Fréttir

Stúdentar fordæma stríðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS), sem SHÍ er aðili að, gáfu frá sér yfirlýsingu í dag vegna stíðsreksturs ísraelskra stjórnvalda í Palestínu.

Í yfirlýsingunni, sem einnig má finna hér, segir:

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) fordæma framgöngu og stríðsglæpi ísraelskra stjórnvalda í Palestínu og lýsa yfir fullum stuðningi við palestínsku þjóðina og baráttu hennar fyrir tilverurétti sínum sem frjáls þjóð. Tryggja verður tafarlausa mannúðaraðstoð og virðingu fyrir grundvallarmannréttindum.

Stúdentar eru þátttakendur í íslensku háskólasamfélagi og ber því skylda að bregðast við ákalli Birzeit háskóla: Fræðasamfélaginu ber að uppfylla akademískar skyldur sínar, byggja á staðreyndum, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum.

Háskólamenntun er mikilvægur vegvísir að opnara og réttlátara samfélagi. Stúdentar hvetja því háskólastofnanir landsins sem og fræðasamfélagið í heild sinni til að halda staðreyndum á lofti, viðurkenna sögulegar rætur árásanna og varpa ljósi á valdaójafnvægi þjóðanna. Þekkingu og orðræðu fylgir vald en líkt og kemur fram í yfirlýsingu frá starfsfólki Háskóla Íslands hefur vestrænt alþjóðasamfélag haldið uppi ríkjandi orðræðu sem afmennskuvæðir palestínsku þjóðina og skapar réttlætingu fyrir ítrekuðum fjöldamorðum á saklausum borgurum.

LÍS krefjast þess að íslensk stjórnvöld fylgi eftir ályktun Alþingis um tafarlaust vopnahlé með afdráttarlausum hætti á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir vopnahléi strax. Þjóðarmorð, stríðsglæpir og ólögleg yfirtaka landsvæða hafa átt sér stað í óforskammanlega langan tíma. Tími skýrrar afstöðu og athafna er löngu runninn upp.

LÍS krefjast þess sömuleiðis að Evrópusamtök stúdenta (ESU) fordæmi árásir ísraelskra stjórnvalda sem og Hamas samtakanna og dragi til baka birta yfirlýsingu sem byggir á hlutdrægni orðræðu í þágu Ísrael og víkur sér undan því að gera ísraelsk stjórnvöld ábyrg fyrir gjörðum sínum.

Íslenskir stúdentar standa með Palestínu í baráttunni fyrir friði og réttlæti.

Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stúdentaráðs

Á dögunum undirrituðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, nýjan samning milli Háskóla Íslands og Stúdentaráðs um þjónustu við nemendur Háskólans.

Stúdentaráð er mjög þakklátt fyrir samstarfið, tekið er vel á ábendingum ráðsins á hinum mörgum starfssviðum skólans og eiga forseti og rektor reglulega fundi til að tryggja gott upplýsingaflæði og koma áherslum stúdenta á framfæri.

Stúdentaráð mun áfram halda Háskóla Íslands á tánum, enda er það meginhlutverk ráðsins að vera þrýstiafl. Hvetjum við starfsfólk og stjórnendur til að rækta samstarfið við stúdenta enn frekar til að við getum í sameiningu gert góðan háskóla enn betri.

 

Stúdentaráðsfundur 14. nóvember 2023

Þriðjudaginn 14. nóvember 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu L-101.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05
  2. Fundargerðir síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10
  3. Eftirstandandi tilnefningar í sviðsráð Stúdentaráðs (atkvæðagreiðsla) 17:10-17:15
  4. Tilkynningar og mál á döfinni 17:15-17:30
  5. Umræður um ólögmæti skrásetningagjaldanna – Rakel Anna Boulter og Gísli Laufeyjarson Höskuldsson 17:30-17:45
  6. Tímalína stórra mála SHÍ – Rakel Anna Boulter 17:45-18:30
    Hlé 18:30-18:40
  7. Tilnefningar í kjörstjórn (atkvæðagreiðsla) 18:30-18:45
  8. Tillaga um úttekt á vinnubrögðum skrifstofu SHÍ (atkvæðagreiðsla) – Júlíus Viggó Ólafsson 18:45-19:00
  9. Tillaga um viðbót við framkvæmdaáætlun Umhverfis- og samgöngunefndar (atkvæðagreiðsla) – Berglind Bjarnadóttir 19:00-19:15
  10. Önnur mál 19:15-19:30
  11. Bókfærð mál
  12. Fundi slitið 19:30

Auglýst eftir ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar og á sviði barna og ungmenna

Langar þig að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar eða á sviði barna og ungmenna? Lestu þá lengra!

Landssamband ungmennafélaga (LUF), í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur óskað eftir framboðum til ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, annars vegar á sviði sjálfbærrar þróunar og hins vegar á sviði barna og ungmenna. Stúdentaráð Háskóla Íslands er aðildarfélag að LUF og getur sem slíkt boðið fram einn fulltrúa í umboði Stúdentaráðs. Leiðtogaráð LUF kýs svo á milli tilnefninga aðildarfélaganna á fundi ráðsins þann 24. nóvember nk.

Ef þú ert nemandi við Háskóla Íslands getur þú sótt um að vera tilnefning SHÍ ef þú uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  1. Ert á aldrinum 18-25 ára
  2. Hefur þekkingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
  3. Hefur reynslu af hagsmunastarfi ungmennafélaga
  4. Býrð yfir leiðtogahæfni og frumkvæði
  5. Hefur vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
  6. Viðeigandi menntun sem nýtist í embætti / þekking á Sameinuðu þjóðunum er kostur
  7. Hefur tök á að skuldbinda þig hlutverkinu til tveggja ára með virkri þátttöku í starfi LUF

Ef þetta á við um þig og þú vilt sækja um að vera tilnefning SHÍ, sendu okkur þá kynningarbréf þar sem fram kemur hvers vegna þú sækir um stöðuna og hvernig þú telur þig uppfylla skilyrðin hér að ofan á shi@hi.is. Ef umsækjandi verður ekki talinn uppfylla skilyrði umsóknar verður henni vísað frá. Frestur er til og með 12. nóvember. 

Svið sjálfbærrar þróunar
Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar (e. United Nations Youth Delegate of Iceland on Sustainable Development) kemur með til að sækja og taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2024)) sem fer fram dagana 15. – 17. júlí í New York. Kemur fulltrúinn með að tilheyra sendinefnd íslenskra stjórnvalda á viðburðinum, í umboði ungs fólks á Íslandi og tekur þátt í undirbúningsvinnu við viðburðinn auk þess að sitja í nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda. Samstarfsráðuneyti sviðsins er forsætisráðuneytið.

Svið barna og ungmenna
Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna (e. United Nations Youth Delegate of Iceland for Children and Youth) kemur með að sækja og taka þátt í störfum og sækja fund ungmennavettvangs efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum)) 16.-18. apríl í New York. Samstarfsráðuneyti sviðsins er mennta- og barnamálaráðuneytið.

Embættin er sjálfboðastarf, að dagpeningum erlendis undanskildum.

Saga skrásetningargjaldsins

Hér að neðan má lesa samantekt um sögu skrásetningargjaldamálsins, upphaf þess og helstu þætti. 

Háskólinn óskar eftir hækkun skrásetningargjalda – stúdentar mótmæla

Þann 6. febrúar 2020, á fundi háskólaráðs, var rætt um hækkun skrásetningargjaldsins við HÍ úr 75.000 kr. í 104.000 kr. fyrir árið 2020 og í 107.000 kr. fyrir árið 2021. Háskólaráð taldi upphæðina eiga að vera hærri miðað við forsendur fjárlaga um verðhækkanir. Öll í háskólaráði, utan fulltrúa stúdenta, greiddu atkvæði með tillögunni. Háskólaráð faldi rektor því að taka málið upp við rektora annarra opinberra háskóla og mennta- og menningarmálaráðherra. 

Þann 26. febrúar 2020 sendir Stúdentaráð frá sér yfirlýsingu, sem ráðið samþykkti einróma. Í yfirlýsingunni kemur fram að Stúdentaráð leggist afdráttarlaust gegn hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands, ráðið dregur fram að fjárframlög ríkisins til háskóla þurfi að hækka og að ekki sé rétt að sækja það fé sem vantar í vasa stúdenta.

25. janúar 2021 sendi Stúdentaráðs frá sér erindi þar sem óskaði var eftir viðbrögð stjórnvalda við fjárhagsstöðu stúdenta. Þar undirstrikaði ráðið afstöðu sína gegn skrásetningagjaldinu.

 

Nemandi kærir skrásetningargjaldið

Þann 25. ágúst 2021 kærir fyrrum hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs og nemandi við Háskóla Íslands, Jessý Jónsdóttir, skrásetningargjaldið til háskólaráðs. Kærandi telur gjaldið ekki standast lagaáskilnaðarreglu um þjónustugjöld eða að ákveðnir kostnaðarliðir þess standist lög um opinbera háskóla nr. 85/2008.

 

Háskólaráð taldi gjaldið löglegt

Þann 7. október 2021 hafnaði Háskólaráð kærunni að öllu leyti, ráðið taldi gjaldið réttmætt og rúmast innan lagarammans.

Á Stúdentaráðsfundi 18. maí 2022 samþykkti Stúdentaráð heildarstefnu ráðsins þar sem tekið er fram að ráðið efist um lögmæti skrásetningagjaldsins.

 

Úrskurður háskólaráðs felldur úr gildi

Niðurstaða háskólaráðs var kærð til áfrýjunarnefnd kærumála háskólanema þann 15. nóvember 2021. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar (8/2021 A gegn Háskóla Íslands) barst þann 19. ágúst 2022, nefndin felldi ákvörðun háskólaráðs úr gildi. Ástæðan var sú að nefndin taldi háskólaráð ekki byggja útreikninga sína á raunverulegum kostnaði. Háskólaráð notaðst við útreikninga frá árinu 2015. Áfrýjunarnefndin krafði háskólaráð um að endurskoða kostnaðarliðina, samkvæmt rauntölum, og gera grein fyrir þeim.

 

Háskólaráð hafnar kröfunni, aftur

Þann 8. september 2022 óskar kærandi, Jessý Jónsdóttir, eftir endurupptöku málsins hjá háskólaráði.

Þann 3. nóvember 2022 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér yfirlýsingu í kjölfar brots háskólaráðs á stjórnsýslulögum við ákvörðun á skrásetningargjaldi.

Síðar þann 3. nóvember 2022 hafnar háskólaráð kröfu Jessýjar í annað sinn. Öll í háskólaráði, utan fulltrúa stúdenta, kusu með þessari endurskoðuðu ákvörðun háskólaráðs vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar. Á fundinum tóku fulltrúar stúdenta í háskólaráði undir yfirlýsingu Stúdentaráðs sem birt hafði verið fyrr um daginn. Fulltrúarnir nefndu að eðlileg vinnubrögð fælu í sér að taka skrásetningargjaldið fyrir árlega og þannig ganga úr skugga um að forsendur þess hafi ekki breyst áður en það er innheimt.

Í kjölfarið hélt Stúdentaráð umræðufund þann 23. nóvember 2022 um skrásetningargjaldið.

Háskóli Íslands vill hækka skrásetningjargjöldin, aftur

Á fundi háskólaráðs þann 8. desember 2022 var tilkynnt að rektor hefði, ásamt rektorum hinna opinberu háskólanna, sent bréf til háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra þar sem óskað var eftir heimild til hækkunar skrásetningargjalda í 95.000 kr. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði gagnrýndu harkalega áform um hækkun skrásetningargjaldsins og að þau áform hefðu ekki verið borin undir háskólaráð áður. 

Þann 14. desember 2022 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér yfirlýsingu vegna undirfjármögnunar Háskóla Íslands og umræðna um hækkun skrásetningargjalda þar sem fjallað var um tengsl vanfjámögnunar háskólastigsins og hækkunar skrásetningargjaldsins.

 

Úrskurður háskólaráðs felldur úr gildi, aftur

Kæra (4/2022) barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema þann 17. nóvember 2022 og nefndin skilaði úrskurði þann 5. október 2023. Áfrýjunarnefndin felldi þar með úr gildi ákvörðun háskólaráðs, sem hafnaði endurgreiðslu skrásetningargjalds til Jessýjar Jónsdóttur, nemanda. Áfrýjunarnefndin telur framkvæmdina ekki eiga sér lagastoð. Enn fremur segir í úrskurðinum að  „grundvöllur fyrir innheimtu skrásetningargjalds HÍ, eins og hann liggur fyrir í dag, sé ekki fullnægjandi og brjóti þannig gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins“.

 

Stúdentaráð krefst endurgreiðslu

Þann 26. október 2023 sendi Stúdentaráð Háskóla Íslands frá sér erindi þar sem endurgreiðslu ólögmætra skrásetningargjalda er krafist. Þess er krafist að Háskóli Íslands endurgreiði öllum þeim sem greitt hafa skrásetningargjöld við skólann síðan árið 2014.

Skrásetningargjöld Háskóli Íslands ólögmæt

Háskóli Íslands hefur brotið lög. Við krefjumst þess að ofrukkun skrásetningargjalda verði leiðrétt tafarlaust. 

 

Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema frá 5. október sl. hefur Háskóli Íslands byggt á ófullnægjandi forsendum við ákvörðun fjárhæðar skrásetningargjaldsins. Stúdentar geta því ekki fengið upplýsingar um hvað þeir eru að greiða fyrir.

 

Aðdragandi málsins

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur löngum dregið lögmæti skrásetningargjaldsins í efa, málið var fyrirferðamikið hjá Stúdentaráði síðasta starfsárs en upphaf þess má rekja allt til vorsins 2020 þegar háskólaráð ályktaði að fela rektor að leitast við að hækka skrásetningargjaldið í 104.000 kr. Þrátt fyrir að gjaldið hafi ekki verið hækkað í kjölfarið, hélt vinna Stúdentaráðs áfram. 

 

Í september 2020 krafði nemandi við HÍ og hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs, Jessý Jónsdóttir,  háskólaráð um endurgreiðslu fyrir þann hluta skrásetningargjaldsins sem húntaldi að lög heimili ekki að skólinn rukki fyrir. Skrásetningargjöld í opinbera háskóla eru þjónustugjöld sem verða að byggja á lögum og má að meginstefnu einungis innheimta fyrir þá þjónustu sem veitt er þeim sem greiðir gjaldið. Háskólaráð hafnaði kröfu nemandans og rökstuddi þá afstöðu með því að sundurliðun fjárhæða kostnaðarliða sem búi að baki skrásetningargjaldinu séu áætlaðar út frá raunútgjöldum ársins 2015. Málinu var fylgt eftir og í október 2022 komst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands hafi brotið rannsóknarreglu við ákvörðun skrásetningargjaldsins og ekki staðið rétt að útreikningum skrásetningargjaldsins. Þessi úrskurður staðfesti þann grun Stúdentaráðs að gjaldið geti ekki eingöngu talist skrásetningargjald heldur sé það betur skilgreint sem skólagjöld. Háskólaráð tók málið þá aftur fyrir en hafnaði kröfunni enn á ný, með vísan til nýrra útreikninga. Nú hefur áfrýjunarnefndin afdráttarlaust komist að því að tilteknir gjaldliðir standist ekki lög. 

 

Afstaða Stúdentaráðs

Úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í máli nr. 4/2022 frá 5. október 2023 felur í sér að úrskurður háskólaráðs frá 3. nóvember 2022, um höfnun á endurgreiðslu skrásetningargjalds til kæranda málsins, var felldur úr gildi. Úrskurðurinn er byggður á þeirri niðurstöðu áfrýjunarnefndar að ekki liggi nægjanlega traustir útreikningar eða kostnaðaráætlanir fyrir við ákvörðun skrásetningargjaldsins. Þar sem skrásetningargjöld við opinbera háskóla teljast til þjónustugjalda er nauðsynlegt að fjárhæða gjaldsins byggi á traustum útreikningum eða fullnægjandi áætlunum. Þetta hafi skort og því telst Háskóli Íslands hafa brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þann 26. október 2023 sendi Stúdentaráð frá sér erindi þar sem krafist var endurgreiðslu ólögmætra skrásetningargjalda allt aftur til ársins 2014. 

 

Stúdentar eiga ekki að fjármagna Háskólann

Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur um árabil bent á afleiðingar þess að opinber háskólamenntun á Íslandi sé undirfjármögnuð og að afleiðingar þess bitni helst á stúdentum. Þykir okkur bæði sorglegt, ófaglegt og óásættanlegt að Háskóli Íslands seilist í vasa stúdenta til að afla fjár til að brúa það bil sem vanfjármögnun opinberu háskólanna leiðir af sér. Það á að vera á ábyrgð stjórnvalda að styrkja opinbera háskólamenntun, ekki stúdenta. 

 

Stúdentar eru almennt tekjulítill hópur sem stendur fjárhagslega höllum fæti. Okkur þykir óásættanlegt að verið sé að krefja stúdenta um ólöglegar og íþyngjandi greiðslur. Könnun Stúdentaráðs, sem lögð var fyrir nemendur í apríl síðastliðnum, sýna sláandi niðurstöður um fjárhagsstöðu stúdenta. Staðan er verulega slæm, námslán grípa ekki þau sem þurfa á þeim að halda og of margir stúdentar neyðast til að vinna með námi til að eiga möguleika á að ná endum saman. Í augum margra eru 75.000 kr ekki há upphæð en fyrir stúdenta skiptir hver króna máli, sérstaklega þegar hún hefur verið innheimt ólöglega og er innheimt árlega, svo fljótlega safnast þetta upp og getur haft verulega þýðingu fyrir fjárhag stúdents.

 

Oft ber Ísland sig saman við önnur Norðurlönd. Þegar kemur að stuðningi við opinbera háskólamenntun erum við eftirbátur þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Stuðningur við nemendur hér á landi er umtalsvert minni en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Forsenda samkeppnishæfni háskólamenntunar og samkeppnishæfni íslenskra stúdenta við opinbera háskóla gagnvart nemendum annarra Norðurlanda er raunverulegur og fullnægjandi stuðningur hins opinbera.

 

Stúdentaráð hefur krafist þess að Háskóli Íslands endurgreiði skrásetningargjöld sem hafa verið innheimt á ólöglegan hátt. Það gengur ekki að stúdentar séu látnir halda uppi fjármögnun opinberra háskóla. Við leggjum þunga áherslu á að grundvallarvandinn sem háskólastigið á Íslandi glímir við í dag sé alvarleg vanfjármögnun sem hefur valdið því að ráðist er í þessa ólögmætu gjaldtöku en á því bera stjórnvöld alla ábyrgð.

Erindi Stúdentaráðs Háskóla Íslands um fjárhagsstöðu stúdenta

Á stúdentaráðsfundi 19. október sl. samþykkti stúdentaráð að senda erindi til Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins og Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um fjárhagsstöðu stúdenta. Tilefnið er að á haustþingi ber Alþingi að endurskoða lög um menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, en í núverandi horfi veitir námslánakerfið svo lítinn stuðning við stúdenta að um 70% stúdenta vinna á sama tíma og kennsla fer fram. Af þeim sögðust 72% vinna vegna þess að annars hefðu þau ekki efni á að stunda nám.

Í erindi Stúdentaráðs segir: „Stjórnvöld verða að horfast í augu við þá staðreynd að þetta er vottorð, svart á hvítu, um að námslánakerfið hér á landi sé vanfjármagnað […]. Því hagstæðari sem námslánin eru, þeim mun líklegri er sá hópur sem er „of mikið“ á vinnumarkaði til þess að huga betur að náminu. Þetta virðist alveg hafa farið fram hjá íslenskum stjórnvöldum.“

„Áratugum saman hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands bent á að fjárfesting í stuðningi við stúdenta er allt of lítil þrátt fyrir að þess megi vænta að ríkisútgjöld til þeirra mála borgi sig margfalt til baka, jafnvel þótt aðeins sé litið til skatta sem háskólamenntað fólk greiðir og litið fram hjá öðrum ávinningi. Þetta er grundvallarvandinn við námslánakerfið á Íslandi og engar hagræðingar eða tilfærslur á styrkjaleiðum munu leysa hann.“

Erindið má nálgast hér.

 

Samstarfsverkefni SHÍ og Krónunnar

Við kynnum með stolti nýtt samstarf SHÍ og Krónunnar! 

 

Nú geta íbúar á stúdentagörðum við HÍ (Eggertsgötu, Sæmundargötu, Suðurgötu og Hótel Sögu) fengið heimsendingu á betri kjörum með kóðanum “SHI1920”. 

Til þess að virkja afsláttinn er farið inn í mínar síður, sem er hægra megin um leið og Krónu-appið er opnað. Svo er ýtt á þrjár línur sem birtast uppi í hægra horni. Þar er svo ýtt á stillingar og þar neðst niðri stendur kóði fyrir íbúakjarna. Þar er kóðinn SHI1920 sleginn inn, þá á kóðinn að virkjast sjálfkrafa þegar pantað er. Athugið að einungis er hægt að nýta afsláttarkóðann á ákveðnum tímasetningum en nánari upplýsingar um þær er að finna í appinu.

 

Við erum afar spennt fyrir þessu samstarfi og vonumst til þess að þetta sé aðeins byrjunin á farsælu samstarfi SHÍ og Krónunnar!

Stúdentaráðsfundur 26. október 2023

Fimmtudaginn 26. október 2023 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 16:00 í stofu HT-300.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins.

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 16:00-16:05 
  2. Erindi vegna skrásetningargjalda (atkvæðagreiðsla) 16:05-16:45 
  3. Önnur mál 16:45-16:50 
  4. Fundi slitið 16:50