SUMARFESTIVAL SHÍ

Nú þegar farið er að birta til viljum við bjóða ykkur að fagna saman sumrinu og próflokum á SUMARFESTIVAL SHÍ þann 20. maí! Festival er opið öllum sem vilja bjóða sumarið velkomið.

→ Fram koma Friðrik Dór, Birnir, GDRN, Gugusar, Inspector Spacetime og DJ Rasley.

🎟MIÐAR🎟
Háskólaverð 6990kr
Almennt verð: 7990kr

Miðasala fer fram á tix.is.

Allar upplýsingar eru að finna á Facebook viðburðinum okkar, við mælum með því að þið fylgist vel með þar fram að hátíðinni!

Hlökkum til að sjá ykkur hita upp fyrir Októberfest 2022.

 

Auglýst í stöður framkvæmdastjóra og ritstjóra 2022-2023

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir í stöður framkvæmdastjóra og ritstjóra.

Framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri tekur þátt í að vinna að skilvirkum og góðum starfsháttum á skrifstofu Stúdentaráðs. Hann gætir fjármuna og eigna Stúdentaráðs, vinnur að hagkvæmni í fjárútlátum og heldur upplýsingaflæði milli skrifstofu og Stúdentaráðs.

Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, umsjón með rekstri skrifstofunnar, þar með talið tímaskráningum starfsfólks hennar og greiðslu launa. Hann sér um samningsgerðir á vegum Stúdentaráðs og eftirfylgni þeirra, sér um auglýsingasöfnun í útgefið efni Stúdentaráðs ásamt því að rita fundargerðir Stúdentaráðs og stjórnar Stúdentaráðs. Auk þess tekur framkvæmdastjóri þátt í daglegum störfum skrifstofunnar í samráði við forseta.

Hæfniskröfur:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu.
  • Þekking og reynsla á fjármálum og bókhaldi.
  • Vilji og geta til þess að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku er skilyrði.
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt.
  • Menntun sem nýtist í starfi er kostur.
  • Þekking á bókhaldshugbúnaði er kostur.
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur.
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur.
  • Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi.

 

Framkvæmdastjóri er ráðinn í 40-50% starf út starfsár Stúdentaráðs, eða til 31. maí 2023, með möguleika á framlengingu. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá Vöku Lind Birkisdóttur, núverandi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs, á netfangið shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og meðmælum skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is  merkt „Framkvæmdastjóri SHÍ“.

Umsóknarfrestur er til og með 11. maí 2022. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.

 

Ritstjóri

Ritstjóri hefur yfirumsjón með útgáfu Akademíunnar sem gefin er út í byrjun skólaársins sem og Stúdentablaðsins sem gefið er út fjórum sinnum á skólaári, tvö blöð á hvoru misseri. Nánari tímasetning fer eftir ákvörðun ritstjóra og skrifstofu Stúdentaráðs. Ritstjóri skipar í ritstjórn og stýrir störfum hennar. Hann sér um dreifingu á Stúdentablaðinu og er ábyrgur fyrir því að birta efni úr því á heimasíðu þess.

Ritstjóri aðstoðar við auglýsingasöfnun en framkvæmdastjóri Stúdentaráðs hefur yfirumsjón yfir henni sem og rekstri blaðsins.

Hæfniskröfur:

  • Þekking og áhugi á málefnum stúdenta
  • Reynsla af fjölmiðla- og útgáfustörfum
  • Reynsla af grafískri hönnun er kostur
  • Góð almenn tölvukunnátta
  • Þekking á vefumsjón er kostur
  • Gott vald á íslenskri og enskri tungu
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Vilji til að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsmönnum skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins
  • Menntun sem nýtist er kostur

 

Ritstjóri er ráðinn í 20% vinnu yfir tímabilið 1. júní 2022 til 1. september 2022 og eykst þá hlutfallið í 30% yfir tímabilið 1. september 2022 til 31. maí 2023. Upphaf starfstíma getur þó verið sveigjanlegur eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar um starfið má fá hjá Karitas M. Bjarkadóttur, núverandi ritstjóra Stúdentablaðsins, á netfangið studentabladid@hi.is

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og upplýsingum um umsagnaraðila skal skila í gegnum tölvupóst á netfang Stúdentaráðs shi@hi.is merkt „Ritstjóri 2022-2023“. Auk þess er æskilegt að sýn umsækjanda á Stúdentablaðinu og hugmyndir um útgáfur á starfstímabilinu komi fram, og sýnishorn af vinnu sinni ef viðkomandi hefur gegnt ritstörfum áður.

Umsóknarfrestur er til og með 11. maí 2022. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.

Kjör á skrifstofu Stúdentaráðs 2022-2023

Rebekka Karlsdóttir var kjörin nýr forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) síðastliðinn miðvikudag. Kosningin fór fram á sérstökum kjörfundi ráðsins en réttindaskrifstofa og nýkjörið Stúdentaráð munu formlega taka til starfa eftir skiptafund undir lok maí.

Rebekka mun útskrifast með BA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í júní 2022. Samhliða námi hefur hún starfað sem laganemi hjá BBA//Fjeldco og þar áður sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði. Þá útskrifaðist Rebekka frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 2016.

Á síðastliðnu ári var Rebekka sviðsráðsforseti á Félagsvísindasviði og sat þá í stjórn Stúdentaráðs og stjórn Félagsvísindasviðs. Rebekka hefur einnig setið sem fulltrúi stúdenta í kennslumálanefnd háskólaráðs, varafulltrúi í Stúdentaráði fyrir Verkfræði- og náttúruvísindasvið ásamt því að hafa verið forseti Röskvu, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.

Ég er mjög spennt að taka við keflinu enda eru mörg tækifæri framundan í hagsmunabaráttu stúdenta, má nefna uppbyggingu háskólasvæðisins, ný stefna Háskóla Íslands, endurskoðun lánasjóðskerfisins og samstarf við nýtt ráðuneyti og ráðherra háskólamála. Sömuleiðis eru bjartir tímar framundan fyrir félagslífið í Háskólanum eftir 2 ár sem hafa einkennst meira og minna af fjarkennslu og heimaveru.

Á kjörfundi voru einnig kjörnir eftirfarandi fulltrúar á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs:

Varaforseti: Gréta Dögg Þórisdóttir

Hagsmunafulltrúi: Katrín Björk Kristjánsdóttir

Lánasjóðsfulltrúi: María Sól Antonsdóttir

Könnun um hagi og aðstæður foreldra í námi

Kæru foreldrar í námi, 

Stúdentaráð leggur fyrir könnun sem varðar hagi og aðstæður foreldra í námi, einkum í kjölfar Covid. Mikilvægt er að draga fram sjónarmið þessa stúdentahóps til að standa vörð um hagsmuni þeirra og vera sterkari málsvari þeirra.

Því biðlum við til sem flestra foreldra í námi að taka könnunina fyrir 27. apríl.

Könnuna má nálgast hér.

Ábyrgðar- og vinnsluaðili könnunarinnar er Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ). Könnunin er nafnlaus og ekki er hægt að rekja upplýsingar til þeirra sem svara henni. Farið verður með öll gögn samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

 

Niðurstöður sjöttu könnunar Stúdentaráðs um líðan og stöðu stúdenta við Háskóla Íslands á tímum COVID

Sjötta könnun Stúdentaráðs var send út þann 7. febrúar til allra stúdenta við Háskóla Íslands. Það höfðu 843 stúdentar tekið könnunina þegar henni lauk þann 14. febrúar, en 15.258 nemendur eru skráðir við Háskólann. Spurt var um persónuhagi, líðan og kennslumál, bæði á á íslensku og ensku en spurningarnar voru 27 talsins. 

Líkt og með fyrri könnunum var markmiðið að kanna áhrif kórónuveirufaraldursins á líðan og námsframvindu nemenda við Háskóla Íslands. Þannig er hægt að fá betri sýn á aðstæður og dregið betur fram leiðir til úrbóta. 

Niðurstöðurnar sýna að aðstæðurnar vegna COVID reynist áfram erfiðar fyrir stúdenta en stafar það aðallega af lítilli tengslamyndun við samnemendur, aukinni rafrænni kennslu og álaginu sem því fylgir. Meirihluti stúdenta vill frekar geta mætt í húsakynni skólans og ljóst er að takmarkað félagslíf hefur haft áhrif á andlega líðan þeirra. Upplifun stúdenta hefur þannig breyst úr því að finna fyrir óöryggi vegna COVID í að hafa áhyggjur af því að hafa ekki góða stjórn á námi og hvernig þær aðstæður hafi áhrif á geðheilsu.

Mikilvæg atriði sem draga má af niðurstöðum:

  • 56% segja rafræna kennslu hafa hentað mjög vel eða frekar vel.
  • Af þeim sem eru í rafrænu námi telja 34.74% að það gangi mjög vel að nota fjarskipta forrit og 42.82% frekar vel.
  • Af þeim sem eru í rafrænu námi telja 18.41% að kennsluaðferðir kennara séu mjög góðar og 44,51% telja þær frekar góðar.
  • 75.96% stúdenta af félagsvísindasviði eru mjög sammála því að sjúkra- og endurtökupróf, vegna lokaprófa haustmisseris, fari fram í janúar.
  • 25.39% telja það hafa gengið mjög illa að kynnast samnemendum á haustmisseri 2021.
  • 32.03% segja rafræna kennslu hafa haft frekar mikil áhrif á líðan, á skalanum mjög mikið til mjög lítið.
  • 53.85% merkja líðan sína 5 eða hærri á skalanum 0-10.
  • 63.58% upplifa streitu og/eða álag sem þau telja að hafi mjög mikil eða frekar mikil áhrif á námið.
  • 61,4% sögðu rafræna kennslu hafa haft ýmist mjög neikvæð áhrif eða neikvæð áhrif á áhuga og getu til að tileinka sér námið. 27,2% sögðu rafræna kennslu hafa haft jákvæð áhrif.

 

Könnunina má í heild sinni finna hér. 

Kjörfundur Stúdentaráðs 20. apríl 2022

Kosningar til Stúdentaráðs fóru fram 23. og 24. mars sl. og má nálgast niðurstöður kosninga á heimasíðu ráðsins. Þess má geta að einnig var kosið til háskólaráðs.

Í kjölfar kosninga kýs Stúdentaráð sér fulltrúa til starfa á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs, ásamt því að kjósa í önnur embætti ráðsins á sérstökum kjörfundi. Kjörfundur verður haldinn 20. apríl 2022 kl. 17:00 í L-101. Fundir Stúdentaráðs eru opnir öllum skv. a-lið 9. gr. laga Stúdentaráðs. 

Mögulegt er að gefa kost á sér í embætti forseta, varaforseta, hagsmunafulltrúa og lánasjóðsfulltrúa á skrifstofu Stúdentaráðs. Einnig í fastanefndir og önnur embætti á vegum Stúdentaráðs. Þau sem kjörin eru á kjörfundi taka við störfum á skiptafundi, sbr. 4. gr. laga Stúdentaráðs. Kjörgengir til þessara embætta eru öll þau sem hafa verið skráð til náms við Háskóla Íslands á síðustu þremur árum, á undan sérstökum kjörfundi.

Embætti sem kosið er í á skrifstofu Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:
 – Forseti Stúdentaráðs
 – Varaforseti Stúdentaráðs
 – Lánasóðsfulltrúi Stúdentaráðs
 – Hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs

Nefndir Stúdentaráðs, skv. lögum ráðsins:
– Fjórir fulltrúar skulu kjörnir í fjármála- og atvinnulífsnefnd, jafnréttisnefnd, alþjóðanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, fjölskyldunefnd, félagslífs- og menningarnefnd og lagabreytinganefnd.
 – Stúdentaráð skipar tvo aðila í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd á kjörfundi.

Á kjörfundi hafa einungis nýkjörnir fulltrúar Stúdentaráðs atkvæðisrétt. Gefi fleiri kost á sér en kosið er ræður hlutfallskosning. Séu fleiri en einn í framboði í tiltekinni kosningu, hlýtur sá einstaklingur sem fær flest atkvæði embættið, svo sá sem þar eftir kemur og koll af kolli. 

Tilnefningar í embætti skal skila til fundarstjóra sem er jafnframt forseti Stúdentaráðs, Isabel Alejandra Díaz, fyrir kjörfund á shi@hi.is eða á fundinum sjálfum. 

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur
  2. Kjör forseta Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  3. Kjör varaforseta Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  4. Kjör hagsmunafulltrúa Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  5. Kjör lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  6. Tilnefningar fylkinga í sviðsráð 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  7. Tilnefningar fylkinga í nefndir Stúdentaráðs 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  8. Kjör varafulltrúa í Stúdentaráð 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  9. Tilnefningar fylkinga til Háskólaþings 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  10. Kjör varafulltrúa Stúdentaráðs í fulltrúaráð LÍS 2022-2023 (atkvæðagreiðsla)
  11. Önnur mál 

Stúdentaráðsfundur 13. apríl 2022

Miðvikudaginn 13. apríl fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (kynning og umræður) 17:25-17:40
  5. Lagabreytingartillögur á lögum Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 17:40-18:10
  6. Hlé 18:10-18:20
  7. Lagabreytingartillögur á lögum Stúdentaráðs [Framhald] (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:50
  8. Önnur mál 18:50-19:00
  9. Fundi slitið 19:00

Opið fyrir umsóknir í fjórðu úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í fjórðu úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér til kl. 12:00 á hádegi þann 19. apríl nk.. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur Stúdentasjóð á heimasíðu Stúdentaráðs og sérstaklega lög og verklagsreglur hans. Greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða veittir í þessari úthlutun.

Spurningum skal vísað til Maríu Sólar Antonsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna skólaárið 2022-2023

Úthlutunarreglur hjá Menntasjóði námsmanna fyrir skólaárið 2022-2023 hafa verið samþykktar af háskóla- vísinda- og nýsköpunarráðherra. Í úthlutunarreglunum fyrir næsta skólaár hækkar grunnframfærsla framfærsluána um 18%. Hækkun á grunnframfærslunni er alltaf fagnaðarefni en Stúdentaráð undirstrikar þó mikilvægi þess að hún sé endurskoðuð árlega og að nánari fyrirmæli fylgi lögum um tilhögun framfærslulána þannig að grunurinn sé endurskoðaður milli ára. Í núgildandi lögum er ekki gerð skýr krafa til stjórnar Menntasjóðsins um endurskoðun með reglubundnum hætti og því ekkert tilkall til stjórnar um að bregðast við þegar þörf krefur. Stúdentaráð bindir vonir um að tekið verði tillit til þess við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

Frítekjumarkið hækkar einnig og verður 1.483.000 KR. fyrir skólaárið 2022-2023. Hækkunin er miðuð við breytingu á neysluvísitölu milli ára og gera það 73.000 KR. hækkun. Stúdentaráð fagnar því að enn sé heimilt að fimmfalda frítekjumark stúdents sem ekki hefur verið á námslánum hjá sjóðnum sl. 6 mánuði. Er þetta mikilvægur liður í að tryggja að stúdent geti hafið lántöku án þess að verða strax fyrir skerðingu vegna frítekjumarksins. Stúdentaráð ítrekar samt sem áður afstöðu sína um að öllum lántökum eigi að gefast kostur á að sækja um fimmföldun á frítekjumarkinu. Styrkur og lán vegna barna verður einnig hækkað og er fjárhæð styrks fyrir hvert barn á framfæri námsmanns sem lýkur lágmarks námsárangri 182.250 KR. á hverri önn.

Frestur til að sækja um námslán á haustönn hefur verið breytt og verður nú 15. október, 2022. Stúdentaráð þykir einnig við hæfi að umsóknarfrestinum á vorönn verði breytt í samræmi við breytinguna á haustönn, enda liggur fyrir að 15. janúar sé íþyngjandi frestur fyrir marga tilvonandi lántaka. Hafa verður í huga að aðstæður stúdenta geta breyst verulega á miðju misseri og því telur ráðið að umsóknarfrestirnir séu enn þá of snemma á misserunum.

Niðurstöður kosninga til Stúdentaráðs og háskólaráðs Háskóla Íslands 2022

Miðvikudaginn og fimmtudaginn, 23. og 24. mars, fóru fram kosningar til Stúdentaráðs og háskólaráðs Háskóla Íslands. Stúdentar kusu á milli framboðslista á sínu fræðasviði í Stúdentaráð til eins árs og fulltrúa í háskólaráð til tveggja ára. Fulltrúar fá sæti í samræmi við hlutfall kosninga.

Stúdentaráð samanstendur af 17 fulltrúum sem skiptast í 3 fulltrúa af hverju fræðasviði, fyrir utan Félagsvísindasvið sem á 5 fulltrúa. Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, fékk alls 15 fulltrúa kjörna en Vaka, hagsmunafélag stúdenta, fékk 2 fulltrúa. Frambjóðendur Röskvu á Hugvísindasviði voru sjálfkjörnir þar sem ekkert annað framboð barst, í samræmi við 32. gr. laga Stúdentaráðs.

Í háskólaráði eiga fulltrúar svo stúdenta og fékk Röskva báða fulltrúa inn ásamt því að fá 3. og 4. sætið inn sem varafulltrúa.

Kosn­ing­arnar fór fram á Uglunni og var kjör­sókn 21,70% en nánari tölur má finna hér undir lagaleg skjöl.

 

Kjörnu fulltrúarnir í Stúdentaráð raðast á eftirfarandi máta:

Fé­lags­vís­inda­svið:
1.Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, Röskva
2.Viktor Ágústsson, Röskva
3.Dagur Kárason, Vaka
4.Diljá Ingólfsdóttir, Röskva
5.Elías Snær Torfason, Röskva

Heil­brigðis­vís­inda­svið:
1.Andri Már Tómasson, Röskva
2.Sigríður Helga Ólafsdóttir
3.Dagný Þóra Óskarsdóttir, Röskva

Hug­vís­inda­svið:
1.Rakel Anna Boulter, Röskva
2.Draumey Ósk Ómarsdóttir, Röskva
3.Magnús Orri Aðalsteinnson, Röskva

Menntavís­inda­svið:
1.Auður Eir Sigurðardóttir, Röskva
2.Ísak Kárason, Röskva
3.Ísabella Rún Jósefsdóttir, Vaka

Verk­fræði- og nátt­úru­vís­inda­svið:
1.Brynhildur R Þorbjarnardóttir, Röskva
2.Sigurþór Maggi Snorrason, Röskva
3.Dagmar Óladóttir, Röskva

 

Kjörnu fulltrúarnir í háskólaráð raðast á eftirfarandi máta:

1.Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir, Röskva
2.Katrín Björk Krisjánsdóttir, Röskva

Varafulltrúar í háskólaráði í 3. og 4. sæti:
3.Rebekka Karlsdóttir, Röskva
4.Ingvar Þóroddsson, Röskva

 

Skrifstofa Stúdentaráðs færir nýkjörnum Stúdentaráðsliðum og háskólaráðsliðum innilegar hamingjuóskir.