Umsóknir opnar í Stúdentasjóð vegna 3. úthlutunar

Það er nú opið fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs. Hægt er að sækja um styrki hér. Við hvetjum ykkur eindregið til þess að fara eins ítarlega eftir leiðbeiningum í umsóknarskjali og kostur er, en frávik frá reglum varðar frávísun umsóknar.

Áður en sótt er um hvetjum við ykkur til að kynna ykkur lög og verklagsreglur sjóðsins, en þær má nálgast hér og á heimasíðu Stúdentaráðs.

Spurningum skal vísað til Hauks Friðrikssonar, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is.

Aðgerðir strax!

Herferð Ungra Umhverfissinna um Aðgerðir strax! Fer formlega í loftið í dag.

Tilgangur herferðarinnar er að vekja athygli á þörfinni á róttækari loftslagsaðgerðum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Lesið meira um herferðina og kröfulista hennar hér.

Í dag halda Loftslagsverkföllin áfram og hvetur Stúdentaráð öll þau sem vilja leggja málefninu lið til þess að mæta á Austurvöll núna á föstudaginn klukkan 12:00 og krefjast Aðgerða strax!

#adgerdirstrax

Stúdentaráðsfundur 17. febrúar 2021

Kæru stúdentar

Miðvikudaginn 17. febrúar fer Stúdentaráðsfundur fram í raunheimum og á Teams kl 17:00. Stúdentaráðsliðum gefst kostur á að sækja fundinn en vegna fjöldatakmarkana er okkur ekki unnt að bjóða gestum. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn, skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is til að geta sent Teams fundarboð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa þá öllum stúdentum og er þeim því velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

 

Heimildaþáttaröð Stúdentaráðs frumsýnd á RÚV

Á morgun, fimmtudaginn 4. febrúar, verður frumsýning á heimildaþáttaröð Stúdentaráðs, Baráttan – 100 ára saga Stúdentaráðs. Þættirnir eru gefnir út í tilefni af 100 ára afmæli Stúdentaráðs og rekja þeir sögu ráðsins.

Þættirnir verða sýndir á RÚV alla fimmtudaga í febrúar klukkan 20.45.

Hér má sjá brot af þáttunum:

 

Tilkynning frá Stúdentaráði vegna Stúdentagarða

Stúdentaráð vill upplýsa stúdenta á Stúdentagörðunum að réttindaskrifstofa ráðsins hefur þegar rætt við forsvarsmenn Félagsstofnunar stúdenta, um væntanlegar framkvæmdir á Vetragörðum og áhyggjur íbúa vegna þeirra raskana sem þær kunna að hafa í för með sér. 

Ljóst er að fregnirnar liggi þungt á íbúum og að það þurfi að eiga sér stað viðameiri samtöl vegna þessa. Félagsstofnun stúdenta vinnur nú í að taka saman ábendingar sem hafa borist og verða svör við þeim send öllum íbúum í dag. Einnig hefur verið ákveðið að flýta upplýsingafundi sem halda á með íbúum sem búa í þeim hluta hússins sem fer í upptekt.

 

Eiga stúdentar ekki betra skilið?

Stúdentar hafa verið ákveðnir og skýrir í kröfum sínum um sanngjarnari og viðunandi kjara hjá Menntasjóði námsmanna og réttindi til atvinnuleysisbóta til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Í gegnum kórónuveirufaraldurinn hafa aðgerðir stjórnvalda í þágu stúdenta ekki verið miðaðar að þeim stóra hópi sem stúdentar mynda og geta ekki talist sem haldbærar lausnir til lengri tíma. Þannig eru þeir látnir standa eftir á sama tíma og unnið er hörðum höndum við að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins á öðrum sviðum samfélagsins. Langtímalausnir í átt að fjárhagslegu öryggi fyrir allan stúdentahópinn eru nauðsynlegar.

Stúdentaráð áréttar hér með kröfur sínar um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. Til staðar verður að vera pólítískur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja námsmönnum fjárhagslegt öryggi. 

Stúdentaráð hefur sent erindi á stjórnvöld sem má lesa í heild sinni hér. Þá er hér hægt að lesa umsagnir, kannanir og annað útgefið efni frá Stúdentaráði. 

Íslenskir stúdentar vinna mest með námi 

Fyrstu tölur úr sjöundu umferð EUROSTUDENT VII, sem voru birtar í október 2020, sýna að 72% íslenskra stúdenta vinna því annars hefðu þeir ekki efni á því að stunda nám. Það er hæsta hlutfall stúdenta á norðurlöndunum. Jafnframt sýna fyrstu tölur að 31% íslenskra stúdenta eiga í fjárhagslegum erfiðleikum og 25% telja að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Hér ber að nefna að könnunin var lögð fyrir vorið 2019, fyrir kórónuveirufaraldurinn og því má draga þá ályktun að staða stúdenta hafi versnað síðan.

Stúdentaráð hefur einnig vísað í húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem greindi frá því í lok nóvember 2020 að ungu fólki, á aldrinum 18-24 ára, fari fækkandi á leigumarkaði sem megi rekja til faraldursins en hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum hefur aukist gríðarlega, úr 42% í 70% frá því í lok 2019. Það er jafnframt bent á að atvinnuleysi meðal þessa aldurshóps hefur rúmlega tvöfaldast og fjöldi starfandi einstaklinga dregist saman um 14.5%. Til viðbótar eru rúm 46% atvinnulausra ungt fólk, á aldrinum 18-34 ára, samkvæmt nýjustu atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunnar. Vert er að nefna að stúdentar eru ekki allir meðtaldir í þessum tölum þar sem þeir eru ekki á atvinnuleysisskrá, því þeir eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Það eru því ófullnægjandi gögn til um stúdenta á vinnumarkaði af hálfu stjórnvalda. 

Það er meðal annars vegna þessa sem Stúdentaráð hefur farið í gagnaöflun meðal stúdenta við Háskóla Íslands og sent út alls fimm kannanir sem allar spurðu út í líðan stúdenta og fjórar þeirra út í fjárhagsstöðu stúdenta. Markmiðið með þessum könnunum var að fá vísbendingar um aðstæður stúdenta og geta kortlagt stöðu mála betur svo hægt væri að grípa til viðeigandi aðgerða.

Eiga stúdentar ekki skilið hærri grunnframfærslu?: Fjárhagsöryggi og menntasjóðurinn

Vítahringur stúdenta í námslánakerfinu

Námslánakerfið er það kerfi sem á að grípa stúdenta og eru það ein rökin gegn atvinnuleysisbótakröfu stúdenta, þar sem ekki er hægt að samtvinna námslánakerfinu með atvinnuleysisbótakerfinu. Þetta eru aðskilin kerfi sem ekki hefur tekist að breyta þannig að þau gangi upp saman. Menntasjóðurinn á að sjá námsmönnum fyrir framfærslu á skólaárinu, en ekkert kerfi er til staðar sem grípur fólk á sumrin sé það án atvinnu og ekki í skóla. 

Menntasjóður námsmanna á að veita fólki tækifæri til náms í formi námslána og styrkja. Stúdentaráð telur tímabært að endurskoða og hækka grunnframfærslu framfærslulána til muna, til að tryggja að stúdentar geti stundað námið sitt áhyggjulaus. Grunnframfærslan þarf að samsvara, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins.  Stúdentar ná ekki að mæta  útgjöldum sínum og þurfa, oftar en ekki, að vinna samhliða námi til að ná að framfleyta sér. Með námslánakerfinu, eins og það er nú, er því verið að bjóða stúdentum upp á að koma sér í vítahring sem einkennist af því að þurfa að vinna fyrir sér þrátt fyrir að vera á framfærslulánum. Það kemur síðan í bakið á stúdentum, því frítekjumarkið refsar þeim sem hafa tekjur umfram 1.364.000 kr. á ári. 45% þeirra árlegu tekna sem eru umfram koma til frádráttar á námsláni. Lánsupphæðin, 189.500 kr., lækkar í takt við skerðinguna. Vegna skerðingarinnar þurfa stúdentar að vinna enn meira – vítahringurinn heldur áfram.

Stúdentaráð leggst gegn því að stúdentar þurfi að leita til vinnumarkaðarins þegar þeir eru á námslánum. Grunnframfærslan á að duga stúdentum til að framfleyta sér og veita þeim tækifæri til að stunda nám óáreitt og án fjárhagsörðugleika. 

 

4 milljarðar af launum stúdenta án þess að þeir eigi rétt á atvinnuleysisbótum

Stúdentaráð stendur við kröfu sína um réttindi stúdenta til atvinnuleysisbóta og telur nauðsynlegt að tryggja þann rétt í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Almenn skilyrði þess að launamaður eigi rétt á atvinnuleysistryggingum má finna í 13. gr. laganna og er þar eitt skilyrðið að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna en stúdentar teljast ekki vera í virkri atvinnuleit og eiga almennt ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Stúdentar áttu hins vegar rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum fram að 1. janúar 2010.

Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst um að allir stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar, sökum atvinnuleysis, hafi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Samkvæmt 3. gr. laga um tryggingagjald nr. 113/1990 renna tekjur ríkisins af atvinnutryggingagjaldi, sem greitt er af launum starfsfólks, til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í dag er gjaldið 1,35% af launum alls vinnandi fólks og þar á meðal stúdenta. Stúdentar eru samt sem áður undanskildir atvinnuleysistryggingakerfinu. 

Ef miðað er við að 70% stúdenta Háskóla Íslands vinna samhliða námi, í hálfu starfi að vetri og fullu starfi að sumri á lágmarkslaunum, nema atvinnutryggingagjöld þess hóps yfir 4 milljarða króna frá 2010. Samkvæmt EUROSTUDENT VI vinna stúdentar þó að meðaltali 26 klst. á viku með námi sem er nær 70% starfshlutfalli og því er talan í raun töluvert hærri en 4 milljarðar sem stúdentar hafa greitt í sjóðinn. Það er því fráleitt að stúdentar hafi verið án réttinda úr sjóðnum í áratug. Ef við myndum snúa aftur til kerfisins sem var við lýði fyrir 2010 myndi vinnandi námsfólk einfaldlega geta sótt sér þann rétt sem það hefur áunnið sér með greiðslu atvinnutryggingagjalds af launum sínum. Atvinnuleysisbæturnar sjálfar væru því í samræmi við hve mikið einstaklingur hefur unnið síðastliðna 36 mánuði rétt eins og hjá öðrum sem missa vinnuna.

Atvinnuleysisbætur eru ætlaðar þeim sem missa vinnuna sökum samdráttar á vinnumarkaði eða uppsagna eða annarra sambærilega ástæðna og neyðast þar með til að leita sér fjárhagsaðstoðar. Það raungerðist í mars þegar hundruðir stúdenta urðu atvinnulausir sökum samdráttar á vinnumarkaði vegna kórónuveirufaraldursins, og höfðu þeir ekkert öryggi að sækja í. Það er aðkallandi að tryggja að aðstæðurnar endurtaki sig ekki, verði sem dæmi bakslag vegna faraldursins eða aðrar sambærilegar áskoranir í framtíðinni. Breyta þarf lagaumhverfinu þannig að stúdentar hafi aðgang að atvinnuleysistryggingasjóði og forðast að byrðin lendi á velferðaþjónustu sveitarfélaganna. Þau eru ekki ábyrgðaaðilar í þessu tilfelli, einfaldlega vegna þess að af launum stúdenta er greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð ríkisins. 

Stúdentaráð hefur fundið mikinn meðbyr með kröfu sinni í samfélaginu. LÍS stóð fyrir undirskriftasöfnun þar sem kallað var  eftir stuðningi við kröfu stúdenta til atvinnuleysisbóta sem 2.814 manns skrifuðu undir. Samstarfsnefnd háskólastigsins, sem samanstendur af öllum rektorum háskóla á Íslandi, studdi kröfu stúdenta um rétt okkar til atvinnuleysisbóta. Var það rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson sem skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd nefndarinnar. Í pontu Alþingis hefur verið vitnað í okkur og við studd, jafnvel vitnað í okkur af forsætisráðherra. Á þingi lagði Samfylkingin fram ályktunartillögu um aðgerðir í þágu námsmanna vegna Covid-19 og var ein þeirra um að tryggja námsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta sumarið 2020. Þá tók Alþýðusamband Íslands undir kröfu stúdenta á blaðamannafundi í maí og 84.2% stúdenta sagði sig styðja atvinnuleysisbótakröfu stúdenta yfir sumartímann. Á fundi velferðaráðs Reykjavíkurborgar í desember 2020 lögðu fulltrúar þriggja flokka fram bókun þar sem þau skoruðu á ríkið að koma til móts við stúdenta með því að veita þeim rétt á fjárhagsaðstoð úr atvinnuleysistryggingasjóði. 

Krafan sem ráðið og stúdentar gera til stjórnvalda er réttmæt enda er óskað eftir því að jafnræðis sé gætt meðal vinnandi landsmanna og sömuleiðis að stúdentum sé ekki svipt fjárhagslegu öryggi fyrir það eitt að stunda nám. Það er staðreynd að stúdentar leggja atvinnuleysistryggingasjóði lið með þeirra vinnuframlagi og er það eitt og sér næg ástæða til að ráðast í breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu. 

Stúdentar eiga betra skilið

Stúdentum við Háskóla Íslands hefur fjölgað töluvert en skólanum barst tvöfalt fleiri umsóknir í framhaldsnám á þessu vormisseri samanborið við síðasta ár. Þessi fjölgun var viðbúin en hana má rekja til samfélagsástandsins og áherslu stjórnvalda á að menntun eigi að leiða þjóðina út úr þessari kreppu. Aðgerðir í þágu stúdenta sem hafa hingað til verið boðaðar í gegnum kórónuveirufaraldurinn eru gerðar í því skyni að hvetja og styðja fólk í að snúa aftur í nám. Þær ganga hins vegar ekki upp nema að aðrar ráðstafanir séu til staðar, þannig að núverandi stúdentar og aðrir sem nú íhuga að snúa aftur í nám séu örugg og hafi tækifæri að námi loknu. 

Skörun atvinnuleysistryggingakerfisins og námslánakerfisins er þess að auki miskunnarlaus. Stúdent er nefnilega ekki heimilt að vera í meira en 12 einingum, samhliða vinnu, til að eiga rétt á stuðningi úr atvinnuleysistryggingakerfinu missi hann vinnuna. Á sama tíma verður stúdent að standast 22 einingar til að eiga kost á námslánum. Það skiptir engu máli hvort stúdent sé í námi og hlutastarfi eða í 100% vinnu, jafnvel til margra ára, og námi með, því stúdent sem missir vinnuna hefur engan rétt á fjárhagsaðstoð úr atvinnuleysistryggingakerfinu aðeins vegna þess að hann stundar nám. Það er því stór hluti námsfólks sem fellur milli kerfa og hefur ekkert annað úrræði að sækja í. Yfirgripsmikla breytinga er þörf í námslánakerfinu sem og atvinnuleysistryggingakerfinu til þess að styrkja og efla stúdenta landsins.

Til staðar verður að vera pólítískur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja námsmönnum fjárhagslegt öryggi sem þeir hafa kallað eftir til frambúðar. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur.

 

 

Tilkynning frá Stúdentaráði vegna Menntasjóðs námsmanna

Að gefnu tilefni vill Stúdentaráð upplýsa stúdenta að réttindaskrifstofa ráðsins er að skoða kröfu Menntasjóðs námsmanna, um að stúdentar sem eru á húsnæðislánum hjá sjóðnum sanni leigugreiðslur með framvísun á þinglýstum leigusamningi eða staðfestingu á íbúðareign með vottorði frá Þjóðskrá (þinglýsingarvottorði).

Ljóst er að yfirlýsingin fyrir haustmisseri 2020, um að ákveðnar upplýsingar verða sóttar frá þriðja aðila í tengslum við námslánaumsóknina, sem umsækjendur þurfa að samþykkja við umsókn námslánsins, hafi ekki kveðið á um þinglýsta leigusamninga heldur einungis um að Menntasjóðurinn myndi leita staðfestingar frá Ríkisskattstjóra um að umsækjandi hafi gefið upp leigugreiðslur á skattframtali.

Það liggur einnig fyrir að stúdentar voru ekki upplýstir um kröfuna um þinglýsta leigusamninga fyrr en í byrjun þessara árs þegar fyrsta meldingin um hana barst frá Menntasjóðnum. 

Stúdentaráð hefur óskað eftir fundi með formanni Menntasjóðsins í von um að hægt sé að gefa stúdentum skýr svör sem fyrst.

Stúdentaráðsfundur 20. janúar 2021

Kæru stúdentar

Miðvikudaginn 20. janúar fer fram Stúdentaráðsfundur á Teams kl 17:00. Óski almennur stúdent eftir að sækja fundinn skal senda beiðni þess efnis á shi@hi.is.
Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa þá öllum stúdentum og er þeim því velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Dagskrá fundarins má finna hér.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Annáll Stúdentaráðs 2020

Á þessu ári fagnaði Stúdentaráð Háskóla Íslands 100 ára afmæli sínu. Stór tímamót í sögu hagsmunabaráttu stúdenta sem varð að gera skil. Árið hefur þó verið gríðarlega annasamt og krefjandi á öllum sviðum en á sama tíma mjög gefandi.

Nýtt Stúdentaráð tók við á skiptafundi þann 14. maí og hófst þá aðlögunartímabilið. Skrifstofa Stúdentaráðs tók formlega til starfa 1. júní og var full tilhlökkunnar fyrir að takast á við áskoranirnar sem blöstu við. Það er öruggt að segja að við gerðum okkur fulla grein fyrir því að árið yrði allt öðruvísi og að heimsfaraldur kórónuveiru yfirtæki meginþorra þess en þrátt fyrir var orkustigið ansi hátt. Fráfarandi skrifstofa hafði unnið gríðarlega góða vinnu sem við sökktum okkur út í og héldum staðföst áfram að krefjast betri og sanngjarnari kjara fyrir stúdenta. Stúdentaráð hafði lagt fram nokkrar kröfur, fyrst 23. mars og síðan 11. apríl og var ein helsta krafan um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta. Stúdentaráð fór fram á að stúdentum yrði tryggt öryggisnet fyrir sumarið enda var orðið ljóst að fjárhagsstaða námsfólks væri slæm og var því viðbúið að henni færi versnandi ef ekki yrði gripið til langtímalausna.

Fyrsta verkefni nýrrar skrifstofu á nýju starfsári var að senda út þriðju könnun ráðsins um líðan og stöðu stúdenta á vinnumarkaði, unnin í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Mennta – og menningarmálaráðuneytið. Niðurstöður þeirrar könnunar voru í samræmi við áhyggjur stúdenta og seinni könnun Stúdentaráðs frá 6. apríl, sem sýndi rúmlega 40% atvinnuleysi meðal stúdenta við Háskóla Íslands. Á sama tíma var brugðið á það ráð að vekja stjórnvöld til umhugsunar og benda á óréttlætið í því að stúdentum hefði verið svipt réttinum til atvinnuleysisbóta þann 1. janúar 2010, en af launum þeirra væri samt ennþá greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð. Því var reiknað út að atvinnutryggingagjöld þessa hóps síðustu 10 árin væru upp á 3.9 milljarða króna. Við útbjuggum reikning og birtum hann. Það vakti skiljanlega mikla athygli og var fjallað um uppákomuna í fjölmiðlum landsins. Stúdentaráð hélt áfram að vekja athygli á stöðu stúdenta og kröfunum sem það hafði lagt fram allt sumarið, og hefur hingað til skilað af sér fjórum umsögnum við frumvörpum um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar.

Stúdentaráð hefur fundið mikinn meðbyr með kröfu sinni hingað til. LÍS stóð fyrir undirskriftasöfnun þar sem það kallaði eftir stuðningi við kröfu stúdenta til atvinnuleysisbóta sem 2.814 manns skrifuðu undir. Samstarfsnefnd háskólastigsins, sem samanstendur af öllum rektorum háskóla á Íslandi, studdi kröfu stúdenta um rétt okkar til atvinnuleysisbóta. Var það rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson sem skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd nefndarinnar. Í samtölum við rektor hefur hann einnig hvatt okkur eindregið til dáða. Í pontu Alþingis hefur verið vitnað í okkur og við studd, jafnvel vitnað í okkur af forsætisráðherra. Á þingi var lögð fram ályktunartillaga um aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19 og um að tryggja námsmönnum rétt til atvinnuleysisbóta sumarið 2020. Alþýðusamband Íslands tók undir kröfu stúdenta á blaðamannafundi í maí og 84.2% stúdenta sögðust styðja atvinnuleysisbótakröfu stúdenta yfir sumartímann. Þá hefur oft verið vísað í okkur í pontu Alþingis.

Menntasjóður námsmanna var einnig í deiglunni en umræður fóru fram á Alþingi sem Stúdentaráð svaraði fullum hálsi. Það skilaði sér og náðum við athygli þingmanna sem vísuðu í áherslur okkar í málflutningum sínum á þingi. Nýja námslánakerfið varð að lögum 9. júní 2020 sem voru í vissum skilningi gleðitíðindi. Loksins hafði námslánakerfið verið tekið í heildarendurskoðun og stúdentar komnir með nýtt og ferskt öryggisnet – eða hvað? Stúdentaráð fagnaði því að nýja kerfið væri að norrænni fyrirmynd og að námsfólk muni eiga kost á 30% niðurfellingu á höfuðstól námslánsins við námslok uppfylli þau sett skilyrði. Hins vegar undirstrikuðum við að grunnhugsjón sjóðsins, um að námslánakerfið eigi að standa undir sér sjálfu, væri ekki réttmæt. Það fjármagn sem mun skila sér inn með skatttekjum og sparnaði, með því að stúdentar fari fyrr út á vinnumarkaðinn, verður að renna aftur til sjóðsins. Við vorum vongóð með að úthlutunarreglurnar myndu tryggja stúdentum fjárhagslegt öryggi með því að hækka grunnframfærsluna en tækifærið til að sýna stuðning í verki var ekki gripið þegar þær voru samþykktar. Sara Þöll Finnbogadóttir, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs, heldur áfram að beita sér fyrir áherslum Stúdentaráðs í stjórn Menntasjóðs námsmanna, en í október opnaði sjóðurinn aftur fyrir umsóknir fyrir tilstilli lánasjóðsfulltrúa.

Í ágúst fór skólaárið af stað og viðbúið að það  yrði mikið að gera þar sem Háskólanum barst metfjöldi umsókna. Það voru gleðitíðindi! Í samvinnu við Háskólann vorum við tilbúin í að taka á móti nýjum nemendum og nýnemadagarnir voru í fullum undirbúningi. Okkur til mikillar ama gátum við ekki haldið upp á nýnemadagana með hefðbundnu sniði en létum alls ekki þar við sitja. Skrifstofa Stúdentaráðs ásamt Markaðs- og samskiptasviði Háskólans útbjuggu afskaplega skemmtileg myndbönd fyrir nýja stúdenta þar sem öll þjónusta innan skólans var útskýrð í þaula og boðið upp á  rafræna skoðunarferð um háskólasvæðið! Stúdentaráð ætlaði sér sömuleiðis að halda Októberfest í september með aldarafmælisívafi en við tókum fljótlega þá erfiðu en sjálfsögðu ákvörðun að aflýsa hátíðinni vegna samfélagsástandsins.

Af sömu ástæðu reyndist skólahald vera áskorun fyrir stúdenta og starfsmenn Háskólans. Skrifstofa Stúdentaráðs, ásamt starfsfólki skólans, fór af stað með nýnemahóp á facebook í þeirri von um að sameina sem flesta nýja nemendur til að tryggja upplýsingaflæði. Sóttvarnarreglur voru sífellt að taka breytingum og Háskóli Íslands brást við jafnóðum með því að uppfæra takmarkanir í samræmi við aðgerðir stjórnvalda. Stúdentaráð fylgdist grannt með og upplýsti stúdenta eins fljótt og auðið var.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft víðtæk og mismunandi áhrif á stúdenta sem hafa í miklu mæli verið í fjarnámi auk þess hefur verulega vantað félagslega þáttinn sem einkennir háskólagöngu okkar. Í byrjun október voru sóttvarnaraðgerðir hertar töluvert vegna fjölda smita í samfélaginu og kallaði það á eflda hagsmunagæslu Stúdentaráðs. Okkur datt satt best að segja ekki í hug að við yrðum að standa vörð um öryggi og heilsu stúdenta sem réttilega hafa haft áhyggjur af ófyrirsjáanlegri þróun faraldursins og hvernir hún kynni að hafa áhrif á námið þeirra. Stjórn Stúdentaráðs sendi erindi á yfirstjórn skólans um leið og hélt það samtal áfram út misserið. Í kjölfarið sendi Stúdentaráð út aðra könnun, fimmtu í röðinni, til að endurkortleggja  líðan og stöðu stúdenta. Niðurstöður könnunarinnar voru samt sem áður til marks um að ástandið væri að leggjast mjög þungt á meginþorra stúdenta og er það bersýnilegt að bæði skólastjórnendur og stjórnvöld verði að leggjast við hlustir. Þær aðstæður sem stúdentar finna sig í eru alvarlegar og hverfa ekki með nýju ári. Undirrituð greindi frá stöðunni í Silfrinu um miðjan nóvember.

Það hefur verið lykilatriði fyrir Stúdentaráð að vera samstíga á þessu misseri. Réttindaskrifstofan og sviðsráðin hafa unnið rosalega þétt og náið saman. Við hljótum að fara að slá annað met í fundarhaldi á þessu starfsári, svipað og árið 1954! Stúdentar, ábyrgt baráttufólk, gerðu sitt allra besta til að komast í gegnum misserið óhult og má segja að þau hafi náð því markmiði, þá sérstaklega miðað við aðstæðurnar. Ég dáist af ykkar staðföstu og seiglu.

Það er þó úr ýmsu öðru að velja og segja frá á þessu starfsári. Til að mynda var viljayfirlýsing undirrituð vegna nýrrar byggingar Menntavísindasviðs á ársfundi Háskóla Íslands. Sú bygging á að rísa innan fjögurra ára og verða til þess að innviðir styrkist og starfsemi Háskólans sameinist á einn stað, sem er í takt við áherslur Stúdentaráðs. Loftslagsverkfallið var á sínum stað alla föstudaga kl 12:00 í sumar og þangað til að fjöldatakmarkanir settu strik í reikninginn, en Loftslagsverkfallið hlaut jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs nú á dögunum sem við erum afar stolt af. Við náðum því í gegn að seinka eindaga skrásetningargjaldsins fram í ágúst, þó okkar óskir sneru að því að afnema það fyrir þetta skólaár en ráðherra varð ekki við því. Háskóli Íslands mætti hins vegar sterkur til leiks og brást við beiðni okkar um að koma til móts við fjárhagsvanda stúdenta með því að ráðstafa fjármagni í sérstakan sjóð fyrir stúdenta á stúdentagörðunum sem höfðu engin fjárhagsúrræði. Gott samstarf Stúdentaráðs við Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta gerði téð úrræði að veruleika.

Í júní samþykkti Stúdentaráð einróma að styðja við umsögn Rauða krossins á Íslandi um frumvarp til breytingar á útlendingalögum. Það var gleðilegt að tilheyra ráði sem setti mannúð, réttlæti og virðingu í fyrsta sæti. Verkefnið Sprettur fór í fyrsta skipti af stað og voru móttökurnar mjög góðar. Í júlí bárust okkur fréttir um að Aurora samstarfsnetið hafi verið samþykkt sem evrópskt háskólanet af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hlaut þar með veglegan fjárhagsstyrk. Háskóli Íslands hefur verið leiðandi innan háskólanetsins og með þessu móti getur hann haldið áfram að bæta hágæða kennslu og rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og efla alþjóðlegt og þverfaglegt samstarf sitt. Þá var Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, kjörinn forseti háskólanetsins næstu tvö árin, okkur til mikillar ánægju.

Stúdentaráð fór í stefnumótunarferð út á land þar sem við gistum í eina nótt. Þar lögðum við línurnar að nýjum framkvæmdaáætlunum fastanefnda ráðsins en huguðum einnig að áframhaldandi aldarafmælisfögnuði Stúdentaráð, nýrri herferð og að sjálfsögðu áhrif kórónuveirufaraldursins á skólalífið. Í október hélt Félagslífs- og menningarnefnd Stúdentaráðs í samstarfi við Landsbankann aftur á móti fjar-bingó! Jón Gnarr var skemmtikraftur og stjórnandi kvöldsins ásamt því að rektor ávarpaði rúmlega 500 þátttakendur. Kvöldið heppnaðist með einsdæmum vel og á Félagslífs -og menningarnefnd mikið hrós skilið fyrir. Við héldum áfram samstarfi við Down Dog jóga- og hugleiðsluæfingaappið sem býður stúdentum upp á frían aðgang. Þá tilkynnti Félagsstofnun stúdenta að Dýragarður myndi opna á stúdentagörðunum í vetur sem er langþráður draumur stúdenta!

Það hefur verið flókið að fagna aldarafmæli Stúdentaráðs í miðjum heimsfaraldri. Við hófum árið á opnunarhátíð í Gamla bíói þann 31. janúar og svo áttu að vera viðburðir yfir allt skólaárið sem urðu því miður aldrei að veruleika. Á afmælisdegi Stúdentaráðs, þann 4. desember, héldum við þó að sjálfsögðu upp á öldina í Hátíðarsal Aðalbyggingarinnar með pompi og prakt þar sem sjálf GDRN og Vigdís Hafliðadóttir skemmtu gestum. Vegna fjöldatakmarkana var fámennt en góðmennt. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði okkur með því að opna hátíðina auk þess að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lokaði henni. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sendi inn myndband þar sem hún ávarpaði gesti og Jón Atli, rektor Háskóla Íslands, sagði okkur frá sínum árum í stúdentapólitík. Undirrituð nýtti tækifærið til að leggja áherslu á hlutverk Stúdentaráðs sem róttækt hagsmunaafl í þágu stúdenta. Á afmælisdaginn fögnuðum við einnig 2. tölublaði Stúdentablaðsins sem og nýrri heimasíðu, sem þú lesandi ert inni á núna, og erum við gríðarlega sátt með hana. Þá er vert að nefna að ásamt hæfileikaríku fagfólki vinnum við um þessar mundir að heimildaþáttaröð um Stúdentaráð sem mun vera sýnd á RÚV á komandi ári.

 

Árið 2020 hefur verið öðruvísi en önnur ár. Það hefur verið mikið um að vera og faraldurinn haft óhjákvæmileg áhrif á það allt. Við höfum átt þungar og erfiðar stundir en líka hamingjusamar og skemmtilegar, og erum gríðarlega þakklát og meyr fyrir þær allar. Það var ekkert leyndarmál að árið yrði afskaplega snúið og vorum við án efa tilbúin að beita okkur í þágu stúdenta. Við látum ekki deigan síga þrátt fyrir að tala fyrir daufum eyrum stórnvalda. Samtal milli stúdenta og stjórnvalda hefur vissulega átt sér stað í þeim skilningi að við fáum að koma áhyggjum okkar á framfæri. Hins vegar er ekki gripið til markvissra aðgerða sem byggja á kröfum okkar, þó það sé framkvæmanlegt. Við munum halda baráttunni fyrir viðunandi lífskjörum stúdenta áfram þangað til að stjórnvöld sýna stuðning í verki og leiðrétta stöðu stúdenta. Þetta ár heldur áfram að vera óhefðbundið og við höldum öll áfram að vinna okkar besta starf.

Gleðilegt nýtt ár kæru stúdentar, stúdentaráðsliðar, réttindaskrifstofa og aðrir velunnarar Stúdentaráðs.

 

Isabel Alejandra Díaz forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Loftslagsverkfallið hlýtur jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs

Á dögunum hlaut Loftslagsverkfallið jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs! Stúdentaráð þakkar fyrir sig og óskar öllum þeim sem hafa komið að verkfallinu innilega til hamingju með viðurkenninguna. Það gleður okkur að enda árið á góðum og kraftmiklum nótum.

Okkar eigin Aðalbjörg Egilsdóttir, fyrrverandi forseti Umhverfis- og samgöngunefndar, tók á móti listaverkinu sem Stúdentaráð fær að hýsa á skrifstofu sinni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þakkaði stúdentum sérstaklega í ávarpi sínu á afmælishátíð Stúdentaráðs fyrir að halda ríkisstjórninni á tánum en hún sagði stúdenta halda skýru flaggi á lofti, brýnt stjórnvöld til dáða og aðgerða. Loftslagsváin er stærsta áskorunin sem blasir við okkur og það skiptir höfuðmáli að halda baráttunni áfram.