Fréttir

Niðurstöður Stúdentaráðskosninga 2024

Kosningar til Stúdentaráðs og Háskólaráðs Háskóla Íslands fóru fram dagana 20. og 21. mars. Heildarkjörsókn til Stúdentaráðs var 31,11% en í fyrra var kjörsókn 32,54%. Nýtt Stúdentaráð tekur við á skiptafundi ráðsins í lok maí og hlutu eftirfarandi aðilar kjör í Stúdentaráð:

Félagsvísindasvið

  • Júlíus Viggó Ólafsson (Vaka)
  • Katla Ólafsdóttir (Röskva)
  • Ragnheiður Geirsdóttir (Vaka)
  • Birkir Snær Brynleifsson (Vaka)
  • Patryk Lúkasi Edel (Röskva)

Heilbrigðisvísindasvið

  • Kristrún Vala Ólafsdóttir (Röskvu)
  • Tinna Eyvindardóttir (Vaka)
  • Eiríkur Kúld Viktorsson (Vaka)

Menntavísindasvið

  • Gunnar Ásgrímsson (Vaka)
  • Magnús Bergmann Jónasson (Röskva)
  • Ásthildur Bertha Bjarkadóttir (Vaka)

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

  • Kristín Fríða Sigurborgardóttir (Röskva)
  • Jóhann Almar Sigurðsson (Vaka)
  • Ester Lind Eddudóttir (Röskva)

Hugvísindasvið

  • Ísleifur Arnórsson (Röskva)
  • Sóley Anna Jónsdóttir (Röskva)
  • Anna Sóley Jónsdóttir (Vaka)

Heildarkjörsókn til Háskólaráðs var 28,06% en þegar síðast var kosið um fulltrúa nemenda í Háskólaráði árið 2022 var kjörsókn 17,95%. Nýjir fulltrúar stúdenta taka við í lok júní og hlutu eftirfarandi aðilar kjör í Háskólaráð:

Háskólaráð

  • Andri Már Tómasson (Röskva)
  • Viktor Pétur Finnson (Vaka)

Varamenn:

  • Gréta Dögg Þórisdóttir (Röskva)
  • Sigurbjörg Guðmundsdóttir (Vaka)

Ítarlegri niðurstöður kosninga er að finna hér.

Tilkynning frá kjörstjórn

Við upphaf kosninga þeirra er nú standa yfir til Stúdentaráðs og Háskólaráðs bar á því að nemendur hafi lent í vandkvæðum með það að staðfesta atkvæði sín með lykilorði sínu í Uglu.

Vegna þessa vandamáls tóku Kjörstjórn og Upplýsingatæknisviði þá ákvörðun í sameiningu að fjarlægja þessa kröfu það sem eftir stendur þessar kosningar.

Nemendur þurfa því nú að skrá sig inn með lykilorði í Uglu en ekkert lykilorð þarf til þess að staðfesta atkvæði.

Séu nemendur enn að lenda í vandræðum hvað þetta varðar vill Kjörstjórn benda á að endurhlaða Uglunni í vafranum og virki það ekki að skrá sig út á Uglunni og skrá sig aftur inn.

Ef nemendur lenda í frekari vandræðum geta þeir haft samband við kjor@hi.is

Sæmundarstund 20. mars 2024

Boðið er til Sæmundarstundar sem fer fram miðvikudaginn 20. mars kl. 12:30 til 13.00, við styttuna af Sæmundi fróða. Að viðburðinum standa Oddafélagið, Stúdentaráð og skrifstofa rektors Háskóla Íslands.

 

Sæmundarstund var fyrst haldin á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 að frumkvæði Oddafélagsins, sem er félag áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum þar sem Sæmundur fróði bjó. Stundin hefur verið haldin árlega síðan, jafnan á degi sem næst vorjafndægri.

Þar er lærdómsmannsins og þjóðsagnapersónunnar Sæmundar fróða Sigfússonar minnst en hann var uppi á 11. og 12. öld. Sæmundur fór utan til náms og nam m.a. við skóla í Evrópu áður en hann sneri aftur til Íslands og gerðist prestur að Odda á Rangárvöllum.

Líkt og fyrri ár fer Sæmundarstund fram við styttuna af Sæmundi á selnum, sem stendur í Skeifunni fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Styttuna gerði Ásmundur Sveinsson og vísar hún til frægrar þjóðsögu af viðureign Sæmundar við kölska en samkvæmt þjóðsögunni flutti hann Sæmund heim til Íslands í selslíki.

Viðri illa, færist Sæmundarstund inn í anddyri Aðalbyggingar.

 

Dagskrá

Kl. 12:30 – 13:00

  1. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, flytur ávarp.
  2. „Kór Sæmundarstundar“. Börn í Leikskólanum Mánagarði syngja tvö lög.
  3. Þór Jakobsson, fyrrverandi formaður Oddafélagsins, greinir í örfáum orðum frá sögu og tilgangi Sæmundarstundar.
  4. Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði, flytur ávarp.
  5. Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, flytur ávarp.
  6. Börnin í Mánagarði syngja eitt eða tvö lög.
  7. Sæmundarstund slitið.

 

Boðið verður upp á heitt súkkulaði í anddyri Aðalbyggingar eftir viðburðinn.

Almenn gjaldtaka á bílastæðum við HÍ hefst í haust

Á síðasta fundi háskólaráðs var tekin ákvörðun um að hefja gjaldtöku á bílastæðum við Háskóla Íslands 1. september 2024. Stúdentar og starfsfólk mun þá geta skráð sína bíla og til að fá undantekningu á gjaldskyldunni, greiði þau um 1.500 kr mánaðarlega. Stefna Stúdentaráðs í skipulags- og samgöngumálum er mjög skýr varðandi það að Háskóli Íslands verði, ásamt öðrum hagaðilum Vatnsmýrarsvæðisins, að stuðla að breyttum ferðavenjum og sporna gegn auknum umferðarþunga á svæðinu. Jafnframt felst krafa Stúdentaráðs í því að samhliða þeirri þróun verði stúdentum tryggt aðgengi að umhverfisvænum fararmátum með U-passa, samgöngukorti að evrópskri fyrirmynd. Í ljósi ákvörðunar háskólaráðs sem fer gegn þessum forsendum kusu fulltrúar stúdenta í Háskólaráði á móti tillögunni og lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta vilja ítreka erindi sitt sem sent var með tölvupósti á meðlimi háskólaráðs í morgun 7. mars 2024. Telja fulltrúar stúdenta að samgöngu- og bílastæðamál sé mikið hagsmunamál stúdenta og stórt vandamál sem háskólinn þarf að takast á við.

Í erindisbréfinu er meðal annars bent á vandamálið sem skólinn stendur frammi fyrir, þ.e.a.s. of mikið af bílum, of mikil umferð, of mikil neikvæð umhverfisáhrif og of mikill kostnaður við rekstur á bílastæðum. Tillagan sem framkvæmda- og tæknisvið leggur fram á fundi háskólaráðs í dag teljum við ekki leysa neitt af framangreindum vandamálum. 

Í ljósi þess að málið er veigamikið og kemur til með að hafa áhrif á öll þau sem sækja menntun, vinnu eða aðra þjónustu við Háskóla Íslands þykir stúdentum sérstaklega mikilvægt að vel sé unnið að verkefninu, með hagsmuni allra stúdenta í huga. Á undanförnum misserum hefur mætingu á háskólasvæðinu dvínað, óljóst er af hverju það stafar en víst er að ekki hlýst sama upplifun af því að stunda nám með lítilli mætingu eða algjörri fjarveru. Félagstengsl eru mikilvægur þáttur af háskólamenntun þó erfitt sé að mæla vægi þess, það væri því slæmt ef ákvarðanir háskólaráðs er varða bílastæðamál hefðu í för með sér frekari fækkun á háskólasvæðinu.

Fulltrúar stúdenta kjósa gegn þeirri tillögu sem er hér lögð til. Fram að þessu hefur það verið skilningur stúdenta að ekki verði hafin gjaldskylda án þess að stúdentum bjóðist mótvægisaðgerðir. Fulltrúum stúdenta þætti samræmast stefnu skólans betur að verja þeim fjármunum í að niðurgreiða vistvæna samgöngumáta, enda kosta umhverfismál pening.” 

Mikilvægt er að almenningssamgöngur og vistvænir samgöngukostir séu efldir þannig að stúdentar og starfsfólk Háskóla Íslands geti ferðast með umhverfisvænum hætti. Það verður að vera raunhæfur valkostur fyrir stúdenta sem búsettir eru víða á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi sveitarfélögum að komast á milli staða á skilvirkan máta, hratt og örugglega án óþarfa kostnaðar fyrir fólk og umhverfið. Þá er ítrekuð afstaða Stúdentaráðs um að þjónusta næturstrætó sé sérstaklega mikilvæg ungu fólki á grundvelli umhverfis-, öryggis-, menningar- og jafnréttissjónarmiða.

Stúdentaráð vísar einnig í ítarlegra erindi frá fulltrúum stúdenta í háskólaráði til fulltrúa í háskólaráði vegna tillögu að fyrirkomulagi reksturs bílastæða HÍ, sem tekið verður til umræðu á fundi ráðsins 7. mars.

Framboð til Stúdentaráðs 2024

Kosningar til stúdentaráðs fara fram miðvikudaginn 20. og fimmtudaginn 21. mars næstkomandi. Þar munu nemendur hvers fræðasviðs kjósa sér fulltrúa í Stúdentaráði til eins árs. Einnig verður kosið í Háskólaráð en þar sitja tveir fulltrúar stúdenta, kosnir til tveggja ára í senn. Kosningarnar eru rafrænar og fara fram á Uglunni. Opnunartími kosningakerfis á Uglu verður frá kl. 09:00 þann 20. mars til kl. 18:00 þann 21. mars.

Framboðsfrestur var til kl. 18:00 þann 10. mars. Tveir framboðslistar bjóða fram á öllum sviðum.

Framboð til Stúdentaráðs og Háskólaráðs 2024 eru eftirfarandi:

Háskólaráð
Röskva
  1. Andri Már Tómasson (hann), læknisfræði
  2. Gréta Dögg Þórisdóttir (hún), lögfræði
  3. S. Maggi Snorrason (hann), rafmagns- og tölvuverkfræði
  4. Rakel Anna Boulter (hún), bókmenntafræðingur og sitjandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands
Vaka
  1. Viktor Pétur Finnsson, viðskiptafræði
  2. Sigurbjörg Guðmundsdóttir, lögfræði
  3. Axel Jónsson, félagsráðgjöf
  4. Dagur Kárason, viðskiptafræði
Félagsvísindasvið
Röskva
  1. Katla Ólafsdóttir (hún), stjórnmálafræði
  2. Patryk Edel (hann), viðskiptafræði
  3. Helga Björg B. Ólafsdóttir (hún), lögfræði
  4. Mathias Bragi Ölvisson (hann), hagfræði
  5. Kristján Benóný Kristjánsson (hann), félagsráðgjöf
Vaka
  1. Júlíus Viggó Ólafsson, hagfræði
  2. Ragnheiður Geirsdóttir, stjórnmálafræði
  3. Birkir Snær Brynleifsson, lögfræði
  4. Alda María Þórðardóttir, hagfræði
  5. Kristófer Breki Halldórsson, viðskiptafræði
Heilbrigðisvísindasvið
Röskva
  1. Kristrún Vala Ólafsdóttir (hún), hjúkrunarfræði
  2. Jón Karl Einarsson (hann), sálfræði
  3. Styrmir Hallsson (hann), næringarfræði
Vaka
  1. Tinna Eyvindardóttir, sálfræði
  2. Eiríkur Kúld Viktorsson, læknisfræði
  3. Snæfríður Blær Tindsdóttir, sálfræði
Hugvísindasvið
Röskva
  1. Ísleifur Arnórsson (hann), heimspeki
  2. Sóley Anna Jónsdóttir (hún), almenn Málvísindi
  3. Védís Drótt Cortez (hún), táknmálsfræði
Vaka
  1. Anna Sóley Jónsdóttir, listfræði
  2. Bjarni Hjaltason, listfræði
  3. Ísar Máni Birkisson, heimspeki
Menntavísindasvið
Röskva
  1. Magnús Bergmann Jónasson (hann), grunnskólakennsla með áherslu á list- og verkgreinar
  2. Sól Dagsdóttir (hún/hán), grunnskólakennsla með áherslu á list- og verkgreinar
  3. Andrea Þórey Sigurðardóttir (hún), þroskaþjálfafræði
Vaka
  1. Gunnar Ásgrímsson, grunnskólakennsla
  2. Ásthildur Bertha Bjarkadóttir, uppeldis- og menntunarfræði
  3. Gunnar Freyr Þórarinsson, íþrótta- og heilsufræði
Verkfræði – og náttúruvísindasvið
Röskva
  1. Kristín Fríða Sigurborgardóttir (hún), tölvunarfræði
  2. Ester Lind Eddudóttir (hún), lífefna- og sameindalíffræði
  3. Ingibjörg Brynja Finnbjörnsdóttir (hún), eðlisfræði
Vaka
  1. Jóhann Almar Sigurðsson, umhverfis- og byggingarverkfræði
  2. Ásdís Rán Kolbeinsdóttir, umhverfis- og byggingarverkfræði
  3. Fannar Gíslason, rafmagns- og tölvunarfræði

 

Umferðin og okkar daglega líf

Þann 14. febrúar sl. stóðu Vísindagarðar Hí fyrir viðburði undir yfirskriftinni Umferðin og okkar daglega líf. Viðburðurinn er sá fyrsti af þremur viðburðum sem haldnir eru til að efla til samtals um samgöngur, horfa til framtíðar og fjölbreyttra lausna. Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands flutti þar eftirfarandi ávarp.

 

Árlega er nýtt Stúdentaráð kosið og hafa þá allir nemendur við skólann tækifæri til að velja sér fulltrúa. Þetta kunna einhverjum að finnast ör skipti, en það sem þessar tíðu skiptingar gera að verkum er að árlega eru málefni stúdenta, innan sem og utan háskólans, til umræðu.

Síðustu ár hefur eitt helsta umræðuefni meðal stúdenta verið samgöngu- og bílastæðamál. Það er ekkert furðulegt, einhvern vegin verður allt þetta fólk að komast á milli staða.
Það eru 13.225 stúdentar í HÍ. Við getum gert ráð fyrir að einhver sé í fjarnámi og ofan á það einhver slatti sem mæta í tíma utan Vatnsmýrarsvæðisins, annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Gefum okkur að alls séu þetta svona 30% sem mæta ekki í tíma á Vatnsmýrarsvæðinu. Það eru ennþá rúmlega 9.000 nemendur að mæta á háskólasvæðið. Gefum okkur að um 70% nemenda mæti daglega, sem eru þá 6.500 á dag, það er ennþá heilmikill fjöldi sem kemur inn og út af svæðinu daglega.

Háskólinn á u.þ.b. 1700 bílastæði, það nær ekki sérlega langt ef við skoðum töluna sem við vorum með áðan, 6.500 nemendur. Vel á minnst þá er háskólinn líka þriðji stærst vinnustaður á landinu, svo ofan á þessa 6.500 nemendur sem við gerum ráð fyrir að komi daglega – bætast kannski um 2000 starfsmenn háskólans í hópinn.

Einn annar þáttur sem er mikilvægt að minnast á. Þið munið eftir hópnum sem ég minntist á áðan að væru að mæta í skólann utan Vatnsmýrarsvæðisins. Menntavísindasvið, sem er stór hluti þess hóps, er að flytja á sögu næsta haust, svo þá verða þetta enn fleiri.

Ef háskólinn ætlaði að gera bílastæði fyrir allt þetta fólk yrðum við að breyta öllum flugvellinum í bílastæði. Megin punkturinn er að það er ekki pláss fyrir 8000 bílastæði í Vatnsmýrinni.

Vandamálið er þetta: hér er of mikið af bílum og ekki pláss fyrir fleiri.

Þetta á ekki aðeins við um: að það sé ekki pláss á bílastæðum. Vandamálið snýr ekki síður að umferðinni sem myndast hérna þegar, á hálftíma við upphaf dags og hálftíma í lok dag, allir þessir bílar fá sömu hugmyndina um að koma og fara.

Nú hugsa sum ykkar eflaust: það þurfa ekki öll að koma á bílum, við getum öll valið milli samgöngumáta.

En hvaða vali standa stúdentar raunverulega frammi fyrir núna?

Ef við skoðum samanburðinn einn dag í einu: Miði aðra leið í strætó kostar 630 kr., (enginn stúdentaafsláttur á miða eina ferð, bara á mánaðar- og árskortum). Báðar ferðir kosta þá 1.260 kr.

Ef þetta er borið saman við að fá bíl í láni hjá mömmu og pabba og leggja frítt bílastæði er varið borðleggjandi.

Ef við gefum okkur að öll stæði séu full og þú þurfir að leggja í einu gjaldskyldu svæðin á háskólasvæðinu, U svæðið beint fyrir framan Aðalbygginguna. Þar kosta 220 kr á klukkutímann að leggja. Þú þarft því að leggja þar í 6 klukkustundir til að það sé ódýrara að koma með strætó. 8 tímar eru á 1.760, sem er minna en þrjár stakar ferðir í strætó.

Ef við skoðum samanburð til lengri tíma sjáum við að árskort fyrir nema í strætó er 52.000 kr. og 30 daga kort fyrir nema 5.200 kr. Aftur, ef valið stendur á milli þessarar upphæðar og að fara á bíl mömmu og pabba og leggja frítt er þetta ekki flókið reikningsdæmi.

Auðvitað er það ekki valmöguleiki allra stúdenta að geta fengið bíl foreldra í láni daglega. en niðurstaðan er sú að almenningssamgöngur eru ekki samkeppnishæfur valkostur, eins og er. Það er lítið sem hvetur til annars en að koma á einnkabíl.

Hvað getum við gert?

Reykjavík er lítil og ung. Það hlýtur einhver önnur borg að hafa staðið frammi fyrir svipuðum vanda… Af hverju er verið að finna upp hjólið í Reykjavík árið 2024?

Við stúdentar hugsuðu með okkur, hvernig eru stóru borgirnar að gera þetta? Þá fundum við fyrirbæri sem er samgöngukort niðurgreitt af háskólanum, þetta kallast University pass, sem við þýddum sem umhverfispassa og köllum U-passa.

Stúdentaráð hefur í þónokkur ár lagt áherslu á að slíku fyrirkomulagi verði komið á í Háskóla Ísland og að passinn verði á viðráðanlegu verði fyrir stúdenta. Við höfum velt upp hugmyndum um að fjölbreyttari samgöngumátar falli þarna undir, hopp hjólin góðu, jafnvel hoppbílarnir líka… hvað sem er!

Háskólinn hefur sýnt þessari hugmynd áhuga. Skólinn stendur frammi fyrir sínu eigin vandamáli, sem er að hellings peningur er að fara í að niðurgreiða bílastæðinn 1.700 sem ég minntist á áðan. Bílastæði á dýrasta svæði á landinu er nefnilega ekkert frí, þó að það sé ekki gjaldskylda þar. Það er bara einhver annar að borga fyrir bílastæðin. Í þessu tilfelli háskólinn.

Áðan sagði ég að vandamálið væri að hér væri of mikið að bílum og ekki pláss fyrir fleiri, en kannski er raunverulega vandamálið að háskólinn er ekki tilbúinn að bjóða stúdentum upp á raunverulegt val með því að niðurgreiða fjölbreyttar samgöngur.

Það er þó ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að breytingum fylgir áhætta. Nú þegar sjáum við að færri eru að mæta í skólann, samfélagið hefur ekki almennilega náð sér að sama marki og það var fyrir covid. Þetta er fjölþátta spurning, hvers vegna nemendur eru að mæta minna í skólann. Eru þetta úreltar kennsluaðferðir, aðstaðan á háskólasvæðinu eða erfiðleikar við að komast á milli staða? Eflaust allt í bland.

Við viljum hafa blómlegt háskólasvæði hérna, vísindamiðju, þar sem fólk vill koma og sækja sér þekkingu og reynslu áður en það heldur út í hinn stóra heim.

Við þessu þurfum við að finna lausn í sameiningu. Ég veit ekki hver lausnin er, en ég veit að hún er ekki að byggja 8000 bílastæði til viðbótar.

Að lokum langar mig að minnast á stúdentagarðana og íbúendasamfélagið hérna í Vatnsmýrinni. Stúdentaráð hefur löngum lagt ríka áherslu á að hér verði búið til heildrænt campus svæði þar sem stúdentum yrði gert kleift að sækja grunnþjónustu í sínu nærumhverfi, t.d. lágvöruverslun, heilsugæslu, apótek og jafnvel vínbúð. Þetta hefði heilmikil og jákvæð áhrif á svæðið.

Ég þakka kærlega fyrir mig og vil gefa skipuleggjendum þessa ágæta viðburðar sérstakt hrós. Takk fyrir að efla til þessarar mikilvægu umræðu.

Stúdentaráðsfundur 5. mars 2024

Miðvikudaginn 5. mars 2024 fer Stúdentaráðsfundur fram kl. 17:00 í stofu H-101 í Stakkahlíð.

Samkvæmt 9. gr. laga Stúdentaráðs eru fundir ráðsins opnir öllum stúdentum við Háskóla Íslands. Þá skal auglýsa meðal stúdenta og er áhugasömum velkomið að mæta á fundi ráðsins. Athugið að fundurinn fer fram á íslensku. 

Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Stúdentaráðs, í síma 570-0850 eða í tölvupósti, shi@hi.is, ef spurningar vakna um fundinn eða dagskrá hans. Jafnframt er öllum stúdentum velkomið að hafa samband við skrifstofu Stúdentaráðs vakni spurningar um réttindi þeirra.

Fundardagskrá:

  1. Forseti Stúdentaráðs setur fund 17:00-17:05 
  2. Fundargerð síðasta fundar Stúdentaráðs borin upp til samþykktar (atkvæðagreiðsla) 17:05-17:10  
  3. Tilkynningar og mál á döfinni 17:10-17:20 
  4. Kynning – um bílastæða og samgöngumál frá framkvæmda- og tæknisviði – Kristinn Jóhannesson 17:20-17:40
  5. Tillaga um að Stúdentaráð Háskóla Íslands beiti sér fyrir upptöku „Leiðar B“ í bílastæðamálum (atkvæðagreiðsla) 17:40-17:50
  6.  Lagabreytingar 17:50-18:10
  7. Yfirlýsing SHÍ vegna breytingar á fjárframlagi ríkisins til háskólastigsins (atkvæðagreiðsla) 18:10-18:20 
  8. Tillaga um frískáp (atkvæðagreiðsla) 18:20-18:30
    Hlé 18:30-18:40
  9. Tillaga um að Stúdentaráð falli frá íþyngjandi rekstrarkröfum á Félagsstofnun stúdenta í ljósi rekstrarstöðu Hámu (atkvæðagreiðsla) 18:40-18:50  
  10. Tillaga um áheyrnarfulltrúa allra fylkinga í stjórn Félagsstofnunar stúdenta (atkvæðagreiðsla) 18:50-19:00
  11. Tillaga um aðstöðu nemendafélaga á FVS (atkvæðagreiðsla) 19:00-19:10
  12. Tillaga um aðgang að byggingum HÍ (atkvæðagreiðsla)  19:10-19:20.
  13. Tillaga um endurnýjun á aðbúnaði í Odda (atkvæðagreiðsla) 19:20-19:30
  14. Tillaga um að SHÍ taki undir ályktun um endurtektarpróf á Heilbrigðisvísindasviði (atkvæðagreiðsla)  19:30-19:40
  15. Önnur mál
  16. Fundi slitið 19:40

Opið fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs

Búið er að opna fyrir umsóknir í þriðju úthlutun Stúdentasjóðs 2023-2024. 

 

Umsóknareyðublað er að finna hér og mælum við með að þið kynnið ykkur reglur sjóðsins vel áður en sótt er um.

Hér er hægt að nálgast helstu upplýsingar um sjóðinn, en frekari upplýsingar er að finna í lögum og verklagsreglum hans.

Tekið er við umsóknum til kl. 12:00 þriðjudaginn 20. febrúar 2024. Umsóknum sem berast eftir þann tíma verður sjálfkrafa vísað frá. 

Dæmi um styrki sem veittir eru í þessari úthlutun eru félaga- og höfðatölustyrkir fyrir nemendafélög, ferðastyrkir, ráðstefnustyrkir og viðburðarstyrkir.

ATH. framfærslustyrkir og greiningarstyrkir verða veittir í næstu úthlutun.

Spurningum skal vísað til Dagnýjar Þóru Óskarsdóttur, forseta sjóðsins, á netfangið studentasjodur@hi.is

Léleg námslán eru pólitísk ákvörðun

Árið 2020 voru sett ný lög á Alþingi sem felldu úr gildi gamla Lánasjóð Íslenskra námsmanna (LÍN) og komu á fót nýju kerfi, Menntasjóði námsmanna (MSNM). Ákveðið var að lögin yrðu endurskoðuð eftir haustþing 2023 og sú vinna er nú í fullum gangi. 

Út hefur komið skýrsla unnin af Háskólaráðuneytinu um mat á endurskoðun laga um MSNM. Hér eru talin upp þau atriði sem Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) telur nauðsynlegt að breyta á vorþingi 2024 til þess að stíga raunverulegt skref í átt að bættum kjörum stúdenta. 

Flestir stúdentar þekkja vel þá tilhugsun að vilja forðast námslán ef hægt er, en það á ekki að vera svoleiðis. Markmið námslána er að tryggja jafnt aðgengi að námi. Stjórnvöld geta auðveldlega skapað kerfi þar sem námslán eru ekki glötuð.

LÆKKUM VAXTAÞAKIÐ
Vextir á lánum sem MSNM veitir geta núna hæst orðið 4% af verðtryggðum lánum og 9% af óverðtryggðum lánum. 

VAXTAÞAK Á AÐ VERA STYRKUR
Lengst af fólst styrkur ríkisins til námsmanna í því að veita lán með lágum vöxtum. Þetta var það sem aðskildi námslán frá öðrum lánum og gerði það að verkum að námslán fólu í sér bestu kjörin. 

BREYTT EN EKKI BÆTT
Með lögunum 2020 var 30% niðurfellingu á höfuðstól bætt við en vextirnir hækkuðu gríðarlega í kjölfarið. Þetta fól ekki í sér raunverulega aukningu á styrk til stúdenta á Íslandi. Raunar kemur fram í skýrslunni sem háskólaráðuneytið gaf út árið 2023 að í mörgum tilvikum veita nýju lögin lakari kjör heldur en gamla kerfið. 

ÓREGLULEGT VAXTAUMHVERFI
Á Íslandi er verulega sveiflukennt vaxtaumhverfi, sem hefur í för með sér að þau sem taka námslán hafa aðeins litla hugmynd um þá vexti sem þau koma til með að greiða af lánunum. Vextirnir éta upp niðurfellinguna, svo styrkur ríkisins dregst verulega saman. Þessa óvissu verður að takmarka. 

GETUM VIÐ EKKI ÖLL VERIÐ SAMMÁLA?
Í skýrslunni um endurskoðun laga MSNM hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið bent á að þörf sé á að minnka vaxtaáhættu námsmanna að námi loknu. Þá hefur framkvæmdastjóri MSNM velt því upp hvort ástæða geti verið til að lækka vaxtaþakið í erindi til háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins, enda draga háir vextir námslána úr hvata til þess að sækja stuðning til ríkisins til þess að stunda nám og hafi jafnvel beinlínis fælandi áhrif. 

STÚDENTAR VISSU ÞETTA ALLTAF
Þegar verið var að breyta námslánakerfinu var ekki gert ráð fyrir neinu vaxtaþaki til að byrja með. Það var ekki fyrr en að stúdentar bentu á að það væri óásættanlegt í svo óreglulegu vaxtaumhverfi. Þetta er eitt dæmi um það hve mikilvægt er að stjórnvöld hlusti á ábendingar stúdenta, því að við erum hópurinn sem notar námslánakerfið.

STÚDENTAR EIGA EKKI AÐ GREIÐA VAXTAÁLAG
Stúdentar hafa frá upphafi mótmælt harðlega vaxtaálagi námslána. Íslenska ríkinu tókst að standa undir afföllum námslána í u.þ.b. 70 ár þar til ný lög um MSNM tóku við. Það er pólitísk ákvörðun stjórnvalda að varpa því yfir á stúdenta. Vaxtaálagið eykur áhættu stúdenta, líkt og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur bent á. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að ríkið láti stúdenta bera kostnaðinn af vanskilum annarra lántaka.

VEITUM 40% NIÐURFELLINGU EFTIR HVERJA ÖNN
Núna getur þú fengið 30% niðurfellingu á höfuðstól námsláns ef þú útskrifast á réttum tíma. Stúdentaráð leggur til að námsstyrkur hækki úr 30% í 40% að norskri fyrirmynd. Í Noregi er námsstyrkur veittur í formi 25% niðurfellingu á höfuðstól láns í lok hverrar annar. Styrkurinn fæst þó einungis fyrir þær einingar sem eru loknar og það skapar því hvata til þess að ljúka námi. Til viðbótar er veitt 15% niðurfelling við námslok í Noregi. 

ÓVISSA
Í núverandi kerfi getur stúdent ekki vitað fyrir víst hvort hann fái 30% niðurfellingu fyrr en að námi loknu. Slík óvissa er bæði fráhrindandi, streituvaldandi og fælandi frá háskólanámi. Uppfylli lántaki ekki skilyrði um námsframvindu til þess að hljóta niðurfellingu af höfuðstól eru endurgreiðslukjör í flestum tilfellum jafn slæm og afíbúðalánum. 

NÝJA KERFIÐ MISHEPPNAÐ
Vegna óvissu um vexti og mögulega niðurfellingu getur hljómað skynsamlegra fyrir stúdenta að vinna meðfram skóla, þrátt fyrir að það geti haft slæm áhrif á námsárangur, námshraða og geðheilsu, svo eitthvað sé nefnt. 

GAGNSÆI
Ef hluti niðurfellingarinnar myndi berast mánaðarlega gætu stúdentar séð námsstyrkinn jafnóðum. Þá væri líka minni áhætta ef eitthvað kæmi upp á sem yrði til þess að þú þyrftir að seinka náminu.

JAFNRÉTTI
Fjölskyldufólk, nemendur með námsörðugleika eða annað móðurmál en íslensku er líklegra til að þurfa að fresta námi eða taka námshlé af einhverjum ástæðum. Í núverandi kerfi er fólk sem tilheyrir þessum hópum því ólíklegra til að njóta námsstyrkja frá ríkinu. Hvar er jafnréttið í því? 

HÆRRI STYRKUR
Með 40% niðurfellingu væri ríkið að veita hærri styrk til stúdenta. Háskólanám verður þannig betri valkostur fyrir stúdenta, fjölbreytari hópur hefur aðgang að menntun sem hefur einungis jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og íslenskan efnahag. 

LÁNUM FYRIR HVERRI EININGU
Á Íslandi þurfa stúdentar að vera skráðir í 22 einingar a.m.k. til að fá námslán. Ef þú stendst ekki námsmat í öllum 22 einingunum þarftu að endurgreiða allt lánið samstundis.

Í Noregi eru hvorki tímamörk né kröfur um lágmarksfjölda eininga hverja önn til þess að hljóta 25% niðurfellingu á höfuðstól láns. Niðurfellingin fæst einungis fyrir loknar einingar, en lántakendur hljóta engu að síður lán fyrir öllum einingum sem teknar eru, óháð námsárangri. 

FJÖLBREYTTIR NÁMSMENN
Mismunandi nám hentar mismunandi fólki. Stúdentar eru ólíkir og búa við ólíkar aðstæður. Mikilvægt er að námslánakerfið styðji við alla stúdenta án mismununar. Núgildandi fyrirkomulag útilokar þau sem hafa ekki tækifæri til að taka meira en 22 einingar.

VERRI NÁMSLÁN FYRIR VERRI NÁMSMENN
Ef stúdent fellur í einum 10 eininga áfanga á hann ekki lengur rétt á námslánum og gæti þurft að endurgreiða allt lánið þá önnina. Við viljum að það yrði lánað fyrir hverri einingu, svo stúdentar gætu fengið lán fyrir þeim einingunum sem þau taka, sama hvort þau falli eða standist námsmat. 

HÖFUM VIÐ EFNI Á ÞVÍ AÐ GERA ÞETTA EKKI BETUR?
Námslánakerfi sem nær ekki markmiðum sínum um jöfn tækifæri til náms og að liðka fyrir námsframvindu hefur í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð og samfélagið. Tengslin á milli himinhárrar atvinnuþátttöku íslenskra stúdenta og lágrar framvindu við háskólanám gefa auga leið. Af þessu skapast hár rekstrarkostnaður sem bætist við þann fjárhagslega og ófjárhagslega kostnað sem hlýst af ójöfnum tækifærum til náms og lágu menntunarstigi. Við höfum ekki efni á því að vera lengur með eitt lægsta menntunarstig sem þekkist í OECD-löndunum.

 

Hér hefur aðeins verið talinn upp hluti af ábendingum stúdentaráðs, en ráðið sendi frá sér skýra stefnu í tengslum við endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, sem hægt er að nálgast hér.  

Hámu í Eirbergi verður haldið opinni út vorönn 2024

Aðdragandi málsins:

Fyrr í vetur varð ljóst að loka yrði sölustöðum Hámu í Eirbergi, Háskólabíói og Odda. Stúdentaráð sendi í kjölfarið erindi til Háskóla Íslands þar sem þessar breytingar voru harmaðar, í ljósi þess að við þær var útséð að ákveðinn hópur stúdenta myndi missa mikilvæga þjónustu í byggingum þar sem kennsla fer fram.

Í erindinu stendur einnig: FS er óhagnaðardrifin sjálfseignarstofnun, sett á fót af stúdentum fyrir stúdenta og háskólasamfélagið allt. FS hefur það að markmiði að þjónusta stúdenta eins vel og unnt er, á eins lágu verði og mögulegt er. FS starfrækir m.a. 9 veitingasölustaði Hámu á víð og dreif í byggingum háskólans. Þar býðst nemendum og starfsfólki háskólans hollur matur á viðráðanlegu verði. Þar að auki fá stúdentar sérstakan afslátt af mat og kaffi í Hámu.

Hluti af sölustöðum Hámu hefur aldrei staðið undir rekstri, en þjónustu á fámennari stöðum hefur verið haldið uppi af öðrum einingum til þess að þjónusta sé stúdentum aðgengileg í sem flestum byggingum háskólans.

Í Covid faraldrinum ákvað FS að halda úti þjónustu fyrir stúdenta sem sóttu staðartíma á háskólasvæðinu þrátt fyrir taprekstur. Eftir Covid er ekki eins mikið af fólki í byggingunum háskólans og var fyrir faraldurinn. Þetta sést m.a. á sölutölum Hámu. Af tveimur slæmum kostum ákvað FS að loka þessum þremur stöðum, í stað þess að hækka vöruverð. 

Í erindinu hvatti SHÍ háksólann til að styrkja rekstur Hámu og taka þannig virkan þátt í myndun blómlegs háskólasvæðis.

Hámu í Eirbergi verður haldið opinni út vorönn 2024:

Nú hefur háskólinn orðið við beiðni Stúdentaráðs og veitt FS styrk fyrir mars, apríl og hálfan maí, svo hægt sé að halda rekstri Hámu í Eirbergi yfir þann tíma. Eirberg er staðsett lengst frá næstu þjónustu og því er afar ánægjulegt að háskólinn hafi séð sér fært að veita styrk til að halda þeiri Hámu opinni. Það er því greinilegt að hagsmunabarátta stúdenta ber árangur.