Stúdentaráðsfundur 6. ágúst 2024

Þriðjudaginn 6. ágúst 2024 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:30 í stofu VHV-007.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Athugið að fundurinn fer fram á íslensku. Athugið einnig að tillaga verður til atkvæðagreiðslu á fundinum um lokun hans fyrir öðrum en þeim sem hafa málfrelsisrétt.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Fundargerð fyrri fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla)

    Approval of Previous Meeting Minutes (Vote)

  2. Tillaga um lokun fundar

    Proposal to Close the Meeting to the Public

  3. Yfirferð og umræður um tímalínu, samskipti og annað tengt Októberfest SHÍ

    Review and Discussion of the Timeline, Communications, and Other Matters Related to Októberfest SHÍ

  4. Atkvæðagreiðsla um samning SHÍ við verktaka

    Vote on SHÍ’s Contract with Contractors

  5. Bókfærð mál og tilkynningar

    Recorded Matters and Announcements

 

 

 

Forsalan á Októberfest er hafin

Stærsta tónlistarhátíð stúdenta, Októberfest SHÍ, verður haldin í 20. skipti dagana 5.-7. september 2024!
Hátíðin í ár verður stórkostlegri en nokkru sinni fyrr!
Miðasala er hafin í Aur-appinu. Ekki missa af besta dílnum, tryggðu þér miða núna á meðan það er hægt.
Listamenn verða tilkynntir síðar.
Einnig er hægt að kaupa miða á skrifstofu Stúdentaráðs á Háskólatorgi, 3. hæð.
Hafið samband við okkur í síma 570-0850 eða í tölvupósti á shi@hi.is ef það koma upp einhver vandamál eða einhverjar spurningar

Spila háskólarnir hlutverk í hinni grænu umbreytingu?

Þann 21. febrúar sl. tók varaforseti Stúdentaráðs, Dagmar Óladóttir, þátt í pallborðsumræðum á málþingi á vegum Landbúnaðarháskólans og Sjáfbærnistofnun Háskóla Íslands sem bar titilinn Hlutverk háskólanna í grænu umbreytingunni. Málþingið var haldið á Þjóðminjasafninu og var vel sótt. Hér að neðan má lesa samantekt af málflutningi Dagmarar:

 

Umhverfismál eru mörgum stúdentum ofarlega í huga og hefur Stúdentaráð lengi talað fyrir því að háskólarnir séu leiðandi afl í hinni grænu umbreytingu. Þeir hafa, að okkar mati, öll spilin á hendi og þurfa aðeins að ákveða hvernig þeir vilja spila þeim út. Á tímum heimsfaraldurs og nú jarðhræringa sjáum við greinilega að samfélagið hlustar á fræðafólkið og háskólana, leitar til þeirra. Háskólarnir eru nú þegar leiðandi í allri vísindalegri umræðu og ættu því líka að vera leiðandi í hinni grænu umbreytingu, sem er að öllu leyti byggð á vísindum.

Stúdentaráð hefur lagt ríka áherslu á að háskólarnir búi til þverfagleg námskeið um umhverfismál sem stúdentar úr öllum deildum geta tekið.  Sömuleiðis hefur Stúdentaráð hvatt til þess að umhverfismál séu fléttuð inn í námsefni í ólíkum deildum. Vert er að minnast á að án stúdenta væri enginn háskóli. Námsframboð og aðstaða innan háskólanna verður því að endurspegla vilja stúdenta. Það er vilji til að mennta sig innan umhverfis- og sjálfbærnigeirans og háskólarnir verða að mæta þeirri eftirspurn. Það er vilji til að taka raunveruleg skref í átt að umhverfisvænna háskólasamfélagi – til dæmis með betri samgöngum og háskólarnir verða því að mæta því. Aukinni eftirspurn eftir fjölbreyttara og meira námi á sviði umhverfis- og sjálfbærnimála hefur að einhverju leyti verið svarað hér á landi en alltaf má gera betur. 

Í ljósi sögunnar hafa stúdentar alltaf verið í fararbroddi breytinga, stúdentar eru í eðli sínu róttækir. Stúdentaráð byrjaði t.d. loftslagsverkfallið ásamt fleiri hagsmunafélögum. Einnig hefur Stúdentaráð lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og í tvígang hvatt háskólann til að gera slíkt hið sama en þau virðast rög við það og hafa hingað til vikið sér undan umræðunni. 

Að okkar mati þurfa háskólarnir að fara að setja umhverfismálin í raunverulegt fyrsta sæti. Stimplar hér og þar ásamt einstaka verkefnum duga ekki lengur til. Það þarf að setja bæði meira fjármagn og meiri áherslu á umhverfis- og loftslagsmál – þá bæði innan háskólanna sjálfra sem og í rödd þeirra út á við. Upplifun okkar er sú að umhverfis- og sjálfbærnimál lendi oft aftarlega í forgangsröðinni, verkefni á því sviði séu aðeins unnin ef aukatími gefst eða aukapeningar fást.

Dæmi um forgangsröðun á sviði umhverfismála: einn af fjórum meginstofnum stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, kallast stofn sjálfbærni- og fjölbreytileika. Þessi stofn er m.a. tilkominn vegna þrýstings frá stúdentum. Þetta er samt eini verkefnastofninn sem ekki er með starfsmann á launum við að sinna verkefnum hans. Skýtur það ekki skökku við?

Nauðsynlegt er að fá stúdenta að borðinu í þessari umræðu. Samband stúdenta við stjórnsýslu háskólanna er oft flókið – hvort sem er í námi eða stúdentapólitík erum við aðeins innan háskólanna í stutta stund hverju sinni, sé miðað við starfsfólk sem er hér jafnvel í áratugi. Við viljum sjá hlutina gerast hratt og það er ekki alltaf tekið vel í það. En það er svo margt sem getur gerst hratt. Það eru til dæmis mörg verkefni innan Háskóla Íslands sem undirrituð hefur séð fara  í gegn á sínum tíma í stúdentapólitík – m.a. Matarspor og Miðvegandagar í hámu, strætóskjárinn á háskólatorgi, menntun kennaranema í sjálfbærnifræðum, fyrsta sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands og svo mætti lengi telja. Margt getur gerst hratt og sumt þarf að gerast hægar, en við erum að renna út á tíma. 

Háskólarnir hafa líka tækifæri til að skapa sér sérstöðu á þessu sviði. Í samkeppni við aðra skóla, bæði hérlendis og erlendis, telst framsækni í umhverfis- og loftslagsmálum stórt tækifæri sem vert er að nýta. 

Stúdentaráðsfundur 21. maí 2024

Miðvikudaginn 21. maí 2024 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu 0-201.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Athugið að fundurinn fer fram á íslensku. 

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05 
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs 5. mars borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10  
  3. Drög að ársreikningi Stúdentaráðs 2023-2024 kynnt 17:10-17:25 
  4. Ársskýrsla Stúdentaráðs kynnt 17:25-17:50 
  5. Bókfærð mál 

Nýtt stúdentaráð 2024-2025 tekur við 17:50

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:50
  2. Fundargerð kjörfundar borin upp til samþykktar 17:50-17:55
  3. Praktísk atriði til nýrra Stúdentaráðsliða 17:55-18:10
  4. Fundarhlé 18:10-18:20
  5. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:25
  6. Tillaga um að Stúdentaráð beiti sér fyrir því að stúdentakortin verði gerð rafræn (atkvæðagreiðsla)  18:25-18:35
  7. Tillaga um stofnun lagaráðs til endurskoðunar á lögum um Stúdentaráð (atkvæðagreiðsla) 18:35-18:45
  8. Tillaga um að Stúdentaráð beiti sér fyrir því að Októberfest fái að standa yfir lengur (atkvæðagreiðsla)  18:45-18:55
  9. Tillaga um stefnu Stúdentaráðs er varðar rekstur Hámu (atkvæðagreiðsla)  18:55-19:05
  10. Tillaga um að Stúdentaráð beiti sér fyrir því að upphituðum strætóskýlum verði komið upp á háskólasvæðinu (atkvæðagreiðsla) 19:05-19:15
  11. Kjör fulltrúa SHÍ í stjórn Byggingafélag Námsmanna (atkvæðagreiðsla) 19:15-19:20
  12. Önnur mál 19:20-19:35
  13. Fundi slitið 19:35

SHÍ auglýsir eftir umsóknum í stöður framkvæmdastjóra, alþjóðafulltrúa og ritstjóra fyrir starfsárið 2024-2025

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir eftir umsóknum í stöður framkvæmdastjóra, alþjóðafulltrúa og ritstjóra fyrir starfsárið 2024-2025.

Framkvæmdastjóri:

Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, rekstri skrifstofunnar og framkvæmd stefnu ráðsins. Meðal verkefna framkvæmdastjóra er yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, umsjón með rekstri skrifstofunnar, bókhald, og samningsgerðir, auk þess að skrá fundargerðir ráðsins og halda utan um upplýsingaflæði milli aðila.

Hæfniskröfur: Áhugi á málefnum stúdenta, þekking á fjármálum og bókhaldi, færni í mannlegum samskiptum, og geta til að tjá sig skýrt í ræðu og riti á íslensku og ensku. Reynsla af stjórnsýslu Háskóla Íslands og frumkvæði til sjálfstæðra verkefna. Menntun sem nýtist í starfi er kostur.

Starfshlutfall er breytilegt eða eftir samkomulagi.

 

Alþjóðafulltrúi:

Alþjóðafulltrúi sinnir þörfum erlendra nemenda, bæði í daglegum samskiptum og við skipulagningu viðburða, og er milliliður í samstarfi við alþjóðleg háskólanet eins og Aurora.

Hæfniskröfur: Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum, framúrskarandi samskiptahæfni, og þekking á alþjóðamálum. Gott vald á íslensku og ensku, reynsla af alþjóðastarfi og þátttaka í háskólasamfélaginu eru mikilvæg.

Starfshlutfall er breytilegt eða eftir samkomulagi.

 

Ritstjóri Stúdentablaðsins:

Ritstjóri ber ábyrgð á útgáfu og innihaldi Stúdentablaðsins, stjórnar ritstjórninni, skipuleggur útgáfudagsetningar og sér um auglýsingasöfnun.

Hæfniskröfur: Áhugi á fjölmiðla- og útgáfustörfum, reynsla af ritstjórn og grafískri hönnun, og frábær tölvufærni. Framúrskarandi tungumálakunnátta í íslensku og ensku og geta til að starfa í teymi sem og sjálfstætt.

 

Umsóknarfrestur: til og með 20. maí 2024. Allar umsóknir skal senda á shi@hi.is merkt þeirri stöðu sem sótt er um.

Starfshlutfall er breytilegt eða eftir samkomulagi.

Hægt er að lesa meira um störf Stúdentaráðs hér.

Stúdentaráð Háskóla Íslands kallar eftir breytingar á löggjöf um atvinnuleyfi námsmanna utan EES

Í janúar 2024 gerði Alþjóðanefnd SHÍ könnun á áskorunum sem nemendur sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) mæta við umsóknir um atvinnuleyfi á Íslandi. Könnunin skilaði 266 svörum og niðurstöðurnar sýna með skýru móti að  íslensk stjórnvöld verða að ráðast í endurskoðun á löggjöf um atvinnuleyfi.

Í kjölfarið kallar Stúdentaráð eftir breytingum á lögum um atvinnuleyfi fyrir námsmenn sem koma utan EES.

Lestu ákallið hér.

Lestu skýrsluna í heild sinni á ensku hér

Ágrip  

Íslensk stjórnvöld, sér í lagi dómsmálaráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, og félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, eru hvött til að endurskoða löggjöf um atvinnuleyfi námsmanna sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Atvinnuréttur á sjálfkrafa að vera veittur samhliða dvalarleyfi námsmanna. Slíkt myndi stórbæta lífsgæði þessara nemenda, draga úr álagi hjá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun, styðja hagkerfi landsins og tryggja samræmi við önnur Evrópulönd.

Þessi tillaga ásamt öðrum tillögum hér að neðan eru útskýrð ítarlega í skýrslunni.

Tillögur (í forgangsröð)

  1. Veita atvinnurétt samhliða veitingu dvalarleyfis fyrir námsmenn.
  2. Leyfa að atvinnuleyfi sé bundið við einstakling, ekki við ákveðið starf.
  3. Leyfa umsækjanda (ekki vinnuveitanda) að leggja fram umsókn um atvinnuleyfi.
  4. Veita sjálfkrafa endurnýjun atvinnuleyfis ef skilyrði eru óbreytt.
  5. Láta umsóknir berast beint til Vinnumálastofnunar, ekki Útlendingastofnunar.
  6. Setja frest til að framsenda umsóknir frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar.
  7. Búa til rafræna umsóknagátt.
  8. Búa til algengar spurningar og skref-fyrir-skref myndbönd um hvernig á að sækja um atvinnuleyfi.
  9. Bæta samskipti við umsækjendur (þar á meðal um tafir á afgreiðslu).
  10. Tryggja að starfsmenn hafi þekkingu og tíma til að veita réttar og kurteisar leiðbeiningar.

Langar þið að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis eða loftslagsmála?

Ungmennafulltrúi Íslands á sviði kynjajafnréttis er skipaður til eins árs og kemur til með að sitja í stýrihóp forsætisráðuneytisins um kynslóð jafnréttis og sækja viðburð á vegum The Commission on the Status of Women (CSW). Auk þess mun fulltrúinn eiga sæti í alþjóðaráði LUF. Ungmennafulltrúi Íslands á sviði loftslagsmála er einnig skipaður til eins árs og kemur hann til með að sækja 28. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP29, sem fer fram í Baku í nóvember 2024.

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda.

Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Leiðtogaráð LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna þann 4. maí nk.

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  1. Ert á aldrinum 18-25 ára
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
  7. Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til eins árs með virkri þátttöku í starfi LUF
  8. Hefur íslenskt ríkisfang auk fastrar búsetu á Íslandi að jafnaði

Þá er búist við að ungmennafulltrúar á vegum LUF sæki Leiðtogaskóla Íslands og taki virkan þátt í starfi LUF auk Félags Sameinuðu þjóðanna.

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsókn telst ekki uppfylla þau skilyrði verður henni vísað frá. Frestur er til og með 26. apríl kl 12:00. 

Stúdentaráð hvetur nemendur til að sniðganga Rapyd og greiða skrásetningargjöldin með millifærslu eða reiðufé

Vegna þrýstings frá Stúdentaráði er Háskóli Íslands að leita leiða til að skipta út greiðslukerfi við innheimtu skrásetningargjalda. Þangað til geta stúdentar sem vilja sniðganga Rapyd valið milli þess að millifæra gjaldið eða staðgreiða með reiðufé.

Millifærsla:

Millifæra skal gjaldið á bankareikning Háskóla Íslands:

bknr: 0137-26-000174 og kt: 600169-2039

Það er mjög mikilvægt að sendur sé tölvupóstur á nemskra@hi.is þar sem tilteknar eru allar upplýsingar  um millifærsluna þ.e. dagsetning, tími, upphæð og kennitala þess nemenda sem skrásetningargjaldið er greitt fyrir.

Reiðufé:

Hægt er að staðgreiða gjaldið með reiðufé á þjóunstuborðinu á Háskólatorgi.

 

Kjörfundur Stúdentaráðs 16. apríl 2024

Kosningar til Stúdentaráðs fóru fram 20. og 21. mars sl. og má nálgast niðurstöður kosninga á heimasíðu ráðsins

Í kjölfar kosninga kýs Stúdentaráð sér fulltrúa til starfa á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, ásamt því að kjósa í önnur embætti ráðsins á sérstökum kjörfundi. Kjörfundur verður haldinn 16. apríl kl. 17:00 í O-201. Fundir Stúdentaráðs eru opnir öllum skv. a-lið 9. gr. laga Stúdentaráðs.

Mögulegt er að gefa kost á sér í embætti forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs. Einnig í fastanefndir og önnur embætti á vegum Stúdentaráðs. Þau sem kjörin eru á kjörfundi taka við störfum á skiptafundi, sbr. 4. gr. laga Stúdentaráðs. Kjörgengir til þessara embætta eru öll þau sem hafa verið skráð til náms við Háskóla Íslands á síðustu þremur árum, á undan sérstökum kjörfundi.

Embætti sem kosið er í á skrifstofu Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Forseti Stúdentaráðs
  • Varaforseti Stúdentaráðs
  • Lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs
  • Hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs

Nefndir Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:

  • Fjórir fulltrúar skulu kjörnir í fjármála- og atvinnulífsnefnd, alþjóðanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjölskyldunefnd, félagslífs- og menningarnefnd og lagabreytinganefnd.
  • Tveir fulltrúar eru kjörnir í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd.
  • Fimm fulltrúar eru kjörnir í jafnréttisnefnd, einn frá hverju fræðasviði, og taka þeir aðilar jafnframt sæti í jafnréttisnefnd hvers sviðs.

Á kjörfundi hafa einungis nýkjörnir fulltrúar Stúdentaráðs atkvæðisrétt. Gefi fleiri kost á sér en kosið er um ræður hlutfallskosning. Séu fleiri en einn í framboði í tiltekinni kosningu, hlýtur sá einstaklingur sem fær flest atkvæði embættið, svo sá sem þar eftir kemur og koll af kolli.

Tilnefningar í embætti skal skila til fundarstjóra sem er jafnframt forseti Stúdentaráðs, Rakelar Önnu Boulter, fyrir kjörfund á shi@hi.is eða á fundinum sjálfum.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti á shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur
  2. Kjör forseta Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  3. Kjör varaforseta Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  4. Kjör hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  5. Kjör lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  6. Tilnefningar fylkinga í sviðsráð 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  7. Tilnefningar fylkinga í nefndir Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  8. Kjör Aurora fulltrúa Stúdentaráðs 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  9. Kjör varafulltrúa í Stúdentaráð 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  10. Tilnefningar fylkinga til Háskólaþings 2024-2025 (atkvæðagreiðsla)
  11. Önnur mál

Opið fyrir umsóknir í fjórðu úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í fjórðu úthlutun Stúdentasjóðs skólaárið 2023-2024.

Umsóknareyðublað er að finna hér. Við viljum hvetja til þess að umsóknareyðublaðið sé eins vel útfyllt og kostur er en umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði verður vísað frá.

Einnig hvetjum við til þess að umsækjendur kynni sér sérstaklega lög og verklagsreglur sjóðsins, hér er hægt að nálgast helstu upplýsingar um sjóðinn samandregnar.

Við vekjum athygli á því að greininingarstyrkir og framfærslustyrkir eru veittir í þessari úthlutun. 

Dæmi um aðra styrki sem veittir eru í þessari úthlutun eru félaga- og höfðatölustyrkir fyrir nemendafélög, ferðastyrkir, ráðstefnustyrkir og viðburðarstyrkir.

Tekið er við umsóknum til kl. 12:00 mánudaginn 15. apríl 2024. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.