Stúdentaráð Háskóla Íslands og Orkusalan hafa samið á ný, en þetta er 15. árið í röð sem við erum í samstarfi. Stúdentaráð er þakklátt fyrir þetta langlífa samstarf, en það styður við starfsemi ráðsins ásamt því að stúdentar fá hagstæðasta raforkuverðið hjá Orkusölunni. Orkusalan leggur mikla áherslu á hreina orku og sjálfbærni og er til að mynda eina orkufyrirtækið á markaði sem hefur kolefnisjafnað allan sinn rekstur. Á myndinni má sjá Guðmund Ásgeir Guðmundsson, framkvæmdastjóra SHÍ og Sigmundínu Þorgrímsdóttur, sérfræðing Orkusölunnar í markaðsmálum undirrita samninginn.
Category: Uncategorized
Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stúdentaráðs
Á dögunum undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, nýjan samning milli Háskóla Íslands og Stúdentaráðs um þjónustu við nemendur Háskólans.
Opið fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóðs
Búið er að opna fyrir umsóknir í fyrstu úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér til kl. 14:00 þann 24. október nk.. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.
Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur Stúdentasjóð á heimasíðu Stúdentaráðs og sérstaklega lög og verklagsreglur hans. Athugið að greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða ekki veittir í þessari úthlutun.
Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.
Yfirlýsing Stúdentaráðs um fjármögnun almenningssamgangna og innleiðingu U-passa fyrir stúdenta
Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu almenningssamgangna á Íslandi og þess krafist að íslenska ríkið tryggi stóraukið fjármagn í málaflokkinn strax, í rekstur almenningssamgangnanna og í innleiðingu U-passa fyrir stúdenta.
Stúdentaráð gagnrýnir að ríkisstjórnin hafi varið níu sinnum meira fé í niðurgreiðslu rafbílakaupa en til reksturs Strætó bs. Þessi dýrasta loftslagsaðgerð stjórnvalda gagnast helst efnameiri hópum samfélagsins. Efling almenningssamgangna er bæði nauðsynleg og réttlát loftslagsaðgerð sem felur í sér bætt kjör og tækifæri fyrir almenning. Einkum og sér í lagi fyrir tekjulægri hópa, svo sem ungt fólk og stúdenta sem nota almenningssamgöngur í meira mæli en tekjuhærri hópar.
Stúdentaráð kallar eftir aðkomu ríkisins við að verða láta U-passa verða að veruleika, en U-passi er samgöngukort á hagstæðu verði fyrir stúdenta, sem Stúdentaráð hefur lengi talað fyrir og sækir fyrirmynd sína til Evrópu. Slík útfærsla er þegar til skoðunar hjá Háskóla Íslands og hafa viðræður við Strætó átt sér stað. Hins vegar er ljóst er að til þess að U-passinn geti orðið að veruleika þarf pólitískan vilja og fjármagn, bæði frá ríki og sveitarfélögum.
Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta að komast á milli staða á skilvirkan hátt, bæði hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfi. Ríkisstjórnin þarf að auka fjárframlög til málaflokksins strax, með það að leiðarljósi að bæta þjónustu og gera almenningssamgöngur að hagkvæmari kosti, meðal annars með innleiðingu U-passans. Hér er um að ræða réttláta loftslagsaðgerð sem hefur áhrif í þágu samfélagsins alls.
Yfirlýsingin hefur verið send á fjármálaráðherra og forsætisráðherra og má finna hana í heild sinni á student.is, hér.
Félagsráðgjöf háskólanema opnar
Nýverið opnaði Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands Félagsráðgjöf háskólanema, sem veita mun háskólanemum og fjölskyldum þeirra ráðgjöf sem m.a. snertir fjölskyldumálefni, uppeldi og samskipti. Markmiðið með Félagsráðgjöf háskólanema er í senn að þjálfa nemendur í starfsréttindanámi í félagsráðgjöf í að veita faglega ráðgjöf og bjóða háskólanemum stuðning í erfiðum málum sem þeir kunna að glíma við.
Selma Björk Hauksdóttir, aðjunkt við Félagsráðgjafardeild, sem hefur umsjón með þessu nýja verkefni hefur unnið að undirbúningi verkefnisins frá því í sumar en áður höfðu stjórnendur Félagsráðgjafardeildar, Stúdentaráð Háskóla Íslands og Kennslusvið skólans lagt drög að hugmyndinni sem varð til þess að styrkur var veittur fyrir tveggja ára tilraunaverkefni.
Þjónustan er gjaldfrjáls og fer fram á Aragötu 9. Stúdentar geta bókað tíma hjá Félagsráðgjöf háskólanema á Uglu og einnig er hægt að senda fyrirspurnir í gegnum netfangið felradgjof@hi.is.
Stúdentaráð fagnar tilkomu Félagsráðgjafar háskólanema og bættum úrræðum fyrir stúdenta.
Vilt þú taka þátt í starfsemi nefnda Stúdentaráðs?
Nefndir Stúdentaráðs eru í leit að sínum fimmta meðlim til að ganga til liðs við sig. Um er að ræða alþjóðanefnd, félagslífs- og menningarnefnd, jafnréttisnefnd, fjölskyldunefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, lagabreytinganefnd og fjármála- og atvinnulífsnefnd.
Í umsókninni skal taka fram stutta kynningu á umsækjanda og fyrri reynslu sem gæti nýst í nefndinni, námsleið og hvers vegna umsækjandi telur sig eiga heima í nefndinni. Umsóknir skulu berast á netfangið shi@hi.is. Umsóknarfrestur er til og með 1. október.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir starfsemi nefndanna:
- Félagslífs- og menningarnefnd
Verkefni nefndarinnar eru margvísleg en hún sér um skipulagningu, framkvæmd og utanumhald á hinum ýmsu viðburðum innan Háskóla Íslands, t.d. viðburði í tengslum við Októberfest SHÍ, Fyndnasta háskólanemann og Partybingó. Nefndin leggur mikið upp úr því að gleðja samstúdenta, með góðum móral og samheldni stúdenta HÍ.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd stendur vörð um jafnréttismál innan Háskóla Íslands og er óhrædd að styðja við þá nemendur sem verða fyrir fordómum, áreiti og mismunun. Saman þrýstir nefndin á að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands sé fylgt eftir og hvetur háskólann til að gera betur þar sem þörf krefur.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Fjármála- og atvinnulífsnefnd
Nefndin tekur til meðferðar atvinnumál stúdenta auk tengsla þeirra við atvinnulífið. Markmið nefndarinnar er að skapa mikilvæga tengingu stúdenta við atvinnulífið, tengingu sem helst til framtíðar.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Lagabreytinganefnd
Lagabreytinganefnd SHÍ gætir þess að lagabreytingatillögur stúdentaráðsliða séu í samræmi við heildarendurskoðun.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Alþjóðanefnd
Alþjóðanefnd tekur til meðferðar mál er varða hagsmuni erlendra stúdenta við HÍ og mál íslenskra stúdenta erlendis. Hún heldur einnig utan um tengiliðaverkefni sem gefur íslenskum nemendum og erlendum skiptinemum færi á að kynnast. Nefndin vinnur í samstarfi við skrifstofu alþjóðasamskipta Háskóla Íslands.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Umhverfis- og samgöngunefnd
Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs sinnir umhverfismálum samanber endurvinnslu, sjálfbærnisstefnu Háskóla Íslands, samgöngumálum og skipulagsmálum tengdum háskólasvæðinu og byggingum FS. Nefndin hefur það að markmiði að auka umhverfisvitund stúdenta með ýmsum viðburðum innan háskólans.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
- Fjölskyldunefnd
Fjölskyldunefnd vinnur að almennri hagsmunabaráttu fjölskyldufólks við HÍ og markmið nefndarinnar er að styðja sem best við stúdenta sem eiga börn svo þau geti sinnt bæði námi og fjölskyldulífi. Nefndin skipuleggur fjölmarga fjölskylduvæna viðburði, svo sem fyrirlestra og Fjölskyldudag SHÍ svo eitthvað sé nefnt.
Umsóknarfrestur er til og með 1. október
Stúdentaráðsfundur 21. september 2022
Miðvikudaginn 21. september kl. 17:00 fer Stúdentaráðsfundur fram í stofu HT-102.
Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.
Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.
Fundardagskrá
- Fundur settur 17:00
- Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
- Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
- Skýrsla um Októberfest SHÍ 2022 17:25-17:40
- Verkefnið Góð kennsla 17:40-17:50
- Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2022-23 (atkvæðagreiðsla) 17:50-18:05
- Hlé 18:05-18:15
- Niðurstöður stefnumótunarferðar – framkvæmdaáætlanir fastanefnda 18:15-18:55 (atkvæðagreiðsla)
- Siða- og jafnréttisreglur Stúdentaráðs 2022-2023 og viðbætur við verklagsreglur ráðsins (atkvæðagreiðsla) 18:55-19:05.
- Önnur mál 19:05-19:15
- Bókfærð mál
- Fundi slitið 19:15
Stúdentaráðsfundur 22. ágúst 2022
Mánudaginn 22. ágúst fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.
Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.
Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.
Fundardagskrá
- Fundur settur 17:00
- Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
- Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:35
- Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 (kynning og umræður) 17:35-18:15
- Kjör í stjórn í Stúdentasjóðs 18:15-18:20 (atkvæðagreiðsla)
- Hlé 18:20-18:30
- Niðurstöður stefnumótunarferðar – framkvæmdaáætlanir fastanefnda (umræður og atkvæðagreiðsla) 18:30-19:20
- Vísindaferðir í Stúdentaráð (atkvæðagreiðsla) 19:20-19:25
- Önnur mál 19:25-19:30
- Bókfærð mál
- Fundi slitið
Októberfest SHÍ 2022
Kæru stúdentar!
Eftir tveggja ára bið er loksins komið að þessu: Októberfest SHÍ fer fram í 18. skipti, þann 1.-3. september á lóðinni fyrir framan Háskóla Íslands.
Forsala hefst þriðjudaginn 9. ágúst kl. 12:00 á tix.is og getið þið nælt ykkur í miða á sérstöku forsöluverði hér: https://tix.is/is/event/13754/oktoberfest-shi/
Athugið að takmarkaður fjöldi miða er í boði í forsölu en eftir það mun miðinn á hátíðina kosta 9.990 kr fyrir háskólanema en 12.900 kr í almennri sölu. Einnig verður hægt að kaupa bjórkort gegn framvísun skilríkja.
Allir háskólanemar geta keypt sér miða á hátíðina. Aldurstakmark á hátíðina er 20 ár með þeirri undantekningu að þau sem eru ekki orðin tvítug en geta framvísað gildu háskólaskírteini geta keypt sér miða. Stúdentaráð Háskóla Íslands vekur athygli á því að hátíðargestir undir tvítugu geta ekki keypt áfengar veigar á hátíðarsvæðinu samkvæmt lögum.
Við hlökkum til að sjá ykkur á Októberfest!
Ráðning samskiptafulltrúa Októberfest 2022
Skarphéðinn Finnbogason hefur verið ráðinn samskiptafulltrúi Októberfest SHÍ 2022, en hátíðin fer fram í Vatnsmýrinni dagana 1.-3. september.
Skarphéðinn er 21 árs laganemi við Háskóla Íslands ásamt því að stunda samhliða diplómanám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Hann starfar í dag hjá markaðsdeild Nova ásamt því að vera með umboð fyrir tónlistarmenn.
Hann hefur brennandi áhuga á bæði markaðsstörfum og viðburðastjórnun og hefur komið að skipulagningu og uppsetningu viðburða á borð við árshátíðir, útgáfupartý og tónleika. Þá hefur Skarphéðinn einnig reynslu af hugmyndavinnu og markaðssetningu á samfélagsmiðlum.
Skarphéðinn hefur skýra sýn á hátíðina og sér ýmis tækifæri við skipulagningu Októberfest 2022. Hann er núverandi meðlimur í félagslífs- og menningarnefnd SHÍ og hefur því þekkingu á starfsemi ráðsins og mikilvægi félagslífsins í Háskólanum. Við óskum Skarphéðni til hamingju með starfið og hlökkum til samstarfsins!