefni innan veggja háskólans. Fylgja skal reglum háskólans við slíka dreifingu, m.a. með því að notast við þar til gerðar töflur og skilgreind svæði fyrir plaköt.
  5. Skipulögð dreifing kosningaefnis í byggingum háskólans á kjördögum er óheimil.
  6. Hvers kyns skemmdarverk á kosningaefni annarra framboða er óheimil.
  7. Dreifing á hvers kyns óhróðri eða meiðandi athugasemdum er óheimil.

Minniháttar brot eru þau brot sem ganga í berhögg við markmið um hátterni framboða án þess að teljast meiðandi og/eða af yfirlögðu ráði.

Meiriháttar brot fela í sér dreifingu á hvers kyns óhróðri, meiðandi athugasemdum eða einbeittan brotavilja gagnvart lögum SHÍ og/eða drengskaparheitum. Ef meiriháttar brot eiga sér stað mun kjörstjórn veita skriflega áminningu og birta hana á Facebook og/eða Twitter.

Unnið verður að því að leysa minniháttar brot án áminninga í lengstu lög. Ef minniháttar brot eiga sér ítrekað stað eftir tiltal mun kjörstjórn veita skriflega áminningu og birta hana á Facebook og/eða Twitter.

Listi yfir brot er ekki tæmandi. Kjörstjórn áskilur sér rétt til að bregðast við með þeim hætti sem hún telur viðeigandi ef ófyrirséð brot á almennri háttsemi eiga sér stað.

Samþykkt af Stúdentaráði 6. mars 2023.

Sjúkra- og endurtektarpróf haustannar ekki lengur haldin í maí

Áralöng hagsmunabarátta ber árangur!

 

Margra mánaða bið eftir sjúkra- og endurtektarprófum heyrir nú sögunni til! Heimild til að halda sjúkrapróf haustmisseris í maí hefur nú verið felld úr gildi og tekin úr reglum skólans, þökk sé þrotlausri baráttu Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í háskólaráði! 

 

Þetta þýðir að frá og með næsta skólaári munu öll sjúkra- og endurtektarpróf sem haldin eru vegna haustmisseris, fara fram í desember og janúar.

 

Þetta var gert með breytingum á reglum Háskóla Íslands á fundi háskólaráðs 2. febrúar sl., sjá hér.

 

Þessi breyting grundvallast á tillögu sem Rebekka Karlsdóttir, þáverandi stúdentaráðsliði og núverandi forseti Stúdentaráðs, og Ingvar Þóroddsson lögðu fyrir Stúdentaráð þann 20. október 2021. Þar var lagt til að Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í háskólaráði myndu beita sér fyrir því í sameiningu að reglum háskólans yrði breytt á þann veg að heimild til að halda prófin í maí yrði felld úr reglum skólans. Þáverandi fulltrúar stúdenta í háskólaráði, þær Isabel Alejandra Díaz og Jessý Jónsdóttir fylgdu málinu svo eftir innan háskólaráðs, sem og tillöguberar í Stúdentaráði innan félagsvísindasvið.

Tillöguna þeirra má finna hér.

 

Stúdentaráð þakkar öllum þeim sem áttu hlut að máli fyrir sína vinnu í þágu þess að tryggja jafnari stöðu meðal nemenda mismunandi fræðasviða innan skólans.

Stúdentaráðsfundur 8. mars 2023

Miðvikudaginn 8. mars fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í stofu L-101

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá fundarins:

  1. Fundur settur 17:00 
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
  4. Kynning á verkefninu Sprettur  17:20 – 17:35
  5. Kynning á fjarnámi við HÍ 17:35 – 17:55
  6. Hlé 17:55 – 18:05
  7. Tillaga um skipan þingfulltrúa á landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta (atkvæðagreiðsla) 18:05 – 18:15
  8. Lagabreytingartillögur á lögum Stúdentaráðs 18:15-19:00 (atkvæðagreiðsla)
  9. Önnur mál 19:00 – 19:10
  10. Bókfærð mál 
  11. Fundi slitið

Stúdentaráðsfundur 14. febrúar 2023

Þriðjudaginn 14. febrúar fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í Fenjamýri, Grósku.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Dagskrá fundarins:

    1. Fundur settur 17:00 
    2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
    3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:20
    4. Kynning á starfsemi Vísindagarða 17:20-17:35
    5. Kynning á fjarnámi við HÍ 17:35 – 17:50 
    6. Tillaga vegna sérúrræða fyrir stúdenta með erlendan bakrunn 17:50-18:00 (atkvæðagreiðsla)
    7. Tillögur um hvernig auka má kosningaþátttöku 18:00-18:15  (atkvæðagreiðsla) 
    8. Uppfærð Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2022-2023, 18:15-18:25 (atkvæðagreiðsla)
    9. Hlé 18:25-18:35
    10. Kynning á ársreikningi Stúdentaráðs fyrir starfsárið 2021-22, 18:35-18:45
    11. Samgöngu- og bílastæðamál við HÍ 18:45-19:05 
    12. Tillaga um að Stúdentaráð sendi erindi til stjórnar Félagsstofnunar stúdenta vegna aðgengismála á Stúdentakjallaranum 19:05-19:10 (atkvæðagreiðsla)
    13. Tillaga um aukna upplýsingamiðlun til foreldra í námi 19:15-19:25 (atkvæðagreiðsla)
    14. Tillaga að ályktun um Hámu í Sögu og nýju húsi heilbrigðisvísinda 19:25-19:30 (atkvæðagreiðsla)
    15. Tillaga um bætta námsaðstöðu fyrir nemendur á Hugvísindasviði 19:35-19:45 (atkvæðagreiðsla)
    16. Tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda (atkvæðagreiðsla)  19:45-19:50
    17. Önnur mál 19:50-20:00 
    18. Bókfærð mál 
    19. Fundi slitið

Íþróttaskólinn vorið 2024

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur!

Íþróttaskóli SHÍ hefst aftur laugardaginn 3. febrúar 2024.

Íþróttaskóli Stúdentaráðs Vorönn 2024

Stúdentaráð Háskóla Íslands rekur íþróttaskóla fyrir börn stúdenta fædd á árunum 2019-2023. Tímarnir fara fram í íþróttahúsi háskólans við Sæmundargötu á laugardagsmorgnum og er hver tími 40 mínútur. Fyrsti tíminn verður þann 3. febrúar og er gert ráð fyrir 8 tímum í heildina. Börnunum er skipt í tvo hópa eftir aldri og eru ekki fleiri en 20 börn í hverjum hópi. Yngri hópurinn (f. 2022, 2023) er kl. 8:45 – 9:25 en eldri hópurinn (f. 2019-2021) er kl. 9:30 – 10:10. Það verður létt hressing í boði eftir hvern tíma í boði Holle! *Ath að aðeins skráð börn mega taka þátt.

Smelltu hér til að skrá barn í Íþróttaskóla SHÍ vorönn 2024

Markmið íþróttaskólans er að gefa börnum kost á hreyfinámi, efla hreyfiþroska og hreyfigetu barnanna. Bæta samhæfingu, sjálfstraust og vellíðan. Þrautabrautir skipa stærstan þátt í náminu og reynt að hafa æfingar sem fjölbreyttastar þannig að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Unnið er bæði með fín- og grófhreyfingar. Félagsþroski, samvinna og það að taka tillit til annarra er mikilvægur þáttur í starfinu.

Verðið er 3.500 kr en veittur er 500 kr systkinaafsláttur. Heildarverð fyrir 2 systkin yrði því 6.500kr. Athugið að ef systkin eru í sitthvorum aldurshópnum er hægt að óska eftir því að fá að taka yngra systkinið með á æfingar eldri hópsins.

Foreldrar taka virkan þátt í tímum með því að aðstoða börnin sín. Þar með gefst þeim mikilvægt tækifæri að kynnast börnum sínum enn betur við aðrar aðstæður en venjulega. Greiðsluupplýsingar verða sendar fljótlega eftir skráningu. Skráningar eru staðfestar með tölvupósti. Skráningar verða afgreiddar í þeirri röð sem þær berast og ef plássin fara skráningar á biðlista. Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hafa samband við okkur í gegnum netfangið shi@hi.is.

Tilnefningar Stúdentaráðs kjörnar ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum

Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, er nýr ungmennafulltrúi á sviði sjálfbærrar þróunar

Á 3. leiðtogaráðsfundi LUF í nóvember hlaut Rebekka Karlsdóttir, forseti SHÍ, kjör sem ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar.

Rebekka er með BA-gráðu í lögfræði en hefur einnig stundað nám í líffræði. Þá hefur hún m.a. einnig starfað sem landvörður og laganemi meðfram námi ásamt því að sinna stjórnarstörfum hjá Ungum umhverfissinnum og Náttúruverndarsamtökum Austurlands. Hún hefur því mikla reynslu af hagsmunabaráttu ungs fólks og sjálfboðaliðastörfum.

Í framboðsræðu sinni talaði Rebekka um hversu mikilvægt er að rödd ungs fólks fái að heyrast sem víðast. Hún ætlar að leita leiða til að virkja fleiri með sér og heyra hvað ungmennum á Íslandi finnst eiga að leggja áherslu á í málaflokknum. Rebekka mun einnig beita sér fyrir því að fulltrúum ungmenna verði fjölgað í stöðum sem þessum til framtíðar þannig að rödd þeirra hljómi enn hærra.

Rebekka kemur til með að taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2023), sem fram fer í New York 10. – 19. júlí, í umboði ungs fólks á Íslandi. Þá skipar hún einnig sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. 

Isabel Alejandra Díaz er nýr ungmennafulltrúi á sviði mennta, vísinda og menningar

Isabel Alejandra Díaz, tilnefning SHÍ, var á dögunum kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar. Leiðtogaráð Landssambands ungmennafélaga, LUF, kaus Isabel á 4. fundi ráðsins en þetta er í fyrsta skipti sem lýðræðislega er kjörið í stöðuna.

Isabel stundar meistaranám í opinberri stjórnsýslu ásamt því að vera með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur mikla reynslu og ástríðu fyrir málefnum ungs fólks, hagsmunastarfi og málefnavinnu. Hún gegndi embætti forseta Stúdentaráðs 2020-2022 og sat þá einnig í háskólaráði.

Hún hefur unnið að menningarmálum sem verkefnastjóri Tungumálatöfra, námskeiðs fyrir börn með ólíkan menningarbakgrunn til að styrkja sjálfsmynd sína í málörvandi umhverfi í gegnum listkennslu. Isabel hefur einnig setið í ýmsum hópum á sviði mennta, menningar- og félagsmála t.a.m. samhæfingarhópi stjórnvalda um atvinnu- og menntaúrræði og samráðsvettvangi um jafnrétti kynjanna á vegum Jafnréttisráðs.

Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mennta, vísinda og menningar skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ og starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.   

Isabel kemur til með að sækja aðalráðstefnu UNESCO, sitja í Íslensku UNESCO nefndinni auk þess að sækja norræna samráðsfundi og sækja ungmennaþing UNESCO, í umboði ungs fólks á Íslandi. 

Stúdentaráð óskar Isabel og Rebekku til hamingju með kjörið og hlökkum við mikið til að fylgjast með þeim í þessum störfum!