Kosningar til Stúdentaráðs og háskólaráðs 2022

Kosningar til Stúdentaráðs og háskólaráðs fara fram miðvikudaginn 23. og fimmtudaginn 24. mars næstkomandi. Þar munu nemendur hvers fræðasviðs kjósa sér fulltrúa í Stúdentaráð til eins árs og fulltrúa í háskólaráð til tveggja ára. Kosningarnar eru rafrænar og fara fram í gegnum innri vef Háskólans, Ugluna. 

Á kjörskrá eru þeir nemendur sem skráðir eru í nám við Háskóla Íslands skólaárið 2021-2022. Gesta- og skiptinemar, sem og nemar sem skráðir eru á námsleiðir með stökum námskeiðum, líkt og í Símennt, hafa ekki atkvæðisrétt.

Opnunartími kosningakerfis á Uglu verður með breyttu sniði í ár, en kosningar verða opnar frá kl. 09:00 þann 23. mars til kl. 18:00 þann 24. mars. 

Nemendur á Hugvísindasviði munu ekki geta kosið fulltrúa í Stúdentaráð vegna þess að á sviðinu barst einungis framboð frá fylkingunni Röskvu. Í samræmi við 32. gr. laga Stúdentaráðs eru því Rakel Anna Boulter, Draumey Ósk Ómarsdóttir og Magnús Orri Aðalsteinsson sjálfkjörin sem fulltrúar stúdenta í Stúdentaráði Háskóla Íslands og sviðsráði Hugvísindasviðs 2022-2023. Stúdentar á Hugvísindasviði eru þó hvattir til að nýta atkvæðisrétt sinn og kjósa fulltrúa stúdenta í háskólaráð Háskóla Íslands en kosningar til háskólaráðs fara fram samhliða kosningum til Stúdentaráðs þann 23. og 24. mars.

Hér að neðan er listi yfir frambjóðendur.

 

Framboðslistar Röskvu:

Háskólaráð:
1.Brynhildur Kristín Ásgeirsdóttir – Læknisfræði
2. Katrín Björk Krisjánsdóttir – Félagsráðgjöf
3. Rebekka Karlsdóttir – Lögfræði
4. Ingvar Þóroddsson – Hagnýtt stærðfræði

Félagsvísindasvið:
1.Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir – Lögfræði
2.Viktor Ágústsson – Viðskiptafræði
3.Diljá Ingólfsdóttir – Félagsráðgjöf
4.Elías Snær Önnuson Torfason – Stjórnmálafræði
5.Þórkatla Björg Ómarsdóttir – Félagsfræði

Heilbrigðisvísindasvið:
1.Andri Már Tómasson – Læknisfræði
2.Sigríður Helga Ólafsson – Sálfræði
3.Dagný Þóra Óskarsdóttir – Hjúkrunarfræði

Hugvísindasvið:
1.Rakel Anna Boulter – Almenn bókmenntafræði
2.Draumey Ósk Ómarsdóttir – Íslenska
3.Magnús Orri Aðalsteinsson – Enska

Menntavísindasvið:
1.Auður Eir Sigurðardóttir – Tómstunda- og félagsmálafræði
2.Ísak Kárason – Íþrótta- og heilsufræði
3.Sigurjóna Hauksdóttir – Uppeldis- og menntunarfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið:
1.Brynhildur Þorbjarnardóttir – Eðlisfræði
2.Maggi Snorrason – Rafmagns- og tölvuverkfræði
3.Dagmar Óladóttir – Landfræði

 

Framboðslistar Vöku:

Háskólaráð:
1.Birta Karen Tryggvadóttir – Hagfræð
2.Magnea Gná Jóhannsdóttir – Lögfræð
3.Jóna Guðbjörg Ágústsdóttir – Lýðheilsuvísindi
4.Ellen Geirsdóttir Håkansson – Stjórnmálafræði

Félagsvísindasvið:
1.Dagur Kárason – Stjórnmálafræði
2.Axel Jónsson – Félagsráðgjöf
3.Embla Ásgeirsdóttir – Lögfræði
4.Iðunn Hafsteins – Viðskiptafræði
5.Logi Stefánsson – Viðskiptafræði

Hugvísindasvið:
Ekkert framboð barst

Menntavísindasvið:
1.Ísabella Rún Jósefsdóttir – Uppeldis- og menntunarfræði
2.Bergrún Anna Birkisdóttir – Grunnskólakennarafræði
3.Margrét Rebekka Valgarðsdóttir – Tómstunda- og félagsmálafræði

Heilbrigðisvísindasvið:
1.Telma Rún Magnúsdóttir – Lyfjafræði
2.Jóna Margrét Hlynsdóttir Arndal – Tannlæknisfræði
3.Freyja Ósk Þórisdóttir – Hjúkrunarfræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið:
1.María Árnadóttir – Vélaverkfræði
2.Margrét Ásta Finnbjörnsdóttir – Iðnaðarverkfræði
3.Friðrik Hreinn Sigurðsson – Tölvunarfræði

 

Spurningum varðandi ofangreindar upplýsingar eða framkvæmd kosninga skulu berast til kjörstjórnar Stúdentaráðs á kjor@hi.is.

Stúdentaráðsfundur 10. mars 2022

Fimmtudaginn 10. mars fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-201.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Félagsstofnun stúdenta (kynning og umræður) 17:25-17:45
  5. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (kynning og umræður) 17:45-18:00
  6. Hlé 18:00-18:10
  7. Stefna Stúdentaráðs (kynning og umræður) 18:10-18:40
  8. Önnur mál 18:40-18:50
  9. Fundi slitið 18:50

Opið fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér til 28. febrúar nk.. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur Stúdentasjóð á heimasíðu Stúdentaráðs og sérstaklega lög og reglur hans. Greiningarstyrkir og framfærslustyrkir verða veittir í næstu úthlutun.

Spurningum skal vísað til Maríu Sólar Antonsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studenasjodur@hi.is.

Stúdentaráðsfundur 16. febrúar 2022

Miðvikudaginn 16. febrúar fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Stefna Stúdentaráðs (kynning og umræður) 17:25-17:40
  5. Skipulags- og samgöngumál við Háskóla Íslands (kynning og umræður) 17:40-18:00
  6. Tillaga um skipan þingfulltrúa á landsþingi Landssamtaka íslenskra stúdenta (atkvæðagreiðsla) 18:00-18:15
  7. Hlé 18:15-18:25
  8. Geðheilbrigðismálaúrræði við Háskóla Íslands (kynning og umræður) 18:25-18:40
  9. Tillaga að að ályktun um að Stapi verði nýtt undir stúdentaíbúðir á ný (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:55
  10. Tillaga vegna takmarkaðs aðgangs nema utan EES til vinnu með námi (atkvæðagreiðsla) 18:55-19:10
  11. Önnur mál 19:10-19:20
  12. Fundi slitið 19:20

Forsöluverð á tónleika Friðiks Dórs fyrir stúdenta við Háskóla Íslands

Opnum hliðin!

Eftir langa bið efnir Friðrik Dór til tónleika í Hörpunni í tilefni nýju plötunnar Dætur, þann 11. mars næstkomandi.

Stúdentaráð og Paxal bjóða stúdentum við Háskóla Íslands miða á forsöluverði út 14. febrúar.

!Hægt að nálgast miðann hér!

Krossum fingur og tær, hitum upp fyrir Októberfest og sjáumst í Silfurbergi!

Könnun á líðan og stöðu nemenda við Háskóla Íslands á tímum COVID-19

Stúdentaráð hefur lagt fyrir aðra könnun á líðan og stöðu nemenda við Háskóla Íslands á tímum COVID-19. Markmiðið er að öðlast betri sýn á aðstæðunum og geta þannig dregið fram leiðir til úrbóta. Mikilvægt er að kortleggja stöðuna til að geta brugðist við á réttan hátt.

Stúdentar hafa fengið könnunina á HÍ-netfangið sitt og óskar Stúdentaráð eftir því að henni sé svararð fyrir 17. febrúar næstkomandi. Einnig er hægt að nálgast könnunina hér. 

 

Skýrsla Stúdentaráðs um stúdenta á húsnæðismarkaði

Sumarið 2021 lagði skrifstofa Stúdentaráðs til samþykktar ráðsins að verkefnastjóri yrði ráðinn yfir sumartímann við að afla upplýsinga og gagna um réttindi þessa hóps innan velferðarkerfisins og þannig fá betri mynd af stöðu þeirra við mismunandi félagslegar aðstæður. Féll það vel að þeim verkefnum sem þegar voru inn á borði Stúdentaráðs í þessum efnum, t.a.m. upplýsinga- og gagnaöflun ráðsins um kjör stúdenta innan námslánakerfisins, atvinnutækifæri og réttindi á vinnumarkaði. Nanna Hermannsdóttir var ráðin verkefnastjóri á skrifstofu Stúdentaráðs og hafði umsjón með allri upplýsinga- og gagnaöflun í samráði við skrifstofuna. Nanna er útskrifaður hagfræðingur úr Háskóla Íslands og meistaranemi í sama fagi við Háskólann í Lundi. Hún hefur áður stundað meistaranám í norrænum velferðarkerfum í háskólanum í Halmstad og í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum.

Húsnæðismálin eru einn stærsti málaflokkur í hagsmunabaráttu stúdenta og Stúdentaráði því ávallt ofarlega í huga, enda er húsnæðisöryggi meðan á námi stendur grundvallaratriði. Uppbyggingin háskólasvæðisins er þegar í góðum farveg og miðar að þéttara skipulagi með áherslu á sameiningu háskólastarfseminnar, aukið húsnæði og framboð á þjónustu og grænar tengingar og samgöngur. Vegna þessa var ákveðið að skoða sérstaklega kjör og réttindi stúdenta á húsnæðismarkaði og gera því skil í útgefinni skýrslu. Markmið hennar er að greina og bera saman almenna leigumarkaðinn og stúdentagarða, greina húsnæðisbyrði stúdenta og kanna rétt þeirra til opinbers húsnæðisstuðnings á vegum bæði ríkisins og sveitarfélaga með hliðsjón af viðbótarláni Menntasjóðs námsmanna vegna húsnæðiskostnaðar. Í skýrslunni fylgja einnig tillögur að úrbótum í málaflokknum sem Stúdentaráð fer fram á að teknar séu til skoðunar. 

Skýrsluna í heild sinni má finna hér. 

Stúdentar á húsnæðismarkaði

Húsnæðiskostnaður er einn stærsti útgjaldaliður heimila og á það ekki síður við um stúdenta. Ungt fólk og tekjulágir eru töluvert líklegri en aðrir hópar til þess að vera á leigumarkaði, samkvæmt gögnum Hagstofunnar um stöðu á húsnæðismarkaði eftir tekjum og aldri. Það felur í sér minna húsnæðisöryggi og hærri húsnæðiskostnað í samanburði við að eiga fasteign. 

Stúdentar eru að jafnaði með lægri launatekjur en aðrir hópar og því sérstaklega viðkvæmir fyrir mikilli hækkun á leiguverði. Viðbótarlánið sem Menntasjóður námsmanna veitir stúdentum vegna húsnæðiskostnaðar tekur ekki mið af raunverulegri hækkun húsnæðiskostnaðar. Nú þegar teljast 43% stúdenta á Íslandi vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað samkvæmt Eurostudent VII, en það er tæplega fjórfalt hærra hlutfall en meðal allra Íslendinga. Í því samhengi ber að nefna að stúdentar skiptast innbyrðis í mismunandi hópa í mismunandi stöðu sem hver og einn getur borið ólíkar skuldbindingar og búið við gjörólíkar aðstæður. 

Mat á húsnæðisbyrði stúdenta var framkvæmt út frá hóflegum forsendum um viðmiðunar stúdentinn og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að viðmiðunar stúdentinn sé á leigumarkaði og greiningunni er skipt eftir tegund íbúða og eftir því hvort leigt er af stúdentagörðum eða á almennum leigumarkaði. Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur heimilisins eftir skatta að meðtöldum greiðslum úr félagslega kerfinu. Þá var einnig tekin með upphæð námslána, þrátt fyrir að almennt sé ekki litið á lán sem ráðstöfunartekjur. Húsnæðisbætur eru dregnar frá leigukostnaði (sbr. útreikningar Hagstofunnar á húsnæðisbyrði) og eru því ekki teknar með í ráðstöfunartekjur þrátt fyrir að vera greiðslur úr félagslega kerfinu.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að margir námsmenn séu með íþyngjandi húsnæðiskostnað í samræmi við Eurostudent IV. Staðan er tilkomin vegna lágra ráðstöfunartekna hópsins, en hafa ber í huga að meirihluti þeirra ráðstöfunartekna sem miðað er við í þessari skýrslu er lán en ekki tekjur eða bætur úr félagslega kerfinu. Hér er því notast við óhefðbundna skilgreiningu á ráðstöfunartekjum. Þrátt fyrir það bendir flest til þess að viðmiðunar stúdent sem er einstæður greiði að jafnaði húsnæðiskostnað sem annaðhvort nálgast það eða einfaldlega telst vera íþyngjandi húsnæðiskostnaður. Staða stúdenta á húsnæðismarkaði verður því að teljast áhyggjuefni.

Fjárhagslegur stuðningur hins opinbera til stúdenta er háður ýmsum skilyrðum sem setur annars svipaða stúdenta í mjög ólíka stöðu. Þetta misræmi skapast aðallega af tveimur ástæðum. Önnur þeirra er sú að almenna húsnæðisstuðnings kerfið gerir strangari kröfur til húsnæðis á almennum markaði en til sambærilegra íbúða á stúdentagörðum. Hin ástæðan er  sú að möguleiki á stuðningi er mismunandi eftir því hvar stúdentar búa og hvar þeir hafa lögheimilisskráningu, en sérstakur húsnæðisstuðningur er bæði breytilegur milli sveitarfélaga og háður því að aðsetur og lögheimili sé í sama sveitarfélagi. Þar sem réttindi til félagslegra greiðslna eru oftar en ekki bundin atvinnuþátttöku einstaklings falla námsmenn oft milli glufa í kerfinu og verða að reiða sig á sérútbúnar undanþágur í lögum og reglugerðum, þar sem nám er almennt ekki ígildi atvinnuþátttöku. 

Þrátt fyrir uppbyggingu stúdentagarða síðustu ár er enn langt í að stúdentar geti gengið að íbúð á stúdentagörðum sem sjálfsögðum hlut. Vísitala leiguverðs hefur hækkað um 41% á síðustu fimm árum, á sama tíma og viðbótarlán Menntasjóðs námsmanna vegna húsnæðiskostnaðar hefur aðeins hækkað um 11%. Sé grunnframfærsla (að viðbættum barnastyrk, þar sem það á við) og viðbótarlán vegna húsnæðis borin saman sést að kerfið gerir í raun ráð fyrir að stúdentar beri íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það verður að teljast alvarlegt að viðbótarlán sjóðsins vegna húsnæðis taki ekki mið að hækkunum á almennum markaði, þar sem stór hluti stúdenta leigir húsnæði á meðan félagslega rekin úrræði á borð við stúdentagarða anna ekki eftirspurn. Til að tryggja stöðug kjör þarf viðbótarlán vegna húsnæðis að lágmarki að hækka um því sem nemur vísitölu leiguverðs milli ára. 

Rétt er að nefna að í skýrslunni er einblínt á stöðu stúdenta við Háskóla Íslands. Lægra leiguverð í grennd við skóla gæti mildað stöðuna í einhverjum tilfellum þar sem verð í grennd við Háskóla Íslands er með allra hæsta móti. Þó er ekki raunhæft að ætla að vandamálið hverfi alfarið að teknu tilliti til þess og ætti því að vera hægt að yfirfæra niðurstöðurnar nokkurn veginn fyrir alla stúdenta á Íslandi. 

Það einfalda mat sem farið var í er á engan hátt tæmandi og eru tillögurnar sem Stúdentaráð leggur fram því langt frá því að vera þær einu mögulegu og álitamálin sem skoðuð voru takmarkast við þau allra almennustu. Skýrslan er fyrst og fremst hugsuð sem hvatning til aðgerða fyrir viðeigandi stjórnvöld og brýning til allra þeirra sem koma að ákvarðanatöku um réttindi og lífskjör stúdenta á Íslandi. Ljóst er að af nógu er að taka en þá er líka um að gera að hefjast handa til að koma hlutum í betra horf sem fyrst.

Stúdentaráðsfundur 20. janúar 2022

Fimmtudaginn 20. janúar fer Stúdentaráðsfundur fram á Teams kl 17:00.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:25
  4. Skýrsla Stúdentaráðs um húsnæðismál (Kynning og umræður) 17:25-18:00
  5. Stefna Stúdentaráðs (Kynning og umræður) 18:00-18:20
  6. Landsþing LÍS (Umræður) 18:20-18:35
  7. Hlé 18:35-18:45
  8. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (Kynning og umræður) 18:45-19:00
  9. Tillaga um Matarspor – kolefnisspors reiknivél fyrir matvæli (atkvæðagreiðsla) 19:00-19:15
  10. Tillaga um fjárhagslegan stuðning Háskóla Íslands við Stúdentaleikhúsið (atkvæðgreiðsla) 19:15-19:30
  11. Önnur mál 19:30-19:40
  12. Fundi slitið 19:40

Annáll Stúdentaráðs 2021

Hvort árið hafi liðið hratt eða hægt er ég raunar ekki viss um. Það er mér aftur á móti alveg ljóst að árið hefur verið sannkallað rússíbanareið og Stúdentaráð verið með mörg járn í eldinum, á tímum sem hafa leyft okkur mjög fátt. 

Fyrsti mánuður ársins boðaði bjartan blæ og vorum við á skrifstofu Stúdentaráðs ásamt stjórnendum og öðru starfsfólki skólans jákvæð gagnvart misserinu. Stúdentar voru byrjaðir að mæta í Vatnsmýrina og Háskólatorgið naut sín gríðarlega vel þegar mjög ófyrirsjáanlegt og óþarft – ætla ég að leyfa mér að segja – flóð teygði sig yfir í heilar fimm byggingar háskólans. Vatnstjónið var áfall sem við máttum ekki við vegna þess að rúmgóðu stofurnar urðu ónothæfar auk þess að Félagsvísindasvið missti húsnæði sitt í Gimli. Enn ein áskorunin sem við erum ennþá að takast á við.

Af miklum krafti fór Stúdentaráð þó af stað með herferðina „Eiga stúdentar ekki betra skilið?“ sem snerist að sjálfsögðu um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. Herferðin byggði á gögnum sem skrifstofa Stúdentaráðs hefur annað hvort aflað sér sjálf eða stutt sig við. Umfjöllunarefnið náði eyru þingmanna sem vitnuðu í skrif okkar og spurðust fyrir um viðbrögð forsætisráðherra við fjárhagsstöðu stúdenta í pontu Alþingis. Herferðin hlaut heilt yfir góðar undirtektir í hinni almennri samfélagslegri umræðu og á Alþingi.

Í tilefni aldarafmælis Stúdentaráðs árið 2020 var fjögurra þátta sería um Stúdentaráð sýnd í ríkisútvarpinu og bar heitið Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs“. Markmiðið var að kjarna 100 ára sögu hagsmunabaráttu stúdenta sem hefur sett svip sinn á samfélagið frá því að stúdentar gengu fyrst til kosninga um sín eigin heildarsamtök í desember árið 1920. Afraksturinn fór fram úr okkar björtustu vonum og erum við gríðarlega þakklát Háskóla Íslands, RÚV, Ingileif Friðriksdóttur, Guðmundi Einari og öllum sem eiga í hlut, fyrir að hjálpa okkur við að láta hugmyndina verða að veruleika. 

Þættirnir hvöttu okkur til dáða og sigldum við inn í mars mánuð af heilum hug. Á landsþingi LÍS lögðu fulltrúar Stúdentaráðs fram ályktun til samþykktar um fjárhagslega stöðu stúdenta sem gefin var út. Samstaða stúdentahreyfingana á landsvíssu skipti öllu máli en hún hafði verið einkennandi í gegnum faraldurinn. Reglulega höfðu hreyfingarnar fundað með mennta- og menningarmálaráðherra sem kom sér t.a.m. vel þegar hertar aðgerðir vegna fjölda smita í samfélaginu voru boðaðar á ný á vormisserinu. Á þeim fundi óskuðu fulltrúar Stúdentaráðs sérstaklega eftir því að geðheilbrigðismálin yrðu sett í forgang, enda sýndu niðurstöður kannana okkar að ástandið væri að hafa þungbær áhrif á stúdenta. Staðreyndin er nefnilega sú að eftirspurnin eftir sálfræðiþjónustu við Háskóla Íslands hefur verið umfram getu til að koma til móts við hana. Þessu var fylgt eftir með formlegu erindi á fundi með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins sem skilaði allt að 100 milljóna stuðningi í málaflokkinn á háskólastiginu. Það liggur fyrir að nýr sálfræðingur hefur verið ráðinn í hálft stöðugildi ásamt því að fleiri geðheilbrigðisúrræðum hefur verið bætt við. Það er mikið framfaraskref og í fullkomnum takt við áherslur Stúdentaráðs.

Rétt fyrir áramót óskaði skrifstofan eftir upplýsingum um aðkomu Háskóla Íslands að rekstri spilakassa í gegnum Happdrætti Háskóla Íslands. Stjórn ráðsins sammældist um að málið yrði skoðað vandlega þar sem það væri viðkvæmt og í framhaldinu átti skrifstofan í góðum samskiptum við rektorsskrifstofu. Í kjölfar tillögu á Stúdentaráðsfundi í mars, sem sneri að því að beita þrýstingi á skólann, lagði skrifstofan til að sérstakur upplýsingafundur yrði haldinn þannig að Stúdentaráð gæti fengið viðeigandi gögn og upplýsingar frá fagaðilum og öðrum hagaðilum. Sá fundur fór fram í byrjun apríl og var breytingartillaga skrifstofunnar samþykkt, um að Stúdentaráð ályktaði um málið á grundvelli þeirra upplýsinga sem það fékk á fundinum, þeirrar vinnu sem lá þegar fyrir, sem og vitneskju um nýskipaðan starfshóp rektors sem forseti átti sæti í. Fyrirliggjandi gögn voru umfangsmikil og því unnið upp úr þeim með faglegum hætti til að tryggja Stúdentaráði málefnalega afstöðu. 

Með fyrstu verkefnum nýs Stúdentaráðs eftir kosningar var að gagnrýna ný samþykktar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2021-2022, sem innihéldu engar breytingar á grunnframfærslu framfærslulána. Ákvörðun ráðherra að þess í stað fela hópi ráðuneytisstjóra að koma með farsæla lausn á því máli skilaði að lokum engum varanlegum breytingum. Mikilvægur áfangi náðist þó á öðrum stöðum þegar alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs var kjörinn forseti Aurora stúdentaráðsins. Það eru þrjú ár síðan staða alþjóðafulltrúa var sett á fót til að gæta hagsmuna erlendra nema og á þeim tíma hafa leitað til okkar nemendur sem reyna að fóta sig í samfélaginu okkar. Sum fá ekki inngöngu í læknanámið því þau þekkja ekki nafnið á þjóðarblómi Íslendinga og önnur fá ekki leyfi til að nota orðabók í prófi á þeim forsendum að gæta þurfi jafnræðis. Alþjóðafulltrúi og hagsmunafulltrúi hafa tekið höndum saman gegn þessu viðmóti sem verður að tækla með markvissum hætti.

Þá var verkefnastjóri ráðinn á skrifstofuna yfir sumartímann til að afla upplýsinga um réttindi stúdenta innan velferðarkerfisins. Ákveðið var að skoða sérstaklega kjör og réttindi stúdenta á húsnæðismarkaði og gera því skil í skýrslu sem verður gefin út í byrjun næsta árs. Út frá sömu leiðarljósi um faglegheit í starfi var ákveðið að stefnumótunarferðin yrði að þessu sinni umfangsmeiri þannig að hægt væri að uppfæra framkvæmdaáætlanir fastanefnda en einnig hefja vinnu við heildarstefnu ráðsins. Skrifstofan starfar í umboði Stúdentaráðs eftir samþykktum yfirlýsingum, ályktunum, tillögum, umsögnum o.fl. hverju sinni. Tilgangurinn með mótun heildarstefnu er hins vegar að eiga til áþreifanlega afstöðu Stúdentaráðs í lykilmálefnum á sama tíma og ákveðið svigrúm er tryggt til að ráðið þróist í takt við breytingar og framfarir úr umhverfi sínu. –

Ýmis mál eru þess eðlis að afstaða Stúdentaráðs fer ekki á milli mála. Því var ekki vandasamt að ráðast í aðra herferð fyrir alþingiskosningarnar í september. Hún bar heitið „Stúdentar eiga betri skilið“ og lagði áframhaldandi áherslu á nauðsyn þess að ráðast í markvissar aðgerðir til að sporna gegn erfiðri fjárhagslegri stöðu stúdenta. Starfshópur var stofnaður sem sá um að skipulagningu ásamt því að halda utan um m.a. pallborð á Fundi fólksins og samantekt um kosningaáherslur stjórnmálaflokkana í málefnum stúdenta. Þá tóku forseti Stúdentaráðs og rektor Háskóla Íslands höndum saman við að vekja athygli á mikilvægi háskólamenntunar og undirfjármögnun háskólastigsins. Ríkisstjórnarbreytingar hafa áhrif á forgangsröðun verkefna og við þær gefst tækifæri til að taka upp ný mál samhliða því að önnur njóti áframhaldandi stuðnings. Stúdentaráð er bjartsýnt á að nýir ríkisstjórn ráðherrar þeirra málaflokka sem snerta stúdenta leggi upp úr góðu samráði við stúdentahreyfinguna að sameiginlegum markmiðum. 

Í október var nýja viðbyggingin við Gamla garð vígð að viðstöddum fulltrúum og velunnurum háskólasamfélagsins. Þannig bættust við 69 leigueiningar fyrir stúdenta á horni Hringbrautar og Sæmundargötu. Nýi samkomusalurinn þar fékk heitið Stúdentabúð í tilefni aldarafmælisins og prýðir þar listaverk tileinkað hagsmunabaráttu stúdenta. Húsnæðismálin hafa verið eitt helsta baráttumál stúdenta og var aðkoma stúdenta árið 2017 lykilatriði í því að nýi Gamli garður fékk að rísa. Fyrir þann slag á Ragna Sigurðardóttir, forseti Stúdentaráðs 2017-2018, miklar þakkir skilið. Samofin starfsemi Háskóla Íslands, fleiri stúdentaíbúðir, heildstæður þjónustukjarni og grænir samgöngumátar á að vera sameiginlegt framtíðarmarkmið okkar. Þess vegna voru viðræður um kaup á Hótel Sögu, sem stóðu yfir í tæpt ár, stúdentum mjög hugleikin. Tilkynnt var um kaup á Bændahöllinni þann 22. desember sl. Stúdentaráði til mikillar ánægju en húsnæðið verður nú loksins nýtt undir starfsemi Háskóla Íslands og Félagsstofnunnar stúdenta. Menntavísindasvið mun flytjast á miðháskólasvæðið og 113 nýjar stúdíóíbúðir bætast við í norðurhluta byggingarinnar. Háskólasamfélag í praktík! Því næst þurfum við að beina sjónum okkar að fjölgun grænna svæða, viðráðanlegum kjörum í almenningssamgöngur fyrir stúdenta og starfsfólk og að fá hér inn lágvöruverðsverslun. Möguleikarnir eru endalausir því framtíð háskólasvæðisins felur í sér frekari uppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi, stúdentum og starfsfólki til hagsbóta.

Oft krefjast áherslur okkar umræðu á breiðari vettvangi sem getur tekið tíma. Við hins vegar aðlögumst því eftir bestu getu t.a.m. varðandi kennslumálin, með breytingar á innri uppbyggingu kennslumálanefndar til þess að halda betur utan um m.a. rafrænar lausnir, þak á gildi prófa, tilhögun sjúkra- og endurtökuprófa, prófnúmer og eflingu fjarnáms. Hugmyndir um fjölbreyttari kennsluaðferðir og námsmat eiga ekki að vera fjarstæðukenndar lengur og við skuldum okkur sjálfum að láta reyna á breytingar og taka áhættur, ekki vegna þess að við erum þess tilneydd heldur vegna þess að í því felast fjölda tækifæra. Þá er atvinnuleysisbótakrafan löngu komin til að vera eða þangað til að við sjáum breytingar, en um þessar mundir stendur einmitt yfir heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingalögunum og höfum við tryggt að okkar raddir heyrist þar. Við höldum einnig áfram að setja spurningamerki við skrásetningargjöld opinbera háskóla og veltum því upp, helst í háskólaráði, hvort þau rúmist innan ramma laganna um opinbera háskóla með hliðsjón af reglum Háskóla Íslands. Stúdentaráð hefur einnig endurvekið samstarf við önnur hagsmunafélög innan Háskólans vegna ókyngreindra salerna í byggingum skólans.

Félagslífið hefur því miður verið ábótavant þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir nýjan samning vegna Októberfest en hátíðinni varð að fresta. Ákveðið var að vísindaferð í Stúdentaráð yrði breytt í fimm vísindaferðir eftir fræðasviðum þannig að hægt væri að bjóða fleirum til okkar. Þá tókst okkur í samstarfi við World Class að bjóða stúdentum og starfsfólki afslátt af kortum í heilsuræktarstöðina í Vatnsmýrinni, og í samstarfi við Hugrúnu geðfræðslufélag var miðlað fræðsluefni og bjargráðum til stúdenta á þriðju COVID-litaða misserinu sínu. 

Lengi mætti telja verkefnin á borði skrifstofunnar því hlutverk Stúdentaráðs er í grunninn að sækja hagsmuni tæpra sextán þúsund stúdenta og í mörgum tilfellum stúdentahópsins í heild sinni. Það þýðir að okkur ber að vera ákveðin, veita öflugt aðhald, benda á vankanta og vera gagnrýnin en líka að sýna frumkvæði og útsjónarsemi. Í starfi sem þessu verður skilningur og virðing að vera í forgrunni. Stúdentaráð bindur vonir við að ofangreind mál sem og önnur brýn hagsmunamál stúdenta hljóti þann hljómgrunn sem þau eiga skilið á komandi ári.

Bestu óskir um gæfuríka nýja tíma og hjartans þakkir fyrir samstarfið á árinu kæru stúdentar, stúdentaráðsliðar og aðrir velunnarar Stúdentaráðs.

Isabel Alejandra Díaz,
Forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Kaup fest á Hótel Sögu undir starfsemi Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta

Stúdentaráð fagnar þeim sögulega áfanga sem náðst hefur með kaupum ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta á Bændahöllinni, að öðru nafni Hótel Sögu, sem verður nú loksins nýtt undir starfsemi Háskóla Íslands og stúdentaíbúðir. Mikil tilhlökkun ríkir fyrir að fá Menntavísindasvið á miðháskólasvæðið og sömuleiðis fyrir að sjá aukið húsnæðisframboð fyrir stúdenta með rúmlega 110 nýjum stúdíóíbúðum í nágrenni við háskólann.

Hugmynd þessi sem kviknaði innan háskólasamfélagsins boðaði ný tækifæri til að samþætta háskólasvæðið, sameina stúdentahópinn og auka við þjónustu á svæðinu.

Stúdentaráð færir því háskólasamfélaginu innilegar hamingjuóskir og horfir bjartsýnis augum fram á við, því framtíðin felur í sér frekari uppbyggingu með sjálfbærni að leiðarljósi, stúdentum og starfsfólki til hagsbóta.