Fréttir

Stúdentaráðsfundur 7. febrúar 2024

Miðvikudaginn 7. febrúar 2024 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu HT-104.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05 
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10  
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:10-17:20 
  4. Kynning – Juan Camilo Roman, Verkefnisstjóri Spretts og fjölmenningarfulltrúi HÍ 17:20-17:35 
  5. Kynning frá Q-félagi hinsegin stúdenta 17:35-17:50
  6. Tillaga um skipan þingfulltrúa á Landsþing LÍS 2024 17:50-18:00
    Hlé 18:10-18:20
  7. Yfirlýsing vegna stöði geðheilbrigðismála innan HÍ (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:30 
  8. Tilnefning Stúdentaráðs í kjöri til Ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunnar og á sviði barna og ungmenna (atkvæðagreiðsla) 18:30-18:40 
  9. Skipulagsmál og samgöngumál, umræður 18:30-18:40
  10.  Tillaga um Sjálfsala á Háskólatorgi (atkvæðagreiðsla)  18:40-18:55
  11. Tillaga um hreiður í Sögu (atkvæðagreiðsla) 18:55-19:10
  12. Tillaga um um staðlotur á Menntavísindasviði (atkvæðagreiðsla)  19:10-19:25
  13. Önnur mál 19:05-19:15 
  14. Fundi slitið 19:15 

Langar þig að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda?

Ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda er skipaður til eins árs og mun þurfa sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Sömuleiðis situr ungmennafulltrúinn í sendinefnd LUF hjá SÞ auk þess að eiga sæti í alþjóðaráði LUF. 

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda.

Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Sambandsþing LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna þann 24. febrúar nk. 

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði: 

  1. Ert á aldrinum 18-25 ára 
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
  7. Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til eins árs með virkri þátttöku í starfi LUF
  8. Hefur íslenskt ríkisfang auk fastrar búsetu á Íslandi að jafnaði

Þá er búist við að ungmennafulltrúar á vegum LUF sæki Leiðtogaskóla Íslands og taki virkan þátt í starfi LUF auk Félags Sameinuðu þjóðanna.

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsókn telst ekki uppfylla þau skilyrði verður henni vísað frá. Frestur er til og með 6. febrúar. 

 

Stúdentaráðsfundur 15. janúar 2024

Mánudaginn 15. janúar 2024 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu N-132.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05 
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10  
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:10-17:20 
  4. Fjárveitingar til Háskóla Íslands – Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu HÍ 17:20-17:45 
  5. Kynning á skýrslu um MSNM – Gísli Laufeyjarson Höskuldsson 17:45-18:00
  6. Fjármál stúdentaráðs 18:00-18:10
    Hlé 18:10-18:20
  7. Næstu skref varðandi lögmæti skrásetningargjaldsins (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:30
  8. Skipulagsmál 18:30-18:40 
  9. Umræður og tillaga að efni í herferð SHÍ (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:55
  10. Kynning á Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) – Alexandra Ýr van Erven 18:55-19:10 
  11. Önnur mál 19:05-19:15 
  12. Fundi slitið 19:15

Opnunartími skrifstofu Stúdentaráðs vorið 2024

Gleðilegt nýtt ár kæru stúdentar. Við vekjum athygli á opnunartíma skrifstofu Stúdentaráðs. Skrifstofan er opin alla virka daga frá 10-17.

Alþjóðafulltrúi, Hagsmunafulltrúi og Lánasjóðsfulltrúi eru öll með opna viðtalstíma, við bendum á að tímasetningin hefur breyst frá því fyrir áramót. Tímasetningar sjást á meðfylgjandi mynd.

Yfirlýsing SHÍ til stuðnings palestínsku þjóðarinnar

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur gefið frá sér yfirlýsingu til stuðnings palestínsku þjóðarinnar. Yfirlýsinguna er hægt að nálgast hér.

Kosið var um yfirlýsinguna í rafrænna atkvæðagreiðslu og voru niðurstöður ljósar 5. janúar síðastliðinn. Tillaga að yfirlýsingunni var lögð til, rædd og samþykkt á síðasta stúdentaráðsfundi þann 13. desember 2023.

Birtur hefur verið undirskriftarlisti þar sem nemendur við Háskóla Íslands geta tekið undir yfirlýsingu Stúdentaráðs, hann má finna hér.

Annáll SHÍ 2023

Þegar nýtt ár nálgast óðfluga er bæði hollt og gott að líta yfir farinn veg. Árið 2023 hefur verið viðburðaríkt hjá Stúdentaráði og margt gengið á. Hins vegar fara kosningar til stúdentaráðs fram á vorin, því er í raun aðeins hálft árið búið, í tímatali Stúdentaráðs. Í lok hvers starfsárs er unnin ársskýrsla sem er eiginleg samantekt starfsársins, en hér verður stiklað á stóru í atburðum þessa almanaksárs.

Fjármögnun háskólans

Umræðan var þung í upphafi árs en þann 29. janúar lýsti Stúdentaráð yfir áhyggjum af slæmri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands þegar ljóst varð að háskólann vantaði milljarð til að ná endum saman. Vöntun á fjármagni hefur slæm áhrif á grunnstarfsemi skólans og niðurskurður kemur alltaf til með að bitna á nemendum. Á árinu hefur þó farið fram heilmikil vinna er varðar fjármögnun háskólanna, en ráðuneytið kynnti nýtt reiknilíkan um miðjan september. Stúdentar, sem og háskólinn, binda miklar vonir við að nýtt reiknilíkan auki gagnsæi í fjárveitingu. Stúdentaráð skrifaði umsögn um nýjar reglur um fjárframlög til háskólanna þar sem ábendingum stúdenta var komið áleiðis. Spennandi er að sjá hvernig nýtt reiknilíkan reynist á komandi ári, en verður það keyrt meðfram eldra líkani fyrst um sinn og gefst þá tækifæri til að bregðast við óvæntum þáttum. 

Það verður þó að gæta þess að líkanið hvetji ekki til aukinnar til aðgangsstýringar. Getur það dregið verulega úr jöfnu aðgengi að háskólanámi, sérstaklega fyrir jaðarsetta hópa. Jafnara aðgengi að gæðagóðri opinberri menntun er einmitt sá þáttur sem ætti að vera meginmarkmið stjórnvalda með innleiðingu nýs líkans.

Menntasjóður námsmanna

Umfjöllun um Menntasjóð námsmanna hefur verið hávær á árinu sem er að líða. Í lok janúar var stefna Stúdentaráðs vegna endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna gefin út. Helstu áhersluatriði stefnunnar snúa að því hlutverki sjóðsins að vera félagslegur jöfnunarsjóður, hann ætti að tryggja jafnt aðgengi að námi. Stúdentaráð lagði áherslu á að við endurskoðunina yrði kerfið í heild sinni tekið til ítarlegrar skoðunar þar sem stúdentar búa enn við ófullnægjandi stuðningskerfi. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um Menntasjóðinn átti að kynna niðurstöður endurskoðunar á þeim á haustþingi 2023. Stúdentaráð hvatti ráðuneytið til samráðs við stúdenta við  endurskoðunina og fengu fulltrúar stúdentahreyfinganna boð á vinnustofu á vegum ráðuneytisins. Stuttu fyrir þinglok haustþings var skýrsla um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna gefin út. Lagabreytingafrumvarps er að vænta á vorþingi og verður spennandi að fylgjast með því. Stúdentaráð vonast auðvitað eftir að tekið verið mark á ábendingum stúdenta við þær breytingar. 

Í febrúar voru ungmennafulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum kosnir. á fulltrúaráðsfundi LUF. Báðar tilnefningar SHÍ hlutu kjör en Rebekka Karlsdóttir mun sinna starfi ungmennafulltrúa á sviði sjálfbærrar þróunar og Isabel Alejandra Díaz á sviði mennta, vísinda og menningar.

Sjúkra og endurtektarpróf

Í byrjun mars bárust þau gleðitíðindi að sjúkra- og endurtektarpróf haustannar verða ekki lengur haldin í maí. Eftir þrotlausa baráttu Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í Háskólaráði hefur heimild til að halda sjúkra- og endurtektarpróf haustannar í maí verið felld úr gildi og í staðinn munu þau fara fram í desember og janúar ár hvert.

Stúdentar splæsa

Þann 16. mars var herferð Stúdentaráðs 2023, Stúdentar splæsa, hleypt af stokkunum. Herferðin fjallaði um þá staðreynd að opinberir háskólar á Íslandi eru undirfjármagnaðir og leita þeir því í vasa stúdenta til að fjármagna sig. Var í herferðinni varpað ljósi á þá þætti sem liggja að baki gjaldsins og að Stúdentaráð drægi lögmæti þeirra í efa.  Einnig var vakin athygli á að íslenskir stúdentar greiði mun hærri skrásetningargjöld en nágrannar okkar á Norðurlöndunum og að þrátt fyrir allt ofantalið hafi íslenskir háskólar hafa ítrekað óskað eftir hækkun skrásetningargjaldanna. Allt er þetta til komið vegna undirfjármögnunar háskólans um árabil. 

Herferðin var að mestu keyrð á samfélagsmiðlum en einnig birtust auglýsingar á strætóskýlum borgarinnar. Í kjölfar herferðarinnar gengu fulltrúar stúdentaráðs fylktu liði að Ráðherrabústaðnum þar sem ríkisstjórnarfundur fór fram og afhentu forsætis-, fjármála- og háskólamálaráðherrum kröfur stúdenta.

     Hluti af herferð Stúdentaráðs 2023

 

Fjárhagsstaða stúdenta

Stúdentaráð lagði könnun fyrir stúdenta á vorönn, þar sem spurt var út í fjárhagsstöðu stúdenta. Niðurstöður könnunarinnar leiða m.a. í ljós að 70% svarenda vinna með námi, þar af sagðist rúmur helmingur hætta að vinna með námi ef námslánin væru hærri. 

Íþróttaskólinn

Krúttlegasta verkefni SHÍ, Íþróttaskólinn, var starfræktur á bæði vor- og haustönn 2023 og var aðsóknin mikil. Tímarnir í íþróttaskólanum eru haldnir í íþróttahúsi HÍ og hafa vakið mikla lukku meðal barna stúdenta.

Kosningar

Kosningar til Stúdentaráðs fóru fram dagana 22. og 23. mars. Jók Vaka við sig fylgi frá árinu áður, úr 2 fulltrúum í 5 og hlutu 12 fulltrúar Röskvu kjör. Á kjörfundi í apríl var kosið í stöður forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu SHÍ og tóku þau við skrifstofunni þann 1. júní. Á skiptafundi Stúdentaráðs í maí tók svo nýkjörið Stúdentaráð við keflinu.

Nýkjörnir fulltrúar á skrifstofu Stúdentaráðs

Landsþing LÍS

Landsþing LÍS, Landssamtaka íslenskra stúdenta, fór fram á Akureyri dagana 29. mars – 1. apríl. Þangað mættu 13 fulltrúar Stúdentaráðs og þinguðu með fulltrúum hinna háskólanna. Megináhersla þingsins var staða foreldra í háskólanámi og voru niðurstöður könnunar  SHÍ um stöðu foreldra í námi kynntar á þinginu, en könnunin var lögð fyrir stúdenta við HÍ vorið 2022.

Fulltrúar SHÍ á Landsþingi LÍS

Matarspor

Í byrjun maí varð tillaga Stúdentaráðs að veruleika þegar Matarspor var sett upp í Hámu á Háskólatorgi. Með Matarspori er neytendum gert kleift að taka upplýsta ákvörðun um hvaða rétta skal velja því kolefnisspor hverrar máltíðar er reiknað út. Við fögnum þessu litla skrefi og vonumst til að fljótlega verði upplýsingarnar einnig aðgengilegar á Uglu svo öll á háskólasvæðinu geti séð. 

Byggð í Nýja Skerjafirði?

Þann 9. maí sendi Stúdentaráðs frá sér ályktun vegna byggðar í Nýja Skerjafirði þar sem harmar frekari tafir á uppbygging á svæðinu.

Sumar á skrifstofu Stúdentaráðs

Á sumrin er unnið hörðum höndum að undirbúningi næsta skólaárs. Haldnir voru tveir Stúdentaráðsfundir yfir sumarið, í júní og ágúst en í byrjun júlí var Stefnumótunarferð Stúdentaráðs haldin í Hinu Húsinu í Elliðaárdal. Þar komu saman öll þau sem á einn eða annan hátt starfa með Stúdentaráði og mótuðu sér stefnu fyrir næsta starfsár, kynntust betur og fræddust um stóru málin. 

Stúdentar gengu með Q – félagi hinsegin stúdenta í Gleðigöngunni þann 12. ágúst á besta degi sumarsins í Reykjavík.

Fulltrúar stúdenta í Gleðigöngunni

Októberfest

Í byrjun ágúst var Skarphéðinn Finnbogason ráðinn samskiptafulltrúi Októberfest og fór undirbúningur stærstu tónlistarhátíðar stúdenta á Íslandi þá á fullt. Hátíðin fór fram í Vatnsmýrinni dagana 7.-9. september og fór hún að öllu leyti vel fram. Afar fjölmennt var á hátíðinni, enda seldist upp, og skemmtu gestir og skipuleggjendur sér öll konunglega!

Frá tónleikum Emmsjé Gauta á Októberfest

Undir lok september bárust þær gleðifregnir að enn og aftur hefði hagsmunabarátta stúdenta borið árangur – staðfest var að skrásetningargjöldin yrðu ekki hækkuð að sinni! Í desember 2022 höfðu rektorar opinberu háskólanna óskað eftir því við stjórnvöld að heimild yrði veitt til að hækka skrásetningargjöld úr 75.000 kr í 95.000 kr. en sem betur fer gekk það ekki eftir. 

Í lok október var samstarf SHÍ og Krónunnar kynnt til sögunnar. Nú geta íbúar stúdentagarða í Vatnsmýri fengið heimsendingu á mun betri kjörum en áður. 

Skrásetningargjaldið

Stúdentaráð boðaði til blaðamannafundar í Grósku þann 27. október. Til umræðu var ólögmæti skrásetningargjalda við Háskóla Íslands og fjármögnun opinberra háskóla. Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema frá 5. október sl. hefur Háskóli Íslands byggt á ófullnægjandi forsendum við ákvörðun fjárhæðar skrásetningargjaldsins. Nánar má lesa um skrásetningargjaldamálið og aðdraganda þess hér

VOFF dagar

Í nóvember voru fyrstu VOFFdagarnir haldnir á Litla torgi en VOFF stendur fyrir Vellíðan og fleira flott. Dagarnir voru samstarfsverkefni SHÍ og Sálfræðingateymis Háskóla Íslands. Almenn vellíðan stúdenta var í brennidepli í dagskrá daganna. Á Litla torgi héldu frábærir fyrirlesarar erindi sem tengdust geðheilbrigði á einn eða annan hátt. Einnig glöddu heimsóknarhundar Rauða krossins gesti og gangandi.

Heimsóknarhundur á vegum Rauða krossins

Fyrsti desember

Þann 1. desember héldum við hátíðardag stúdenta hátíðlegan með því að halda í hefðirnar og hefja daginn á því að ganga með blómsveig að leiði Jóns Sigurðssonar.  Við leiðið flutti forseti Stúdentaráðs hugvekju og rektor Háskóla Íslands hélt stutta tölu. Í hádeginu var boðið upp á kakó og kaffi, súkkulaði og smákökur fyrir prófþreytta stúdenta á Háskólatorgi.

Við leiði Jóns Sigurðssonar þann 1. desember

Stúdentaráð óskar stúdentum, og landsmönnum öllum, gleði og farsældar á nýju ári og þökkum ánægjulegar stundir á því liðna. Við hlökkum til að halda áfram öflugri hagsmunabaráttu stúdenta á komandi ári.

 

Hátíðarlokun Skrifstofu Stúdentaráðs

Kæru stúdentar,

starfsfólk Skrifstofu Stúdentaráðs óskar ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári á sama tíma og við þökkum allt það liðna.

Við vekjum athygli á því að skrifstofan verður lokuð til og með 3. janúar á nýju ári en að alltaf er hægt að senda okkur fyrirspurnir á shi@hi.is, þeim verður svarað eins fljótt og auðið er.

Stúdentaráðsfundur 13. desember 2023

Miðvikudaginn 13. desember 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu VHV-007.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05 
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10  
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:10-17:20 
  4. Erindi til umboðsmanns Alþingis um ólögmæti skrásetningagjaldanna (atkvæðagreiðsla) 17:20-17:35 
  5. Lagabreyting (atkvæðagreiðsla) 17:35-17:50   
  6. Umræður og tillaga að efni í herferð SHÍ (atkvæðagreiðsla) 17:50-18:05 
  7. Októberfest og Voffdaga skýrslur kynntar 18:05-18:15
    Hlé 18:15-18:25
  8. Verklagsreglur SHÍ og Siða og jafnréttisreglur SHÍ (atkvæðagreiðsla) 18:25-18:40
  9. Tímalína stórra mála SHÍ – Húsnæðismál 18:40-18:55  
  10. Tillaga um yfirlýsingu SHÍ varðandi Palestínu og Ísrael (atkvæðagreiðsla) 18:55-19:05 
  11. Önnur mál 19:05-19:15 
  12. Bókfærð mál 
  13. Fundi slitið 19:15 

1. desember – Dagur stúdenta

Hefð hefur skapast fyrir því að stúdentar haldi upp á 1. desember, fullveldisdaginn. Venju samkvæmt gengu stúdentar að leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði í morgun og lögðu þar blómsveig ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor og Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu. Stúdentaráð Háskóla Íslands bauð svo stúdentum upp á heitt kakó og smákökur á Háskólatorgi.

Stúdentaráð óskar stúdentum til hamingju með daginn og góðs gengis í verkefnaskilum og prófum!

Forseti Stúdentaráðs, Rakel Anna Boulter, flutti hugvekju til stúdenta í tilefni dagsins sem má finna hér að neðan í heild sinni:

©Kristinn Ingvarsson

Stúdentar fagna 1. desember og hafa gert um árabil. Að mínu mati er hagsmunabarátta stúdenta í grunninn sú hugsjón að horfa á háskólasamfélagið út frá sjónarhorni stúdenta. Þetta þýðir ekki endilega að markmiðið sé alltaf að gera stúdentum lífið léttara. Stundum þarf að leggja fram meiri vinnu til að fá betri uppskeru. Það á eins vel við um stúdenta og aðra. 

Hagsmunabarátta stúdenta á þó í öllu falli að skila stúdentum meiri ávinningi, hvort sem það er vitsmunalegur ávinningur, gagnrýnin hugsun eða hvað annað. Þetta eru þættir sem ég trúi að smiti út frá sér, skapi betra samfélag og auðvitað betri háskóla. 

Nýlega las ég bókina Háskólapælingar eftir Pál Skúlason, sem var rektor við Háskólann Íslands 1997-2005. Þar fjallar hann, á stórskemmtilegan hátt, um þrískipt hlutverk háskóla í síbreytilegu samfélagi. Einfaldað og niðursoðið er hlutverk háskóla að þjóna samfélaginu, sinna rannsóknum og ekki síst að koma stúdentum til alhliða þroska. Þetta er ekki talið upp í nokkurri sérstakri röð enda er ekkert þessara atriða hægt að aðskilja frá hvoru öðru. Það er þó umdeilanlegt hvort eitthvað sé mikilvægara öðru og við því á ég ekki svar. 

Heimurinn kemur okkur sífellt á óvart! Það er ómögulegt að ætlast til þess að nútíðin endurspegli framtíðina. Mikið hefur verið fjallað um hættur þess að móta háskóla eftir þörfum atvinnulífsins. Auðvitað er mikilvægt að háskólinn bregðist að einhverju leyti við þörfum samfélagsins, svo lengi sem það er ekki á kostnað þess að hægt sé að bregðast við hinu óvænta. 

En getur verið að það sé einmitt markmið háskólans: Að spá í framtíðina? Eða öllu heldur búa sig undir framtíðina, hver sem hún kann að vera? Háskólinn þarf að undirbúa stúdenta sína, svo þau séu í stakk búin til að takast á við allt sem koma skal. 

Ég lærði góða lexíu í vor, þegar ég fór með Háskólalestinni vestur á Ísafjörð. Þar sagði mér góður maður að hann færi aldrei í allar fjórar ferðir Háskólalestarinnar á hverju ári. Hann vildi ekki hætta á að verða ómissandi. Auðvitað er ótækt ef einn aðili heldur uppi heilu verkefnunum, þá þarf lítið að koma upp á til að allt fari í vaskinn. Ein persóna er þunnur þráður að hanga á.

Ég held að hlutverk háskóla sé að einhverju leyti að koma í veg fyrir að einn aðili verði ómissandi. Með því að miðla áfram þekkingu til fjölda fólks, verður til net þekkingar þar sem allir hafa sitt hlutverk en enginn er ómissandi.

Til að viðhalda gæðum háskóla þarf stöðugt að spyrja hvað betur má fara. Það er hlutverk stúdenta að taka virkan þátt í umræðunni, velta fyrir sér tilgangi háskóla og hugsjóninni sem liggur þar að baki. Stúdentar eru jú í miklum meirihluta í háskólum almennt.

Innan Háskóla Íslands er löng saga öflugrar hagsmunabaráttu. Stúdentaráð hefur nýverið náð hundrað ára aldri. Á þeim tíma hafa ótal sigrar unnist. Haustið 1934 fluttu fyrstu stúdentarnir inn á stúdentagarða, sem stúdentar söfnuðu fyrir, Félagsstofnun stúdenta var sett á fót 1968 og hefur síðan þá þjónustað stúdenta eftir besta móti. Um miðja síðustu öld var sett á fót námslánakerfi og var það stórt skref í átt að jöfnu aðgengi að menntun. Enn berjumst við fyrir bættu námslánakerfi og er ekki útlit fyrir að þeirri baráttu linni í bráð. 

Í dag lítum við yfir farinn veg, sjáum hvað hefur verið gert og fyllumst krafti og metnaði fyrir komandi tíma sem munu bera eitthvað alveg óvænt í skauti sér.

Ég býð ykkur að ganga inn í daginn með þann boðskap að vera ekki ómissandi sjálf, en takið endilega virkan þátt í að skapa kerfi sem hefur það að markmiði að vera ómissandi.”

©Kristinn Ingvarsson
©Kristinn Ingvarsson

©Kristinn Ingvarsson tók myndina. Frá vinstri: Rakel Anna Boulter, Rannveig Klara Guðmundssdóttir, Dagmar Óladóttir, Nana-Kirstine Bruhn Rasmussen, Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, Guðmundur Ásgeirsson, Guðni Thorlacius, Júlíus Viggó Ólafsson.

Stjórn Stúdentaráðs er iðulega boðið á Bessastaði á fullveldisdeginum 1. desember. Forseti tók hátíðlega á móti fulltrúum háskólasamfélagsins, rektorum og öðrum stjórnendum auk fulltrúa nemendafélaga í tilefni dagsins.

Frá vinstri: Guðni Thorlacius, Dagmar Óladóttir, Rakel Anna Boulter, Guðni Th. Jóhannesson, Arna Dís Heiðarsdóttir, Sigríður Helga Kárdal Ásgeirsdóttir og Dagbjört Ósk Jóhannesdóttir.

Opið fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í aðra úthlutun Stúdentasjóðs skólaárið 2023-2024.                                

Umsóknareyðublað er að finna hér. Við viljum hvetja til þess að umsóknareyðublaðið sé eins vel útfyllt og kostur er en umsóknum sem uppfylla ekki skilyrði verður vísað frá. Einnig hvetjum við til þess að umsækjendur kynni sér sérstaklega lög og verklagsreglur sjóðsins áður en sótt er um. 

Við vekjum athygli á því að greininingarstyrkir og framfærslustyrkir eru veittir í þessari úthlutun. 

Dæmi um aðra styrki sem veittir eru í þessari úthlutun eru félaga- og höfðatölustyrkir fyrir nemendafélög, ferðastyrkir, ráðstefnustyrkir og viðburðarstyrkir.

Tekið er við umsóknum til kl.16:00 miðvikudaginn 13. desember 2023. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.