Afmælishátíð Stúdentaráðs

Stúdentaráð Háskóla Íslands býður til hátíðarhalda í tilefni af aldarafmæli ráðsins. Afmælishátíðin mun fara fram 4. desember í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands en vegna samfélagsástandsins verður beint streymi þaðan kl. 18 fyrir gesti heima í stofu.

Afmælið markar stór tímamót í hagsmunabaráttu stúdenta, sem hefur sett svip sinn á samfélagið í heild sinni frá því að stúdentar gengu fyrst til kosninga í desember árið 1920. Sú staðreynd hvetur ráðið sem og stúdenta til dáða og áframhaldandi hagsmunagæslu. Stúdentaráð er um þessar mundir að vinna að heimildaþætti um sögu ráðsins í samstarfi við Háskóla Íslands, RÚV og Landsbankann, og verður sýnishorn frumsýnt á hátíðinni.

Heiðurgestir eru Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem opnar hátíðina, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, munu einnig ávarpa gesti. Þá mun söngkonan GDRN stíga á svið og Vigdís Hafliðadóttir, fyrrverandi stúdentaráðsliði, flytja uppistand.

Stúdentaráð hlakkar mikið til að fagna sögu ráðsins á afmælisdegi þess og vonast til þess að stúdentar og aðrir landsmenn sameinist í fögnuðinum.

Streymið má finna hér og umfjöllun Háskóla Íslands um aldarafmælið er aðgengileg hér.

Heimildarþáttur um sögu Stúdentaráðs

Í tilefni 100 ára afmæli Stúdentaráðs, hefur ráðið verið að vinna að heimildarþáttum.

Stúdentaráð Háskóla Íslands mun í samstarfi við Landsbankann, Háskóla Íslands og RÚV gefa út heimildaþætti, í tilefni aldar afmælisins. Þeir munu fjalla um hagsmunabaráttu stúdenta og rekja sögu Stúdentaráðs.

 

Ingileif Friðriksdóttir sér um þáttastjórn og verða viðmælendur þáttarins allskyns fólk sem hefur komið að starfi Stúdentaráðs með einum eða öðrum hætti í gegnum árin og sett sitt mark á hagsmunabaráttuna.

Þættirnir verða sýndir á RÚV og munum við birta tímasetningar þegar að nær dregur.
Stikla úr þáttunum verður frumsýnd á afmælishátíð Stúdentaráðs þann 4. desember næstkomandi. Hátíðin byrjar klukkan 18:00 og er hlekkur á streymið hér: https://www.hi.is/vidburdir/aldarafmaeli_studentarads_fagnad