Stefnumótunardagur Stúdentaráðs 2022

Stefnumótunardagur Stúdentaráðs var haldinn í Hinu Húsinu laugardaginn 9. júlí.
Stúdentaráðsliðar, nefndarmeðlimir og sviðsráðsfulltrúar voru þar saman komin ásamt skrifstofu SHÍ og einkenndist dagurinn af umræðum, málefnavinnu og mótun framkvæmdaáætlana fastanefnda. Forsetar sviðsráða kynntu starfsemi og áherslur þeirra og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs var með kynningu um Menntasjóð námsmanna. Við lögðum góðan grunn að því sem koma skal og erum svo sannarlega spennt fyrir starfsárinu!
Við þökkum Lemon, Bulsum og Brikk fyrir að næra okkur yfir daginn!

Vilt þú vinna við að skipuleggja Októberfest 2022?

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir eftir áhugasömum og duglegum einstaklingi til að taka að sér hlutastarf á vegum SHÍ. Um er að ræða 30% tímabundna stöðu sem snýst alfarið um skipulagningu, markaðssetningu og framkvæmd á Októberfest. Starfstímabil hefst 25. júlí og lýkur 15. september.   

Helstu verkefni og ábyrgðarsvið: 

  • Samskipti við verktaka 
  • Umsjón með markaðsmálum í samráði við SHÍ 
  • Almennt utanumhald um Októberfest af hálfu SHÍ 
  • Samantekt og skýrsla eftir hátíð 

Hæfniskröfur: 

  • Reynsla af viðburðastjórnun 
  • Reynsla af markaðsstörfum 
  • Góð samskiptahæfni, skipulagshæfni og sjálfstæð vinnubrögð 
  • Áhugi og þekking á Stúdentaráði æskileg 

Einstaklingurinn er ráðinn í hlutastarf á meðan ráðningartímabilinu stendur. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá réttindaskrifstofu Stúdentaráðs í síma 570-0850 eða á shi@hi.is  

Kynningarbréf ásamt ferilskrá skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: shi@hi.is merkt „Starfsmaður Októberfest SHÍ“. Umsóknarfrestur er til kl. 23:59 þann 17. júlí 2022. Umsóknir sem berast síðar verða ekki teknar til greina.  

Ráðning framkvæmdastjóra og ritstýru á skrifstofu Stúdentaráðs

Þau Guðmundur Ásgeir Guðmundsson og Lísa Margrét Gunnarsdóttir hafa bæst í hóp starfsfólksins á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs.

Guðmundur Ásgeir hefur verið ráðin sem nýr framkvæmdastjóri á skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Guðmundur er 25 ára viðskiptafræðinemi við Háskóla Íslands og hefur áður lokið B.Sc. gráðu í bókhaldi frá University of Providence. Guðmundur Ásgeir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2017 ásamt því að hafa lokið framhaldsprófi í píanóleik árið 2018. Samhliða námi starfaði Guðmundur hjá University of Providence sem píanisti á viðburðum háskólans, sem einkakennari í bókhaldi og glósari fyrir TRIO-center (Students with disabilites). Hann tók einnig þátt í félagsstörfum sem formaður bókhaldsklúbbsins hjá University of Providence.

Guðmundur hefur mikinn áhuga á bókhaldi og endurskoðun og mun menntun hans nýtast vel í starfi framkvæmdastjóra. Hann er öflugur í teymisvinnu og fær í samskiptum, er með getu til að starfa sjálfstætt og vilja til að vinna með Stúdentaráði í heild sinni. Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Guðmund Ásgeir Guðmundsson til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu framkvæmdasjóra ráðsins.

Lísa Margrét hefur verið ráðin sem ný ritstýra Stúdentaráðs 2022-2023. Lísa er 27 ára nemi við íslenskudeild Háskóla Íslands og mun hún ljúka B.A. gráðu í íslensku með sálfræði sem undirgrein næsta vor. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2015.  Starfsemi Stúdentaráðs er Lísu ekki ókunnug en hún hefur setið bæði í jafnréttis- og alþjóðanefnd SHÍ ásamt því að hafa verið meðlimur í sviðsráði Hugvísindasviðs. Lísa var hluti af ritstjórnarteymi Stúdentablaðsins síðastliðið ár þar sem hún skrifaði greinar, kom að því að þýða og prófarkalesa sem og að ritstýra einstaka greinum og færa inn á heimasíðu Stúdentablaðsins. 

Lísa er með skýra sýn á hvað hún vill gera sem ritstýra. Hún vill stuðla að því að Stúdentablaðið sé vettvangur þar sem fjölbreyttur nemendahópur Háskóla Íslands getur látið í sér heyra, og færa blaðið nær stúdentum með því að auka innsendar greinar. Lísa vill skipa öfluga ritstjórn og leggja áherslu á gott samstarf við öll þau sem tengjast Stúdentaráði, sem mun svo endurspeglast í starfinu. Sem málgagn allra stúdenta finnst Lísu að Stúdentablaðið ætti að taka mið af þeirri litríku flóru mannlífs sem einkennir háskólasamfélagið.

Stjórn Stúdentaráðs ákvað vegna þessa að ráða Lísu Margréti Gunnarsdóttur til starfa við réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í stöðu ritstjóra ráðsins.

Við óskum þeim til hamingju með þessi nýju hlutverk og hlökkum mikið til samstarfsins við að vinna að bættum hag stúdenta!

 

Erindi frá Stúdentaráði Háskóla Íslands til nýkjörinna sveitarstjórnarfulltrúa á höfuðborgarsvæðinu

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur sent öllum nýkjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu erindi þar sem kallað er eftir auknum áherslum í málefnum stúdenta í störfum þeirra á komandi kjörtímabili.

Sveitarstjórnarstigið fer með vald yfir fjölda málaflokka sem snerta stúdenta, svo sem umhverfis-, samgöngu- og húsnæðismál og búa margir stúdentar við Háskóla Íslands í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Í erindinu eru listaðar upp helstu áherslur Stúdentaráðs í þessum málaflokkum ásamt tillögum að aðgerðum sem sveitarstjórnarstigið getur ráðist í. Flestar þessar tillögur fela í sér einfaldar breytingar sem auðsjáanlega eru til bóta fyrir stúdenta og aðra samfélagshópa, en ekki algjöra umbyltingu þeirra kerfa sem þegar hafa verið byggð upp. Því ætti töluverður hluti tillagnanna að geta orðið að veruleika án gífurlegs kostnaðarauka fyrir hið opinbera.

Það þarf pólitískan vilja til að ráðast í breytingar fyrir samfélagið þannig að það taki mið af öllum þeim hópum sem það mynda. Stúdentaráð vonast til að nýkjörnir sveitarstjórnarfulltrúar láti verkin tala og vinni að bættum hag stúdenta með því að láta ofantaldar tillögur verða að veruleika. 

 

Stúdentaráðsfundur 22. júní 2022

Miðvikudaginn 22. júní fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Fundur settur 17:00
  2. Fundargerð síðasta fundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:00-17:05
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:05-17:35
  4. Kynning á Aurora samstarfinu 17:35-18:00
  5. Verklagsreglur Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:00-18:25
  6. Hlé 18:25-18:35
  7. Skipun fulltrúa stúdenta í eftirfarandi nefndir háskólaráðs: skipulagsnefnd, ráð um málefni fatlaðs fólks auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd (atkvæðagreiðsla) 18:35-18:45
  8. Önnur mál 18:45-18:55
  9. Bókfærð mál 
  10. Fundi slitið 19:00

Auglýst eftir fulltrúum stúdenta í nefndir háskólaráðs

Kæru stúdentar,

Samkvæmt 21. gr. laga Stúdentaráðs skal Stúdentaráð skipa fulltrúa stúdenta í nefndir háskólaráðs. Að þessu sinni er leitað að fulltrúa í skipulagsnefnd, tveimur fulltrúum í ráð um málefni fatlaðs fólks, auk áheyrnarfulltrúa í öryggisnefnd. Skipunartími í skipulagsnefnd og öryggisnefnd er til eins árs en í ráð um málefni fatlaðs fólks til þriggja ára. 

Hæfniskröfur eru eftirfarandi: 

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt
  • Hæfni í mannlegum samskiptum
  • Virk þátttaka í háskólasamfélaginu er kostur
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur

Að auki er miðað við að allavegana annar fulltrúanna í ráði um málefni fatlaðs fólks komi úr hópi þeirra nemenda sem falla undir 1. mgr. 1. gr. reglna um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands nr. 481/2010. 

Stúdentaráð mun kjósa um fulltrúa í nefndirnar. Frekari upplýsingar um starfsemi nefndana má finna á heimasíðu Háskóla Íslands

Áhugaöm eru beðin um að senda póst á shi@hi.is fyrir kl. 23:59 þann 17. júní næstkomandi. Umsókn skal fylgja ferilskrá og stutt kynning á umsækjanda, lýsing á áhuga hans á tilteknu nefndarstarfi og reynslu sem hann telur að komi að gagni í nefndinni. 

Háskólaráð samþykkir tillögu að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði

Á fundi Háskólaráðs 2. júní sl. var tillaga að nýrri útfærslu tímabils sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði samþykkt! Tillagan byggir á erindi Stúdentaráðs og fulltrúa stúdenta í háskólaráði frá fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Hún var unnin og samþykkt af stjórn Félagsvísindasviðs í samráði við kennslusvið, þar sem Rebekka Karlsdóttir, fulltrúi stúdenta í stjórn vann ötullega að málinu. Í tillögunni felst að sjúkra- og endurtökupróf á Félagsvísindasviði vegna haustmisseris fari fram í desember og janúar, en ekki í júní eins og nú.

Miðað er við að breytingarnar taki gildi háskólaárið 2023-2024 og bindur Stúdentaráð miklar vonir við áframhaldandi gott samráð við stjórnsýslu háskólans. Á fundinum 2. júní lögðu fulltrúar stúdenta í háskólaráði, Isabel Alejandra Díaz og Jessý Rún Jónsdóttir fram svohljóðandi bókun:

“Fulltrúar stúdenta í háskólaráði telja endurskoðun á fyrirkomulagi sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði löngu tímabæra og fagna nýrri tillögu að útfærslu sem fram er komin, í kjölfar erindis Stúdentaráðs á fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Á sama tíma og þakkir eru færðar fyrir vinnuna sem ráðist var í vilja fulltrúar stúdenta undirstrika að það verði að tryggja að ný útfærsla nái fram að ganga fyrir háskólaárið 2023-2024, líkt og sammælst hefur verið um.

Ný útfærsla er ásættanleg lausn fyrir hlutaðeigandi og ljóst er að eðlilegt næsta skref sé að huga að heildarsamræmingu á kennslualmanaki þvert á svið. Fulltrúar stúdenta vilja þó taka fram að sú vinna, sem öll eru í grunninn sammála um, megi ekki hægja á eða hindra að nýtt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa sé hrint í framkvæmd á Félagsvísindasviði. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði sem og Stúdentaráð binda miklar vonir við að samráðið í framhaldinu verði lausnamiðað og farsælt í þágu stúdenta, en ljóst er að miklir hagsmunir eru undir fyrir þau. Við fögnum þessum fyrirhuguðu breytingum á sama tíma og við leggjum þunga á að útfærslan raungerist líkt og áform eru á um.”

Fundargerðina í heild sinni má finna hér.

Þetta er mikið fagnaðarefni enda hefur það verið baráttumál stúdenta um árabil að fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði yrði endurskoðað og breytt. Stúdentaráð og fulltrúar stúdenta í háskólaráði hlakka til að fylgja málinu eftir.

 

 

 

Auglýst í stöðu framkvæmdastjóra Stúdentaráðs

Stúdentaráð Háskóla Íslands auglýsir í stöðu framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri

Framkvæmdastjóri tekur þátt í að vinna að skilvirkum og góðum starfsháttum á skrifstofu Stúdentaráðs. Hann gætir fjármuna og eigna Stúdentaráðs, vinnur að hagkvæmni í fjárútlátum og heldur upplýsingaflæði milli skrifstofu og Stúdentaráðs.

Framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með fjármálum Stúdentaráðs, umsjón með rekstri skrifstofunnar, þar með talið tímaskráningum starfsfólks hennar og greiðslu launa. Hann sér um samningsgerðir á vegum Stúdentaráðs og eftirfylgni þeirra, sér um auglýsingasöfnun í útgefið efni Stúdentaráðs ásamt því að rita fundargerðir Stúdentaráðs og stjórnar Stúdentaráðs. Auk þess tekur framkvæmdastjóri þátt í daglegum störfum skrifstofunnar í samráði við forseta.

Hæfniskröfur:

  • Áhugi á Stúdentaráði og málefnum stúdenta auk virkrar þátttöku í háskólasamfélaginu.
  • Þekking og reynsla á fjármálum og bókhaldi.
  • Vilji og geta til þess að vinna með Stúdentaráðsliðum, starfsfólki skrifstofu Stúdentaráðs og öðrum hagsmunaaðilum ráðsins.
  • Hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Geta til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku er skilyrði.
  • Frumkvæði og geta til að starfa sjálfstætt.
  • Menntun sem nýtist í starfi er kostur.
  • Þekking á bókhaldshugbúnaði er kostur.
  • Þekking á stjórnsýslu Háskóla Íslands er kostur.
  • Reynsla af viðburðastjórnun er kostur.
  • Önnur þekking og reynsla sem nýtist í starfi.

 

Framkvæmdastjóri er ráðinn í 40-50% starf út starfsár Stúdentaráðs, eða til 31. maí 2023, með möguleika á framlengingu. Nánari upplýsingar um starfið fást hjá Vöku Lind Birkisdóttur, núverandi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs, á netfangið shi@hi.is.

Kynningarbréf ásamt ferilskrá og meðmælum skal senda í tölvupósti á netfang ráðsins: forsetishi@hi.is  merkt „Framkvæmdastjóri SHÍ“.

Umsóknarfrestur er til og með 5. júní 2022. Umsóknir sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar gildar.

 

Viljayfirlýsing Stúdentaráðs, Háskóla Íslands og Félagsstofnun stúdenta um stúdentagarð í Stapa

Stúdentaráð Háskóla Íslands, Háskóli Íslands og Félagsstofnun stúdenta undirrituðu í gær, 16. maí, viljayfirlýsingu vegna byggingarinnar Stapa við Hringbraut 31. Viljayfirlýsingin snýr að því að þegar núverandi starfsemi Háskóla Íslands í Stapa flytur í nýtt húsnæði  Heilbrigðisvísindasviðs á Landspítalasvæðinu verði Stapi seldur Félagsstofnun stúdenta og breytt í stúdentagarð og falli þar með að Gamla Garði og nýrri viðbyggingu hans. Stúdentaráð hefur lengi haft þetta á stefnu sinni.

Stapi, sem upphaflega bar nafnið Stúdentaheimilið, var byggður af Félagsstofnun stúdenta árið 1971 og seldur Háskóla Íslands við byggingu Háskólatorgs árið 2007. Stapi hýsti lengi vel Ferðaskrifstofu stúdenta, Bóksölu stúdenta og síðar Stúdentakjallarann á vegum Félagsstofnunar. Undanfarinn rúman áratug hefur námsbraut í sjúkraþjálfun haft aðstöðu í Stapa.

Stúdentaráð telur þetta vera heillaskref fyrir háskólasamfélagið og mikilvægan áfanga í fjölgun stúdentaíbúða nærri og á svæði Háskóla Íslands.

 

Mynd eftir Kristinn Ingvarsson

Skiptafundur Stúdentaráðs 18. maí 2022

Miðvikudaginn 18. maí fer Stúdentaráðsfundur fram kl 17:00 í N-132.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerð Stúdentaráðsfundar 13. apríl borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Fjárhagsáætlun Stúdentaráðs 2021-2022 (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:20
  4. Ársskýrsla Stúdentaráðs 2021-2022 17:20-17:40
  5. Nýtt Stúdentaráð 2022-2023 tekur við 17:40-17:45
  6. Fundargerð kjörfundar borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:45-17:50
  7. Praktísk atriði til nýrra Stúdentaráðsliða 17:50-18:10
  8. Fundarhlé 18:10-18:20
  9. Eftirstandandi tilnefningar í nefndir og sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:25
  10. Tímalínur stórra mála 18:25-19:00
  11. Almennar fyrirspurnir nýrra Stúdentaráðsliða 19:00-19:10
  12. Önnur mál 19:10-19:20
  13. Fundi slitið 19:20